Ferill 650. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1049  —  650. mál.
Frumvarp til lagaum eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

     Kvikmynd merkir í lögum þessum hvers kyns hreyfimyndaefni sem gert er með hvers konar tækni, þar með taldar leiknar kvikmyndir og teiknimyndir, hvort sem ætlað er til sýningar í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða öðrum myndflutningstækjum.
     Ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum. Þegar sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndar eða vegna listræns gildis hennar telst kvikmynd ekki ofbeldiskvikmynd í framangreindum skilningi.

2. gr.

    Bannað er að sýna ungmennum undir sjálfræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og bönnuð er sala og önnur dreifing á slíkum myndum til ungmenna sem hafa ekki náð þeim aldri, sbr. þó 4. mgr. Ef kvikmynd telst vera ofbeldiskvikmynd er skylt að láta þess getið alls staðar þar sem við á, svo sem í auglýsingum, annarri kynningu á myndinni og merkingu skv. 5. mgr. þessarar greinar.
    Þeir aðilar sem framleiða kvikmyndir til sýningar hér á landi og eru búsettir hérlendis, hafa kvikmyndir til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar í atvinnuskyni skulu til leiðbeiningar fyrir foreldra og aðra forráðamenn barna meta eða láta meta allar myndir sem eru ætlaðar til sýningar fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri.
    Nú telst rétt við mat kvikmyndar að takmarka sýningu hennar eða afhendingu við tiltekið aldursskeið innan sjálfræðisaldurs þar sem myndin telst geta haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna og skal þess þá getið í matsniðurstöðu um myndina.
    Hvaða kvikmynd sem er má hafa til sýningar opinberlega fyrir börn sem náð hafa sjö ára aldri, enda horfi þau á myndina í fylgd foreldris eða annars forráðamanns.
    Öll eintök kvikmyndar og hvers konar umbúðir skulu greinilega merkt um mat myndarinnar skv. 1.–3. mgr. þessarar greinar, sem og um það ef kvikmynd er aðeins ætluð til sýningar fyrir fullorðna áhorfendur.
    Í öllum auglýsingum og annarri kynningu á kvikmynd skal getið um mat hennar samkvæmt þessari grein, sem og ef mynd er aðeins ætluð til sýningar fyrir fullorðna áhorfendur.
    Þeir aðilar sem taldir eru upp í 2. mgr. skulu gæta þess að aðgangur að sýningum og afhending á kvikmyndum sé í samræmi við reglur þessarar greinar.

3. gr.

    Ákvæði laga þessara taka ekki til frétta- og fræðsluefnis.

4. gr.

    Brot gegn 2. gr. varða sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Um rannsókn og meðferð mála vegna meintra brota á 2. gr. fer að hætti laga um meðferð opinberra mála.
    Heimilt er að gera upptæka kvikmynd ef sýning, sala eða dreifing hennar fer í bága við ákvæði laga þessara eða annarra laga. Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs.
    Nú fær Barnaverndarstofa vitneskju eða rökstudda ábendingu um að mat á sýningarhæfni kvikmyndar sé í andstöðu við 1. eða 3. mgr. 2. gr. eða að skilyrðum 2. mgr. 2. gr. hafi ekki verið fullnægt og er henni þá heimilt að stöðva sýningu og dreifingu hennar tímbundið í einn sólarhring, með tilkynningu til ábyrgðaraðila skv. 2. mgr. 2. gr. Á meðan bannið varir skal mat eða endurmat á sýningarhæfni kvikmyndarinnar fara fram hjá ábyrgðaraðila sem tilkynnir síðan Barnaverndarstofu niðurstöðu sína. Að fenginni slíkri tilkynningu skal Barnaverndarstofa án undandráttar taka ákvörðun um hvort stofnunin sætti sig við matið eða kæri sýningu eða dreifingu kvikmyndarinnar til lögreglu.

5. gr.

    Menntamálaráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt eru felld úr gildi lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995. Enn fremur er felldur úr gildi 2. málsl. 56. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, svohljóðandi: „Þeim er veitir forstöðu skemmtun eða sýningu sem ætla má að börn muni sækja er skylt að kveðja til barnaverndarnefnd eða fulltrúa hennar og gefa nefndinni kost á að kynna sér efni sýningar á undan almenningi.“

Ákvæði til bráðabirgða.

