Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 904  —  577. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um miðstöð atferlis- og eldisrannsókna á þorski á Vestfjörðum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Einar Oddur Kristjánsson,


Vilhjálmur Egilsson, Helga Guðrún Jónasdóttir, Guðjón Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar miðstöð atferlis- og eldisrannsókna á þorski á Vestfjörðum er hafi það hlutverk að standa fyrir og efla rannsóknir á þessu sviði í samvinnu við háskóla- og rannsóknastofnanir. Verði starfsemi rannsóknastofnana á svæðinu efld í því skyni.

Greinargerð.


    Athyglisverðar tilraunir hafa staðið yfir á áframeldi þorsks hér við land á undanförnum árum. Ljóst er að þær geta falið í sér margvíslega möguleika á næstu árum. Til þess að svo geti orðið þarf á hinn bóginn að fara fram mikil þróunar- og rannsóknarvinna, að frumkvæði atvinnulífsins en með öflugum stuðningi hins opinbera. Er mikilvægt að vel verði að málum staðið og þess gætt að rasa ekki um ráð fram. Forsenda þess er að skipulega verði unnið að þróunar- og vísindastarfi og að sú vinna sé samhæfð sem mest og best til þess að hún skili sem mestum, bestum og skjótustum árangri. Er með tillögu þessari lagt til að þessi samhæfing verði fyrir tilstuðlan sérstakrar miðstöðvar atferlis- og eldisrannsókna á Vestfjörðum.

Möguleikar á fiskeldi.
    Þessi hugmynd var sett fram opinberlega af Kristjáni G. Jóakimssyni, vinnslu- og markaðsstjóra Hraðfrystihússins Gunnvarar, á ráðstefnu um þorskeldi sem fór fram á Ísafirði 27. febrúar sl.
    Margvísleg rök hníga að því að þessi miðstöð verði sett niður á Vestfjörðum.
    Í nýrri tillögu að byggðaáætlun er einmitt vikið að því að möguleikar séu á Vestfjörðum á uppbyggingu fiskeldis og eru það orð að sönnu. Þegar hafa menn hafist þar handa hvað varðar lax- og bleikjueldi. Og langmestur hluti þess eldisþorsks sem komið hefur til slátrunar hér á landi er alinn í kvíum á Vestfjörðum, sbr. fylgiskjal. Fyrir því eru þess vegna augljós rök að vel sé að þessum vaxtarbroddi hlúð.

Staðarkostir.
    Fram kom á fyrrgreindri ráðstefnu um þorskeldi á Vestfjörðum að afar þýðingarmikið væri að þorskeldisstöðvar lægju nærri gjöfulum fiskimiðum. Gilti það um áframeldi þorsksins en einnig ef menn reyndu að afla þorskseiða, þar sem flutningur á fiski og seiðum frá veiðislóð að kvíum væri dýr. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þessar aðstæður eru allar fyrir hendi á Vestfjörðum og eiga örugglega sinn þátt í því frumkvæði sem Vestfirðingar hafa sannarlega sýnt í þessum efnum. Þess vegna er skynsamlegt að byggja á þeirri dýrmætu þekkingu sem orðið hefur til á þessum slóðum og koma upp miðstöð atferlis- og eldisrannsókna á þorski á Vestfjörðum.
    Það gerir þorskeldi líka fýsilegra á Vestfjörðum, og raunar víðar, að fiskurinn vex við kaldara hitastig en til dæmis laxinn. Af þessum ástæðum er hægt að koma við þorskeldi á svæðum þar sem erfiðara er að stunda laxeldi.

Samstarf fyrirtækja og stofnana.
    Þann veg hefur verið staðið að þorskeldi á Vestfjörðum að fyrirtæki og einstaklingar hafa haft að því frumkvæði og leitað aðstoðar vísindamanna og annarra sérfræðinga á þessu sviði. Á undanförnum árum hefur þess verið freistað að byggja upp á Vestfjörðum öflugra þróunarstarf. Má í því sambandi nefna að starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í Þróunarsetrinu á Ísafirði hefur verið efld og enn fremur hefur Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík mjög vaxið fiskur um hrygg. Hafa starfsmenn þessara stofnana mjög komið að starfinu við þorskeldið og notið atbeina Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.
    Þetta starf þarf að þróa áfram og virkja það mikla frumkvæði sem fyrirtæki og einstaklingar hafa sýnt. Hlutur þeirra í þessu starfi verður því að vera stór.

Áhersla á rannsóknir og umhverfisþætti.
    Ljóst er að forsenda framfara í þorskeldi er aukin áhersla á rannsóknir. Í því sambandi þarf að hyggja að sjúkdómavörnum, þótt talið sé að sjúkdómahætta við þorskeldi sé ekki yfirvofandi. Engu að síður þarf að efla viðbúnað takist okkur að auka umsvif þorskeldisins. Enn fremur er mjög brýnt að ná tökum á kynbótum í eldisþorski, líkt og menn hafa gert í öðru fiskeldi. Er það talin einhver mikilvægasta forsenda þess að okkur auðnist að draga úr kostnaði við framleiðslu á eldisþorski og gera hana arðbæra. Hefur verið áætlað að með skipulegum kynbótum megi jafnvel lækka framleiðslukostnað um 1–3% á ári, sem er verulegur árangur.
    Eitt af því sem menn hafa gert frá byrjun við þorskeldi á Vestfjörðum er að hyggja vel að umhverfisþáttum málsins. Þetta er mikilvægt, eins og vel kom fram í máli forstöðumanns Náttúrustofu Vestfjarða, dr. Þorleifs Eiríkssonar, á þorskeldisráðstefnunni á Ísafirði. Þar lagði hann meðal annars áherslu á eftirtalin atriði:
          Til að fiskeldi (þorskeldi) fái að þróast sem mikilvæg atvinnugrein verður að taka á umhverfismálum jafnhliða.
          Í þróun fiskeldis á Vestfjörðum hafa stofnanir og einkaaðilar sameinað krafta sína við uppbyggingu greinarinnar.
          Umhverfismál hafa verið á dagskrá frá byrjun og er það viðurkennt að best sé að leysa þau fyrst.

