Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1024  —  385. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl.

(Eftir 2. umr., 20. mars.)


I. KAFLI
Breytingar á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðsins „flugmálaáætlun“ í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: samgönguáætlun.

2. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Flugráð er skipað sex mönnum og jafnmörgum til vara. Varamenn taka sæti í forföllum aðalmanna.
    Samgönguráðherra skipar sex menn í ráðið, tvo samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar og jafnmarga til vara. Skulu fulltrúar þessir hafa þekkingu á flugmálum og skal sú þekking a.m.k. ná til innanlandsflugs, millilandaflugs og almenns flugs. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Fulltrúar sem ráðherra skipar án tilnefningar skulu vera formaður og varaformaður flugráðs.
    Skipunartími flugráðs er fjögur ár, en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
    Flugráð er samgönguráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál.
    Verkefni flugráðs eru að:
     a.      fjalla um stefnumótun í flugmálum,
     b.      veita samgönguráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun,
     c.      fjalla um rekstraráætlanir Flugmálastjórnar,
     d.      fjalla um gjaldskrártillögur,
     e.      veita umsögn um lög og reglur er varða flugmál,
     f.      fjalla um málefni sem samgönguráðherra eða Alþingi sendir flugráði til umfjöllunar,
     g.      fjalla um mál sem flugmálastjóri eða einstakir flugráðsmenn óska að fjallað verði um.
    Flugmálastjóri situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt ásamt þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Flugráð getur óskað eftir áliti flugmálastjóra ef þörf þykir. Nánar skal kveðið á um hlutverk flugráðs í reglugerð.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda
í flugmálum, nr. 31/1987, með síðari breytingum.
3. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Flugmálaáætlun skal gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun. Með flugmálaáætlun samkvæmt lögum þessum er átt við flugmálaáætlunarkafla samgönguáætlunar, sbr. lög um samgönguáætlun.
    Í flugmálaáætlun skal gerð grein fyrir allri fjáröflun til flugmála og útgjöld sundurliðuð eftir helstu rekstrar- og framkvæmdaflokkum. Sé fé veitt á annan hátt til framkvæmda í flugmálum skal farið með það innan flugmálaáætlunar.

4. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Verkefnum skal skipað í flokka samkvæmt nánari skilgreiningu í samgönguáætlun.

6. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Fjáröflun til flugmála.

III. KAFLI
Breytingar á lögum um Siglingastofnun Íslands,
nr. 6/1996, með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað orðanna „Forstjóri Siglingastofnunar Íslands“ og „Forstjóri Siglingastofnunar“ í 2. mgr. 2. gr., 3. mgr. 5. gr. og 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: Siglingamálastjóri.

9. gr.


    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Að annast gerð áætlana samkvæmt lögum um samgönguáætlun.

10. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar hafnaráð. Í hafnaráði skulu eiga sæti sex fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu tveir tilnefndir af Hafnasambandi sveitarfélaga til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Einn skal tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins að loknum alþingiskosningum. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn.

11. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Verkefni hafnaráðs eru eftirfarandi:
     1.      Hafnaráð veitir samgönguráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun.
     2.      Hafnaráð gefur ráðherra umsögn um breytingar á lögum og reglum er varða hafnamál og sjóvarnir.
     3.      Hafnaráð er stjórn Hafnabótasjóðs samkvæmt hafnalögum. Hafnaráð hefur umsjón með greiðsluþátttöku ríkisins við hafna- og sjóvarnaframkvæmdir og afgreiðir umsóknir um tjónabætur sem sendar eru til sjóðsins.
     4.      Hafnaráð er Siglingastofnun til ráðgjafar um framkvæmd áætlana í hafna- og sjóvarnaframkvæmdum.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum um sjóvarnir, nr. 28/1997.

12. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
    Hafnaráð er Siglingastofnun Íslands til ráðgjafar um framkvæmd áætlana í sjóvörnum.

13. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Siglingastofnun Íslands skal sjá um að áætlun um sjóvarnir sé gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun. Áætlun um sjóvarnir samkvæmt lögum þessum skal tilgreind í siglingamálaáætlunarkafla samgönguáætlunar, sbr. lög um samgönguáætlun.
    Við gerð áætlana um sjóvarnir skal stofnunin hafa samvinnu og samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn, landeigendur og aðra aðila sem að málinu koma. Umsóknir um framlag úr ríkissjóði til sjóvarna skulu sveitarfélög senda Siglingastofnun.
    Í áætluninni skal meta nauðsyn framkvæmda, með hliðsjón af hættu á sjávarflóðum og landbroti af völdum ágangs sjávar, og áætlaðan kostnað. Jafnframt skal leggja mat á hagrænt gildi þeirra aðgerða sem lagðar eru til á hverju svæði og gera tillögu um flokkun framkvæmda í forgangsröð. Þá skal koma fram umsögn um fyrirkomulag framkvæmda og gerð þeirra mannvirkja sem reisa þarf við ströndina.

14. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    Í stað orðanna „fjögurra ára áætlunar, sbr. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: áætlunar skv. 3. gr.

V. KAFLI
Breytingar á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum.
16. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Í vegáætlun skal gerð grein fyrir fjáröflun til vegamála og útgjöld sundurliðuð á einstakar framkvæmdir, rekstur, þjónustu og viðhald eftir því sem við á í samræmi við uppsetningu samgönguáætlunar. Við skiptingu fjárveitinga skal höfð hliðsjón af gerð vega, ástandi þeirra, notkun eða lengd eftir því sem við getur átt hverju sinni.
    Sé fé veitt til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum, með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt, skal fjalla um skiptingu þess innan ramma samgönguáætlunar á sama hátt og að framan getur.
    Vegáætlun skal gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun. Með vegáætlun samkvæmt lögum þessum er átt við vegáætlunarkafla samgönguáætlunar, sbr. lög um samgönguáætlun.

17. gr.

    27. og 28. gr. laganna falla brott.

18. gr.

    Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Vegáætlun.

19. gr.

    Í stað orðanna „skipulagsstjórn ríkisins“ í 3. málsl. 31. gr. laganna kemur: Skipulagsstofnun.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um skipamælingar, nr. 50/1970, með síðari breytingum.
20. gr.

    Í stað orðanna „forstjóra Siglingastofnunar Íslands“ í 1.–3. mgr. 2. gr., 4. gr., 8. gr., 9. gr. og 15. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.
21. gr.

    Í stað orðanna „forstjóri Siglingastofnunar Íslands“ í 2. og 3. mgr. 3. gr., 2. mgr. 5. gr., 3. og 6. mgr. 6. gr., 7. gr., 6. mgr. 9. gr., 2. mgr. 15. gr., 1. og 2. mgr. 18. gr. og 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993,
með síðari breytingum.

22. gr.

    Í stað orðanna „forstjóri Siglingastofnunar Íslands“ í 1. mgr. 6. gr., 8. gr., 2. mgr. 10. gr., 2. mgr. 11. gr., 14. gr., 1. mgr. 15. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 26. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

IX. KAFLI
Breyting á hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum.
23. gr.

    Í stað orðanna „forstjóra Siglingastofnunar Íslands“ í 3. mgr. 19. gr., 3. tölul. 20. gr. og 4. mgr. 24. gr. laganna kemur í viðeigandi falli: siglingamálastjóri.

24. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.