    Skipun skoðunarmanna Kvikmyndaskoðunar og ráðning forstöðumanns Kvikmyndaskoðunar samkvæmt lögum nr. 47/1995 fellur niður við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Meginástæðan fyrir flutningi þess er sú að í þeirri heildarendurskoðun sem gerð var á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar með stjórnskipunarlögum, nr. 97/1995, um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, var m.a. vernd skoðanafrelsis og tjáningarfrelsis mjög styrkt í sessi hér á landi, sbr. nú 73. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 11. gr. framangreindra stjórnskipunarlaga. Samkvæmt viðurkenndri skýringu á 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, nær vernd tjáningarfrelsis nú til hvers konar tjáningar án tillits til efnis og þess forms, sem tjáning birtist í. Meðal annars nær vernd tjáningarfrelsis til kvikmynda.
    Önnur ástæða fyrir flutningi frumvarps þessa er sú almenna stefna sem mörkuð hefur verið að opinber eftirlitsstarfsemi sé ekki umfangsmeiri en þörf er á. Þessi stefnumótun kemur fram í lögum nr. 27 18. mars 1999, um opinberar eftirlitsreglur, en þau lög ná til reglna um sérstakt eftirlit á vegum hins opinbera með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja. Það er markmið þeirra laga að opinbert eftirlit stuðli að velferð þjóðarinnar, öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, eðlilegum viðskiptaháttum og neytendavernd. Þá má eftirlit á vegum hins opinbera ekki leiða til mismununar né takmarka athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist. Samkvæmt lögunum starfar sérstök ráðgjafarnefnd, skipuð af forsætisráðherra, að framkvæmd laganna og skal starf nefndarinnar miða að því að opinberar eftirlitsreglur séu í samræmi við þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því, sem og að eftirlit á vegum hins opinbera sé jafnan eins hagkvæmt og kostur er fyrir þau fyrirtæki og einstaklinga sem eftirlitið beinist að og fyrir hið opinbera. Nefndin getur beint tilmælum til forsætisráðherra og annarra ráðherra um að eftirlitsreglur verði endurskoðaðar.
    Ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur hefur meðal annars fjallað um eftirlitsstarfsemi á vegum Kvikmyndaskoðunar, sem starfar samkvæmt lögum nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Í bréfi til menntamálaráðherra dags. 1. ágúst 2000 benti nefndin á að með lögum nr. 47/1995 væri ekki gætt jafnræðis milli atvinnugreina þar sem eftirlit Kvikmyndaskoðunar beindist aðallega að starfsemi kvikmyndahúsa og dreifingaraðila myndbanda, en sjónvarpsstöðvar væru nánast að öllu leyti undanþegnar því beina eftirliti sem lögin kveða á um. Einnig var bent á mikinn kostnað fyrir atvinnulífið vegna eftirlitsins. Lagði nefndin til að Kvikmyndaskoðun yrði lögð niður og lög um hana felld úr gildi, en barnaverndarsjónarmiða yrði gætt með öðrum hætti en lögin gera ráð fyrir.
    Í tilefni af bréfi ráðgjafarnefndarinnar kynnti ráðuneytið nefndinni drög að frumvarpi sem það hafði látið semja um nýtt fyrirkomulag kvikmyndaskoðunar. Þar er gert ráð fyrir að opinberu eftirliti verði hætt og atvinnugreinin sjálf annist frumeftirlit með því að barnaverndarsjónarmiða verði gætt við sýningu kvikmynda.
    Með bréfi til menntamálaráðuneytisins dags. 5. febrúar 2001 lýsti ráðgjafarnefndin þeirri skoðun sinni að í frumvarpsdrögunum fælist veruleg bót miðað við það fyrirkomulag sem nú er á kvikmyndaeftirliti. Nefndin lét einnig í ljós þá skoðun að til greina kæmi að í stað þess að hafa sérstök lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum yrði í X. kafla barnaverndarlaga bætt við ákvæði sem banni að börnum og ungmennum verði sýndar ofbeldismyndir.
    Á vegum félagsmálaráðherra hefur verið samið frumvarp til nýrra barnaverndarlaga og var við meðferð þess í ríkisstjórn komist að þeirri niðurstöðu að menntamálaráðherra flytti sérstakt frumvarp til laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum.
    Hér á eftir skal nokkru nánar fjallað um þau tvö meginmarkmið endurskoðunar laga nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, að gætt sé ákvæða 73. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt sé stuðlað svo sem kostur er að vernd barna og ungmenna fyrir skaðlegum áhrifum kvikmynda á sálarlíf þeirra.
    73. gr. stjórnarskrárinnar er svohljóðandi:
    „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
    Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
    Svo sem fram kemur í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar er heimilt að setja tjáningarfrelsi skorður með lögum í þeim tilgangi sem í málsgreininni er upp talið, enda teljist skorðurnar nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Fyrir brot gegn lögmætum skorðum á tjáningarfrelsi verða menn sóttir til ábyrgðar fyrir dómi, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Til þeirrar ábyrgðar kemur hins vegar ekki fyrr en eftir að brot hefur verið framið.
    Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsinu eru hins vegar með öllu óheimilar, sbr. síðari málslið 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ritskoðun er skilgreind svo að með henni sé átt við yfirlestur handrits og skoðun annars efnis af hálfu handhafa ríkisvalds til úrlausnar á því hvort efni megi birta. Ritskoðun er þannig skerðing á tjáningarfrelsinu, sem á sér stað fyrir birtingu, og er fortakslaust bönnuð í framangreindu stjórnarskrárákvæði. Fyrir setningu 73. gr. stjórnarskrárinnar gilti ritskoðunarbannið samkvæmt prentfrelsisákvæði eldri stjórnarskrár (72. gr.) aðeins um prentað mál og það sem til prentaðs máls mátti jafna, en eftir stjórnarskrárbreytinguna 1995 gildir ritskoðunarbannið um hvers konar tjáningu. Ritskoðunarbann íslensku stjórnarskrárinnar er nú víðtækara en yfirleitt er samkvæmt stjórnarskrám Evrópuríkja, enda ákvæðið nýlegt og í anda sterkrar verndar fyrir skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi.
    Í samræmi við það sem hér að framan hefur verið reifað telur menntamálaráðuneytið rétt að kvikmyndaskoðun af hálfu ríkisvaldsins, eins og hún hefur lengi verið framkvæmd hér á landi samkvæmt settum lögum, nú síðast lögum nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, verði afnumin, enda ber sú skipan sem gilt hefur öll einkenni ritskoðunar. Skoðun kvikmynda, sem lögin taka til, fer fram fyrir sýningu þeirra. Óheimilt er að sýna kvikmynd nema með leyfi Kvikmyndaskoðunar, sem er opinber stofnun, og Kvikmyndaskoðun getur fyrir fram bannað sýningu kvikmyndar. Kvikmyndaskoðun getur bundið leyfi til sýninga skilyrðum. Vísast um þessi efni einkum til 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 4. gr. og 6. gr. laganna.
    Auk framangreinds ritskoðunarbanns stjórnarskrárinnar mælir það með breytingu á núverandi fyrirkomulagi kvikmyndaskoðunar að kostur er á mildari ráðum til verndar börnum og ungmennum gegn skaðlegu kvikmyndaefni en fyrirframskoðunar af hálfu stjórnvalda. Til dæmis má gera kvikmyndahúsaeigendum, sjónvarpsstöðvum og öðrum, sem framleiða eða dreifa kvikmyndaefni, skylt að meta eða láta meta kvikmyndir á eigin vegum fyrir sýningu þeirra. Verður því ekki sagt að nauðsyn beri til þess í íslensku þjóðfélagi að ríkisvaldið annist skoðun af þessu tagi þar sem viðhlítandi skoðun verður komið við með öðru móti.
    Með því að stjórnvöld hætti skoðun kvikmynda fyrir sýningu þeirra og sú ríkisstofnun sem hefur annast þetta hlutverk á vegum ríkisins, Kvikmyndaskoðun, verði lögð niður verða þeir aðilar sem gera kvikmyndir, sýna þær, selja eða dreifa með öðrum hætti, og undir íslenska lögsögu heyra, fyrst og fremst ábyrgir gerða sinna fyrir dómi ef þeir gerast sekir um brot á þeim lögum sem heimila skorður á tjáningarfrelsi, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 3. mgr. sömu greinar. Er það í samræmi við önnur tilvik í íslenskum rétti þar sem tjáningarfrelsi er talið misbeitt, svo sem um prentað mál og útvarpsefni, sbr. V. kafla laga um prentrétt, nr. 57/1956, og IX. kafla útvarpslaga, nr. 53/2000. Ljóst er að efni kvikmynda getur varðað við lög ekki síður en efni annars konar tjáningar, og verður nánar vikið að því síðar hvaða lög koma þar helst til álita.