Miðstöð þorskeldisrannsókna.
    Í ræðu Kristjáns G. Jóakimssonar, sem fyrr er vitnað til, víkur hann að því að heildarmagn slátraðs eldisþorsks sé enn sem komið er ekki mikið. Og síðan bætir hann við:
    „En ég get auðveldlega séð fyrir mér að á næstu þrjú til fimm árin geti þetta magn tvö- til þrefaldast á ári. Sem þýðir að innan fárra ára gæti heildarmagn slátraðs eldisþorsks á Vestfjörðum numið þúsundum tonna.
    Til þess að það gangi eftir þurfa einstaklingar og fyrirtæki að hafa ákveðið áræði og fjárhagslegt úthald. Þá þarf einnig stóraukna og markvissa uppbyggingu í rannsóknum og opinberri þjónustu. Það er ekki síður mikilvægt fyrir rannsóknarvinnuna að hún sé unnin í sem mestri nálægð við atvinnustarfsemina sjálfa sem og að uppbygging eldisins sé í nálægð við rannsóknaumhverfið.
     Mín framtíðarsýn er því einnig sú að samfara uppbyggingu þorskeldis hér á Vestfjörðum verði jafnframt tekin sú pólitíska ákvörðun að á Vestfjörðum verði miðstöð atferlis- og eldisrannsókna á þorski. Það rannsóknaumhverfi verði byggt upp með því að efla starfsemi Hafró og Rf á svæðinu og með því að efla frekari tengingar við háskólana í landinu.
    Ef við lítum á aðrar eldistegundir þá hefur rannsókna- og kynbótastöð fyrir lax verið komið fyrir í Kollafirði. Þróunarstöð fyrir bleikju í Skagafirði og miðstöð lúðueldis í Eyjafirði. Markvissar rannsóknir eru nú stundaðar á heitsjávartegundunum sandhverfu og sæeyrum í Grindavík sem og þorskseiðarannsóknir eins og fram hefur komið. Þá eru hafnar rannsóknir á hlýraeldi í Neskaupstað sem er vel. Í þessu samhengi færi vel á að miðstöð þorskeldis yrði á Vestfjörðum, enda búið að marka slíkar tillögur með ákveðnum hætti í tillögum að nýrri byggðaáætlun fyrir Vestfirði, en þar eru möguleikar Vestfjarða metnir góðir innan fiskeldis.
    Eins og fram hefur komið hér á undan hefur ákveðið frumkvæði verið tekið í tilraunum á áframeldi þorski hér á Vestfjörðum af einstaklingum og fyrirtækjum ásamt útibússtjórum Hafró og Rf í góðum tengslum við háskóla fyrir norðan og sunnan ásamt þátttöku þjónustufyrirtækja í fjórðungnum. Áratuga löng reynsla er fyrir eldi á laxi og silungi á svæðinu, sérstaklega á Tálknafirði en einnig víðar á suðursvæði Vestfjarða og Ísafjarðardjúpi. Auk þessa hefur Náttúrustofa Vestfjarða hafið ákveðið starf og er þátttakandi í norrænu verkefni er snýr m.a. að umhverfismálum og fiskeldi.
    Hefðbundinn sjávarútvegur á svæðinu sem býr yfir mikilli fagþekkingu á veiðum og vinnslu er einnig kjörinn jarðvegur til að fóstra uppbyggingu þorskeldis. Hér eru því að mínu mati kjörin sóknarfæri í atvinnulífi okkar Vestfirðinga. Hér er líka kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld að ná fram lögbundnum markmiðum í byggðamálum með almennum aðgerðum sem felast í uppbyggingu rannsókna- og þróunarstarfsemi hér á Vestfjörðum, starfsemi sem jafnframt getur þjónað landinu öllu, en starfað hér við kjöraðstæður í þessari grein.“

Góð tækifæri.
    Allt hnígur þetta að hinu sama. Möguleikarnir eru vissulega góðir. Afar óráðlegt er þó að líta svo á að þorskeldi sé í hendi. Mjög margt er ógert áður en svo verður. Skipuleg rannsóknarstarfsemi, öflugt frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja og markviss opinber stuðningur þarf að fara saman svo að vel takist til. Í því skyni er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.
Fylgiskjal.



Yfirlit yfir eldisstaði og magn.

Staður 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 Samtals, tonn
Skutulsfjörður 3,0 7,6 11,1 0,5 9,0 7,6 38,8
Patreksfjörður 11,5 11,5
Tálknafjörður (2 stöðvar) 20,0 2,2 23,3 45,5
Dýrafjörður 2,5 2,4 3,5 8,4
Drangsnes 0,7 3,1 3,8
Álftafjörður við Súðavík 1,1 31,0 32,1
Súgandafjörður 0,2 slapp 0,2
Stöðvarfjörður (3 stöðvar) 0,7 6,0 12,1 18,8
Norðfjörður 1,7 11,6 10,0 23,3
Seyðisfjörður 9,0 9,0
Berufjörður slapp 0,0
Eskifjörður slapp 0,0
Eyjafjörður (2 stöðvar) lítið 4,0 4,0
Siglufjörður 4,0 4,0
Samtals, tonn 0,7 45,4 34,8 36,9 0,5 0,0 0,0 11,2 69,9 199,4