Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 910  —  581. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Breyting á lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.
1. gr.

    Í stað orðsins „ríkisbókara“ í 5. gr. laganna kemur: fjársýslustjóra.

2. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Allir aðilar A-hluta skulu gera ársreikning og eignaskrá innan tveggja mánaða frá lokum reikningsárs og senda til Fjársýslu ríkisins, viðkomandi ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar. Fjársýslu ríkisins er heimilt að lengja skilafrest um allt að 30 daga.
    Ríkisaðilar utan A-hluta skulu eigi síðar en 31. mars ár hvert hafa sent Fjársýslu ríkisins og viðkomandi ráðuneyti ársreikninga sína. Fjársýsla ríkisins getur framlengt skilafrestinn um allt að 30 daga.
    Einnig skulu þeir sem ekki eru ríkisaðilar og um getur í 3. málsl. 1. tölul. 3. gr. senda ársreikninga sína til Fjársýslu ríkisins, viðkomandi ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar innan þess frests sem um getur í 1. mgr.
    Hverju ráðuneyti ber að sjá til þess að stofnanir, sem undir það heyra samkvæmt stjórnarráðslögum og reglugerð, uppfylli ákvæði laga um skilafrest ársreikninga.

3. gr.

    Í stað orðsins „ríkisbókari“ í 47. gr. laganna kemur: fjársýslustjóri.

4. gr.

    48. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Fjársýsla ríkisins.

    Fjársýsla ríkisins er sérstök stofnun sem heyrir undir fjármálaráðherra. Fjársýslustjóri veitir Fjársýslu ríkisins forstöðu og er skipaður af fjármálaráðherra til fimm ára í senn.
    Fjársýsla ríkisins hefur yfirumsjón með bókhaldi og ársreikningum ríkisaðila í A-, B- og C-hluta ríkisreiknings. Hún skal gæta þess að samræmi sé við færslu bókhalds og gerð reikningsskila hjá þeim.
    Fjársýsla ríkisins skal veita ríkisaðilum aðstoð og ráðgjöf um bókhald og reikningsskil og setja ríkisaðilum í A-, B- og C-hluta ríkisreiknings framkvæmdar- og verklagsreglur ásamt leiðbeiningum sem þýðingu geta haft við færslu bókhalds og gerð ársreikninga.
    Fjársýsla ríkisins annast féhirslu ríkisins og greiðsluþjónustu fyrir ríkissjóð og þær ríkisstofnanir sem þess óska, svo og móttöku innheimtufjár frá innheimtustofnunum ríkisins.
    Fjársýsla ríkisins skal annast gerð ríkisreiknings.

5. gr.

    Í stað orðsins „ríkisbókhalds“ í 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: Fjársýslu ríkisins.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982.
6. gr.

     Í stað orðsins „ríkisbókhaldið“ í 9. gr. kemur: Fjársýslu ríkisins.

III. KAFLI
Breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.
7. gr.

    Í stað orðsins „Ríkisbókhaldið“ í 4. gr. laganna kemur: Fjársýsla ríkisins.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna,
nr. 21/1992, með síðari breytingum.

8. gr.

    4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Bókhaldi skal haga samkvæmt fyrirmælum Fjársýslu ríkisins.

V. KAFLI
Breyting á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum.
9. gr.

    Í stað orðsins „Ríkisbókhaldi“ í 53. gr. kemur: Fjársýslu ríkisins.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu,
nr. 36/1993, með síðari breytingum.

10. gr.

    Í stað orðsins „Ríkisbókhaldið“ í 4. mgr. 39. gr. laganna kemur: Fjársýsla ríkisins.

11. gr.

    Í stað orðsins „Ríkisbókhaldið“ í 2. mgr. 40. gr. laganna kemur: Fjársýsla ríkisins.

VII. KAFLI
Gildistaka.
12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 96/1969, um Stjórnarráð Íslands, fer fjármálaráðuneytið meðal annars með mál sem varða ríkisféhirslu og ríkisbókhald. Ráðuneytið hefur ákveðið breytta tilhögun ríkisféhirslu frá 1. mars 2002 og verða ríkisbókhaldi falin þau verkefni sem ríkisfjárhirslan hefur haft með höndum. Þetta er gert í framhaldi af úttekt ráðuneytisins á starfsemi ríkisfjárhirslunnar og ríkisbókhalds á síðasta ári. Niðurstaða hennar var m.a. að ná mætti auknu hagræði með sameiningu verkefna stofnana. Hagræðingin kemur m.a. fram í einfaldari ferli skjala, bættu greiðslufyrirkomulagi og auðveldara uppgjöri bókhalds. Nýtt fjárhags- og mannauðskerfi sem tekið verður í notkun hjá ríkissjóði, ráðuneytum og ríkisstofnunum á næsta ári ýtir enn frekar undir þessa hagræðingu.
    Þessi tilfærsla verkefna ein og sér gerir ekki kröfu til lagabreytinga. Í áðurnefndri auglýsingu um Stjórnarráðið er einungis kveðið á um verkefni ríkisféhirslu, en um hana gilda ekki sérstök lög. Hins vegar hafa verkefni og hlutverk ríkisbókhalds tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum. Þannig var afgreiðsla launa flutt frá fjármálaráðuneytinu til ríkisbókhalds árið 1998 og með þessari ákvörðun tekur stofnunin yfir verkefni ríkisfjárhirslu. Í lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, er kveðið á um stöðu og hlutverk ríkisbókhalds og þykir í ljósi nefndra breytinga rétt að skýra betur hlutverk þess. Jafnframt þykir núgildandi nafn stofnunarinnar hafa of þrönga skírskotun miðað við breytt hlutverk. Er því lagt til heitið Fjársýsla ríkisins og að forstöðumaður hennar gegni heitinu fjársýslustjóri.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum fjárreiðulaga um hlutverk Fjársýslu ríkisins með vísan til þess sem að framan greinir og nauðsynlegar breytingar aðrar sem leiðir af nafnbreytingunni. Í I. kafla þessa lagafrumvarps eru ákvæði sem snúa að breytingum á einstökum greinum laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Í II.–VI. kafla eru lagðar til óhjákvæmilegar breytingar á öðrum lögum sem leiðir af nafnbreytingunni. Loks eru gildistökuákvæði í VII. kafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 5. gr. núgildandi laga um fjárreiður ríkisins er mælt fyrir um að ríkisreikningi skuli fylgja áritun fjármálaráðherra og ríkisbókara. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að vísað verði til fjársýslustjóra sem gegnir hlutverki forstöðumanns Fjársýslu ríkisins í stað ríkisbókara.

