Ferill 595. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 937  —  595. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið.

2. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Börn eða kjörbörn sem sjóðfélagi lætur eftir sig er hann andast og yngri eru en 18 ára skulu fá lífeyri úr sjóðnum eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið þar til þau eru fullra 18 ára að aldri. Sama gildir um börn eða kjörbörn sem sá maður lætur eftir sig er naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum er hann andaðist.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga til samræmis við breytingar sem stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur óskað eftir að gerðar verði á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Lögð er til breyting sem tekur á því hvenær barna- og makalífeyrisréttur úr sjóðnum verður virkur og í tengslum við það hvernig meðhöndla beri iðgjaldagreiðslur til sjóðsins sem eru til komnar eftir andlát sjóðfélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.

    Með greinunum er lögfest sú venjuhelgaða framkvæmd stjórnar lífeyrissjóðsins að greiða ekki lífeyri úr sjóðnum til eftirlifandi maka eða barna fyrr en launagreiðslur falla niður og iðgjaldagreiðslum til sjóðsins vegna viðkomandi er lokið. Í allflestum kjarasamningum sem fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs eða sveitafélög eru aðilar að eru ákvæði þar sem kveðið er á um launagreiðslur í tiltekinn tíma eftir lát starfsmanns að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Forsögu slíkra ákvæða má rekja til ákvæðis í eldri lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, þar sem kveðið var á um launagreiðslur til maka látins starfsmanns. Af launum þessum hafa verið greidd iðgjöld í lífeyrissjóðinn. Í slíkum tilvikum hefur lífeyrissjóðurinn ekki greitt út lífeyri fyrr en iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið. Telja ber eðlilegt að greiða ekki lífeyri úr sjóðnum á sama tíma og laun eru greidd vegna viðkomandi sjóðfélaga og iðgjöld greidd af þeim launum til sjóðsins. Á meðan iðgjöld eru greidd í sjóðinn er enn verið að reikna réttindaávinning á sjóðfélagann. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir launagreiðslum eftir andlát sjóðfélaga og má ætla að ekki hafi verið hugað að slíkum greiðslum við lögfestingu ákvæða um barna- og makalífeyri.
    Núverandi framkvæmd styðst við áratugalanga hefð og er í fullu samræmi við þann tilgang með greiðslu barna- og makalífeyris að koma til móts við tekjutap sem aðilar verða fyrir við missi framfæranda en ekki reynir á það tekjutap fyrr en eftir að launagreiðslum lýkur. Með þessari lagabreytingu er skotið styrkari stoðum undir núverandi framkvæmd á greiðslu maka- og barnalífeyris.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 2/1997,
um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

    Frumvarpi þessu er einkum ætlað að lögfesta ákvæði um þau viðmið sem stjórn Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga hefur haft varðandi það hvenær barna- og makalífeyrisréttur sjóðfélaga verður virkur. Þar sem um er að ræða lögfestingu á þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur er ekki gert ráð fyrir breytingu á útgjöldum ríkissjóðs þótt frumvarpið verði samþykkt sem lög.