Ferill 594. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 936  —  594. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)

1. gr.

    2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Falli iðgjaldagreiðslur til B-deildar sjóðsins niður af öðrum ástæðum en segir í 1. mgr., t.d. vegna þess að viðkomandi sjóðfélagi hættir í starfi eða skiptir um starf, hefur sjóðfélagi áfram rétt til aðildar að B-deildinni, svo fremi hann hefji aftur starf sem veitir honum rétt til aðildar að deildinni eigi síðar en tólf mánuðum frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður. Ef iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falla hins vegar niður lengur en tólf mánuði, eða réttindaávinnsla án iðgjaldagreiðslu fellur niður í jafnlangan tíma, á viðkomandi einstaklingur ekki framar rétt á aðild að B-deild sjóðsins.

2. gr.

    6. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Taki sjóðfélagi ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af og miðað er við til greiðslu lífeyris og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

3. gr.

    Við 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna bætist: sbr. þó 6. mgr. 23. gr.

4. gr.

    Við 1. mgr. 27. gr. laganna bætist: eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið.


5. gr.

    1. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
    Börn eða kjörbörn sem sjóðfélagi lætur eftir sig er hann andast og yngri eru en 18 ára skulu fá lífeyri úr sjóðnum eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið þar til þau eru fullra 18 ára að aldri. Sama gildir um börn eða kjörbörn sem sá maður lætur eftir sig er naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum er hann andaðist.

6. gr.

    Við 35. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kjósi sjóðfélagi að lífeyrir taki breytingum sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er hann gegndi skv. 1. mgr. og laun fyrir það starf eru ekki tæk til viðmiðunar á iðgjaldagreiðslum til deildarinnar, sbr. 6. mgr. 23. gr. laganna, skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem greiðslur lífeyris taka mið af og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) hefur óskað eftir að gerðar verði. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að í settum lögum um sjóðinn sé ótvíræð lagaheimild fyrir þeirri framkvæmd stjórnar LSR að ákveða viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris þegar sömu laun eru ekki tæk til viðmiðunar við greiðslu á iðgjöldum til sjóðsins, sbr. 6. mgr. 23. gr. laganna. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem taka á því hvenær barna- og makalífeyrisréttur úr sjóðnum verður virkur og í tengslum við það hvernig meðhöndla beri iðgjaldagreiðslur til sjóðsins sem eru til komnar eftir andlát sjóðfélaga. Jafnframt er lögð til breyting á 2. mgr. 5. gr. laganna en um hana vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að breyta ákvæði þessu til að koma til móts við þarfir kennara en algengt er að þeir taki sér launalaust leyfi sem varir í tólf mánuði. Þegar viðkomandi vill hefja greiðslur til B-deildarinnar að nýju er honum það ekki heimilt eins og ákvæðið er nú en þar segir að ef iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falli niður í tólf mánuði eða lengur, eða réttindaávinnsla án iðgjaldagreiðslu fellur niður í jafnlangan tíma, á viðkomandi ekki framar rétt á aðild að B-deild sjóðsins. Algengt hefur verið að sjóðfélagar hafi lýst yfir óánægju með ákvæði þetta en með þeirri breytingu sem lögð er til í þessu frumvarpi verður sjóðfélögum heimilt að láta iðgjaldagreiðslur falla niður í allt að tólf mánuði án þess að réttur þeirra til aðildar að B-deild sjóðsins falli niður.

Um 2. gr.

    Ákvæði 6. mgr. 23. gr. laganna var ætlað að koma í veg fyrir sjálfdæmi launagreiðanda við ákvörðun á lífeyrisréttindum starfsmanna í LSR. Stjórn LSR hefur, með stoð í ákvæðinu, metið það svo að henni beri skylda til að ákveða viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris þegar sjóðfélagar taka ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Framangreinda framkvæmd stjórnar LSR við beitingu á ákvæði 6. mgr. 23. gr. má rekja til tilgangs löggjafans sem er að fela stjórn sjóðsins ákvörðun á viðmiðunarlaunum til greiðslu iðgjalda til að koma í veg fyrir sjálfdæmi launagreiðanda við ákvörðun á lífeyrisréttindum í sjóðnum. Kemur þetta skýrt fram í athugasemdum við ákvæði d-liðar 13. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 141/1996, en til þess ákvæðis má rekja 6. mgr. 23. gr. laga nr. 1/1997. Þessum tilgangi verður ekki náð nema að ákvæðinu sé beitt jafnt fyrir ákvörðun á viðmiðunarlaunum til greiðslu iðgjalda sem og við ákvörðun á viðmiðunarlaunum til greiðslu lífeyris úr sjóðnum.
    Með 2. og 3. gr. frumvarpsins er verið að skjóta styrkari stoðum undir fyrrgreinda framkvæmd stjórnar LSR við ákvörðun á viðmiðunarlaunum og taka af allan vafa um að hún hafi fullnægjandi lagastoð í 6. mgr. 23. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Sjá umfjöllun um 2. gr.

