Ferill 576. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1022  —  576. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Elínbjörgu Jónsdóttur frá BSRB, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 6. gr. A í tollalögum þannig að landbúnaðar-ráðherra hafi meira svigrúm við ákvörðun um tollvernd þeirra vara sem tilgreindar eru í viðaukum IVA og B við lögin. Samkvæmt gildandi lögum er landbúnaðarráðherra bundinn breytingu á tolli í 25%-þrepum en í því felst að ráðherra getur lækkað eða hækkað tollinn þannig að hann nemi 0, 25, 50 eða 75% af verð- eða magntolli sem tilgreindur er í tollskrá. Eftir breytingarnar mun ráðherra hafa meira svigrúm þannig að hann getur breytt tolli í 10%-þrepum, frá 0 til 90%.
    Nefndin vekur athygli á því að í greinargerð með frumvarpinu er aðeins rætt um aukið svigrúm ráðherra til að ákveða tollvernd grænmetis en lagalega séð eru breytingarnar víðtækari en svo. Þær vörur sem viðaukar IVA og B ná til eru m.a. kjöt, mjólk og mjólkurvörur, smjör, ostur, egg, lifandi eða afskorin blóm og plöntur, grænmeti o.fl.
    Nefndin telur þessar breytingar vera til verulegra bóta og vonast til að þær leiði til minni tollverndar en verið hefur þannig að íslenskir neytendur geti notið þess í lækkuðu matvælaverði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Guðjón A. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur áliti þessu.
    Jónína Bjartmarz var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þuríður Backman ritar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 15. mars 2002.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Guðjón Guðmundsson.



Karl V. Matthíasson.


Einar Oddur Kristjánsson.


Þuríður Backman,


með fyrirvara.



Sigríður Ingvarsdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.