    Af sömu ástæðu og skylt er skv. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að hætta skoðun kvikmynda fyrir sýningu þeirra samkvæmt lögum nr. 47/1995 ber að nema úr gildi 2. málsl. 56. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, svohljóðandi: „Þeim er veitir forstöðu skemmtun eða sýningu sem ætla má að börn muni sækja er skylt að kveðja til barnaverndarnefnd eða fulltrúa hennar og gefa nefndinni kost á að kynna sér efni sýningar á undan almenningi.“ Í hinu tilvitnaða ákvæði, sem reyndar mun ekki hafa verið beitt í framkvæmd, er fyrirmæli um fyrirframskoðun af hálfu stjórnvalds sem ekki á lengur við frekar en önnur lagaákvæði sömu ættar.
    Þó að ríkisvaldinu sé hér á landi óheimilt að ritskoða kvikmyndir er ekki þar með sagt að löggjafinn geti ekki haft önnur afskipti af sýningu, sölu og dreifingu kvikmynda sem réttlætanleg verða talin til verndar velferð barna og ungmenna, en það er sá tilgangur sem hingað til hefur fyrst og fremst verið talinn réttlæta ritskoðun kvikmynda. Að vísu er það svo að tæknibreytingar undanfarinna ára, ekki síst í sjónvarpstækni, hafa í reynd gert það sífellt erfiðara að hafa stjórn á því hvaða kvikmyndaefni fólk horfir á. Vex þeirri skoðun því sífellt fylgi að ábyrgð á því hvaða kvikmyndaefni börn horfa á verði að vera í höndum foreldra og annarra forráðamanna þeirra, enda séu þessir aðilar í reynd þeir einu sem hafi einhver tök á að stjórna þessu. Löggjafinn og aðrir handhafar ríkisvaldsins geta í þessu efni fyrst og fremst gegnt leiðbeinandi hlutverki, en hinar endanlegu ákvarðanir og ábyrgðin verða að vera í höndum foreldranna, eins og aðrir meginþættir í uppeldi barna.
    Jafnframt því sem þannig er viðurkenndur að verulegu leyti vanmáttur opinberra aðila til afskipta af áhorfi ungs fólks á kvikmyndaefni er það álit ráðuneytisins að löggjafinn og framkvæmdarvaldið geti haft nokkur og hófleg afskipti af þessu máli – og þá í þeim anda sem fram kemur í hinu nýja ákvæði 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995. Í nefndu ákvæði er svo fyrir mælt að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í greinargerðinni með frumvarpi til stjórnskipunarlaga, sem varð að fyrrnefndum stjórnskipunarlögum, sagði svo í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins, sem varð 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar:
    „Í 3. mgr. 14. gr. er ákvæði sem á sér ekki hliðstæðu í núgildandi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, en í því er mælt fyrir um að með lögum beri að tryggja börnum þá vernd og umönnun, sem velferð þeirra krefst. Með þessu ákvæði, sem felur í sér vissa stefnuyfirlýsingu og sækir m.a. fyrirmynd í 3. gr. samningsins um réttindi barna og að nokkru einnig í 24. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, er einkum gert ráð fyrir að leggja skyldu á löggjafann til að setja lög til að veita börnum fyrrnefnda tryggingu. Þetta ákvæði getur þó einnig falið í sér öllu veigameiri efnisreglu því unnt gæti verið að sækja stoð eða áréttingu til þess fyrir heimild til undantekninga frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum. Sem dæmi um þetta má benda á að í skjóli 3. mgr. 14. gr. væri væntanlega unnt að skýra undantekningarákvæðin í 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins [sem varð 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þó með breytingum er juku vernd tjáningarfrelsis frá því sem upphaflega var ráðgert] á þann veg að heimilt sé að lögfesta reglur um að banna börnum aðgang að kvikmyndum og öðru myndefni sem sýni ofbeldi þótt tjáningarfrelsi væru settar skorður á þann hátt.“
    Í samræmi við þau sjónarmið sem hér var lýst er í frumvarpinu gert ráð fyrir að bannað verði að sýna ungmennum undir sjálfræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og bönnuð verði sala og önnur dreifing á slíkum myndum til ósjálfráða fólks, þó þannig að allar kvikmyndir megi hafa til sýningar opinberlega fyrir börn sem náð hafa sjö ára aldri, enda horfi þau á myndina í fylgd foreldris eða annars fullorðins aðila, sbr. 1. og 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Er hér farin sú leið að banna aðgang barna að ofbeldiskvikmyndum nema foreldrar eða aðrir forráðamenn þeirra meti það beinlínis svo, að þau hafi til þess þroska að horfa á slíkar myndir í þeirra fylgd, svo að þessir aðilar geti skýrt fyrir þeim efnið.
    Önnur ákvæði í 2. gr. frumvarpsins eru einnig sett í samræmi við þau rök sem liggja að baki 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Því er m.a. mælt svo fyrir að skylt sé að láta þess getið alls staðar, þar sem það á við, ef kvikmynd telst vera ofbeldiskvikmynd; skylt sé til leiðbeiningar fyrir foreldra og aðra forráðamenn barna að láta meta allar kvikmyndir sem ætlaðar eru til sýningar fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri; skylt sé að merkja greinilega kvikmyndir og umbúðir þeirra um matsniðurstöðu og það hvort mynd er aðeins ætluð til sýningar fyrir fullorðna áhorfendur; skylt sé að geta um mat kvikmynda í auglýsingum og annars konar kynningu á kvikmyndum og geta þess ef mynd er einungis ætluð til sýningar fyrir fullorðna; og að skylt sé að hafa eftirlit með því að aðgangur að sýningum og afhending á kvikmyndum sé í samræmi við reglur greinarinnar. Skyldan í öllum þessum efnum hvílir á þeim sem framleiða kvikmyndir til sýningar hér á landi og eru búsettir hérlendis, hafa kvikmyndir til sýningar í atvinnuskyni, leigu, sölu eða annarrar dreifingar, eftir því sem við á í hverju tilviki. Eftirlit með framkvæmdinni hvílir svo á barnaverndaryfirvöldum og lögregluyfirvöldum, sbr. sérstaklega 1. málsl. 56. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992.
    Nátengd ákvæðum frumvarps þessa er 14. gr. útvarpslaga, nr. 53 17. maí 2000, um vernd barna gegn óheimilu efni í sjónvarpi. Þar er svo fyrir mælt að sjónvarpsstöðvum sé óheimilt að senda út dagskrárefni, þar á meðal auglýsingar, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni. Dagskrárefni, sem ekki er talið við hæfi barna, skal jafnframt einungis sýnt á þann hátt að tryggt sé með tæknilegum ráðstöfunum að börn á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar. Þegar slíkt dagskrárefni er sent út skal fara á undan því munnleg viðvörun eða það auðkennt með sjónrænu merki allan þann tíma sem útsendingin stendur yfir. Þessi ákvæði gilda sérstaklega um sjónvarpsefni, en ákvæðin í frumvarpi þessu, ef að lögum verða, munu gilda um hvers konar kvikmyndaefni, þar á meðal kvikmyndir í sjónvarpi.
    Þó að stjórnvöld hætti eftirliti með efni kvikmynda fyrir frumsýningu þeirra hafa stjórnvöld og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta öll venjuleg ráð til þess að bregðast við lögbrotum á þessu sviði er upp kunna að koma. Sem dæmi má nefna að leggja má lögbann við frekari sýningu kvikmyndar eftir að sýningar eru hafnar, ef skilyrði til þess eru fyrir hendi lögum samkvæmt, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., og jafnvel fyrir frumsýningu, ef stjórnvöld eða aðrir fá veður af yfirvofandi lögbroti í kvikmynd. Sömuleiðis eru fyrir hendi í þessu efni sem öðrum almenn refsi- og fébótaúrræði. Þá er sérstök athygli vakin á því að í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins er Barnaverndarstofu veitt heimild til að stöðva sýningu og dreifingu kvikmyndar tímabundið, í sólarhring, til þess að láta fara fram mat eða endurmat á sýningarhæfni kvikmyndar, eða að kæra sýningu eða dreifingu hennar til lögreglu. Slíka heimild er ekki að finna í lögum nr. 47/1995. Talið er nauðsynlegt út frá barnaverndarsjónarmiðum að Barnaverndarstofu sé veitt slík heimild, en hér er um eins konar neyðarheimild að ræða sem miðað er við að einungis verði beitt í algerum undantekningartilvikum.
