Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1014  —  550. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.

Frá 1. minni hluta félagsmálanefndar.    Með frumvarpinu er lagt til að allir erlendir ríkisborgarar, aðrir en danskir, sænskir, norskir og finnskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, njóti framvegis kosningarréttar og kjörgengis við sveitarstjórnarkosningar. 1. minni hluti telur frumvarpið ganga of skammt. Annars staðar á Norðurlöndum fá norrænir ríkisborgarar kosningarrétt til sveitarstjórna um leið og þeir skrá lögheimili í viðkomandi landi. Sama á að gilda hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum að mati 1. minni hluta og er lögð til breytingartillaga í þá veru.
    Jafnframt leggur 1. minni hluti til að aðrir erlendir ríkisborgarar en norrænir fái kosningarrétt til sveitarstjórna eftir þriggja ára búsetu hér á landi. Er þetta til samræmis við norrænar reglur, svo og reglur frumvarps til laga um útlendinga um búsetuleyfi, en veita má útlendingi slíkt leyfi eftir samfellda þriggja ára dvöl hér á landi. Er það mat 1. minni hluta að með frumvarpinu sé allt of skammt gengið í þessum málum.
    Þá telur 1. minni hluti að með þeim breytingum sem nú er verið að gera hefðu átt að koma heimildarákvæði um rafrænar kosningar. Í því felst framtíðarsýn sem er óhjákvæmileg og hefði verið nauðsynlegt að taka á því efni nú með afgerandi hætti. Slíkt er ekki gert, þrátt fyrir umsagnir og óskir um lögfestingu slíkrar heimildar nú. Það hefur sýnt sig í aðdraganda væntanlegra sveitarstjórnarkosninga að margir nýttu sér rafrænt fyrirkomulag við val frambjóðenda og hefði það verið tilvalin reynsla til að nýta í kosningunum. Leggur 1. minni hluti því til að slík heimild verði sett í ákvæði til bráðabirgða.
    Að öðru leyti er 1. minni hluti samþykkur þeim breytingum sem felast í frumvarpinu, svo sem að fallið er frá kröfu um meðmælendur á framboðslistum í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri, svo og öðrum þeim breytingum sem lúta að samræmi við lög um kosningar til Alþingis.

Alþingi, 19. mars 2002.Guðrún Ögmundsdóttir,


frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.