Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 961  —  614. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að setja á fót nefnd til að gera úttekt á starfsemi Þjóðhagsstofnunar. Í nefndinni skulu sitja fulltrúar allra þingflokka, einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar og einn fulltrúi forsætisráðuneytis og skal hann jafnframt vera formaður. Verkefni nefndarinnar verði, auk almennrar úttektar, að skoða verkaskiptingu milli Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem vinna að einhverju leyti að svipuðum verkefnum og meta kosti þess að Þjóðhagsstofnun verði færð undir Alþingi.
    Nefndin skili niðurstöðum sínum í skýrslu til Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð þá eigi útrædd. Hún er því endurflutt ásamt þeirri greinargerð sem henni fylgdi, enda óbreytt staða uppi í málinu.
    Sú hugsun er ekki ný af nálinni að hin opinbera stofnun, sem hafi það meginhlutverk að annast mat á þjóðhagshorfum, safna, vinna með og birta upplýsingar um ýmis þjóðhagsmálefni sem liggja utan ramma hinnar sígildu skráningar hagskýrslna, þurfi að geta starfað óháð framkvæmdarvaldinu, hagsmunaaðilum, fyrirtækjum og öðrum stofnunum á sama sviði. Þannig var frumvarp um að flytja Þjóðhagsstofnun til Alþingis flutt af Kristni H. Gunnarssyni og fleirum á 122. löggjafarþingi (þskj. 832, 489. mál) og oft og iðulega hefur verið rætt um að efla óháða starfsemi á vegum Alþingis á þessu sviði.
    Breyting á stjórnsýslulegri stöðu Þjóðhagsstofnunar af því tagi sem gert er ráð fyrir að verði skoðuð samkvæmt tillögunni mundi styrkja stofnunina sem óháða fagstofnun, sjálfstæða gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mikilvægt er að stofnun, sem hefur það með höndum að meta stöðu og horfur í þjóðarbúskapnum, hafi svigrúm til að miðla hlutlægum upplýsingum í hvívetna og njóti sem slík almenns trausts í þjóðfélaginu. Ljóst er að slík stofnun gæti jafnframt orðið Alþingi til styrktar við að rækja eftirlitshlutverk sitt og komið að gagni við gerð fjárlaga.
    Eitt meginhlutverk Þjóðhagsstofnunar er að fylgjast með framvindu efnahagsmála, meta árangurinn af efnahagsstjórn ríkisstjórnar á hverjum tíma og líklegar afleiðingar ráðstafana í efnahagsmálum. Því getur tæpast talist heppilegt að stofnunin heyri beint undir forsætisráðuneytið sem fer með yfirstjórn efnahagsmála og hefur þar á ofan nýlega tekið við forsvari fyrir Seðlabankann. Benda má á að breytingar á stöðu Ríkisendurskoðunar, sem var færð undir yfirstjórn Alþingis frá framkvæmdarvaldinu, urðu til þess að styrkja þá stofnun mjög sem sjálfstæðan, óháðan og faglegan eftirlitsaðila. Sömu sögu er að segja af starfsemi umboðsmanns Alþingis, þó að ekki sé um efnislega sambærilega hluti að ræða, að vistun starfseminnar í skjóli Alþingis hefur reynst haldgóð trygging fyrir því að stofnunin njóti óskoraðs trausts og virðingar og að fagleg og hlutlæg vinnubrögð séu ekki dregin í efa, einmitt vegna þess hver staða hennar er í stjórnsýslunni.
    Í tilefni af breytingum sem líklega eru í aðsigi, m.a. á stöðu Seðlabankans, á gjaldeyris- og peningamarkaði og fleiri sviðum, er eðlilegt að farið sé yfir stöðu og hlutverk stofnana og embætta sem hlutverki gegna á þessu sviði. Tillagan hefur sem grundvallarforsendu að allar breytingar sem gerðar kunna að verða á starfsemi og stöðu stofnana á þessu sviði séu yfirvegaðar og vandlega undirbúnar, í góðu samstarfi við starfsmenn og samtök þeirra.