    Ljóst er að efni kvikmynda getur skaðað margvíslega hagsmuni sem lagaverndar njóta. Efni kvikmynda, eins og efni tjáningar í öðru formi, getur brotið gegn ýmsum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og má þar til dæmis geta eftirtalinna ákvæða laganna: 95. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 101/1976 og 2. gr. laga nr. 47/1941 (óvirðing við erlendar þjóðir og þjóðmerki, móðganir eða aðdróttanir í garð starfsmanns erlends ríkis hér á landi), 209. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992 (lostugt athæfi), 210. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 (klám, þar á meðal barnaklám) og XXV. kafli (ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs). Með framangreindum dæmum eru ekki tæmandi talin þau tilvik þar sem efni kvikmynda getur varðað við lög þannig að brot valdi fébóta- og/eða refsiábyrgð. Verða þeir sem brotlegir kunna að gerast sóttir til saka samkvæmt þeim ábyrgðarreglum sem við eiga hverju sinni.
    Sú ákvörðun að leggja til afnám ritskoðunar kvikmynda af hálfu stjórnvalda leiddi til þess að ráðuneytið leitaði annarra leiða til þess að tryggja að fyrir hendi verði kerfi sem fallið sé til þess að vernda börn og ungmenni fyrir skaðlegum áhrifum sem kvikmyndir kunna að hafa á sálarlíf þeirra.
    Þegar frumvarp þetta var kynnt fyrir aðilum kvikmyndagreinarinnar á fundi 5. júní 2001, þar sem einnig voru aðilar frá Biskupsstofu, Barnaverndarstofu, ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur og félagsmálaráðuneyti, fylgdu frumvarpinu drög að samningi um þjónustufélag kvikmyndagreinarinnar, þar sem gert var ráð fyrir stofnun Kvikmyndamats er annast átti mat á kvikmyndum með tilliti til sýningarhæfni þeirra fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri. Frumvarpinu var vel tekið og töldu allir það skref í rétta átt. Hins vegar tókst ekki samkomulag milli forráðamanna sjónvarpsstöðvanna og annarra aðila kvikmyndagreinarinnar um stofnun og rekstur Kvikmyndamats og var þá ákveðið að leita annarra leiða.
    Í viðræðum við fulltrúa Félags kvikmyndahúsaeigenda og rétthafa myndbanda kom fram að þeir töldu sig vera í stakk búna til að sjá sjálfir um mat og skoðun þeirra kvikmynda sem þeir sýndu og dreifðu, með sama hætti og sjónvarpsstöðvum hafi verið heimilt að gera, á grundvelli núgildandi laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Jafnframt bentu þeir á að ábyrgðin á mati á sýningarhæfni kvikmynda sem sýndar væru í kvikmyndahúsum og dreift á myndböndum hvíldi á þeim. Niðurstaðan varð því sú að Félag kvikmyndahúsaeigenda og SMÁÍS – samtök myndbandarétthafa hafa gert með sér samning um skoðun og mat á kvikmyndum sem sýndar eru í kvikmyndahúsum og dreift er á myndbandaleigum. Samningsaðilarnir líta á þetta sem samfélagslega skyldu sína og munu miðla upplýsingum og leiðbeiningum til foreldra og annarra forráðamanna barna og ungmenna um efni og sýningarhæfni kvikmynda. Fylgir samningurinn frumvarpi þessu sem fylgiskjal I.
    Á sama hátt hafa Ríkisútvarpið, vegna Sjónvarps, Norðurljós, vegna sjónvarpsstöðvanna Stöðvar 2, Sýnar, Bíórásarinnar og Popp Tíví, og Skjár einn gert með sér samning um skoðun og mat á öllu sjónvarpsefni sem ætlað er til sýningar í sjónvarpi hér á landi. Jafnframt koma samningsaðilar sér upp sameiginlegu merkjakerfi sem aðstoðar foreldra og aðra forráðamenn við að meta sýningarhæfni sjónvarpsefnis fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri. Fylgir samningurinn frumvarpi þessu sem fylgiskjal II.
    Rétt þykir að rifja hér upp að í 11. gr. laga nr. 47/1995 er ráðherra heimilað að setja reglur um skoðun tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki til að tryggja að notkun þeirra sé ekki í ósamræmi við tilgang laganna. Var ætlunin að slíkri skoðun yrði hagað með áþekkum hætti og skoðun kvikmynda að fengnum tillögum Kvikmyndaskoðunar. Reglur skv. 11. gr. laga nr. 47/1995 hafa ekki verið settar, enda hefur athugun leitt í ljós að veruleg vandkvæði eru á því að setja virkar lagareglur um þetta efni. Hins vegar hafa framleiðendur svokallaðra tölvuleikja víða komið upp stofnunum sem annast leiðbeinandi mat á því fyrir hvaða aldursflokka einstakir leikir séu taldir henta. Nær mat þetta alveg niður í þriggja ára aldur, og eru leikirnir merktir um matið með merki matsstofnananna. Má af slíkum matsstofnunum nefna ESRB, „Entertainment Software Rating Board“ í Bandaríkjunum, ELSPA, „European Leisure Software Publishers Association“, sem starfar í Bretlandi, og USK – Unterhaltungssoftware Selbstkontrolle, sem starfar í Þýskalandi. Mjög margir framleiðendur og dreifingaraðilar tölvuleikja eru aðilar að framangreindum samtökum og verður merking frá þessum samtökum að teljast þýðingarmikil leiðbeining fyrir foreldra og aðra kaupendur tölvuleikja. Bæði um ESRB, ELSPA og USK og e.t.v. fleiri skyldar stofnanir má fá góðar upplýsingar á netinu, sjá um ESRB: esrb.org, um ELSPA: www.elspa.com og um USK: www.usk.de. Telur ráðuneytið eðlilegt að leitað verði samvinnu við innflytjendur og aðra seljendur tölvuleikja og innlenda aðila, sem veita aðgang að tölvuleikjum á alnetinu, um mat og merkingu tölvuleikja með svipuðum hætti og leitað var eftir samvinnu við kvikmyndagreinina um það efni sem frumvarp þetta fjallar um.
    Verði frumvarp þetta að lögum og ef fyrirliggjandi samningar koma til framkvæmda verður mat og skoðun kvikmynda hér á landi í meginatriðum eftirfarandi:
     1.      Opinber ritskoðun er afnumin.
     2.      Engar kvikmyndir eru fyrir fram bannaðar.
     3.      Fullorðið fólk má horfa á þær kvikmyndir sem það sjálft kýs.
     4.      Aðgangur að ofbeldiskvikmyndum samkvæmt sérstakri skilgreiningu er bannaður ungmennum undir sjálfræðisaldri. Þó má hafa hvaða kvikmynd sem er til sýningar opinberlega fyrir börn sem hafa náð sjö ára aldri, enda horfi þau á myndina í fylgd foreldris eða annars fullorðins áhorfanda.
     5.      Allar kvikmyndir sem ætlaðar eru til sýningar fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri skulu metnar um sýningarhæfni fyrir mismunandi aldursskeið til leiðbeiningar fyrir foreldra og aðra forráðamenn barna. Aðilar innan kvikmyndagreinarinnar og sjónvarpsstöðvar eftir því sem við á annast matið. Foreldrar ráða því síðan hvaða myndir börn þeirra horfa á.
     6.      Allar kvikmyndir skulu merktar samkvæmt mati á sýningarhæfni fyrir ungt fólk, matsins skal getið í auglýsingum og annarri kynningu á kvikmyndum, sem og þess ef kvikmyndir eru aðeins ætlaðar til sýningar fyrir fullorðna áhorfendur.
     7.      Kvikmyndaframleiðendur, kvikmyndahúsaeigendur, þeir sem selja og leigja myndbönd og mynddiska og aðrir þeir sem dreifa kvikmyndaefni bera ábyrgð á því að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög og svara til saka fyrir gerðir sínar ef út af bregður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein eru skilgreind hugtökin kvikmynd og ofbeldiskvikmynd. Er hér um að ræða óbreyttar skilgreiningar frá núgildandi lögum nr. 47/1995, 1. gr., sbr. 3. mgr. 3. gr.
