Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1034  —  640. mál.
Frumvarp til lagaum niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi mæla fyrir um úthlutun fjár sem ákveðið er í fjárlögum til:
     1.      Niðurgreiðslu kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma.
     2.      Greiðslu styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna.

2. gr.

Stjórnsýsla.

    Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Íbúð samkvæmt lögum þessum er húsnæði þar sem einhver hefur fasta búsetu og hefur sjálfstætt skráningarauðkenni í Landskrá fasteigna. Dvalarheimili aldraðra telst íbúðarhúsnæði samkvæmt lögum þessum.
    Veitusvæði hitaveitu er það svæði þar sem hitaveita hefur einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni.
    Kynt hitaveita er samkvæmt lögum þessum veita sem notar rafmagn eða eldsneyti til að hita vatn til sölu um dreifikerfi veitunnar.
    Rafhitun telst bein hitun með raforku hvort sem um er að ræða þilofna, hitastrengi eða vatnshitakerfi þar sem rafmagn er notað til að hita vatnið. Raforkunotkun varmadælu er í þessum lögum flokkuð með rafhitun.

II. KAFLI
Niðurgreiðsla á orku til hitunar.
4. gr.
Skilyrði niðurgreiðslna.

    Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til niðurgreiðslna á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis skal það gert í eftirfarandi tilvikum:
     1.      Þegar íbúð sem ekki er á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku.
     2.      Þegar íbúð á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku enda sé kostnaður við tengingu við hitaveituna og áætluð orkukaup meiri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu.
     3.      Þegar íbúð sem hvorki er á veitusvæði hitaveitu né tengist raforkukerfi er hituð með olíu. Einnig íbúðir hitaðar með olíu sem tengjast einangruðu raforkukerfi þar sem meiri hluti raforkuvinnslunnar er með eldsneyti.
     4.      Þegar íbúð er hituð með vatni frá kyntri hitaveitu og raforkunotkun veitunnar til hitunar vatns er meira en 10% af heildarorkuöflun veitunnar.
    Ef föst búseta fellur niður í húsnæði er heimilt að greiða niður kostnað við hitun þess enda sé húsnæðið ekki notað til annarra hluta, svo sem til orlofsdvalar. Ef eigendaskipti verða á slíku húsnæði fellur niðurgreiðslan niður.
    Kostnaður við hitun kirkna og bænahúsa trúfélaga skal greiddur niður á sama hátt og hitun íbúða.
    Ekki skal greiða niður raforkukostnað vegna dælingar á heitu vatni.

5. gr.

Umsókn um niðurgreiðslur.

    Eigandi íbúðar getur sótt um niðurgreiðslu til Orkustofnunar sem ákveður á hvaða formi umsóknir skulu sendar og hvaða upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmdar laga þessara eiga að koma þar fram. Stjórn húsfélags getur sótt um niðurgreiðslur fyrir hönd allra íbúðareigenda í fjöleignarhúsi ef hitanotkun hverrar íbúðar er ekki sérmæld. Orkustofnun metur á grundvelli umsóknar hvort skilyrði laga þessara fyrir niðurgreiðslum séu uppfyllt. Ekki þarf að sækja á ný um niðurgreiðslu meðan íbúð er notuð til fastrar búsetu. Breytist aðstæður að þessu leyti ber eiganda að tilkynna Orkustofnun það.
    Standi húsnæði autt, sbr. 2. mgr. 4. gr., þarf eigandi þess að sækja um niðurgreiðslur til Orkustofnunar þegar föst búseta fellur niður. Sækja þarf um slíkar niðurgreiðslur á tólf mánaða fresti.

6. gr.
Upphæð niðurgreiðslna.

    Í samræmi við fjárhæð niðurgreiðslna sem samþykkt er í fjárlögum viðkomandi árs skal iðnaðarráðherra ár hvert ákveða upphæð niðurgreiðslna á raforku í kr./kWst, á vatni frá kyntum hitaveitum í kr./kWst eða kr./ m3 og á olíu í kr./l. Miða skal upphæð niðurgreiðslna á olíu við að kostnaður notenda verði svipaður við olíuhitun og rafhitun.
    Ráðherra skal að fengnum tillögum Orkustofnunar ákvarða á ári hverju hámarksfjölda kWst og út frá því hámarksfjölda lítra af olíu sem niðurgreiða skal fyrir hverja íbúð. Ef kynt hitaveita nýtir að hluta jarðvarma skal niðurgreiðslan ákvörðuð út frá því hve stór hluti orkuöflunarinnar er með raforku og eldsneyti. Ef notuð er varmadæla skal hámarksfjöldi kWst vera1/ 3af ákvörðuðu hámarkinu við beina rafhitun.

7. gr.
Ákvörðun notkunar við rafhitun.

    Orkunotkun við rafhitun íbúðarhúsnæðis skal ákvörðuð á eftirfarandi hátt:
     1.      Ef rafhitun íbúðar er sérmæld skal sú mæling gilda við ákvörðun niðurgreiðslu.
     2.      Ef rafhitun er ekki sérmæld skal orkumagn sem greitt er niður ákveðið sem hlutfall af heildarnotkun. Orkustofnun skal skilgreina íbúðarflokka út frá því til hvers raforka er notuð og hlutfall húshitunar af heildarraforkunotkun heimilis fyrir hvern flokk fyrir sig. Stofnunin ákveður hvaða flokki hver íbúð tilheyrir. Ef ástæða er til að ætla að lægra eða hærra hlutfall fari til húshitunar hjá einstökum notanda en skilgreining á viðkomandi flokki segir til um getur Orkustofnun áætlað sérstakt hlutfall fyrir þann notanda og skal miðað við þá áætlun við útreikning á niðurgreiðslu. Ef notandi sættir sig ekki við þessa áætlun getur hann farið fram á að notkunin sé sérmæld og skal miða við þá mælingu við ákvörðun niðurgreiðslu. Notandinn greiðir allan kostnað við sérmælinguna.

8. gr.
Ákvörðun notkunar við olíuhitun.

    Ársnotkun íbúðar á olíu til hitunar skal áætluð af Orkustofnun út frá notkun húsnæðisins og skráðri stærð þess í Landskrá fasteigna. Orkustofnun getur farið fram á að fá upplýsingar frá íbúðareiganda um olíukaup til húshitunar og annað sem snýr að notkun húsnæðisins og nauðsynlegt er vegna framkvæmdar laga þessara.

9. gr.
Framkvæmd niðurgreiðslna á raforku og heitu vatni frá kyntum hitaveitum.

    Dreifiveitur raforku og kyntar hitaveitur skulu draga upphæð niðurgreiðslu frá gjaldi notanda fyrir þjónustu veitunnar og skal notandinn fá upplýsingar um upphæð niðurgreiðslu. Ef niðurgreiðslan er hærri en nemur fjárhæð reiknings skal veitan greiða notandanum mismuninn.

10. gr.
Framkvæmd niðurgreiðslu á olíu.

    Orkustofnun ákveður niðurgreiðslur á olíu til einstakra notenda á grundvelli viðmiða, sbr. 8. gr., og sér til þess að greiðsla fari fram ársfjórðungslega.

