Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 884  —  564. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu,
nr. 97/1990, með síðari breytingum.
1. gr.

    6.–9. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Í stað orðanna „héraðsins (umdæmisins)“ í 4. mgr. 12. gr. laganna kemur: svæðisins.

3. gr.

    14. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Kveðið skal á um skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi í reglugerð. Þar skal einnig kveðið á um fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.

5. gr.

    Í stað orðanna „svo sem rakið er í 14. gr.“ í 16. gr. laganna kemur: sbr. 15. gr.

6. gr.

    3. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    3. mgr. 24. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Orðin „og viðkomandi héraðslæknis“ í síðari málslið 2. mgr. 27. gr. laganna falla brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Landspítali – háskólasjúkrahús skal vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, en stjórn spítalans að öðru leyti falin sjö manna stjórnarnefnd. Nefndin skal skipuð þannig að starfsmannaráð spítalans, sbr. 3. mgr. 32. gr., tilnefnir tvo menn, Alþingi fjóra og ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn. Forstjóri spítalans skal skipaður af ráðherra til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnarnefndar. Ráðherra ræður meðlimi framkvæmdastjórnar Landspítala – háskólasjúkrahúss samkvæmt stjórnskipulagi spítalans. Forstjóri stjórnar fjármálum og daglegum rekstri spítalans í umboði stjórnarnefndar og ráðuneytis.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðsins „ríkisspítalanna“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: Landspítala – háskólasjúkrahúss.
     d.      Í stað orðsins „ríkisspítala“ í 3. málsl. 6. mgr. og 4. málsl. 7. mgr. kemur: Landspítala – háskólasjúkrahúss.
     e.      Orðin „heilbrigðismálaráðum til samþykktar og“ í 3. málsl. 7. mgr. falla brott.
     f.      Í stað 1. málsl. 8. mgr. koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo:
                  Forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss skv. 1. mgr. og framkvæmdastjórar sjúkrahúsa skv. 3. mgr. ráða annað starfslið sjúkrahúsa ríkisins. Heimilt er að ráða þá yfirmenn á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem jafnframt hafa á hendi starf kennara við Háskóla Íslands tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára.

10. gr.

    Orðið „héraðslækna“ í 1. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Orðin „14. og“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Orðin „heilbrigðismálaráð héraðanna og“ í 2. málsl. falla brott.

12. gr.

    Í stað orðanna „menntamálaráðuneyti og viðkomandi heilbrigðismálaráð“ í 5. mgr. 34. gr. laganna kemur: og menntamálaráðuneyti.

13. gr.

    41. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI
Breytingar á ljósmæðralögum,
nr. 67/1984, með síðari breytingum.
14. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Breytingar á lyfjalögum,
nr. 93/1994, með síðari breytingum.
15. gr.

    Í stað orðsins „héraðslæknis“ í fyrri málslið 2. mgr. 28. gr. laganna kemur: yfirlæknis heilsugæslu.

IV. KAFLI
Breytingar á sóttvarnalögum,
nr. 19/1997, með síðari breytingum.
16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „héraðslækna“ í 3. mgr. kemur: yfirlækna heilsugæslu.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða yfirlæknar heilsugæslu skulu vera ábyrgir fyrir sóttvörnum undir stjórn sóttvarnalæknis.
     c.      Í stað orðsins „Héraðslæknar“ í 5. mgr. kemur: Yfirlæknar heilsugæslu, sbr. 4. mgr.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Orðin „viðkomandi héraðslækni eða“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „viðkomandi héraðslækni og sóttvarnalækni“ í 3. mgr. kemur: sóttvarnalækni og yfirlækni heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr.

18. gr.

    Í stað orðsins „héraðslæknis“ í 10. gr. laganna kemur: yfirlæknis heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „héraðslækni“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: yfirlækni heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr.
     b.      Í stað orðsins „Héraðslæknir“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Yfirlæknir heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr.

20. gr.

    Síðari málsliður 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Sóttvarnalæknir getur beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef hann telur að hvers konar töf sé hættuleg, en gera skal hann ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „héraðslækni“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: yfirlækni heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr.
     b.      Í stað orðsins „Héraðslæknir“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: Yfirlæknir heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr.
     c.      Í stað orðsins „héraðslæknis“ í 3. mgr. kemur: yfirlæknis heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr.

