Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 852  —  487. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um sjóflutninga fyrir bandaríska varnarliðið á Íslandi.

     1.      Hversu mörg kaupskip annast þau 65% sjóflutninga fyrir Bandaríkjaher sem féllu í hlut Íslendinga eftir síðasta útboð? Undir hvaða fána sigla þessi skip og hverrar þjóðar eru áhafnirnar?
    Samkvæmt upplýsingum Bandaríkjamanna annast skipið Radeplein 65% flutninganna sem féllu í hlut íslenskra skipafélaga í síðasta útboði. Skipið er skráð í Hollandi. Yfirmenn eru frá Hollandi en áhöfn að mestu frá Filippseyjum.

     2.      Hversu mörg skip annast þau 35% sjóflutninganna sem féllu í hlut Bandaríkjamanna? Undir hvaða fána sigla þessi skip og hverrar þjóðar eru áhafnirnar?
    Samkvæmt upplýsingum Bandaríkjamanna annast bandaríska skipið Geysir 35% sjóflutninganna sem féllu í hlut Bandaríkjamanna í seinasta útboði. Skipið siglir undir bandarískum fána. Skipstjórinn er bandarískur og áhöfnin að mestu bandarísk.

     3.      Fellur það fyrirtæki sem nú annast íslenska hluta sjóflutninganna fyrir Bandaríkjaher undir ákvæði l-liðar 1. gr. laga um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, nr. 82/2000, þ.e. telst það til íslenskrar útgerðar?

    Lög um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, nr. 82/2000, voru meðal annars sett til að koma í veg fyrir að fyrirtæki undir stjórn og forræði erlendra aðila önnuðust viðskipti við varnarlið Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli sem íslenskum fyrirtækjum eru áskilin í samningum milli ríkjanna. Þess vegna eru ákvæði þess efnis að þegar íslensk stjórnvöld tilnefni fyrirtæki til samninga við varnarliðið, eins og samningar og venja kveða á um, séu þau bundin af því að tilnefna fyrirtæki sem teljast íslensk fyrirtæki. Lögin skilgreina hugtakið íslensk fyrirtæki til að tryggja að fyrirtæki sem tilnefnd eru hafi fullnægjandi tengsl við Ísland og íslenskt efnahagslíf, hafi höfuðstöðvar sínar á Íslandi og lúti stjórn manna búsettra á Íslandi.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 82/2000 er heimild íslenskra aðila til samningsgerðar við Bandaríkjaher bundin því skilyrði að þeir hljóti tilnefningu utanríkisráðuneytisins sem samningsaðilar, í samræmi við ákvæði gildandi milliríkjasamninga. Skv. 2. mgr. sömu greinar eru samningar sem gerðir eru án tilnefningar skv. 1. mgr. ógildir. Sama gildir ef forsendur tilnefningar bresta á samningstíma eða ef tilnefnd fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum 3. mgr. 8. gr. Utanríkisráðherra úrskurðar um gildi samninga að þessu leyti skv. 3. mgr. 4. gr.
    Samningur Atlantsskipa ehf. við Bandaríkjaher, sem gerður var án undanfarandi tilnefningar af hálfu íslenskra stjórnvalda, er frá september 1998. Lög nr. 82/2000 öðluðust gildi 23. maí 2000 en gildistöku þeirra ákvæða sem máli skipta í þessu sambandi var frestað til 1. maí 2001. Í samræmi við meginreglur laga og ítrekuð ummæli utanríkisráðherra við meðferð frumvarpsins á Alþingi er ákvæði 4. gr. laganna ekki afturvirkt og tekur því ekki til samninga sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna. Utanríkisráðuneytið hefur því hvorki lagaheimildir né gögn til þess að leggja sérstakt mat á hvort Atlantsskip ehf. uppfyllir skilyrði laga nr. 82/2000 fyrir því að teljast íslenskt fyrirtæki. Slíkt mat getur einungis átt sér stað við formlega forvalsmeðferð vegna tilnefningar fyrirtækis til samninga við varnarliðið og í framhaldi af henni. Hins vegar ber þess að geta að utanríkisráðuneytið hefur oft lýst þeirri afstöðu, á grundvelli þeirra gagna sem lágu fyrir við samningsgerð Bandaríkjahers við Atlantsskip ehf. árið 1998, að Atlantsskip ehf. hafi þá ekki getað talist íslenskt skipafélag í skilningi sjóflutningasamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1986.
    Af hálfu íslenskra og bandarískra stjórnvalda hefur verið samstaða um að unnið verði að því að leysa úr þeim álitamálum sem upp hafa komið um framkvæmd sjóflutningasamningsins, áður en flutningasamningurinn verður boðinn út að nýju.