III. KAFLI
Stofnun nýrra hitaveitna.
11. gr.
Skilyrði styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna.

    Ef ákveðið er í fjárlögum að veita styrki til stofnunar nýrra hitaveitna eða til stækkunar eldri veitna skal þeim fjármunum varið til eftirfarandi þátta:
     1.      Til nýrra hitaveitna sem hófu rekstur árið 1998 eða síðar.
     2.      Til hitaveitna sem hafa aukið við dreifikerfi sitt á árinu 1998 eða síðar til að geta tengt íbúðarhúsnæði sem notið hefur niðurgreiðslna á rafhitun.

12. gr.
Fjárhæð styrkja.

    Styrkur til hverrar hitaveitu getur numið allt að áætluðum fimm ára niðurgreiðslum á rafmagni til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu. Frá styrkfjárhæðinni skal dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar.

13. gr.
Umsóknir.

    Hitaveitur geta sótt um styrk til iðnaðarráðuneytisins. Umsókn skulu m.a. fylgja upplýsingar um hitaveituna og hvernig fyrirhugað er að ráðstafa styrknum.

14. gr.
Úthlutun og ráðstöfun styrkja.

    Styrkur greiðist til hitaveitu þegar hún hefur rekstur með dreifingu á heitu vatni til húshitunar á orkuveitusvæðinu. Styrkurinn er eingreiðsla. Ef tengingum íbúðarhúsa er skipt í áfanga eða hluti íbúðarhúsa á orkuveitusvæði er ekki tengdur þegar hitaveita tekur til starfa er heimilt að ákveða að hluti styrksins skuli greiddur út og niðurgreiðslum vegna rafhitunar tiltekinna íbúðarhúsa haldið áfram þrátt fyrir 15. gr. Endanlegt uppgjör á fjárhæð styrksins fer í þeim tilvikum fram þegar stjórn viðkomandi hitaveitu óskar, þó eigi síðar en níu mánuðum eftir að fyrsti hluti styrksins er greiddur út. Við greiðslu á þeirri fjárhæð sem haldið var eftir skal draga frá heildarfjárhæð niðurgreiðslna á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis á viðkomandi orkuveitusvæði á aðlögunartímanum.
    Hitaveitan skal nýta styrkinn að hluta til að greiða niður stofnkostnað hitaveitunnar og að hluta til að styrkja eigendur íbúðarhúsa þar sem kostnaður við tengingu við starfandi eða nýjar veitur er umtalsverður, svo sem vegna kostnaðarsamra breytinga á hitakerfi. Stjórn hitaveitunnar skal ákvarða hlutföllin en hvor hluti styrksins má nema allt að 65% af heildarfjárhæðinni.

15. gr.
Niðurfelling niðurgreiðslna.

    Ef stofnuð er ný hitaveita eða eldri veita stækkuð skal fella niður niðurgreiðslu á kostnaði til hitunar íbúðarhúsnæðis á starfssvæði hitaveitunnar, sbr. þó 2. tölul. 4. gr. Orkustofnun skal tilkynna íbúðareiganda um niðurfellinguna og hefur hann 30 daga frá dagsetningu tilkynningar til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun um brottfall niðurgreiðslna kemur til framkvæmda.

IV. KAFLI
Eftirlit.
16. gr.
Eftirlit Orkustofnunar.

    Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar þeirra skulu liggja fyrir hjá Orkustofnun.
    Ef breytingar verða á aðstæðum og íbúðareigandi hefur ekki lengur rétt til niðurgreiðslu samkvæmt lögum þessum ber íbúðareiganda að tilkynna slíkt til Orkustofnunar.
    Orkustofnun skal ár hvert áætla kostnað stofnunarinnar við þetta eftirlit og leggja fyrir iðnaðarráðherra til staðfestingar. Kostnaður vegna eftirlits Orkustofnunar samkvæmt staðfestri áætlun greiðist af því fé sem ákveðið er í fjárlögum til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun og til að styrkja nýjar hitaveitur.

17. gr.
Heimildir Orkustofnunar.

    Dreifiveitum og kyntum hitaveitum ber að afhenda Orkustofnun upplýsingar um orkukaupendur sem fá niðurgreiðslur og um notkun þeirra þegar stofnunin fer fram á slíkt.

18. gr.
Úrræði Orkustofnunar.

    Ef Orkustofnun verður þess áskynja að orkukaupandi tilkynnir ekki um breyttar aðstæður, sem hefðu átt að leiða til brottfalls niðurgreiðslu, skal stofnunin fella niðurgreiðslurnar niður og hefur orkukaupandi 30 daga frá dagsetningu tilkynningar til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun um brottfall niðurgreiðslna kemur til framkvæmda.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
19. gr.
Reglugerð.

    Iðnaðarráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd laga þessara, m.a. um útreikning niðurgreiðslna, íbúðarflokka, úthlutun styrkja til nýrra hitaveitna og eftirlit.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Allir þeir aðilar sem við gildistöku laga þessara njóta niðurgreiðslna á orku til húshitunar og uppfylla skilyrði 4. gr. geta sótt um niðurgreiðslur, svo og aðrir er telja sig eiga rétt á þeim. Slíkar umsóknir skulu berast innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna. Ef umsókn berst ekki falla niðurgreiðslur niður sex mánuðum frá gildistöku laganna.

II.

    Niðurgreiðslur á olíu til hitunar íbúðarhúsa sem ekki eiga kost á hitun með hitaveitu eða raforku, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr., skulu greiðast fyrst vegna ársins 2002.

III.

    Orkustofnun skal á næstu fimm árum vinna að hagkvæmnisúttekt á nýtingu varmadælu til húshitunar á þeim lághitasvæðum landsins þar sem möguleikar eru á frekari nýtingu jarðhitans. Enn fremur skal stofnunin í samvinnu við iðnaðarráðuneytið gera úttekt á möguleikum á nýtingu smávirkjana á landsbyggðinni. Í þessu skyni skal heimilt á þessu tímabili að verja allt að 10 millj. kr. árlega af þeirri fjárveitingu sem ákveðin er til niðurgreiðslu rafhitunar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Verulegum fjármunum ríkisins er ráðstafað til ýmissa aðgerða til að minnka orkukostnað notenda á þeim svæðum á landinu þar sem hann hefur verið mestur. Þetta hefur verið gert þar sem talið hefur verið mikilvægt að tryggja öllum landsmönnum aðgang að orku á viðráðanlegu verði. Ekki hefur legið fyrir löggjöf sem mælir fyrir um með skýrum hætti hvernig þessum fjármunum skuli ráðstafað eða hvernig eftirliti með ráðstöfun fjárins skuli háttað. Er frumvarpinu ætlað að bæta úr þessu.
    Með bréfi dagsettu 8. ágúst 2001 skipaði iðnaðarráðherra nefnd til að gera tillögur að frumvarpi til laga um niðurgreiðslur á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis. Í skipunarbréfinu kemur fram að með tillögum að lagafrumvarpi skuli núgildandi reglur lagaðar að breyttum aðstæðum og skýr lagagrundvöllur tryggður fyrir úthlutun á fé til niðurgreiðslna. Þá skuli nefndin gera tillögur um með hvaða hætti viðkomandi orkufyrirtæki gætu komið upplýsingum um niðurgreiðslur til notenda og hvernig eftirliti með niðurgreiðslum yrði best fyrir komið. Skipunarbréfið fylgir frumvarpi þessu, sbr. fylgiskjal I. Í starfi nefndarinnar kom í ljós að heppilegt væri að frumvarpið næði til fleiri þátta en niðurgreiðslna á rafmagni og var því umfang þess aukið eins og fram kemur hér að aftan. Frumvarpið er afrakstur af starfi nefndarinnar sem skilaði áliti sínu með bréfi dagsettu 28. febrúar 2002, sbr. fylgiskjal II.
    Aðgerðir ríkisins á þessu sviði undanfarin ár og áratugi má flokka niður í eftirfarandi þætti:
     1.      Niðurgreiðslu á rafmagni til hitunar íbúðarhúsa og vatni hjá kyntum hitaveitum.
     2.      Niðurgreiðslur á olíu til hitunar íbúðarhúsa.
     3.      Framlag til nýrra hitaveitna sem nýta munu jarðvarma og leysa af hólmi rafhitun.
     4.      Framlög til dreifiveitna raforku til að mæta kostnaði við óarðbærar einingar.
     5.      Endurgreiðsla virðisaukaskatts af húshitun.
     6.      Verðjöfnun á flutningi olíuvara.
    Frumvarp þetta tekur til 1.–3. liðar, 5. liður snýr að fjármálaráðuneyti og um hann gildir reglugerð nr. 484 frá 29. desember 1992. Um 6. lið gilda lög nr. 103 frá 20. maí 1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, og er hann því ekki tekinn hér með. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp um 4. lið á þessu þingi samhliða frumvarpi til raforkulaga.