22. gr.

    Á eftir orðunum „náttúruhamfarir“ í síðari málslið 18. gr. laganna kemur: og aðra vá.

V. KAFLI
Breytingar á lögum um dánarvottorð, krufningar o.fl.,
nr. 61/1998.
23. gr.

    4. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Við óvænt dauðsföll eða ef ekki tekst að ná til læknis sem stundaði hinn látna í banalegunni skal tilkynna andlátið til yfirlæknis heilsugæslu sem ber þá ábyrgð á að líkið verði skoðað.

VI. KAFLI
Breytingar á lögum um málefni aldraðra,
nr. 125/1999, með síðari breytingum.
24. gr.

    Orðin „í læknishéruðum landsins“ í 4. tölul. 2. gr. laganna falla brott.

25. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Yfirlæknir heilsugæslu tilnefnir lækni með sérmenntun á sviði öldrunar- eða heimilislækninga og hjúkrunarforstjóri heilsugæslu tilnefnir hjúkrunarfræðing með þekkingu á öldrunarþjónustu.

26. gr.

    Orðin „og viðkomandi héraðslæknis“ í síðari málslið 5. mgr. 16. gr. laganna falla brott.

VII. KAFLI
Breytingar á lögum um skipströnd og vogrek,
nr. 42/1926, með síðari breytingum.
27. gr.

    1. og 2. málsl. 14. gr. laganna orðast svo: Lögreglustjóri skal sjá um að matvæli þau eða drykkjarföng, sem skemmst hafa við strand og ef til vill eru skaðvæn heilsu manna, verði rannsökuð af eftirlitsaðilum samkvæmt lögum um matvæli. Skulu þeir segja til um það hvort nota megi vörurnar og hvernig, án þess að tjón hljótist af, og skal þá selja þær með því skilorði er eftirlitsaðilar setja.

VIII. KAFLI
Breytingar á lögum um almannavarnir,
nr. 94/1962, með síðari breytingum.
28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „borgarlæknir“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: yfirlæknir heilsugæslunnar í Reykjavík.
     b.      Orðin „héraðs- eða“ í 3. málsl. 2. mgr. falla brott.

IX. KAFLI
Breytingar á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu,
nr. 36/1993, með síðari breytingum.
29. gr.

    Orðin „og héraðslæknis“ í fyrri málslið 3. mgr. 16. gr. laganna falla brott.

30. gr.

    Orðið „héraðslækni“ í síðari málslið 2. mgr. 27. gr. laganna fellur brott.

31. gr.

    Í stað orðsins „héraðslæknis“ í 4. málsl. 46. gr. laganna kemur: yfirlæknis heilsugæslu í umdæminu.

32. gr.

    Í stað orðsins „héraðslæknir“ í 1. tölul. og fyrri og síðari málslið 2. tölul. 2. mgr. 47. gr. laganna kemur: yfirlæknir heilsugæslu í umdæminu.

X. KAFLI
Breytingar á lögum um laun starfsmanna ríkisins,
nr. 92/1955, með síðari breytingum.
33. gr.

    Orðið „Héraðslæknar“ í 26. gr. laganna fellur brott.

XI. KAFLI
Breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,
nr. 70/1996, með síðari breytingum.
34. gr.

    11. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna fellur brott.

XII. KAFLI
Breytingar á lögum um málefni fatlaðra,
nr. 59/1992, með síðari breytingum.
35. gr.

    3. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Jafnframt skal landlæknir tilnefna einn fulltrúa úr hópi yfirlækna heilsugæslu á svæðinu.

36. gr.

    Í stað orðsins „héraðslækna“ í 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: heilsugæslu.

XIII. KAFLI
Breytingar á lögum um framhaldsskóla,
nr. 80/1996, með síðari breytingum.
37. gr.

    Fyrri málsliður 2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Yfirlæknir heilsugæslu í umdæminu hefur umsjón með þessari starfsemi undir yfirstjórn heilbrigðisstjórnar og lítur eftir að aðbúnaður og aðstaða nemenda og starfsmanna sé viðhlítandi.