    Ekki þykir ástæða til þess að halda hinu víðtæka banni sem nú er í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 47/1995 þar sem bannað er að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir, sýna, dreifa og selja slíkar myndir, með þeirri undantekningu sem greinir í 3. mgr. 3. gr. um undanþágu frá banninu þegar sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndar eða vegna listræns gildis myndar. Svo víðtækt bann sem hér greinir verður ekki talið standast tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Auk þess er það svo, eins og tekið er fram í hinum almennu athugasemdum að framan að tæknibreytingar undanfarinna ára, ekki síst í sjónvarpstækni, hafa í reynd gert það sífellt erfiðara að hafa stjórn á því hvaða kvikmyndaefni fólk horfir á. Rétt þykir þó að banna ungmennum undir sjálfræðisaldri aðgang að ofbeldiskvikmyndum, sbr. umsögn um 2. gr. hér á eftir.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er að finna ákvæði um þær skyldur sem með frumvarpinu eru lagðar á þá aðila sem framleiða kvikmyndir til sýningar hér á landi og búsettir eru hérlendis, hafa kvikmyndir til sýningar í atvinnuskyni, leigu, sölu eða annarrar dreifingar. Enn fremur kemur fram í þessari grein sú meginstefna frumvarpsins að það mat á kvikmyndum sem gert er ráð fyrir að fram fari er fyrst og fremst ætlað foreldrum og öðrum forráðamönnum barna til leiðbeiningar til þess að þeir geti með hliðsjón af því ákveðið hvaða kvikmyndaefni þeir heimila börnum sínum aðgang að. Það er álit ráðuneytisins að ákvæði greinarinnar geti ekki talist óheimilar skorður á tjáningarfrelsi, sbr. m.a. það sem í hinum almennu athugasemdum var sagt um 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í 1. mgr. er orðuð sú regla að bannað sé að sýna ungmennum undir sjálfræðisaldri ofbeldiskvikmyndir, eins og þær eru skilgreindar í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, og bönnuð sé sala og önnur dreifing á slíkum myndum til ungmenna sem ekki hafa náð þeim aldri. Frá þessari aðalreglu er sú undantekning gerð í 4. mgr. greinarinnar að hvaða kvikmynd sem er megi hafa til sýningar opinberlega fyrir börn sem náð hafa sjö ára aldri, enda horfi þau á myndina í fylgd foreldris eða annars fullorðins áhorfanda. Af þessum ákvæðum leiðir m.a. að óheimilt er að selja eða leigja ósjálfráða fólki myndbönd og mynddiska með ofbeldiskvikmyndum samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins. Til áréttingar er sérstaklega tekið fram að sé um að ræða kvikmynd sem telst vera ofbeldiskvikmynd sé skylt að láta þess getið alls staðar þar sem við á, svo sem í auglýsingum, annarri kynningu á myndinni og merkingu skv. 5. mgr. þessarar greinar.
    Í þessu sambandi er þess að geta að frá 1. janúar 1998 hefur sjálfræðisaldur verið hækkaður úr 16 árum í 18 ár, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Einnig eru þeir taldir hafa náð sjálfræðisaldri sem náð höfðu sjálfræðisaldri, þ.e. voru orðnir 16 ára, fyrir gildistöku núgildandi lögræðislaga, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 71/1997. Þykir rétt, fyrst og fremst til lagasamræmis, að miða hér við sjálfræðisaldur, þó að hingað til hafi aðgangur að kvikmyndum, sem á annað borð hefur verið takmarkaður aðgangur að, yfirleitt ekki verið takmarkaður við hærra aldursmark en 16 ár, og hækkun sjálfræðisaldurs hafi verið studd öðrum rökum en þeim sem hér skipta máli. Eftir sem áður má reikna með að þeir sem kvikmyndamat annast muni ekki í öðrum tilvikum en því sem hér um ræðir telja ástæðu til að takmarka aðgang að kvikmyndum við hærri aldursmörk en 16 ár, eins og tíðkast hefur. Þess má hér geta að samkvæmt skilgreiningu í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 160/1998, er við það miðað að börn séu einstaklingar innan 18 ára aldurs. Er þetta í samræmi við skilgreiningu 1. gr. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en samkvæmt því ákvæði merkir barn í þeim samningi hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur, sbr. lög nr. 58/1992.
    Nánar verður vikið að undantekningunni frá aðalreglu þessarar greinar þegar fjallað verður um 4. mgr. greinarinnar.
    Í 2. mgr. greinarinnar er orðuð sú regla að ekki verður lögskylt að meta aðrar myndir en þær sem ætlaðar eru til sýningar fyrir ungmenni undir sjálfræðisaldri, þ.e. ekki er nauðsynlegt að láta meta þær myndir sem aðeins eru ætlaðar fyrir fullorðna áhorfendur. Myndir sem eingöngu eru ætlaðar til sýningar fyrir fullorðna áhorfendur ber hins vegar að merkja þannig, sbr. 5. mgr. greinarinnar, og um það ber að geta í öllum auglýsingum og annarri kynningu á kvikmyndum, sbr. 6. mgr. greinarinnar. Frumvarpsreglan styðst við þau rök að megintilgangur frumvarpsins er að tryggja að fram fari mat á kvikmyndum sem á markað eru settar fyrir börn og ungmenni á mismunandi aldursskeiðum. Sá háttur er einnig á hafður t.d. í Danmörku að þar eru ekki ritskoðaðar kvikmyndir sem einungis eru ætlaðar fullorðnum áhorfendum.
    Í 2. mgr. er fyrirmælið um mat orðað þannig að þeir aðilar sem þar eru nánar upp taldir skuli „meta eða láta meta allar myndir sem eru ætlaðar til sýningar fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri“. Matsskyldan hvílir þannig á einstökum aðilum, en telja verður að með þessu orðalagi sé þeim frjálst að láta aðra aðila annast fyrir sig matið á sína ábyrgð. Að frumkvæði ráðuneytisins kom það til skoðunar hjá kvikmyndagreininni og sjónvarpsstöðvunum að koma upp sameiginlegu skoðunarkerfi, en um það hefur ekki náðst samkomulag milli aðilanna hvað sem síðar kann að verða. Það er hins vegar ekki talið í valdi löggjafans að mæla fyrir um skoðun kvikmynda eða kvikmyndamat á vegum tiltekinnar stofnunar vegna ritskoðunarbanns 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sem áður hefur verið rætt um. Verður naumast með lögum lengra gengið en mæla fyrir um mat sem ætlað er til verndar börnum og ungmennum, en leggja það síðan í vald aðilanna sjálfra hvernig því mati er hagað, að sjálfsögðu að viðlagðri ábyrgð samkvæmt lögunum, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir mati á kvikmyndum miðað við þá mismunandi aldursflokka sem einstakar kvikmyndir eru taldar henta til sýningar fyrir. Ber í þessu sambandi sérstaklega að hafa í huga að tilteknar kvikmyndir teljist geta haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna eftir aldursþroska þeirra. Munu verklagsreglur verða mótaðar af þeim aðilum sem matið annast og engin ástæða til að ætla að þær muni í neinu verulegu víkja frá þeim aldursviðmiðunum sem nú gilda. Mynd getur til dæmis verið metin henta til sýningar fyrir alla eða fyrir börn og ungmenni yfir tilteknum aldri, svo sem eldri en 7, 10, 12, 14, 16 eða 18 ára, eftir því sem við á hverju sinni. Ekkert er því til fyrirstöðu samkvæmt frumvarpinu að miðað verði við mismunandi aldursmörk eftir því hvers konar sýningarmiðil um er að ræða, kvikmyndahús eða myndband og mynddisk.
    Í 4. mgr. er orðuð sú regla að hvaða kvikmynd sem er megi hafa til sýningar opinberlega fyrir börn sem náð hafa sjö ára aldri, enda horfi þau á myndina í fylgd foreldris eða annars forráðamanns. Er með þessu ákvæði lögð til lögfesting þeirrar grundvallarreglu að það sé lagt í vald foreldra að ákveða hvaða myndefni börn þeirra sjá. Í reynd er þetta nú þegar ákvörðun þeirra við sýningu myndefnis innan veggja heimilisins, hvort sem er í sjónvarpi eða á myndböndum og mynddiskum. Verða ekki séð nein rök til annars en löggjafinn horfist í augu við raunveruleikann í þessu efni og viðurkenni sömu reglu við sýningu kvikmynda í kvikmyndahúsum. Er meira að segja mikið álitamál hvort takmarka á aðgang barna í fylgd fullorðinna að sýningum í kvikmyndahúsum við nokkurn tiltekinn aldur, heldur leggja kvikmyndahúsaferðir foreldra með börn sín alfarið í vald foreldranna. Hér er þó farin sú leið að miða við sjö ára aldur barna, og er þar farið að dæmi Dana sem settu að þessu leyti sömu reglu í ný kvikmyndalög á árinu 1997. Sú regla sem hér er lögð til er breyting frá reglu 8. gr. laga nr. 47/1995, en samkvæmt henni er foreldrum ekki heimilt að fara með börn sín í kvikmyndahús á myndir sem börnunum sjálfum er bannaður aðgangur að. Mikil óánægja hefur komið fram hjá miklum fjölda foreldra með þessa lagareglu.
    Í 5. mgr. eru fyrirmæli um merkingu kvikmynda og allra umbúða um sýningarhæfni mynda. Í framkvæmdinni munu þessi fyrirmæli fyrst og fremst taka til myndbanda og mynddiska og umbúða þeirra.
    Í 6. mgr. eru ákvæði um auglýsingar og hvers konar aðra kynningu á kvikmynd. Ber í öllu slíku efni að geta um það fyrir hvaða aldursflokka kvikmyndir eru ætlaðar, sem og það ef þær eru aðeins ætlaðar fyrir fullorðna áhorfendur.
    Í 7. mgr. er fyrirmæli um það að þeir aðilar sem taldir eru upp í 2. mgr. skuli gæta þess að aðgangur að sýningum og afhending á kvikmyndum sé í samræmi við reglur greinarinnar. Eðli málsins samkvæmt vísar þetta fyrirmæli fyrst og fremst til 1., 4., 5. og 6. mgr. greinarinnar.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er berum orðum tekið fram að ákvæði frumvarpsins taki ekki til frétta- og fræðsluefnis. Er hér um að ræða óbreytta reglu gildandi laga, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 47/1995.

