Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 938  —  596. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „settar eru í“ í 1. mgr. kemur: bókun 3 og.
     b.      Á eftir orðunum „á sviði“ í 1. mgr. kemur: ríkisaðstoðar og.

2. gr.

    3. mgr. 47. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Verði að afturkalla ákvörðun um ríkisaðstoð eða annan fjárhagsstuðning úr opinberum sjóðum vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skal hlutaðeigandi stjórnvald, að undangenginni ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA um endurgreiðslu, gera ráðstafanir til þess að endurheimta aðstoðina frá þiggjanda hennar. Þiggjanda aðstoðar ber að greiða vexti, sem eftirlitsstofnun EFTA ákveður, af fjárhæð þeirri sem hann er endurkrafinn um. Vextir skulu reiknaðir frá þeim degi er þiggjanda var fengin aðstoðin til umráða og fram til þess dags að hún er endurgreidd. Afturköllun samkvæmt málsgrein þessari skapar sveitarfélagi eða ríkissjóði ekki skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem ákvörðun beinist að eða telja sig að öðru leyti bíða tjón af afturkölluninni.

3. gr.

    2. málsl. 48. gr. laganna verður svohljóðandi: Fjármálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er verið að aðlaga XI. kafla samkeppnislaga að reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999 um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. (nú 88. gr.) EB-sáttmálans. Ákvæði 93. gr. (nú 88. gr.) EB-sáttmálans er sambærilegt 62. gr. EES-samningsins og kveður á um að stöðugt skuli fylgjast með öllum kerfum vegna ríkisaðstoðar sem eru til á yfirráðasvæðum samningsaðila, svo og öllum áætlunum um að veita slíka aðstoð eða breyta henni, með það í huga að þau samrýmist 61. gr. EES-samningsins. Þeir sem framkvæma skulu þetta eftirlit eru annars vegar framkvæmdastjórn EB, að því er varðar aðildarríki EB, í samræmi við reglurnar í 93. gr. (nú 88. gr.) EB-sáttmálans og hins vegar eftirlitsstofnun EFTA, að því er varðar EFTA-ríkin, í samræmi við þær reglur sem settar eru í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar EFTA en mælt er fyrir um valdsvið hennar og störf í bókun 26 við EES-samninginn.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2001 frá 11. desember 2001 var gerð breyting á bókun 26 um valdsvið og störf eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Með þeirri ákvörðun var reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. (nú 88. gr.) EB-sáttmálans felld inn í samninginn. Í stuttu máli er markmiðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 26 að tryggja eftirlitsstofnun EFTA sambærilegar heimildir og framkvæmdastjórn ESB er falin með reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999. Flestar þær heimildir sem um ræðir hefur eftirlitsstofnun EFTA haft áður en í reglugerðinni er kveðið skýrar á um nokkur atriði en verið hefur. Kallar reglugerðin því á minni háttar breytingar á XI. kafla samkeppnislaga um framkvæmd samkeppnisreglna o.fl. samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Bókun 3 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls fjallar um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Til að gæta samræmis við breytingu á bókun 26 við EES-samninginn var því einnig nauðsynlegt að breyta bókun 3 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin byggir á 22. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 659/1999 og fjallar um vettvangsskoðun. Þar sem reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 hefur verið tekin upp í bókun 3 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls þykir rétt að vísa til bókunar 3 í 1. mgr. 42. gr. laganna en þar er mælt fyrir um vettvangsskoðun. Samkvæmt greininni er eftirlitsstofnun EFTA veitt heimild til vettvangsskoðunar enda sé fylgt þeim starfsreglum sem settar eru í bókun 3 með samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Sambærilegar starfsreglur er að finna í bókun 4 með samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni.
    Í reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 er kveðið á um að hafi eftirlitsstofnun EFTA alvarlegar athugasemdir um að ákvörðunum hennar sé hlítt skuli hún eiga þess kost að grípa til frekari úrræða sem gera henni kleift að afla nauðsynlegra upplýsinga til þess að sannreyna hvort ákvörðunum hennar sé hlítt með skilvirkum hætti. Vettvangsheimsóknir í eftirlitsskyni séu viðeigandi og nothæft úrræði, einkum í tilvikum þar sem aðstoð kann að hafa verið misnotuð. Því beri að heimila eftirlitsstofnuninni að fara í vettvangsheimsóknir í eftirlitsskyni og skuli hún njóta samvinnu við lögbær yfirvöld í þeim aðildarríkjum þar sem fyrirtæki er andvígt slíkri heimsókn.
    Í því skyni að sannreyna hvort viðkomandi ákvörðun sé hlítt skulu embættismenn sem eftirlitsstofnun EFTA viðurkennir hafa umboð til þess að:
     a.      fara inn á allt athafnasvæði og land hlutaðeigandi fyrirtækis;
     b.      fara fram á munnlegar skýringar á staðnum;
     c.      rannsaka bókhald og önnur viðskiptaskjöl og taka afrit eða krefjast þeirra.

Um 2. gr.

    Greinin byggir á 14. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 659/1999 og kveður á um endurgreiðslu ólögmætrar ríkisaðstoðar. Reglu þessa efnis hefur verið að finna í leiðbeiningarreglum eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð. Í reglugerðinni kemur fram að endurgreiðsla ólögmætrar ríkisaðstoðar skuli fara fram án tafar og í samræmi við fyrirmæli laga hlutaðeigandi aðildarríkis. Ásamt aðstoðinni, sem ber að endurgreiða samkvæmt ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA um endurgreiðslu, skal greiða hæfilega vexti sem eftirlitsstofnun EFTA ákveður. Greiða ber vexti frá þeim degi að þiggjandanum var fengin hin ólöglega aðstoð til umráða og fram til þess dags að hún er endurgreidd. Hlutaðeigandi stjórnvald ber ábyrgð á því að gerðar séu ráðstafanir til að endurheimta ólögmæta aðstoð frá þiggjanda hennar í samræmi við ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA um endurgreiðslu.
    Lokamálsliður greinarinnar er efnislega óbreyttur frá núgildandi 3. mgr. 47. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra verði í stað viðskiptaráðherra heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi. Heimild fjármálaráðherra lýtur eingöngu að reglum um ríkisaðstoð en viðskiptaráðherra mun eftir sem áður fara með framkvæmd laganna að öllu öðru leyti. Er þessi breyting lögð til þar sem fjármálaráðuneytið fer með þau mál er lúta að ríkisstyrkjum.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á samkeppnislögum,
nr. 8/1993, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að innleiða reglugerð Evrópusambandsins nr. 659/1999 sem kveður á um endurgreiðslu ólögmætrar rikisaðstoðar samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Ef um ólögmæta ríkisaðstoð til fyrirtækja er að ræða ber þiggjanda aðstoðarinnar að endurgreiða hana ríkissjóði ásamt hæfilegum vöxtum. Samkvæmt reglugerðinni getur Eftirlitssstofnun EFTA krafist þess að Samkeppnisstofnun fari í vettvangsheimsóknir í eftirlitsskyni með því hvort ríkisaðstoð hafi verið misnotuð og skal hún njóta samvinnu við lögbær yfirvöld þar sem fyrirtæki er andvígt slíkri heimsókn.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs þar sem fylgt hefur verið framangreindum reglum.