II. Niðurgreiðslur á rafmagni og vatni hjá kyntum hitaveitum.
    Raforka til hitunar íbúðarhúsa hefur í tæpa tvo áratugi verið greidd niður af ríkinu og orkufyrirtækjunum. Á fjárlögum ársins 2002 eru ætlaðar 853 millj. kr. úr ríkissjóði til þessara niðurgreiðslna, afsláttur Landsvirkjunar er um 100 millj. kr. og afsláttur Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins er um 20 millj. kr. Auk þess kunna að vera niðurgreiðslur hjá öðrum veitufyrirtækjum en upphæð þeirra hefur ekki verið tekin saman. Alls gætu því niðurgreiðslur á rafhitun til húshitunar og afsláttur orkufyrirtækja numið tæpum 1.000 millj. kr. á árinu 2002.
    Niðurgreiðslur á raforku til hitunar íbúðarhúsa hófust árið 1982 og frá þeim tíma og til loka ársins 2000 hafa tæpir 9 milljarðar kr. verið lagðir í þessar niðurgreiðslur. Endurgreiðsla virðisaukaskatts af hitun íbúðarhúsa er ekki inni í þessum tölum.
    Við verðlagningu á raforku til húshitunar hefur þar að auki verið litið á þessa notkun sem viðbótarnotkun og dreifing hennar verið verðlögð út frá því. Dreifing á orku til hitunar húsa hefur því verið verðlögð mun lægra en önnur raforkunotkun.
    Iðnaðarráðherra hefur hingað til falið dreifiveitum raforku og kyntum hitaveitum framkvæmd niðurgreiðslna á orku til húshitunar. Veitunum hefur með bréfi iðnaðarráðuneytis verið tilkynnt um fyrirkomulag niðurgreiðslna svo sem upphæð í kr./kWst eða kr./rúmmetra vatns eftir gjaldskrárflokkum og um hámark notkunar á íbúð sem er niðurgreidd. Veiturnar hafa dregið niðurgreiðsluna frá reikningi notanda. Dreifiveiturnar hafa síðan sent ríkissjóði reikning fyrir veittum niðurgreiðslum á veitusvæði. Reikningar hafa verið greiddir að fenginni staðfestingu Orkustofnunar á að tölulegar upplýsingar séu réttar.

III. Niðurgreiðsla á olíu til hitunar íbúðarhúsa.
    Þegar verð á olíu hækkaði í kjölfar olíukreppanna á 8. áratugi síðustu aldar var ákveðið að greiða niður olíu til hitunar íbúðarhúsa, sbr. lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53 frá 28. maí 1980. Greiddir voru olíustyrkir eftir fjölda íbúa sem höfðu fasta búsetu í íbúð og voru þeir greiddir út ársfjórðungslega. Sveitarfélög önnuðust úthlutun styrkjanna. Þegar olíuverð lækkaði að nýju var hætt að greiða þessa styrki en það var árið 1986. Þar að auki áttu þá flestir landsmenn kost á að kaupa raforku til hitunar íbúðarhúsa. Þó eru nokkur íbúðarhús sem ekki eiga kost á að nýta raforku til hitunar húsnæðis og þegar olíuverð hækkar eins og gerðist á árinu 1999 kemur það illa við þessi heimili. Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda þessara heimila en áætlað hefur verið að þau séu um 60 og þar af um helmingur í Grímsey.

IV. Framlag til nýrra hitaveitna sem nýta jarðvarma.
    Með niðurgreiðslum á raforku til hitunar íbúðarhúsa hefur hvati til að finna heitt vatn á köldum svæðum minnkað þar sem nýjar hitaveitur eiga erfitt með að keppa við niðurgreidda rafhitun til hitunar heimila. Auk þess þurfa húseigendur oft að fara í kostnaðarsamar breytingar til að taka inn hitaveitu svo sem þar sem þilofnar hafa verið notaðir. Haustið 1999 samþykkti ríkisstjórnin tillögur iðnaðarráðherra að reglum um úthlutun styrkja til lagningar nýrra hitaveitna á svæðum sem njóta niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar, sjá fylgiskjal II. Reglurnar eru í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var með samþykkt þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 1999–2001. Í byggðaáætlun var mörkuð sú stefna að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu á rafhitun til íbúðarhúsnæðis til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla með þeim hætti að aukinni notkun jarðvarma til húshitunar. Í byggðaáætluninni var miðað við að styrkir til einstakra hitaveitna gætu numið sömu fjárhæð og sem nam fimm ára niðurgreiðslum til rafhitunar á dreifiveitusvæði nýrra veitna. Auk styrkja til stofnunar nýrra hitaveitna hefur verið unnið að sérstöku jarðhitaleitarátaki á köldum svæðum en þetta er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins, Orkustofnunar og Byggðastofnunar. Hitaveitustyrkirnir og jarðhitaleitarátakið eru hvatar til að stuðla að frekari nýtingu á heitu vatni til hitunar á íbúðarhúsnæði. Frá því að úthlutun styrkja til hitaveitna hófst haustið 1999 hafa sjö veitur fengið slíka styrki samtals að fjárhæð rúmlega 216 millj. kr. Af þessum hitaveitum eru fjórar nýjar en þrjár hafa fengið styrki vegna stækkunar á dreifikerfi. Þær veitur sem höfðu fengið styrki við lok febrúar 2002 eru:
    Millj. kr.
Hitaveita Blönduóss vegna stækkunar dreifikerfis 6,6
Hitaveita Dalabyggðar 39,6
Hitaveita Dalvíkur vegna stækkunar dreifikerfis 25,3
Hitaveita Drangsness 8,7
Hitaveita Skagafjarðar vegna stækkunar dreifikerfis 14,4
Hitaveita Stykkishólms 103,5
Hitaveita Öxarfjarðar 18,0
    Samkvæmt ofangreindum reglum geta veitur sótt um styrk til iðnaðarráðuneytis og þarf veitan að starfa samkvæmt ákvæðum orkulaga, nr. 58/1967. Stjórn viðkomandi hitaveitu skal nýta hluta styrksins til að greiða niður stofnkostnað hitaveitunnar og hluta til að styrkja eigendur húsa þar sem kostnaður við tengingu við starfandi eða nýjar veitur er umtalsverður, svo sem vegna kostnaðarsamra breytinga á hitakerfi. Hvor hluti styrksins má nema allt að 65% af heildarfjárhæðinni.