Um 4. gr.

    Í 1.–3. mgr. þessarar greinar eru tekin upp ákvæði um refsingar fyrir brot á lögunum, rannsókn brota og heimild til upptöku kvikmyndar ef sýning, sala eða dreifing hennar fer í bága við ákvæði laganna eða annarra laga. Ákvæði þessi eru efnislega í samræmi við 10. gr. laga nr. 47/1995. Í 4. mgr. þessarar greinar er Barnaverndarstofu veitt heimild til að stöðva sýningu og dreifingu kvikmyndar tímabundið. Slíka heimild er ekki að finna í lögum nr. 47/1995. Talið er nauðsynlegt út frá barnaverndarsjónarmiðum að Barnaverndarstofu sé veitt slík heimild, en hér er um eins konar neyðarheimild að ræða sem miðað er við að einungis verði beitt í algerum undantekningartilvikum þegar augljóst má telja að mat á sýningarhæfni kvikmyndar sé í andstöðu við 1. eða 3. mgr. 2. gr., t.d. að ofbeldiskvikmynd sé metin sýningarhæf fyrir alla aldurshópa eða í þeim tilvikum að ekkert mat á kvikmynd hefur farið fram eins og skylt er skv. 2. mgr. 2. gr. Við beitingu þessarar heimildar er lögð áhersla á að stöðvun sýningar eða dreifingar kvikmyndar standi ekki lengur en nauðsyn krefur, til þess annaðhvort að endurmat fari fram eða að ákvörðun verði tekin um að kæra sýningu eða dreifingu kvikmyndarinnar til lögreglu, sem þá tekur ákvörðun um frekari meðferð málsins.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Greinin þykir ekki þurfa skýringa við umfram það sem fram var tekið í hinum almennu athugasemdum við frumvarpið.

