Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 850  —  481. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, voru flutt út á land árið 2001, sundurliðað eftir ráðuneytinu, stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Engin fjarvinnsluverkefni eða störf á vegum menntamálaráðuneytisins voru flutt út á land á árinu 2001. Hins vegar hefur menntamálaráðuneytið stuðlað að fjarkennslu víða um land og í því sambandi hafa verið settar á stofn símenntunarmiðstöðvar víða á landsbyggðinni. Segja má að með þessu fyrirkomulagi hafi starfsemi menntastofnana færst í vaxandi mæli út á landsbyggðina. Þannig er Símenntunarmiðstöð Vesturlands í Borgarnesi, Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði, Farskóli Norðurlands vestra – miðstöð símenntunar á Sauðárkróki, Fræðslunet Austurlands á Neskaupstað, Fræðslunet Suðurlands á Selfossi, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í Reykjanesbæ, Fræðslumiðstöð Þingeyinga á Húsavík, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og Menntasmiðjan á Akureyri. Þá er stunduð fjarkennsla og fjarnám á vegum háskóla og framhaldsskóla um allt land.
    Í tilefni af fyrirspurninni var óskað eftir upplýsingum frá undirstofnunum ráðuneytisins vegna ársins 2001 og byggist eftirfarandi á þeim upplýsingum sem borist hafa.
    Þjóðminjasafn Íslands fékk tímabundið 15 millj. kr. framlag 2001 til kaupa á skráningu gagnasafna sinna í upplýsingakerfið Sarp í fjarvinnslu. Gerður var samningur við Landvist á Húsavík fyrir 10 millj. kr., en Landvist hafði unnið sams konar verkefni fyrir safnið árið 2000. Voru tveir starfsmenn Landvistar, og á tímabili þrír, í vinnu við innslátt upplýsinga fyrir safnið. Skrár frá myndadeild, munadeild, Nesstofusafni og þjóðháttadeild voru skráðar í Sarp. Þá var gerður samningur við Forsvar á Hvammstanga um sams konar verkefni fyrir 4 millj. kr., en ekki hefur áður verið samið við það fyrirtæki. Þar voru tveir starfsmenn hluta úr ári við innslátt á skrám myndadeildar í Sarp.
    Á vegum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns hefur verið stofnað til svokallaðs varaeintakasafns íslenskra rita í Reykholti í Borgarfirði. Ekki er um eiginlegt fjarvinnsluverkefni að ræða, en þrír starfsmenn í samtals tveimur stöðugildum, allir úr héraðinu, unnu frá því í júní og út árið 2001 að því að skrá ritin og koma þeim fyrir í gamla skólahúsinu í Reykholti. Um tímabundið verkefni er að ræða sem taka mun tvö til þrjú ár.
    Tveir minjaverðir hófu störf á árinu 2001, þ.e. annar fyrir Norðurland vestra sem hefur aðsetur í Glaumbæ í Skagafirði og hinn fyrir Norðurland eystra, með aðsetur á Akureyri. Minjaverðirnir starfa samkvæmt þjóðminjalögum, nr. 107/2001.