V. Helstu breytingar frá núgildandi reglum.
    Með frumvarpi þessu er ætlunin að marka með skýrum hætti í lögum þá framkvæmd sem verið hefur á niðurgreiðslum og úthlutun styrkja vegna nýrra hitaveitna eða stækkunar eldri veitna. Nokkrar breytingar eru þó lagðar til. Helstu breytingarnar eru:
     1.      Mögulegt verður að greiða niður hitun með olíu hjá þeim sem ekki eiga kost á annarri hitun.
     2.      Eigendur smávirkjana eiga kost á niðurgreiðslum á rafhitun og verður notkunin þá að vera mæld.
     3.      Ef notuð er varmadæla við hitun íbúðar flokkast orkan inn á hana sem raforka til hitunar og nýtur niðurgreiðslna en þessi notkun hefur ekki verið niðurgreidd. Þak er lægra fyrir þessa notkun en beina rafhitun.
     4.      Hitaveitur sem ekki eru opinberar veitur geta fengið styrk til stofnunar nýrrar veitu eða stækkunar eldri veitu.
     5.      Komið er á opinberu eftirliti með framkvæmd þessara aðgerða.
     6.      Settar eru skýrar reglur um í hvaða tilvikum kyntar hitaveitur skuli njóta niðurgreiðslna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Hér er fjallað um gildissvið frumvarpsins og skilgreiningar á hugtökum sem notuð eru í frumvarpinu.

Um 1. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um gildissvið frumvarpsins. Samkvæmt henni er í frumvarpinu mælt fyrir um með hvaða hætti skuli úthluta fé sem ákveðið er að verja í fjárlögum til þeirra þátta sem tilgreindir eru í 1. og 2. tölul. greinarinnar. Frumvarpið mælir því ekki fyrir um rétt til niðurgreiðslna eða styrkja. Það verður háð fjárlögum hverju sinni hvort verja skuli fjármunum til þessara þátta og hversu miklum.
    Samkvæmt 1. tölul. nær frumvarpið til niðurgreiðslu kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Kostnaður við hitun húsnæðis er mismikill á milli svæða hér á landi. Þau svæði þar sem tiltækur er aðgengilegur jarðvarmi hafa getað nýtt sér hann til hitunar húsnæðis á mjög hagkvæman hátt. Á þessum svæðum hefur því verið ódýrt að hita hús og hafa aðrir orkugjafar ekki getað keppt við jarðvarma. Þau svæði sem ekki njóta jarðvarma hafa þurft að nota dýrari orku til húshitunar. Stjórnvöld hafa því, eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið, talið rétt að minnka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim landsmönnum sem ekki eiga kost á orku frá hitaveitu sem nýtir jarðvarma. Með húshitun er bæði átt við notkun orku til hitunar húsnæðis og neysluvatns. Með fullri hitun með jarðvarma er átt við að hitunarþörf íbúðarhúsnæðis sé allri mætt með jarðvarma. Í sumum tilvikum er slíkt ekki hægt og er þá t.d. notuð raforka til að skerpa á vatninu. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að niðurgreiða húshitunarkostnað í slíku húsnæði. Hugtakið íbúðarhúsnæði er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. tölul. nær frumvarpið einnig til þess með hvaða hætti skuli staðið að greiðslu styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna. Fyrstu hitaveitur landsins voru stofnaðar á þeim svæðum þar sem hagkvæmast var að nýta jarðvarma til hitunar. Þær hitaveitur sem komið hafa til á undanförnum árum eru í flestum tilvikum ekki eins hagkvæmar og eldri veiturnar. Til að niðurgreiðslur á rafhitun komi ekki í veg fyrir stofnun nýrra hitaveitna hafa stjórnvöld veitt nýjum hitaveitum styrki við stofnun þeirra. Með hitaveitum er átt við allar veitur óháð því hvort þær njóta einkaleyfis til starfseminnar samkvæmt orkulögum. Er því lagt til að gildandi reglur sem úthlutun hefur byggst á verði rýmkaðar en þær ná eingöngu til opinberra veitna.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið við framkvæmd niðurgreiðslna á kostnaði við hitun íbúðarhúsnæðis er lagt til að húshitunarkostnaður sé almennt eingöngu niðurgreiddur þar sem einhver hefur fasta búsetu, þ.e. lögheimili. Frá þessu eru þó ákveðnar undantekningar, sbr. 4. gr. Í 1. mgr. er að finna skilgreiningu á hugtakinu íbúð sem byggist á framangreindri meginreglu. Samkvæmt skilgreiningunni er íbúð það húsnæði þar sem einhver hefur fasta búsetu. Auk þess þarf íbúðin að hafa sjálfstætt skráningarnúmer í Landskrá fasteigna. Það skiptir máli hvort ein eða fleiri íbúðir eru í sama húsnæði ef mæling á raforkunotkun fer um einn mæli. Þetta er vegna þess að miðað er við að ráðherra ákvarði hámarksnotkun sem niðurgreiða skal fyrir íbúð, sbr. 2. mgr. 6. gr. Ástæða þykir til að taka sérstaklega fram að dvalarheimili aldraðra teljist íbúðarhúsnæði samkvæmt lögunum. Er kostnaður við hitun slíks húsnæðis niðurgreiddur nú.
    Í 2. mgr. er hugtakið veitusvæði hitaveitu skilgreint. Samkvæmt skilgreiningunni er veitusvæði hitaveitu það svæði þar sem hún hefur sérleyfi til dreifingar á heitu vatni á grundvelli orkulaga, nr. 58/1967.
    Kynt hitaveita er í 3. mgr. skilgreind sem hitaveita sem notar aðra orkugjafa en jarðvarma, svo sem rafmagn eða olíu, til að hita vatn til dreifingar um dreifikerfi veitunnar. Allar veitur sem nýta slíka hitun falla undir þetta hugtak jafnvel þó að einungis hluti orkuöflunarinnar sé á þennan veg. Með hitaveitu er hér átt við samtengt veitukerfi þannig að veitur í tveimur þéttbýlisstöðum sem ekki eru tengdar saman eru tvær veitur þó svo að sami aðili eigi báðar veiturnar.
    Í 4. mgr. er rafhitun skilgreind. Skilgreining er í samræmi við þann skilning sem lagður hefur verið í orðið við núverandi framkvæmd að því frátöldu að eðlilegt þykir að raforkunotkun varmadælu teljist rafhitun í ljósi þess að varmadælan hitar vatn sem nýtt er til hitunar íbúðarhúsa.

