Ferill 576. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 903  —  576. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 6. gr. A laganna orðast svo: Landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að tollur á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B skuli vera 0, 10, 20, 30, 40, 50, 60, 70, 80 eða 90 hundraðshlutar af þeim verð- og/eða magntolli sem lagður er á viðkomandi vörulið eins og hann er tilgreindur í tollskrá eða 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA með lögum þessum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 6. gr. A í tollalögum er veitir landbúnaðarráðherra aukið svigrúm við ákvörðun um tollvernd grænmetis sem tilgreint er í viðaukum IVA og B við tollalög.
    Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er byggð á tillögum starfshóps um framleiðslu- og markaðsmál gróðurhúsaafurða og garðávaxta sem skipaður var af landbúnaðarráðherra á fyrri hluta ársins 2001 og skilaði lokatillögum til ráðherra í janúar 2002. Í áfangatillögu starfshópsins til landbúnaðarráðherra frá 30. apríl 2001 var lagt til að tollar á afurðir í 7. kafla tollskrár, sem ekki eru framleiddar hér á landi, yrðu felldir niður. Með reglugerð nr. 439/2001 kom þessi tillaga til framkvæmda með niðurfellingu á 30% verðtolli sem lagður var á þessar afurðir auk nokkurra magntolla. Lokatillaga starfshópsins gerir ráð fyrir að 30% verðtollur verði felldur niður af öllum grænmetistegundum 7. kafla tollskrár með setningu nýrrar reglugerðar þess efnis. Þá er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra geti áfram stjórnað álagningu magntolls með setningu reglugerða. Núverandi lagarammi er með þeim hætti að verð- og/eða magntollur getur verið hæstur eins og hann er tilgreindur í tollskrá en ráðherra er heimilt að hreyfa við tollinum í 25% þrepum, þ.e. unnt er að lækka hann eða hækka þannig að hann nemi 0, 25, 50 eða 75% af þeim verð- og/eða magntolli sem tilgreindur er í tollskrá. Samkvæmt þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpi þessu getur tollurinn verið hæstur eins og hann er tilgreindur í tollskrá en heimilt er að lækka hann eða hækka í minni þrepum en áður þannig að hann nemi 0, 10, 20, 30, 40, 50, 60, 70, 80 eða 90% af verð- og/eða magntolli sem tilgreindur er í tollskrá, eftir því hvað hentar hverju sinni til að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu.
    Verði frumvarp þetta að lögum gilda sömu lagareglur og áður um þau sjónarmið sem landbúnaðarráðherra skal hafa til hliðsjónar við beitingu ákvæðisins. Við ákvörðun sína verður ráðherra áfram bundinn af 3. málsl. 3. mgr. 6. gr. A þar sem segir: „Ákvörðun landbúnaðarráðherra um lækkun tolls í samræmi við framangreinda hundraðshluta verð- og/eða magntolls skal ráðast af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar á innanlandsmarkaði. Hundraðshlutar tolls hverrar vöru skulu vera hærri eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu er meira en lækka að sama marki eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu minnkar. Landbúnaðarráðherra skal við ákvörðun um hundraðshluta tolls leitast við að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti.“ Tollur skal m.ö.o. ekki mynda umframvernd fyrir framleiðendur sem kann að leiða til tímabundinna hækkana á verði innan lands sé um ónógt framboð á viðkomandi vöru að ræða eins og getur orðið í byrjun eða í lok framleiðslutímabils. Skal landbúnaðarráðherra tryggja að tollur verði ákveðinn á þann hátt að hann skapi sanngjarnt verðlagsaðhald og möguleika á samkeppni. Á þetta einkum við um framleiðsluvörur þar sem fákeppni ríkir í framleiðslu og markaðssetningu.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum,
nr. 55/1987, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að veita landbúnaðarráðherra heimild til þess að breyta tollum á grænmeti í minni þrepum en nú er.
    Fer það eftir ákvörðun ráðherra hverju sinni hver áhrif breytingin hefur á tekjur ríkissjóðs.