Um ákvæði til bráðabirgða

    Það leiðir af þeirri grundvallarbreytingu á skipan kvikmyndamats í landinu, sem verður með lögleiðingu frumvarps þessa, að kvikmyndaskoðun á vegum ríkisins verður lögð niður og þar með fellur niður ráðning starfsmanna Kvikmyndaskoðunar. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.
Fylgiskjal I.


Samningur um eftirlit með kvikmyndum.

    Félag kvikmyndahúsa og SMÁÍS – samtök myndbandarétthafa gera með sér svofelldan


s a m n i n g :


1. grein

    Tilefni samningsins er sú fyrirætlan menntamálaráðherra að beita sér fyrir breytingu á lögum í þá átt, að hætt verði skoðun af hálfu stjórnvalda á kvikmyndum.

2. grein

    1. Tilgangur samningsins er sá, að tryggja að á vegum kvikmyndahúsa og dreifingaraðila kvikmynda (rétthafa myndbanda) séu kvikmyndir skoðaðar á þann hátt að foreldrum og öðrum forráðamönnum barna hér á landi séu veittar leiðbeiningar og aðstoð til þess að vernda börn og ungmenni fyrir skaðlegum áhrifum, sem tilteknar tegundir kvikmynda eru taldar geta haft á sálarlíf og siðferði þeirra, einkum kvikmyndir, er sýna hrottalegt ofbeldi, sbr. nánar skilgreininguna í 2. mgr. 3. gr. samnings þessa. Samningsaðilar telja slíka skoðun samfélagslega skyldu sína við íslensk börn og foreldra og aðra forráðamenn barna hér á landi.
    2. Samningsaðilar munu miðla upplýsingum og viðvörunum til foreldra, svo að foreldrar og aðrir forráðamenn barna geti á grundvelli þeirra tekið ákvarðanir um það, hvaða kvikmyndir þeir leyfa eða leyfa ekki ósjálfráða börnum sínum að sjá, annaðhvort einum, með félögum sínum eða með fullorðnum áhorfendum.

3. grein

    1. Kvikmynd merkir í samningi þessum hvers kyns hreyfimyndaefni, sem gert er með hvers konar tækni, þar með taldar leiknar kvikmyndir og teiknimyndir, hvort sem ætlað er til sýningar í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða öðrum myndflutningstækjum.
    2 . Ofbeldiskvikmynd merkir í samningi þessum kvikmynd, þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum. Þegar sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar, telst kvikmynd ekki ofbeldiskvikmynd í framangreindum skilningi.

4. grein

    Til þess að framfylgja þeim tilgangi, sem lýst er í 2. grein, koma samningsaðilar sér upp skoðunarkerfi, hver fyrir sig, til að meta allar kvikmyndir sem ætlaðar eru til sýningar kvikmyndahúsum og/eða til dreifingar á myndbandaleigum. Jafnframt koma samningsaðilar sér upp sameiginlegu merkjakerfi sem aðstoðar foreldra og aðra forráðamenn við að meta sýningarhæfni kvikmynda fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri.

5. grein

    1. Samningsaðilar meta kvikmyndir með tilliti til þess, hvernig sýning þeirra er talin henta fyrir mismunandi aldursflokka barna og ungmenna undir sjálfræðisaldri, sem og þess, hvort þeir telja kvikmynd einungis sýningarhæfa fyrir fullorðið fólk, þ.e. fólk, sem náð hefur sjálfræðisaldri.
    2. Bannað er að sýna ungmennum undir sjálfræðisaldri ofbeldiskvikmyndir. Sé um að ræða kvikmynd, sem telst vera ofbeldiskvikmynd, er skylt að láta þess getið alls staðar, þar sem við á, svo sem í auglýsingum, annarri kynningu á myndinni og merkingu.
    3. Mat samningsaðila á sýningarhæfni kvikmynda fyrir mismunandi aldursflokka barna og ungmenna undir sjálfræðisaldri skal á því byggt, hvað telja má almennt álit góðra og skynsamra foreldra hér á landi á því, hvaða myndefni börnum þeirra, flokkað eftir aldri þeirra, sé skaðlaust að horfa á. Við mat sitt á einstökum kvikmyndum skulu samningsaðilar meðal annars líta til eftirtalinna atriða og hvernig með þau er farið hverju sinni: söguefnis, orðfæris, beitingar ofbeldis, sýningar nektar og kynlífs og neyslu fíkniefna. Mat samningsaðila skal vera heildarmat á framangreindum atriðum og öðrum atriðum, sem þeir telja rétt að hafa í huga.
    4. Mat samningsaðila á einstökum kvikmyndum skal skoðast sem leiðbeining þeirra til foreldra og annarra forráðamanna barna og ungmenna um sýningarhæfni mynda fyrir tiltekna aldursflokka og á því, hvort það telst ekki við hæfi barna og ungmenna.
    5. Nú hefur kvikmynd áður verið metin af eftirlitsstofnunum með kvikmyndum, sem starfa í ríkjum innan Evrópuráðsins eða í ríkjum Norður-Ameríku, og talið er að meti sýningarhæfni kvikmynda eftir sömu eða svipuðum meginsjónarmiðum og samningsaðilar gera sjálfir. Er þá samningsaðilum heimilt að fylgja því mati eða hafa það til hliðsjónar við mat sitt og merkja myndefni samkvæmt því.
    6. Allar auglýsingar og annað kynningarefni um kvikmyndir, sem gert er og birt í formi myndefnis, skal lúta reglum þessarar greinar.

6. grein

    Mat samningsaðila á sýningarhæfni kvikmynda skal tilgreint í öllum auglýsingum um það og annarri kynningu á því.

7. grein

    Samningur þessi kemur til framkvæmdar, þegar lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 47/1995 hafa verið numin úr gildi.

    Framanrituðum samningi til staðfestu rita aðilar hans eða fyrirsvarsmenn aðilanna nöfn sín hér undir.

    Samningurinn er gerður í tveimur samhljóða frumritum. Skal annað frumritið afhent menntamálaráðherra til varðveislu, en hitt eintakið skal varðveitt hjá þeim samningsaðila , sem samningsaðilar koma sér saman um að skuli varðveita eintakið. Allir aðilar samningsins skulu fá afrit af honum.

Reykjavík, 28. febrúar 2002


f.h. Félags kvikmyndahúsa f.h. SMÁÍS – samtaka myndbandaréttarhafa
_______________________
Þorvaldur Árnason, formaður
_______________________
Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri

Fylgiskjal II.


Samningur um eftirlit íslenskra sjónvarpsstöðva með sjónvarpsefni sínu.


    Ríkisútvarpið vegna Sjónvarps, Norðurljós vegna sjónvarpsstöðvanna Stöðvar 2, Sýnar, Bíórásarinnar og Popp Tíví, og Skjár einn gera með sér svofelldan

s a m n i n g :


1. grein

    Tilefni samningsins er sú fyrirætlan menntamálaráðherra að beita sér fyrir breytingu á lögum í þá átt, að hætt verði skoðun af hálfu stjórnvalda á kvikmyndum.