Um II. kafla.

    Í þessum kafla eru þau ákvæði sem eiga við um niðurgreiðslur á hitun íbúðarhúsa hvort sem hún er með raforku, vatni frá kyntri hitaveitu eða olíu.

Um 4. gr.

    Í greininni er afmarkað hverjir geti notið niðurgreiðslna. Niðurgreiðslur miðast við íbúð eins og hugtakið er skilgreint í 3. gr. Samkvæmt því er lagt til að sömu sjónarmið gildi og nú, þ.e. að niðurgreiða megi kostnað vegna hitunar íbúðarhúsnæðis en ekki atvinnuhúsnæðis eða sumarbústaða. Nokkrar breytingar eru lagðar til á þeirri framkvæmd sem viðhöfð hefur verið. Í 1. tölul. 1. mgr. er þó að finna sömu reglur og nú er beitt. Í 2. tölul. er ný regla sem afmarkar hverjir geti notið niðurgreiðslna á starfssvæði hitaveitna. Ef íbúð er á veitusvæði hitaveitu en kostnaður er mikill við tengingu hennar við veituna á eigandi hennar kost á niðurgreiddri raforku. Ekki er því hægt að nota niðurgreiðslurnar til að þvinga notendur til að tengjast hitaveitu. Miðað er við að borinn sé saman kostnaður notandans af rafhitun næstu tíu árin miðað við þá gjaldskrá sem er í gildi þegar samanburðurinn er gerður og hins vegar kostnaður við hitun frá hitaveitunni að teknu tilliti til tengigjalda en ekki kostnaðar vegna breytingar á hitakerfi hjá húseiganda. Í 3. tölul. er lagt til að þeir sem nota olíu til húshitunar geti að tilteknum skilyrðum uppfylltum notið styrkja en svo er ekki nú. Í 4. tölul. er svo að finna skýra reglu um hvaða kyntu hitaveitur geti notið niðurgreiðslna. Ef raforka eða eldsneyti er einungis notað hjá hitaveitu í miklum kuldum til að mæta hæstu toppum verður slíkt ekki niðurgreitt né heldur þegar rafmagn er notað til að skerpa á vatni og sá þáttur er innan við 10% af heildarorkuöflun veitunnar.
    Íbúðir geta staðið auðar tímabundið og er í 2. mgr. miðað við að eigandi geti líkt og nú notið niðurgreiðslna áfram eftir að flutt er út úr íbúð. Hér undir geta fallið félagslegar íbúðir í eigu sveitarfélaga sem standa auðar og ónotaðar. Gera má ráð fyrir að ef íbúð stendur auð í lengri tíma minnki orkunotkun til húshitunar verulega þar sem ekki er þá um neitt neysluvatn að ræða, orkutap verður minna auk þess sem eðlilegt er þá að lækka innihitastig sem minnkar orkunotkun. Lagt er til að niðurgreiðslur falli niður ef eigendaskipti verða á íbúð sem staðið hefur auð.
    Kostnaður við hitun kirkna er niðurgreiddur nú. Í samræmi við það og til að tryggja samræmda framkvæmd er lagt til í 3. mgr. að kostnaður við hitun bænahúsa trúfélaga skuli niðurgreiddur. Um er að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að eingöngu hitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis skuli niðurgreiddur.
    Til að taka af tvímæli er í 4. mgr. mælt fyrir um að ekki skuli greiða niður dælingu á heitu vatni enda er þar ekki um hitanotkun að ræða.

Um 5. gr.

    Óski eigandi íbúðar að fá niðurgreiðslur skal hann sækja um þær til Orkustofnunar. Orkustofnun getur ákveðið á hvaða formi umsóknir skuli berast. Þá getur Orkustofnun ákveðið hvaða upplýsingar skuli fylgja umsókn. Um getur verið að ræða allar upplýsingar sem máli skipta við ákvörðun á því hvort viðkomandi skuli njóta niðurgreiðslna og til að auðkenna viðkomandi umsækjanda og íbúð. Sömu reglur gilda í þessu sambandi um þá sem nú njóta niðurgreiðslna og nýja aðila, þ.e. allir þurfa að sækja um niðurgreiðslur vilji þeir njóta þeirra, sbr. bráðabirgðaákvæði I með frumvarpinu.
    Gert er ráð fyrir að Orkustofnun vinni náið með dreifiveitum raforku og kyntum veitum við að safna inn gögnum og umsóknum. Mikilvægt er að í upphafi séu bornar saman upplýsingar um þá sem nú njóta niðurgreiðslna og þá sem sækja um niðurgreiðslur svo að þeir sem notið geta niðurgreiðslna verði upplýstir um rétt sinn.
    Gert er ráð fyrir að einungis þurfi að sækja um niðurgreiðslur á raforku fyrir íbúð í eitt skipti fyrir öll. Verði eigendaskipti á íbúð þarf nýr eigandi ekki að sækja aftur um niðurgreiðslu til Orkustofnunar. Þetta á þó ekki við ef húsnæði stendur autt, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þá verður að sækja um styrk þegar föst búseta fellur niður og síðan á 12 mánaða fresti eftir það.

Um 6. gr.

    Það er háð fjárlögum hverju sinni hvort og hversu hárri fjárhæð á að verja til niðurgreiðslna á orku til húshitunar. Iðnaðarráðherra ákveður út frá fjárlögum upphæð niðurgreiðslu í kr./kWst, kr./ m3 og í kr./l og getur hún verið önnur fyrir kyntar hitaveitur en fyrir rafhitun eins og nú er enda getur orkuverð þeirra verið annað en við beina rafhitun. Allar hitaveitur sem nýta rafmagn eða olíu til að hita vatn til dreifingar eiga rétt á niðurgreiðslum en upphæð niðurgreiðslunnar ræðst af því hve stór hluti þetta er að heildarorkuöfluninni. Upphæð niðurgreiðslu í kr./kWst eða kr./ m3 er því breytileg á milli kyntra hitaveitna. Til að þeir sem hita íbúðir sínar með olíu á þeim svæðum þar sem slík hitun er niðurgreidd standi ekki verr hvað þetta varðar en þeir sem eiga kost á rafhitun er miðað við að niðurgreiðslur á olíu leiði til þess að kostnaður sé svipaður og við niðurgreidda rafhitun.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um hámarksfjölda kWst og út frá því hámarksfjölda lítra af olíu sem niðurgreiða skal fyrir hverja íbúð. Slíkt þak var síðast ákveðið af iðnaðarráðherra á árinu 2000 og er það nú 50.000 kWst. Miða ber við að þakið sé sambærilegt fyrir rafhitun og hitun með olíu. Þegar þakið hefur verið ákvarðað fyrir rafhitun er það reiknað fyrir olíu út frá áætlaðri nýtni kynditækja og orkuinnihaldi olíunnar.

Um 7. gr.

