Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1019  —  639. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hjá Fangelsismálastofnun og í fangelsum er vinnsla persónuupplýsinga heimil, þar á meðal þeirra upplýsinga sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi viðkomandi stofnunar. Um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt þessari grein fer samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á 2. gr. laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, þannig að bætt verði við lögin heimild til vinnslu persónuupplýsinga hjá Fangelsismálastofnun og í fangelsum að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi viðkomandi stofnunar. Lagt er til að ný málsgrein bætist við 2. gr. laganna sem kveður á um heimild Fangelsismálastofnunar og fangelsa til vinnslu persónuupplýsinga. Þessi heimild í frumvarpinu gerir ráð fyrir því að meðferð ýmissa persónuupplýsinga um fanga eigi sér stað. Þetta er ekki bundið við vinnslu almennra persónuupplýsinga heldur getur vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga einnig verið nauðsynleg. Hér má til dæmis nefna að gert er ráð fyrir vinnslu upplýsinga um refsidóma og aðrar ákvarðanir sem fela í sér refsingar og stofnuninni berast til fullnustu og um fullnustu refsinga en slíkar upplýsingar teljast viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Þessi heimild til vinnslu persónuupplýsinga tekur mið af 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga, en þar er gert ráð fyrir að ákvæði annarra laga mæli fyrir um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.
    Það skal áréttað sérstaklega að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt þessu ákvæði er einungis heimil að því marki sem nauðsynlegt er með hliðsjón af lögbundnu hlutverki Fangelsismálastofnunar. Um meðferð Fangelsismálastofnunar á persónuupplýsingum fer eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og á það einnig við um eftirlit Persónuverndar með vinnslu persónuupplýsinga hjá stofnuninni.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist,
nr. 48 19. maí 1988, með síðari breytingum.

    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að í lögum um fangelsi og fangavist verði kveðið skýrar á um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga hjá Fangelsismálastofnun og fangelsum. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.