Um 2. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 20. gr. núgildandi laga um fjárreiður ríkisins að öðru leyti en því að í stað tilvísana til ríkisbókhalds er vísað til Fjársýslu ríkisins.

Um 3. gr.

    Í 47. gr. núgildandi laga um fjárreiður ríkisins er fjallað um skipun ríkisreikningsnefndar. Ríkisbókari á sæti í nefndinni. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að vísað verði til fjársýslustjóra í stað ríkisbókara.

Um 4. gr.

    1.–3. mgr. og 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins er efnislega samhljóða 48. gr. núgildandi laga um fjárreiður ríkisins að öðru leyti en því að í stað tilvísana til ríkisbókhalds í núgildandi lögum er vísað til Fjársýslu ríkisins. Lagt er til að nýrri málsgrein, 4. mgr., verði bætt inn í greinina þar sem kveðið yrði á um að Fjársýsla ríkisins annist féhirslu ríkisins og greiðsluþjónustu fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir sem þess óska, svo og móttöku innheimtufjár frá innheimtustofnunum ríkisins.

Um 5. gr.

    Í 49. gr. núgildandi laga um fjárreiður ríkisins er mælt fyrir um að forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila beri ábyrgð á að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir. Einnig segir að þeir beri ábyrgð á því að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins og að staðið sé við skilaskyldu á þeim til ríkisbókhalds. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að vísað verði til Fjársýslu ríkisins í stað ríkisbókhalds.

Um 6. gr.

    Í 9. gr. núgildandi laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands segir að heimilt sé að semja við ríkisbókhaldið um að það taki að sér bókhald Sinfóníuhljómsveitarinnar. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að vísað verði til Fjársýslu ríkisins í stað ríkisbókhalds.

Um 7. gr.

    Í núgildandi lögum um sóknargjöld o.fl. segir að Þjóðkirkjusöfnuðir, skráð trúfélög og Háskólasjóður skuli eiga ákveðna hlutdeild í álögðum tekjuskatti. Í 4. gr. laganna er mælt fyrir um að ríkisbókhaldið annist skiptingu þessa gjalds. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að vísað verði til Fjársýslu ríkisins í stað ríkisbókhalds.

Um 8. gr.

    Í 4. mgr. 5. gr. núgildandi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að bókhaldi sjóðsins skuli hagað samkvæmt fyrirmælum ríkisbókhalds. Lögð er til sú breyting að vísað verði til Fjársýslu ríkisins í stað ríkisbókhalds.

Um 9. gr.

    Í 53. gr. núgildandi laga um málefni fatlaðra segir að sjálfseignarstofnanir og stofnanir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka, sem reknar eru samkvæmt lögunum og njóta framlaga úr ríkissjóði, skuli skila félagsmálaráðuneyti, viðkomandi svæðisráði, ríkisbókhaldi og Ríkisendurskoðun ársreikningi undirrituðum af löggiltum endurskoðanda ásamt skýrslu um starfsemi liðins árs. Lögð er til sú breyting á núgildandi lagagrein að vísað verði til Fjársýslu ríkisins í stað ríkisbókhalds.

Um 10.–11. gr.

    Í 4. mgr. 39. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu segir að hver kirkjugarður eigi rétt á gjaldi af óskiptum tekjuskatti fyrir hvern þann sem er 16 ára og eldri eftir ákveðnum reglum. Í greininni segir að ríkisbókhaldið annist skiptingu gjaldsins.
    Í 2. mgr. 40. gr. sömu laga segir að ríkisbókhaldið og innheimtuaðilar aðstöðugjalda skuli standa stjórn Kirkjugarðasjóðs skil á ákveðnu hluta kirkjugarðsgjalda.
    Lögð er til sú breyting að í báðum þessum lagagreinunum verði vísað til Fjársýslu ríkisins í stað ríkisbókhalds.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, o.fl.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins og fleiri lögum í tengslum við áform um að ríkisbókhaldi verði falin þau verkefni sem ríkisfjárhirslan hefur haft með höndum og að heiti stofnunarinnar verði breytt í Fjársýslu ríkisins. Markmiðið með sameiningunni er að ná fram hagræðingu og samhæfa betur vinnuferli skyldra verkefna. Eftir þessa breytingu er gert ráð fyrir að störfum fækki um eitt þar sem ekki verður þá endurráðið í starf ríkisféhirðis. Reiknað er með sparnaði í útgjöldum málaflokksins við þessa breytingu.