Ferill 593. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 926  —  593. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    2. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Í stað orðanna „Landgræðsla Íslands“ í b-lið 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: Landgræðslan.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á III. kafla laganna:
     1.      Í stað 15.–30. gr. koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því:
                  a.      (15. gr.)
                       Sveitarstjórnum er skylt að fylgjast með ástandi gróðurs og jarðvegs á afréttum og heimalöndum og skulu þær hafa um það samráð við Landgræðsluna.
                  b.      (16. gr.)
                       Þar sem talin er þörf bættrar meðferðar afréttar og verndar á gróðri að mati Landgræðslunnar er stjórnum fjallskiladeilda heimilt að grípa til eftirtalinna aðgerða til að tryggja sjálfbæra landnýtingu:
                      a.      að ákveða að fjallgöngur á hausti skulu færðar fram, eða smalað sé af tilteknum hlutum afréttar fyrir göngur,
                      b.      að ákveða hvenær fyrst megi reka hverja búfjártegund á afrétt,
                      c.      að láta girða sérstök svæði á afréttum eða í heimalöndum fyrir hrossabeit,
                      d.      að banna að stóðhross séu rekin á afrétt, enda séu þau þá undanskilin fjallskilum,
                      e.      að eiga frumkvæði að félagslegum aðgerðum til hagabóta í samráði við Landgræðsluna.
                  c.      (17. gr.)
                       Sá telst bóndi sem hefur lögbýli til ábúðar.
                       Réttur hvers lögbýlis til upprekstrar búfjár á afrétt, í úrbótaáætlun Landgræðslunnar, skal ákveðinn af viðkomandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum þegar fleiri en eitt sveitarfélag eiga upprekstur á sama afrétt.
     2.      Fyrirsögn kaflans verður: Verndun beitilanda.

4. gr.

    Orðin „og afrétta“ í 36. gr. laganna falla brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Gildandi lög um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. eru að stofni til frá 1969. Nokkrar breytingar voru gerðar á lögunum árið 1976 og aftur 1986. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar til samræmis við frumvarp til laga um landgræðslu sem lagt er fram samhliða. Lagt til að III. kafli um verndun beitlands og um ítölu verði styttur og öll umfjöllun um ítölu verði felld úr lögunum. Það hefur reynst mun erfiðara að koma á ítölu í beitilöndum en ætlað var með setningu laganna og nær ógerlegt hefur verið að framkvæma þær ítölur sem settar hafa verið hafi þær verið íþyngjandi fyrir búfjáreigendur. Frá því lögin voru sett árið 1969 hefur verið sett ítala í um tug afréttarsvæða og hafa þær ýmissa hluta vegna ekki leitt til umbóta í gróðurvernd þeirra beitilanda, það hefur gerst eftir öðrum leiðum.
    Landgræðsla ríkisins fer með gróðureftirlit samkvæmt núgildandi lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, sem nú hafa verið endurskoðuð á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Þar er gert ráð fyrir að gróðureftirlit verði áfram falið Landgræðslu ríkisins og sérstakur ferill úrbótaáætlana komi í stað ítölunnar. Sé landnýting tiltekins landsvæðis ekki talin vera sjálfbær gefst umráðahafa landsins færi á að leggja fram áætlun um úrbætur. Gangi það ekki eftir mun Landgræðsla ríkisins leggja fram slíka áætlun og lögregluyfirvöld framfylgja henni ef þörf krefur. Ekki er gert ráð fyrir að þessum aðferðum þurfi að beita oft en brýnt er að lögformlegur ferill sé til þegar á þarf að halda. Í frumvarpi um landgræðslu er ábyrgð umráðahafa lands gerð mun skýrari en er í kaflanum um ítölu og í betra samræmi við það sem tíðkast víða erlendis við sambærilegar aðstæður.
    Í lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, eru einnig ákvæði um ítölu sem að hluta til hafa stangast á við III. kafla laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., sem enn frekar kallar á endurskoðun og fyrirmæli um hvernig leysa skuli vandamál sem upp kunna að koma vegna ofnýtingar lands.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ekki þykir samrýmast gróðurverndunarsjónarmiðum að skylda menn til að reka á afrétt.


Um 2. gr.

    Landgræðsla ríkisins hefur ekki heitið Landgræðsla Íslands. Hér er því lagt er til að heiti stofnunarinnar verði breytt í samræmi við frumvarp til laga um landgræðslu sem lagt er fram samhliða og nafninu verði breytt í „Landgræðslan“.


Um 3. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum III. kafla laganna sem fjalla um ítölu og ákvörðun hennar. Í stað 15.–30. gr. koma þrjár greinar þar sem tvær eru að mestu efnislega samhljóða núgildandi greinum. Breytingin felst í því að verið er að fella niður öll ákvæði sem fjalla um ítölu. Eðlilegt þykir að fella ekki niður ákvæði sem fjalla um sjálfbæra nýtingu afrétta. Samkvæmt nýrri 17. gr. ákveður fjallskiladeild hlutfallstölu búfjár til upprekstrar á afrétt fyrir hvert lögbýli. Til viðmiðunar skal litið til núgildandi 4. mgr. 24. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., en þar segir: „Réttur hvers lögbýlis, sem sérmetið var við fasteignamat árið 1932, skal að 1/ 3 vera jafn, en að 2/ 3 skal hann vera í hlutfalli við beitarþol heimalands jarðarinnar. Hafi það ekki verið metið, má leggja til grundvallar landverð jarðarinnar eftir fasteignamati að frádregnum hlunnindum og að frádregnu verðmæti þess hluta af fullræktuðu landi, sem ætla má að nota verði til heyöflunar. Taka má tillit til sérstakra búskaparhátta á jörðinni.“ Hér er því lagt til að sama regla gildi um hlutfallstölu búfjár og gilti um ítölu áður.
    Þá er lagt til að ákvæði núgildandi laga þess efnis að bóndi teljist sá sem hefur lögbýli til ábúðar sé látið standa. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingum á stjórn afréttamálefna í héraði.

Um 4. gr.

    Óþarfi þykir að hafa skyldu til að kveða á um vorsmölun afrétta í fjallskilasamþykkt.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/1986,
um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.

    Tilgangur með frumvarpinu er að samhæfa skilgreiningar og reglur gildandi laga við ákvæði frumvarps til laga um landgræðslu sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.