Um 4. og 5. gr.

    Með greinunum er lögfest sú venjuhelgaða framkvæmd stjórnar LSR að greiða ekki lífeyri úr sjóðnum til eftirlifandi maka eða barna fyrr en launagreiðslur falla niður og iðgjaldagreiðslum til sjóðsins vegna viðkomandi er lokið. Í allflestum kjarasamningum sem fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs eða sveitarfélög eru aðilar að eru ákvæði þar sem kveðið er á um launagreiðslur í tiltekinn tíma eftir lát starfsmanns að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Forsögu slíkra ákvæða má rekja til ákvæðis í eldri lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, þar sem kveðið var á um launagreiðslur til maka látins starfsmanns. Af launum þessum hafa verið greidd iðgjöld í lífeyrissjóðinn. Í slíkum tilvikum hefur LSR ekki greitt út lífeyri fyrr en iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið. Telja ber eðlilegt að greiða ekki lífeyri úr sjóðnum á sama tíma og laun eru greidd vegna viðkomandi sjóðfélaga og iðgjöld greidd af þeim launum til sjóðsins. Á meðan iðgjöld eru greidd í sjóðinn er enn verið að reikna réttindaávinning á sjóðfélagann. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir launagreiðslum eftir andlát sjóðfélaga og má ætla að ekki hafi verið hugað að slíkum greiðslum við lögfestingu ákvæða um barna- og makalífeyri.
    Núverandi framkvæmd styðst við áratugalanga hefð og er í fullu samræmi við þann tilgang með greiðslu barna- og makalífeyris að koma til móts við tekjutap sem aðilar verða fyrir við missi framfæranda en ekki reynir á það tekjutap fyrr en eftir að launagreiðslum lýkur. Með þessari lagabreytingu er skotið styrkari stoðum undir núverandi framkvæmd á greiðslu maka- og barnalífeyris.

Um 6. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. geta sjóðfélagar í þar tilgreindum tilvikum valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 23. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Þegar sjóðfélagi nýtir sér val samkvæmt þessari reglu og lífeyrir hans á samkvæmt því að taka breytingum sem verða á launum sem greidd eru fyrir viðmiðunarstarfið er ákvæðinu ætlað að taka af tvímæli um að ekki er heimilt að sækja lífeyrisviðmið til starfs sem launað er með þeim hætti að stjórninni bæri að ákveða viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af fyrir starfið skv. 6. mgr. 23. gr. laganna væru iðgjöld greidd af starfinu til deildarinnar.
    Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa í þeim efnum að ekki sé lagaheimild til að miða lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við laun fyrir starf sem ekki er heimilt að greiða iðgjöld af til deildarinnar. Vilji sjóðfélagi sem á val skv. 1. mgr. 35. gr. nýta sér valið og starfið er ekki tækt til viðmiðunar á greiðslu lífeyris úr sjóðnum skal stjórn sjóðsins ákveða honum viðmiðunarlaun sem lífeyrisgreiðslur taka mið af og skulu þau þá ákveðin með sama hætti og þegar um er að ræða iðgjaldagreiðslur til sjóðsins og laun fyrir það starf eru ekki samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. 6. mgr. 23. gr. laganna. Ef viðmiðunarstarfinu gegnir aðili sem greiðir iðgjöld í B-deild sjóðsins og stjórn sjóðsins hefur ákveðið þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af, sbr. 6. mgr. 23. gr., skal nota sama viðmið til greiðslu á lífeyri til þess sem hefur það starf til viðmiðunar á greiðslu lífeyris. Þegar ekki liggur fyrir ákvörðun skv. 6. mgr. 23. gr. um greiðslu iðgjalda til sjóðsins þarf stjórnin að taka sjálfstæða ákvörðun um viðmiðunarlaun sem greiða ber lífeyri af.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 1/1997,
um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

    Frumvarpi þessu er einkum ætlað að lögfesta ákvæði um þau viðmið sem stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur haft varðandi ákvörðun um laun til greiðslu lífeyris þegar sömu laun eru ekki samanburðarhæf við greiðslu iðgjalda til sjóðsins og varðandi það hvenær barna- og makalífeyrisréttur sjóðfélaga verður virkur. Þar sem um er að ræða lögfestingu á þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur er ekki gert ráð fyrir breytingu á útgjöldum ríkissjóðs þótt frumvarpið verði samþykkt sem lög.