    Rafhitun íbúðarhúsnæðis er nú yfirleitt sérmæld. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að ekki sé gerð krafa um slíkt þar sem það leiðir til aukins kostnaðar fyrir notendur við mælingu. Einungis er þá um einn mæli að ræða á heimili sem mælir bæði þá notkun sem fer til hitunar húsnæðis og einnig þá sem fer til almennra heimilisnota auk þess sem um getur verið að ræða notkun við atvinnustarfsemi inni á heimili, svo sem í landbúnaði. Meta þarf þá hve stór hluti notkunar er vegna hitunar íbúðarhúsnæðis, þ.m.t. hitun neysluvatns. Gert er ráð fyrir að Orkustofnun skilgreini almenn hlutföll sem gilda um þessa skiptingu og þá sé horft til þess hver önnur notkun er. Um tvo meginflokka yrði að ræða, þ.e. almenna rafhitun heimila utan landbúnaðar og heimila á býlum. Í einstaka tilvikum getur þurft að skilgreina hlutfallið sérstaklega, svo sem þar sem atvinnustarfsemi er inni á heimilinu og raforka til hennar fer um sama mæli. Ef notandi sættir sig ekki við það hlutfall sem Orkustofnun skilgreinir getur hann fengið sér mæli fyrir rafhitunina en hann þarf þá að greiða allan kostnað við slíkt.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að Orkustofnun áætli olíunotkun íbúðar og byggi hana á stærð húsnæðisins og notkun þess ef slíkar upplýsingar liggja fyrir. Því er ekki gert ráð fyrir að fengnar séu upplýsingar um raunverulega olíunotkun enda væri mikil óvissa í þeim gögnum og framkvæmdin flókin. Ef óvissa er um það hvernig notkun húsnæðisins er háttað getur Orkustofnun farið fram á upplýsingar frá húseiganda sem nauðsynlegar eru til að ákvarða olíunotkunina.

Um 9. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um framkvæmd niðurgreiðslna á raforku og heitu vatni frá kyntum hitaveitum. Lagt er til að sami háttur verður hafður og nú er, þ.e. að dreifiveitu eða hitaveitu verði falið að koma niðurgreiðslunni til skila. Mikilvægt er að notandi sjái upphæð niðurgreiðslunnar þannig að hann geri sér grein fyrir hve mikið hið opinbera greiðir notkunina niður og sjái hver raunverulegur kostnaður er við hitunina. Er því lagt til að upplýsingar um þetta komi fram á þeim reikningi eða yfirliti sem berst notanda. Ef dreifiveita sendir einungis út reikning fyrir dreifingu og flutningi en reikningur vegna orkukaupa kemur frá öðrum aðila getur komið upp sú staða að niðurgreiðslan sé hærri en reikningurinn og myndast þá innistæða hjá veitunni. Veitunni ber þá að greiða notandanum þessa innistæðu.
    Niðurgreiðslur fyrir rafhitun og heitt vatn greiðast jafnóðum og notendur fá reikninga frá viðkomandi veitu. Aftur á móti er niðurgreiðslan á olíu greidd ársfjórðungslega. Niðurgreiðslur á olíu í kr./l eru reiknaðar út frá raunverulegu olíuverði ársfjórðungs og miðað við kostnað við rafhitun.

Um 10. gr.

    Orkustofnun sér um að reikna út og greiða niðurgreiðslur á olíu og er miðað við að greitt sé ársfjórðungslega. Orkustofnun þarf því að safna jafnóðum gögnum um olíuverð til að slíkt sé mögulegt.

Um III. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um styrki til nýrra jarðvarmaveitna. Byggt er á því að lögfestar verði sömu reglur og gilt hafa samkvæmt ákvörðun iðnaðarráðherra til þessa. Þó er lagt til að allar hitaveitur geti átt rétt á styrk en ekki eingöngu þær sem teljast opinberar veitur eins og núgildandi reglur mæla fyrir um.

Um 11. gr.

    Samkvæmt þessari grein geta styrkir sem ákveðnir eru í fjárlögum til nýrra hitaveitna eða stækkunar eldri veitna náð til veitna sem hafa hafið rekstur á árinu 1998 eða síðar eða aukið við dreifikerfi sitt á árinu 1998 eða síðar til að tengja íbúðarhúsnæði sem notið hefur niðurgreiðslna á rafhitun.

Um 12. gr.

    Fjárhæð styrks nemur að hámarki fimm ára niðurgreiðslum á rafhitun hjá þeim notendum sem tengjast hitaveitunni. Fengnar eru upplýsingar um upphæð niðurgreiðslna fyrir síðasta ár frá viðkomandi dreifiveitu og sú upphæð notuð til að reikna fimm ára niðurgreiðslur. Ef veitan hefur notið annarra styrkja, svo sem vegna jarðhitaleitar, skulu þeir koma til frádráttar við úthlutun þessa styrks.

Um 13. gr.

    Iðnaðarráðuneyti fær umsóknir um styrki og skulu fylgja þeim upplýsingar um fyrirhugaða hitaveitu eða stækkun eldri veitu auk þess hvernig ráðstafa eigi styrknum. Miðað er við að sendar verði sömu upplýsingar og krafist er nú, svo sem hvernig húsráðendum sem þurfa að leggja í kostnaðarsamar breytingar verði veitt aðstoð.

Um 14. gr.

    Styrkur til hitaveitu er ekki greiddur fyrr en veitan hefur starfsemi og er hann greiddur í einu lagi nema ef tengingu húsa er áfangaskipt. Greiðsla getur þó ekki beðið lengur en níu mánuði.
    Það getur verið kostnaðarsamt að gera breytingar á hitakerfi íbúða ef um þilofnahitun er að ræða þar sem þá þarf að leggja nýtt vatnshitakerfi í húsið og því er gert ráð fyrir að hluti styrksins fari til íbúðareigenda vegna slíkra breytinga.

Um 15. gr.

    Þegar ný hitaveita tekur til starfa gilda sömu reglur á starfssvæði hennar og um eldri veitur hvað varðar niðurgreiðslur. Þær falla því niður um leið og notandi á kost á tengingu við veituna. Orkustofnun fær upplýsingar um tengingar frá hitaveitunni og sendir íbúðareiganda tilkynningu um niðurfellingu. Í núgildandi reglum er miðað við að tenging eigi sér stað í mesta lagi á níu mánaða tímabili og að því loknu falla allar niðurgreiðslur á rafhitun niður og styrkurinn er greiddur að fullu.

Um IV. kafla.

    Fjallað er um eftirlit með framkvæmd laganna í þessum kafla en Orkustofnun verður eftirlitsaðili með öllum þáttum.

Um 16. gr.

    Lagt er til í 1. mgr. að Orkustofnun verði falið eftirlit með framkvæmd laganna. Mun það einkum felast í skráningu upplýsinga vegna niðurgreiðslna og með því að orkunotkun samræmist þeim upplýsingum sem stofnunin hefur um húsnæði. Eftirlit með því að réttir aðilar njóti niðurgreiðslna er nú í höndum dreifiveitna. Æskilegt er að einn aðili sjái um eftirlitið til að tryggja samræmda framkvæmd. Augljóslega verður Orkustofnun að leita eftir upplýsingum frá dreifiveitunum við framkvæmd eftirlitsins þar sem þær eru í beinum tengslum við notendurna. Verður Orkustofnun að sjá til þess að þær upplýsingar sem Orkustofnun þarf á að halda til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu liggi fyrir hjá stofnuninni.
    Ef breytingar verða á aðstæðum, t.d. vegna þess að íbúðarhúsnæði er breytt í atvinnuhúsnæði, sumarbústað eða ný hitaveita kemur til sögunnar, ber raforkukaupanda skv. 2. mgr. að viðlagðri ábyrgð að tilkynna slíkt til Orkustofnunar.
    Orkustofnun þarf árlega að meta kostnað sinn við eftirlitið og ef ráðherra samþykkir þá áætlun er kostnaðurinn tekinn af því fé sem samþykkt er í fjárlögum til niðurgreiðslna og styrkja.