XIV. KAFLI
Gildistaka.
38. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að embætti héraðslækna verði fellt niður, en meginákvæðin um skipun og verkefni þeirra eru í II. kafla laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Auk þess er kveðið á um verkefni héraðslækna í 13 öðrum lögum og eru lagðar til breytingar á 12 þeirra í frumvarpi þessu. Fyrirhugað er að tillögur til breytinga á 14. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sem kveður á um hlutverk héraðslæknis í heilbrigðisnefndum, fylgi frumvarpi umhverfisráðherra um breytingu á þeim lögum.
    Mörg lagaákvæði um verkefni héraðslækna og tengd málefni, t.d. héraðshjúkrunarfræðinga, heilbrigðismálaráð og læknishéraðasjóð, eru þegar orðin úrelt. Þau verkefni, sem enn eru í höndum héraðslækna, eru til dæmis sóttvarnir undir stjórn sóttvarnalæknis, seta í svæðisráði fatlaðra og almannavarnanefnd og umsjón með heilsuvernd í framhaldsskólum. Lagt er til að þau færist að mestu leyti yfir til yfirlækna heilsugæslunnar. Með yfirlæknum heilsugæslu er átt við yfirlækna heilsugæslustöðva, yfirlækni (lækningaforstjóra) heilsugæslunnar í Reykjavík og yfirlækna heilsugæslu í heilbrigðisstofnunum. Til einföldunar eru þeir nefndir einu nafni yfirlæknar heilsugæslu.
    Af niðurfellingu á embætti héraðslækna leiðir að skipting landsins í læknishéruð verður óþörf og því er lagt til að hún verði felld niður. Er lagt til að landinu verði eingöngu skipt í heilsugæsluumdæmi og að það verði gert með reglugerð. Þá er lagt til að læknishéraðasjóður verði lagður niður og það fé, sem merkt er sjóðnum, renni til uppbyggingar heilsugæslu í landinu eins og verið hefur.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á orðalagi nokkurra ákvæða í lögum um heilbrigðisþjónustu vegna sameiningar Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Landspítala – háskólasjúkrahús.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er lagt til að 6.–9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, falli brott en þar er kveðið á um skiptingu landsins í læknishéruð, um skipun héraðslæknis og héraðshjúkrunarfræðings og um skipan og hlutverk heilbrigðismálaráða. Ekki er lengur þörf á að skipta landinu í læknishéruð þegar embætti héraðslækna verða afnumin. Heimild til að skipa héraðshjúkrunarfræðinga hefur nær ekkert verið notuð og enginn héraðshjúkrunarfræðingur er nú starfandi. Þá hafa heilbrigðismálaráð skv. 7. gr. laganna mjög lítið starfað á undanförnum árum og þykir því rétt að leggja þau niður.

Um 2. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 12. gr. laganna til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins.

Um 3.–5. gr.

    Lagt er til að 14. gr. laga um heilbrigðisþjónustu verði felld brott en í núgildandi ákvæði er, fyrir utan upptalningu á læknishéruðum, ítarleg upptalning á skiptingu læknishéraða í heilsugæsluumdæmi, hvaða heilsugæslustöðvar skuli starfa þar og hvert sé þeirra starfssvæði. Í 15. gr. laganna er síðan heimild til þess að breyta þessu með reglugerð. Er lagt til að eingöngu verði kveðið á um þetta í reglugerð.
    Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar á 15. og 16. gr. laganna til samræmis við framangreinda tillögu.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að ákvæði um stjórn heilsugæslustöðva í Reykjavíkurhéraði í 3. mgr. 21. gr. verði fellt niður, en slíkt sérákvæði er nú óþarft.

Um 7.–12. gr.

    Í 7. og 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu um samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og stjórn Ríkisspítala vegna sameiningar Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Landspítala – háskólasjúkrahús (LSH), sbr. reglugerð nr. 127/2000 um sameiningu heilbrigðisstofnana.
    Enn fremur er lagt til að við 8. mgr. 30. gr. laganna, þar sem kveðið er á um ráðningu annars starfsfólks sjúkrahúsa ríkisins en forstjóra LSH og framkvæmdastjóra sjúkrahúsa, bætist við heimild til að ráða yfirmenn á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, sem jafnframt hafa á hendi starf kennara við Háskóla Íslands, tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Er þetta lagt til í samræmi við ósk frá LSH sem hefur bent á að æskilegt geti verið að hafa heimild til að ráða yfirmenn á stofnuninni tímabundinni ráðningu í tilvikum þar sem um er að ræða stöður einstaklinga sem hafa starfsskyldur yfirmanna á spítalanum en hafa jafnframt á hendi starf kennara við Háskóla Íslands. Í slíkum tilvikum getur verið um náin starfstengsl að ræða og mismunandi form ráðningar, þar sem ráðið er tímabundið í kennarastarfið en ótímabundið í yfirmannsstarfið, getur valdið vandkvæðum.
    Breytingar sem lagðar eru til í öðrum greinum þarfnast ekki skýringar.


