Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 989  —  333. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eldi nytjastofna sjávar.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Markmið frumvarpsins eru í fyrstu grein þess sögð vera að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna og tryggja verndun villtra nytjastofna.
    Aðaltilgangur frumvarpsins virðist þó vera sá að koma yfirstjórn og eftirliti með þessari starfsemi undir sjávarútvegsráðuneytið.
    Að mati minni hlutans mun sú tvískipting eldis sem verður með því að fela sjávarútvegsráðherra yfirstjórn þessara mála og Fiskistofu framkvæmdina óskynsamleg. Hún eykur án vafa kostnað við eftirlitið, t.d. munu sömu fyrirtækin þurfa eftirlit beggja kerfanna séu þau í blandaðri starfsemi. Hún eykur að mati fisksjúkdómanefndar hættu á því að viðbrögð við bráðum sjúkdómum verði ekki nógu markviss og gerir eftirlitið flóknara og þyngra í vöfum.
    Landbúnaðarráðuneytið hefur farið með þessi mál og það þarf einungis lítils háttar breytingar á lögunum um lax- og silungsveiði til að það eldi sem um er fjallað í frumvarpinu heyri án alls vafa undir eftirlitskerfi þess.
    Það er skoðun minni hlutans að eðlilegt sé að fela einu ráðuneyti yfirstjórn þessara mála og þá landbúnaðarráðuneytinu meðan sú skipting sem nú ríkir í Stjórnarráðinu er í gildi.
    Nýting takmarkaðra auðlinda færir þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem forgangs njóta til hennar möguleika umfram aðra, bæði fjárhagslega og efnislega. Stjórnun sem hefur takmarkanir á nýtingu auðlinda í för með sér getur gert nýtingarréttinn mjög verðmætan. Verð veiðiheimilda í viðskiptum milli útgerðarmanna hér á landi er gott dæmi um slíkt. Benda má á að gífurlega hátt verð hefur verið greitt t.d. í Noregi fyrir leyfi til að stunda fiskeldi. Það er þess vegna nauðsynlegt að úthlutun leyfa til að reka slíka starfsemi verði háð almennum skilyrðum þar sem jafnræðis verði gætt, t.d. með útboði ef fleiri en einn sækjast eftir aðstöðunni. Það er óviðunandi að framtíðarnýting sameiginlegra auðlinda skuli afhent án nokkurs endurgjalds en virði leyfanna komi síðan fram við eigendaskipti og fráleitt að málum skuli svo skipað að verslun með leyfin verði sérstakur gróðavegur.
    Minni hlutinn telur frumvarpið óþarft, það skapi vandamál en leysi engin og leggur til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 15. mars 2002.



Jóhann Ársælsson,


frsm.

Svanfríður Jónasdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.