Um 17. gr.

    Sú skylda er lögð á dreifiveitur og flutningsfyrirtæki að þau afhendi Orkustofnun þau gögn sem nauðsynleg eru vegna eftirlits stofnunarinnar samkvæmt þessum lögum.

Um 18. gr.

    Eiganda íbúðar ber að tilkynna um breyttar aðstæður varðandi niðurgreiðslur.

Um V. kafla.

    Í þessum kafla eru ýmis ákvæði.

Um 19. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð á grundvelli laganna. Mikilvægt er að þau sjónarmið sem ráðherra byggir á ákvörðun um upphæð niðurgreiðslna, sbr. 1. mgr. 6. gr., og þak á niðurgreiðslum, sbr. 2. mgr. 6. gr., liggi skýr fyrir. Einnig þarf að koma fram á hvern hátt orkumagn sem niðurgreiða á er áætlað en nokkur óvissa er um það, svo sem vegna breytilegs veðurfars, og því nokkur óvissa um heildarupphæð niðurgreiðslna ár hvert. Þá getur þurft að mæla fyrir um með ítarlegri hætti hvernig skuli staðið að úthlutun styrkja til nýrra hitaveitna.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Lagt er til í ákvæðinu að allir þeir sem njóta niðurgreiðslna nú verði að sækja um þær innan tiltekins tíma frá gildistöku laganna eigi þeir að njóta þeirra áfram. Er með því ætlunin að fá skýra mynd af því hverjir eigi að njóta niðurgreiðslna og tryggja samræmi í þeim efnum. Eins og áður segir hefur matið á þessu verið í höndum einstakra dreifiveitna og samræmi við framkvæmd því ekki að fullu tryggt. Mikilvægt er að kynna umsóknarskylduna rækilega svo að tryggja megi eftir fremsta megni að niðurgreiðslur falli ekki niður hjá þeim sem eiga rétt á þeim og óska þess að njóta þeirra.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Niðurgreiðslur á olíu til hitunar íbúðarhúsa þeirra sem ekki eiga kost á hitun með hitaveitu eða raforku, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr., skulu greiðast fyrst vegna ársins 2002.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Hlutur jarðhita í orkunotkun til húshitunar hér á landi er nú um 88%. Það sem eftir stendur er að langmestu leyti rafhitun, bein og óbein, og alls eru yfir 500 GWst af raforku notaðar árlega til húshitunar. Því er nauðsynlegt að freista þess að nýta jarðhita til húshitunar enn frekar og víða eru möguleikar á aukinni jarðhitanotkun. Margt bendir til að varmadælur kunni að vera heppilegar hér á landi til húshitunar á svæðum þar sem volgrur er að finna, sem ekki hefur verið unnt að nýta til beinnar hitunar hingað til. Varminn sem fæst með notkun varmadælu er oftast á bilinu þreföld til fimmföld sú raforka sem notuð er og því getur notkun hennar verið afar hagkvæm.
    Til þessa hafa varmadælur enn ekki náð verulegri útbreiðslu hér á landi. Ein af ástæðum fyrir því er eflaust hin almenna notkun jarðhitans við húshitun, en einnig ber að nefna að niðurgreiðslur ríkisins til húshitunar hafa ekki örvað menn til aukinnar notkunar á varmadælum. Ef varmadælur kæmu í stað beinnar rafhitunar gætu sparast 300 GWst á ári að teknu tilliti til orkunotkunar dælnanna. Árlegt verðmæti þessarar orku nemur hundruðum milljóna króna en mestu varðar að með notkun varmadælna gætu niðurgreiðslur stórlega lækkað eða fallið að mestu niður. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilað sé að greiða niður raforku fyrir varmadælur á sama hátt og rafhitun og mun það vafalaust verða til að auka notkun þeirra.
    Hér er lagt til að gerð verði rannsókn á möguleikum á notkun varmadælna á þeim svæðum sem ekki hafa hitaveitu til upphitunar í því skyni að meta hagkvæmni þessarar aðferðar. Jafnframt er ætlunin að kynna hugsanlegum notendum vel kosti varmadælunnar og gefa þeim ráð í þeim efnum, enda um lítt þekktan kost að ræða hér á landi. Þar sem varmadælur reynast fýsilegur kostur gæti notkun þeirra sparað notendum og ríkinu umtalsverðar fjárhæðir eins og að framan segir.Fylgiskjal I.


Bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.
(8. ágúst 2001.)


    Reglur um niðurgreiðslur á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis eru að stofni til frá árinu 1986. Frá þeim tíma hefur hlutur niðurgreiðslna aukist verulega jafnframt því sem orkufyrirtæki veita nú afslátt af raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis. Fram hafa komið ábendingar frá orkufyrirtækjum um að gildandi reglur séu ekki nægilega skýrar jafnframt því sem þær takmarki möguleika fyrirtækjanna til að draga úr kostnaði við rekstur og aðlaga gjaldskrár að breyttum forsendum bæði varðandi mælitæki og orkuöflun. Einnig hefur verið á það bent að eftirlit með niðurgreiðslunum er mjög erfitt. Þá mun breytt skipan orkumála sem unnið er að líklega kalla á breytingar á þessum reglum.
    Með vísan til þess sem að ofan segir og að fé til niðurgreiðslna var aukið í 760 millj. kr. á fjárlögum ársins 2000 og í 790 millj. kr. á fjárlögum yfirstandandi árs hefur iðnaðarráðherra ákveðið að skipa nefnd til að gera tillögur um frumvarp til laga um niðurgreiðslur á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis. Með tillögunum skulu núgildandi reglur lagaðar að breyttum aðstæðum og tryggður skýr lagagrundvöllur fyrir úthlutun á fé til niðurgreiðslna. Þá skal nefndin gera tillögur um með hvaða hætti viðkomandi orkufyrirtæki geta komið upplýsingum um niðurgreiðslur til notenda.
    Þér eruð hér með skipaðir í nefndina og jafnframt falið að gegna þar formennsku. Í nefndinni eiga sæti:
    Helgi Bjarnason, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti, formaður.
    Árni Ragnarsson, deildarstjóri á orkubúskapardeild Orkustofnunar, tilnefndur af Orkustofnun.
    Elías B. Elíasson, deildarstjóri þróunarmála hjá Landsvirkjun, tilnefndur af Landsvirkjun.
    Friðrik Friðriksson, veitustjóri hjá Bæjarveitum Vestmannaeyja, tilnefndur af Bæjarveitum Vestmannaeyja.
    Guðmundur Guðmundsson, deildarstjóri markaðs- og söludeildar Rafmagnsveitna ríkisins, tilnefndur af Rafmagnsveitum ríkisins.
    Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða hf., tilnefndur af Orkubúi Vestfjarða hf.
    Magnús B. Jónsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, tilnefndur af samtökunum.
    Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur í iðnaðarráðuneyti.
    Starfsmaður nefndarinnar verður Jón Vilhjálmsson, rafmagnsverkfræðingur.
    Jafnframt mun Margrét Einarsdóttir, laganemi, starfa með nefndinni.
    Nefndin skal ljúka störfum fyrir 1. nóvember 2001.
    Þóknun fyrir störf nefndarinnar verður metin af þóknananefnd.

