Ferill 637. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1013  —  637. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um húsaleigubætur, nr. 138 23. desember 1997.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir.



1. gr.

    Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Foreldrar sem fara með sameiginlega forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit eiga rétt til húsaleigubóta óháð lögheimili þess.

2. gr.

    5. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. um íbúðarhúsnæði hafa eftirtaldir rétt til húsaleigubóta:
     1.      fatlaðir sem búa saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða,
     2.      námsmenn sem eru í námi á framhalds- eða háskólastigi og leigja á heimavist eða á námsgörðum eða herbergi með sameiginlegri eldhús- og snyrtiaðstöðu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hér eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um húsaleigubætur. Fyrri breytingin snýr að foreldrum sem eftir skilnað eða sambúðarslit eru með sameiginlega forsjá barns eða barna sinna. Eins og lögin eru nú getur aðeins foreldrið sem barnið eða börnin eiga lögheimili hjá fengið viðbótarhúsaleigubætur. Foreldrið sem er einnig með forsjána en barnið býr ekki hjá þarf að geta sinnt börnum sínum til jafns við hitt foreldrið en fær þessa viðbót ekki. Reynslan hefur sýnt að þetta hefur gert foreldrum, sem barn er ekki með lögheimili hjá, erfitt fyrir að rækja þær skyldur sem felast í sameiginlegri forsjá. Til að jafna mun foreldra hvað þetta varðar er þessi breyting lögð til. Félagsmálayfirvöld í Reykjavík hafa bent á að þörf væri á breytingu í þessa veru.
    Hin breytingin snýr að námsmönnum, en með lagabreytingu frá 16. maí 2001 er nemendum í framhalds- og háskólum mismunað. Námsmenn á heimavist eða stúdentagörðum öðluðust rétt á húsaleigubótum þótt þeir byggju í herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði. Nú er það svo að námsmenn hafa ekki allir kost á slíku húsnæði og verða þá að leigja sér sambærilegt húsnæði annars staðar, sem er almennt mun dýrara en garður eða heimavist, en þeir fá ekki húsaleigubætur samkvæmt núgildandi lögum. Úr þessu óréttlæti er bætt með þessu frumvarpi.