Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 978  —  315. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Ingibjörgu Ingvadóttur frá ríkisskattstjóra. Umsagnir bárust um málið frá ríkisskattstjóra, Fjölskylduráði, skattrannsóknarstjóra, Samtökum verslunar og þjónustu, Verslunarráði Íslands, Þjóðhagsstofnun og Alþýðusambandi Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að gera smávægilegar breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem flestar lúta að lagasamræmi og framkvæmdaratriðum. Lagt er til að í viðauka við lögin verði að finna upptalningu á tollskrárnúmerum þeirra manneldisvara sem bera 14% virðisaukaskatt, en ekki þeirra sem bera 24,5% virðisaukaskatt eins og nú er. Einnig er lagt til að skattstjórar taki hér eftir við skýrslum um þjónustukaup frá útlöndum í stað tollstjóra eins og nú er og að beiðnir um endurgreiðslur vegna virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna endurbóta eða viðhalds á íbúðarhúsnæði verði afgreiddar hraðar en verið hefur. Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við breytingar á lögum um álagningu gjalda á vörur frá árinu 2000 og loks að einungis verði hægt að fá sérstakar endurgreiðslur samkvæmt lögunum sex ár aftur í tímann.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem lúta að því að veita ráðherra heimild til að setja reglugerð um framkvæmd á greiðslu virðisaukaskatts og endurgreiðslu hans, en æskilegt þykir að afmarkaðar reglugerðarheimildir séu í lögunum. Jafnframt leggur nefndin til að bætt verði inn ákvæði um hámarkstíma sem skattstjóri hefur til að afgreiða erindi um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Auk þess eru tollskrárnúmer í viðauka leiðrétt vegna breytinga sem urðu nýlega á tollskrá og gildistökuákvæði breytt, en þar sem gert var ráð fyrir að frumvarpið yrði að lögum fyrir síðustu áramót er það nauðsynlegt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Kristinn H. Gunnarsson og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.



Jónas Hallgrímsson.