Ferill 316. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 869  —  316. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ernu Hjaltested frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Lögmannafélagi Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Samtökum verslunarinnar, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og ríkisskattstjóra.
    Í frumvarpinu er lagt til að það gjald sem ríkisskattstjóri tekur fyrir útgáfu bindandi álita verði hækkað úr 10.000 kr. í 50.000 kr. og að ákvæði um hámarksgjald að upphæð 40.000 kr. verði afnumið.
    Nefndin bendir á að reynslan sýnir að nánast eingöngu lögaðilar óska eftir slíkum álitum og þau mál þar sem óskað er bindandi álita eru bæði flókin og sérhæfð og taka mikinn tíma í vinnslu. Eðlilegt er að þeir sem óska eftir bindandi álitum standi undir einhverjum hluta kostnaðar við vinnslu þeirra.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. febr. 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.



Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson.



Gunnar Birgisson.


Helga Guðrún Jónasdóttir.