Fylgiskjal II.


Skilabréf nefndar um niðurgreiðslur
til iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

(28. febrúar 2002.)


    Hinn 8. ágúst 2001 skipuðuð þér nefnd til að gera tillögur um frumvarp til laga um niðurgreiðslur á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis.
    Í nefndina voru eftirtaldir aðilar skipaðir:
    Helgi Bjarnason, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti, formaður.
    Árni Ragnarsson, deildarstjóri á orkubúskapardeild Orkustofnunar, tilnefndur af Orkustofnun.
    Elías B. Elíasson, deildarstjóri þróunarmála hjá Landsvirkjun, tilnefndur af Landsvirkjun.
    Friðrik Friðriksson, veitustjóri hjá Bæjarveitum Vestmannaeyja, tilnefndur af Bæjarveitum Vestmannaeyja.
    Guðmundur Guðmundsson, deildarstjóri markaðs- og söludeildar Rafmagnsveitna ríkisins, tilnefndur af Rafmagnsveitum ríkisins.
    Kristján Haraldsson, orkubússtjóri, tilnefndur af Orkubúi Vestfjarða hf.
    Magnús B. Jónsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, tilnefndur af samtökunum.
    Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur í iðnaðarráðuneyti.
    Starfsmaður nefndarinnar var Jón Vilhjálmsson rafmagnsverkfræðingur og tímabundið Margrét Einarsdóttir laganemi.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að með tillögunum að lagafrumvarpi skuli núgildandi reglur lagaðar að breyttum aðstæðum og skýr lagagrundvöllur tryggður fyrir úthlutun á fé til niðurgreiðslna. Þá skyldi nefndin gera tillögur um með hvaða hætti viðkomandi orkufyrirtæki gætu komið upplýsingum um niðurgreiðslur til notenda og hvernig eftirliti með niðurgreiðslum yrði best fyrir komið. Í starfi nefndarinnar kom í ljós að heppilegt væri að frumvarpið myndi einnig ná til niðurgreiðslna á olíuhitun og stofnstyrkja vegna nýrra hitaveitna. Var því umfang frumvarpsins aukið þannig að efni þess tekur einnig til framangreindra atriða.
    Nefndin telur að með frumvarpsdrögum þessum hafi tekist að móta lagatexta, sem setur umgjörð um þá framkvæmd, sem verið hefur á niðurgreiðslum á raforku til húshitunar og úthlutun styrkja til nýrra hitaveitna eða stækkunar þeirra. Nefndin leggur þó til nokkrar breytingar í frumvarpsdrögunum frá núgildandi fyrirkomulagi. Þær eru helstar þessar:
     *      Mögulegt verður að greiða niður hitun með olíu hjá þeim sem ekki eiga kost á annarri hitun.
     *      Eigendur smávirkjana eiga kost á niðurgreiðslum á rafhitun og verður notkunin þá að vera mæld.
     *      Ef notuð er varmadæla við hitun íbúðar flokkast orkan inn á hana sem raforka til hitunar og nýtur niðurgreiðslna en þessi notkun hefur ekki verið niðurgreidd. Þak er lægra fyrir þessa notkun en beina rafhitun.
     *      Settar eru skýrar reglur um í hvaða tilvikum kyntar hitaveitur skuli njóta niðurgreiðslna.
     *      Komið verður á opinberu eftirliti með framkvæmd þessara aðgerða.
    Meðfylgjandi eru drög að frumvarpi til laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar ásamt almennum athugasemdum og athugasemdum við einstakar greinar þess.
    Nefndin hefur haldið samtals 7 fundi og er störfum hennar með skilum á meðfylgjandi frumvarpsdrögum hér með lokið.

Reykjavík, 28. febrúar 2002.

Helgi Bjarnason,
formaður.
Árni Ragnarsson. Elías B. Elíasson.
Friðrik Friðriksson. Guðmundur Guðmundsson.
Kristján Haraldsson. Kristín Haraldsdóttir.
Jón Vilhjálmsson,
starfsmaður nefndarinnar.
Magnús B. Jónsson.


Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.


    Tilgangur frumvarpsins er að marka skýrt í lögum þá framkvæmd sem verið hefur á niðurgreiðslum og úthlutunum styrkja til nýrra hitaveitna eða stækkunar eldri veitna. Nokkrar breytingar eru þó lagðar til. Helstu breytingarnar eru að mögulegt verður að greiða niður hitun með olíu hjá þeim sem ekki eiga kost á annarri hitun. Eigendur smávirkjana eiga kost á niðurgreiðslu á rafhitun. Ef notuð er varmadæla við hitun íbúðar flokkast orkan inn í hana sem raforka til hitunar og nýtur niðurgreiðslu. Þak er lægra fyrir þessa notkun en beina rafhitun. Hitaveitur í einkaeigu geta fengið stofnstyrki. Loks er lagt til að komið verði á eftirliti með framkvæmd reglnanna og settar eru skýrar reglur um í hvaða tilvikum hitaveitur skuli njóta niðurgreiðslna.
    Samkvæmt 16. gr. frumvarpsins sér Orkustofnun um framkvæmd og eftirlit niðurgreiðslna. Gert er ráð fyrir að kostnaður stofnunarinnar vegna þessa verði 19 m.kr. fyrsta árið en fari síðan lækkandi niður í 12,5 m.kr. á ári eftir það. Gert er ráð fyrir 1,2 stöðugildum, aðkeyptri vinnu, eftirlitsferðum, hugbúnaði og aðgangi að Landskrá fasteigna. Þá má gera ráð fyrir að niðurgreiðslur á olíukyndingu kosti um 8–10 m.kr á ári, niðurgreiðsla á rafhitun smávirkjana er talin nema um 6–8 m.kr árlega og notkun varmadæla við húshitun lækkar kostnað við niðurgreiðslu á rafhitun. Frumvarpið mælir ekki fyrir um rétt til niðurgreiðslna eða styrkja. Það verður háð fjárlögum hverju sinni hvort verja skuli fjármunum til einstakra verkefna og þá hve miklum.
    Samkvæmt fjárlögum 2001 er gert ráð fyrir að niðurgreiðslur á rafhitun nemi 790 m.kr. Þessi tala hækkaði í 853 m.kr. árið 2002. Raunkostnaður fyrir árið 2001 var hins vegar um 700 m.kr. Gert er ráð fyrir að ákvarðanir um stofnstyrki, niðurgreiðslur og eftirlit verði teknar með tilliti til þeirra fjárveitinga sem til ráðstöfunar eru samkvæmt fjárlögum hverju sinni.