Ferill 583. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 912  —  583. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)

1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „75.000“ í 2. mgr. 139. gr. laganna kemur: 300.000.

2. gr.

    A-tollur tollskrárnúmersins 9401.2002 í viðauka I við lögin verður 0%.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. gr. Tekur til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á tollalögum og tollskrá. Annars vegar er um að ræða hækkun sektarheimilda tollstjóra og hins vegar niðurfellingu á tolli á barnabílstólum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Núverandi ákvæði 2. mgr. 139. gr. tollalaga heimilar tollstjóra að ljúka máli með sektarboði ef brot er skýlaust sannað og það varðar ekki hærri sekt en kr. 75.000. Lagt er til að heimilað verði sektarboð tollstjóra allt að 300.000 kr. til þess að samræmi ríki annars vegar milli sektarheimilda tollstjóra samkvæmt tollalögum og hins vegar lögreglustjóra skv. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með síðari breytingum, og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Með áðurgreindri breytingu næst samræmi milli þessara tveggja lagabálka þar sem í reglugerð nr. 569/1998, sbr. reglugerð um breytingu á henni, nr. 980/2000, var heimild lögreglustjóra til að ljúka málum með lögreglustjórasátt rýmkuð þannig að lögreglustjóra er heimilt að ljúka máli með lögreglustjórasátt telji hann fjárhæð sektar ekki fara fram úr 300.000 kr.

Um 2. gr.

    Í greininnni er lagt til að almennur tollur (A-tollur) af barnabílstólum, sem eru viðurkenndir og E-merktir samkvæmt ECE-reglum nr. 44.03, sem eru reglur Evrópusambandsins, eða viðurkenndir samkvæmt viðeigandi FMVSS- eða CMVSS-stöðlum, sem eru bandarískir og kanadískir staðlar, verði lækkaður úr 10% í 0%. Um er að ræða vörur sem eru mjög tengdar öryggisbeltum en barnabílstólar eru ýmist búnir öryggisbeltum eða eru notaðir með öryggisbeltum í bifreiðum. Öryggisbelti bera hins vegar ekki A-toll. Kveðið er á um það í umferðarlögum, nr. 50/1987, að börn skuli nota slíka stóla auk þess sem um nauðsynlegan öryggisbúnað er að ræða þegar börn eru farþegar í bifreiðum.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum,
nr. 55/1987, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að tollstjórum verði heimilt að ljúka málum með sektarboði sem nemi allt að 300.000 kr. í stað 75.000 kr. áður. Í öðru lagi er lagt til að 10% tollur af barnabílstólum sem viðurkenndir eru samkvæmt tilteknum stöðlum verði felldur niður. Hvorug þessara breytinga er talin hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs og aðeins óveruleg áhrif á tekjur.