Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 994  —  494. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum og lögreglulögum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgu Thorarensen og Stefán Eiríksson frá dómsmálaráðuneyti, Þóri Oddsson og Jón H. Snorrason frá ríkislögreglustjóra, Ingimund Einarsson og Egil Stephensen frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Jónas Magnússon, Gils Jóhannsson og Óskar Bjartmarz frá Landssambandi lögreglumanna, Þorleif Pálsson frá Sýslumannafélagi Íslands og Arnar Guðmundsson og Gunnlaug V. Snævarr frá Lögregluskóla ríkisins.
    Umsagnir um málið bárust frá ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, sýslumanninum á Ísafirði, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, lögreglustjóranum í Reykjavík, efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Tollvarðafélagi Íslands og Landssambandi lögreglumanna.
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að við almenn hegningarlög bætist ákvæði sem veitir aukna refsivernd gegn ógnun eða valdbeitingu gagnvart erlendum sendierindrekum hér og landi, svo og gegn eignaspjöllum sem unnin eru á sendiráðssvæði eða hótunum um að fremja slík spjöll. Í öðru lagi er lagt til að bætt verði ákvæðum í lögreglulög sem annars vegar auka heimildir lögreglu til að halda uppi allsherjarreglu á opinberum fundum með því að lögregla geti bannað mönnum að hylja andlit sitt í því skyni að hindra að kennsl verði borin á þá þegar uggvænt þykir að óspektir verði á fundinum. Hins vegar er um að ræða ákvæði sem kveður á um að starfslokaaldur lögreglumanna verði lækkaður í 65 ár. Loks eru lagðar til breytingar á lögreglulögunum varðandi val nema í Lögregluskóla ríkisins.
    Nefndin ræddi sérstaklega möguleika á fjarnámi við Lögregluskóla ríkisins fyrir einstaklinga víðs vegar á landinu en sú umræða leiddi í ljós að slíkt nám er almennt vel til fallið í lögreglunámi að undanskildu grunnnámi vegna sérstöðu þess.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Nefndin skoðaði sérstaklega heimild lögreglu til að banna manni að hylja andlit sitt með málningu. Telur nefndin nauðsynlegt að slík heimild sé fyrir hendi. Hins vegar lítur nefndin svo á að önnur förðun eða notkun aukahluta geti einnig leitt til breytinga á andlitsdráttum og andlitsfalli þannig að ógerlegt sé að bera kennsl á menn og leggur því til breytingu þar að lútandi.
    Nefndin telur jafnframt rétt að heimildir lögreglu skv. 3. mgr. 15. gr. lögreglulaga til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana vegna óhlýðni á fyrirmælum hennar skuli einnig ná til nýja ákvæðisins í 2. gr. frumvarpsins. Þá leggur nefndin til að lögreglumönnum verði veittur lengri frestur en frumvarpið gerir ráð fyrir til að ákveða hvort þeir nýti sér nýjar reglur frumvarpsins eða eldri reglur um starfslok.

Prentað upp.

    Katrín Fjeldsted var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. mars 2002.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Kjartan Ólafsson.Guðjón A. Kristjánsson.


Ólafur Örn Haraldsson.


Stefanía Óskarsdóttir.Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Dóra Líndal,


með fyrirvara.