2. grein

    1. Tilgangur samningsins er sá, að tryggja að á vegum sjónvarpsstöðva sé sjónvarpsefni skoðað á þann hátt að foreldrum og öðrum forráðamönnum barna hér á landi séu veittar leiðbeiningar og aðstoð til þess að vernda börn og ungmenni fyrir skaðlegum áhrifum, sem tiltekið sjónvarpsefni er talið geta haft á sálarlíf og siðferði þeirra, einkum kvikmyndir, er sýna hrottalegt ofbeldi, sbr. nánar skilgreininguna í 3. mgr. 3. gr. samnings þessa. Samningsaðilar telja slíka skoðun samfélagslega skyldu sína við íslensk börn og foreldra og aðra forráðamenn barna hér á landi.
    2. Samningsaðilar munu miðla upplýsingum og viðvörunum til foreldra, svo að foreldrar og aðrir forráðamenn barna geti á grundvelli þeirra tekið ákvarðanir um það, hvaða sjónvarpsefni þeir leyfa eða leyfa ekki ósjálfráða börnum sínum að sjá, annaðhvort einum, með félögum sínum eða með fullorðnum áhorfendum.

3. grein

    1. Sjónvarpsefni merkir hvers kyns sjónvarpsefni, þ.m.t. kvikmyndir, sbr. 2. mgr., og ofbeldiskvikmyndir, sbr. 3. mgr., að undanskildu frétta- og fræðsluefni.
    2. Kvikmynd merkir í samningi þessum hvers kyns hreyfimyndaefni, sem gert er með hvers konar tækni, þar með taldar leiknar kvikmyndir og teiknimyndir, hvort sem ætlað er til sýningar í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða öðrum myndflutningstækjum.
    3 . Ofbeldiskvikmynd merkir í samningi þessum kvikmynd, þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum. Þegar sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar, telst kvikmynd ekki ofbeldiskvikmynd í framangreindum skilningi.

4. grein

    Til þess að framfylgja þeim tilgangi, sem lýst er í 2. gr., koma samningsaðilar sér upp skoðunarkerfi, hver fyrir sig, til að meta allt sjónvarpsefni sem ætlað er til sýningar í sjónvarpi. Jafnframt koma samningsaðilar sér upp sameiginlegu merkjakerfi sem aðstoðar foreldra og aðra forráðamenn við að meta sýningarhæfni sjónvarpsefnis fyrir börn og ungmenni undir sjálfræðisaldri.

5. grein

    1. Samningsaðilar meta sjónvarpsefni með tilliti til þess, hvernig sýning þess er talin henta fyrir mismunandi aldursflokka barna og ungmenna undir sjálfræðisaldri, sem og þess, hvort þeir telja sjónvarpsefni einungis sýningarhæft fyrir fullorðið fólk, þ.e. fólk sem hefur náð 18 ára aldri.
    2. Bannað er að sýna ungmennum undir sjálfræðisaldri ofbeldiskvikmyndir. Sé um að ræða kvikmynd, sem telst vera ofbeldiskvikmynd, er skylt að láta þess getið alls staðar, þar sem við á, svo sem í auglýsingum, annarri kynningu á myndinni og merkingu.
    3. Mat samningsaðila á sýningarhæfni sjónvarpsefnis fyrir mismunandi aldursflokka barna og ungmenna undir sjálfræðisaldri skal á því byggt, hvað telja má almennt álit góðra og skynsamra foreldra hér á landi á því, hvaða myndefni börnum þeirra, flokkað eftir aldri þeirra, sé skaðlaust að horfa á. Við mat sitt á einstaka sjónvarpsefni skulu samningsaðilar meðal annars líta til eftirtalinna atriða og hvernig með þau er farið hverju sinni: söguefnis, orðfæris, beitingar ofbeldis, sýningar nektar og kynlífs og neyslu fíkniefna. Mat samningsaðila skal vera heildarmat á framangreindum atriðum og öðrum atriðum, sem þeir telja rétt að hafa í huga.
    4. Eftirlit samningsaðila með sjónvarpsefni felst einnig í því á hvaða tíma í sjónvarpsdagskrá ráðlegt er talið að sýna tiltekið sjónvarpsefni.
    5. Merking samningsaðila á sjónvarpsefni skal skoðast sem leiðbeining þeirra til foreldra og annarra forráðamanna barna og ungmenna um sýningarhæfni myndefnis fyrir tiltekna aldursflokka og á því, hvort það telst ekki við hæfi barna og ungmenna.
    6. Nú hefur sjónvarpsefni áður verið metið af eftirlitsstofnunum með kvikmyndum eða sjónvarpsstöðvum, sem starfa í ríkjum innan Evrópuráðsins eða í ríkjum Norður-Ameríku, og talið er að meti sýningarhæfni sjónvarpsefnis eftir sömu eða svipuðum meginsjónarmiðum og samningsaðilar gera sjálfir. Er þá samningsaðilum heimilt að fylgja því mati eða hafa það til hliðsjónar við mat sitt og merkja myndefni samkvæmt því.
    7. Allar auglýsingar og annað kynningarefni um sjónvarpsefni, sem gert er og birt í formi myndefnis, skal lúta reglum þessarar greinar.

6. grein

    Mat samningsaðila á sýningarhæfni sjónvarpsefnis skal tilgreint í öllum auglýsingum um það og annarri kynningu á því.

7. grein

    Samningur þessi kemur til framkvæmdar, þegar lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 47/1995 hafa verið numin úr gildi.

    Framanrituðum samningi til staðfestu rita aðilar hans eða fyrirsvarsmenn aðilanna nöfn sín hér undir.

    Samningurinn er gerður í tveimur samhljóða frumritum. Skal annað frumritið afhent menntamálaráðherra til varðveislu, en hitt eintakið skal varðveitt hjá þeirri sjónvarpsstöð sem samningsaðilar koma sér saman um að skuli varðveita eintakið. Allir aðilar samningsins skulu fá afrit af honum.

Reykjavík, 22. febrúar 2002

f.h. Ríkisútvarpsins f.h. Norðurljósa f.h. Skjás eins

Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum.

    Í frumvarpinu er lagt til að ríkið hætti að skoða og meta kvikmyndir fyrir frumsýningu þeirra hér á landi og að skyldan færist til þeirra sem framleiða, leigja, sýna eða dreifa á annan hátt kvikmyndum í atvinnuskyni.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að rekstri Kvikmyndaskoðunar ríkisins verði hætt en útgjöld vegna stofnunarinnar námu 10,2 m.kr. á árinu 2000 og voru fjármögnuð með 2 m.kr. ríkisframlagi og innheimtu á kvikmyndaskoðunargjaldi sem skilaði 6,6 m.kr. Þar sem kvikmyndaskoðunargjald hafði ekki verið hækkað í samræmi við verðlagsþróun og breytingar á þjónustu Kvikmyndaskoðunar nam uppsafnaður rekstrarhalli í árslok 2000 um 8,2 m.kr. og hafði aukist um 6,9 m.kr. á árinu.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að 2,3 m.kr. framlag ríkisins samkvæmt fjárlögum 2002 falli niður en á móti komi að ríkissjóður muni að öðru óbreyttu þurfa að bera uppsafnaðan halla og annan kostnað við að leggja Kvikmyndaskoðun niður, líklega 10–11 m.kr.