Um 13. gr.

    Lagt er til að 41. gr. laga um heilbrigðisþjónustu um læknishéraðasjóð verði fellt brott. Þar er tilvísun til laga um læknishéraðasjóði, nr. 82/1970, en þau voru felld úr gildi með lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 56/1973, sem fallin eru úr gildi. Engin önnur lagaákvæði eru því í gildi um sjóðinn. Ekki hafa verið veitt lán eða styrkir úr sjóðnum um árabil. Það fé, sem sjóðurinn hefur fengið á fjárlögum, hefur verið notað til uppbyggingar heilsugæslu í landinu og er lagt til að svo verði áfram.

Um 14. gr.

    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 3. gr. ljósmæðralaga, nr. 67/1984, falli brott. Þar er kveðið á um skyldu ljósmóður, sem stundar fæðingarhjálp í heimahúsum á eigin vegum, til að tilkynna um það til héraðslæknis.

Um 15. gr.

    Lagt er til að yfirlæknir heilsugæslu í viðkomandi heilsugæsluumdæmi taki við hlutverki héraðslæknis skv. 28. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994. Hann mun, ásamt lyfsala, gera tillögu að lista yfir staðlaðar lyfjapakkningar sem lyfjatæknir má afgreiða frá lyfjaútibúi, sem staðfestur er af Lyfjastofnun.

Um 16.–22. gr.

    Í 16.–22. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum. Lagt er til að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða yfirlæknar heilsugæslunnar verði ábyrgir fyrir sóttvörnum undir stjórn héraðslæknis. Nauðsynlegt er að sóttvarnalæknir hafi tiltekna tengiliði um landið sem eru ábyrgir hver á sínu svæði.
    Enn fremur er í 17. gr. frumvarpsins lögð til breyting á 1. mgr. 9. gr. laganna þannig að læknir, sem kemst að því í starfi sínu að einstaklingur hafi smitast af tilkynningarskyldum smitsjúkdómi, geti einungis tilkynnt um slíkt til sóttvarnalæknis. Er þetta í samræmi við það sem tíðkast í framkvæmd. Auk þess er hér um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða sem best þykir að hafa á fárra vitorði. Þá er í 20. gr. frumvarpsins lögð til sú breyting á 12. gr. laganna að heimild til að beita sóttvarnaráðstöfunum til bráðabirgða sé einungis hjá sóttvarnalækni.
    Í 22. gr. frumvarpsins er síðan lagt til að heimild til að grípa til sérstakra ráðstafana nái einnig til annarrar vár en ekki einungis til náttúruhamfara eins og nú er. Er þetta lagt til í ljósi hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 og þeirra atburða er fylgdu í kjölfarið.
    Aðrar greinar þarfnast ekki skýringar.

Um 23. gr.


    Lagt er til að við óvænt dauðsföll, eða ef ekki tekst að ná til læknis sem stundaði hinn látna í banalegunni, skuli tilkynna andlát til yfirlæknis heilsugæslu í umdæminu. Með orðinu „umdæminu“ er átt við viðkomandi heilsugæsluumdæmi samkvæmt reglugerð þar um, sbr. breytingu þá sem lögð er til á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, í 4. gr. frumvarpsins. Með orðinu „heilsugæsla“ er sem annars staðar í frumvarpi þessu átt við heilsugæslustöðvar, heilsugæsluna í Reykjavík og heilsugæslusvið heilbrigðisstofnana. Reiknað er með að yfirlæknar (í Reykjavík lækningaforstjóri) heilsugæslunnar geti falið öðrum heilsugæslulæknum að sinna því eins og tíðkast hefur í sumum heilsugæsluumdæmum.

Um 24.–26. gr.

