Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1016  —  550. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.

Frá 2. minni hluta félagsmálanefndar.    Annar minni hluti gagnrýnir hversu frumvarp félagsmálaráðherra er seint fram komið. Bagalegt er að málið skuli vera enn til meðferðar á Alþingi nokkrum dögum áður en utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar á að hefjast. Er þar ekki við félagsmálanefnd að sakast, hún hefur hraðað umfjöllun um frumvarpið eins og kostur er. Þessar aðstæður vekja spurningar um það hvort félagsmálaráðherra og ríkisstjórn hafi ekki verið ljóst að til stæði að kjósa til sveitarstjórna á vori komanda.
    Breytingar samkvæmt frumvarpinu eru yfirleitt eðlilegar lagfæringar og til samræmis við ákvæði gildandi laga um kosningar til Alþingis. Það eru einkum tvö efnisatriði sem þessu máli tengjast sem 2. minni hluti er ósáttur við. Hið fyrra varðar kosningarrétt erlendra ríkisborgara til sveitarstjórna. Breytingar samkvæmt frumvarpinu eru til bóta en ganga of skammt. Eðlilegast væri að tryggja öðrum norrænum ríkisborgurum sem hér eru búsettir fullan kosningarrétt, sambærilega við það sem Íslendingar sjálfir njóta. Öðrum erlendum ríkisborgurum ætti að tryggja kosningarrétt eftir að þeir hafa átt hér lögheimili samfellt í tvö eða í mesta lagi þrjú ár. Það er eðlilegt og sjálfsagt markmið að leita eftir þátttöku nýrra íbúa í mótun og stjórn samfélagsins þar sem þeir hafa tekið sér búsetu.
    Síðara atriðið varðar þann ágalla frumvarpsins að ekkert skuli vikið að möguleikum til að hagnýta sér kosti rafrænnar kosningar eða a.m.k. rafrænar kjörskrár. Lágmark hefði verið að taka inn heimildarákvæði til að gefa þeim sveitarfélögum sem það vildu möguleika á að prófa sig áfram í þessum efnum, t.d. að gera tilraunir með rafræna kjörstaði, samhliða hefðbundnum eða nota rafræna kjörskrá.
    Annar minni hluti mun styðja efni frumvarpsins, en áskilur sér rétt til að flytja breytingartillögur um fyrrgreind atriði.

Alþingi, 19. mars 2002.Steingrímur J. Sigfússon.