    Lögð er til sú breyting á 7. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, að í stað héraðslæknis tilnefni yfirlæknir og hjúkrunarforstjóri heilsugæslu í umdæminu fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra. Aðrar breytingar þarfnast ekki skýringar.

Um 27. gr.

    Hér er lögð til breyting á 14. gr. laga um skipströnd og vogrek, nr. 42/1926, en þar er kveðið á um að héraðslæknir rannsaki matvæli og drykkjarföng sem skemmst hafa við strand. Eðlilegra þykir að eftirlitsaðilar samkvæmt lögum um matvæli rannsaki þetta, en það eru Hollustuvernd ríkisins, yfirdýralæknir eða Fiskistofa, sbr. 22. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995.

Um 28. gr.

    Hér er lagt til að yfirlæknir heilsugæslunnar í Reykjavík eigi sæti í almannavarnanefnd borgarinnar. Í öðrum bæjum og kaupstöðum verði það heilsugæslulæknir eins og verið hefur.

Um 29.–32. gr.


    Lagt er til að yfirlæknir (lækningaforstjóri) heilsugæslu í umdæminu taki við flestum verkefnum héraðslæknis samkvæmt lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, með síðari breytingum. Með orðinu „umdæminu“ er átt við viðkomandi heilsugæsluumdæmi samkvæmt reglugerð þar um, sbr. breytingu þá sem lögð er til á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, í 4. gr. frumvarpsins.

Um 33. og 34. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um 35. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 6. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum, þess efnis að landlæknir tilnefnir fulltrúa úr hópi yfirlækna heilsugæsla á svæðinu til setu í svæðisráði í stað héraðslæknis.

Um 36. gr.

    Lögð er til sú breyting á 12. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum, að svæðisskrifstofa í málefnum fatlaðra hafi samstarf og samráð við heilsugæsluna í stað héraðslæknis.

Um 37. gr.

    Lagt er til að heilsuvernd í framhaldsskólum, sbr. 13. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum, sé í umsjón yfirlæknis viðkomandi heilsugæslu. Sé fleiri en ein heilsugæslustöð í því umdæmi sem skólinn tilheyrir er eðlilegt að höfð sé hliðsjón af staðsetningu skólans miðað við staðsetningu heilsugæslustöðvarinnar. Í Reykjavík er eðlilegt að heilsugæslan í Reykjavík skipti þessu verkefni niður á heilsugæslustöðvar.

Um 38. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að embætti héraðslækna verði lögð niður en meginákvæði um skipun og verkefni þeirra eru í II. kafla laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Auk þess er kveðið á um verkefni héraðslækna í fjölmörgum öðrum lögum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði breytt með einni undantekningu. Það eru ákvæði um héraðslækna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, en flutt verður um það sérstakt frumvarp af hálfu umhverfisráðherra. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skipting landsins í læknishéruð verði felld niður og að verkefni héraðslækna verði færð undir yfirlækna og lækningaforstjóra heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra verði ákveðin með reglugerð. Þá er lagt til að læknishéraðasjóður verði lagður niður og það fé, sem merkt er sjóðnum, renni til uppbyggingar heilsugæslu í landinu eins og verið hefur.
    Í fjárlögum ársins 2002 er framlag til héraðslæknisins í Reykjavík lækkað um 9,5 m.kr. til að ná aðhaldsmarkmiðum og verður það 13,7 m.kr. Framlag til héraðslæknisins á Norðurlandi eystra lækkar um 5,5 m.kr. af sama tilefni og verður 8 m.kr. Samanlögð framlög embættanna tveggja á árinu 2002 eru því 21,7 m.kr. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti gerir ráð fyrir að á árinu 2002 flytjist 13,7 m.kr. framlag og verkefni héraðslæknisins í Reykjavík til heilsugæslunnar í Reykjavík auk 3,2 m.kr. sem flytjist frá héraðslæknisembættinu á Norðurlandi eystra. Á árinu 2003 gerir ráðuneytið ráð fyrir að 4,8 m.kr. flytjist frá héraðslæknisembættinu á Norðurlandi eystra til heilsugæslunnar á Akureyri. Að öllu framansögðu lækka útgjöld ríkisins um 15 m.kr. og aukið hagræði verður í rekstri heilsugæslunnar verði frumvarpið að lögum. Í fjárlögum árið 2002 hefur verið gert ráð fyrir framangreindri lækkun.