Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1053 — 654. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um endurskoðun laga um innflutning dýra.
Flm.: Drífa Hjartardóttir, Þuríður Backman, Karl V. Matthíasson,
Sigríður Jóhannesdóttir, Guðjón A. Kristjánsson,
Arnbjörg Sveinsdóttir, Katrín Fjeldsted.
Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hefjast þegar handa um endurskoðun laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, og búnaðarlaga, nr. 70/1998, með það að markmiði að vernda íslenska dýra- og búfjárstofna.
Greinargerð.
Hinn 11. desember 1994 öðlaðist gildi hér á landi samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem gerður var í Ríó de Janeiró 5. júní 1992 og undirritaður af Íslands hálfu 12. júní sama ár. Markmið samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni, sjálfbæra notkun efnisþátta hennar og réttláta skiptingu hagnaðar sem stafar af nýtingu erfðaauðlinda. Samkvæmt samningnum er viðurkennt að aðildarríkin eigi fullveldisrétt yfir eigin líffræðilegu auðlindum og jafnframt að þau beri ábyrgð á verndun þessara auðlinda.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um innflutning á erlendu erfðaefni búfjár og ljóst er að gildandi lög um innflutning dýra eru lítið í takt við ákvæði Ríó-samningsins. Hin norrænu kyn og stofnar nautgripa, sauðfjár, hrossa, geita og alifugla sem hér hafa verið ræktuð þarfnast verndar m.a. vegna þess að þrjú þessara kynja standa undir hefðbundinni búfjárframleiðslu í landinu og í þeim eru fólgnar verðmætar erfðaauðlindir. Undanþáguheimildir landbúnaðarráðherra samkvæmt lögum um innflutning dýra eru alltof rúmar og ekki í samræmi við nútímasjónarmið.
Helstu atriði sem taka þarf til endurskoðunar eru:
1. Herða þarf skilyrði um innflutning erfðaefnis, einkum þegar það getur leitt til þess að innlendir stofnar verði undir í samkeppninni og þannig lent í útrýmingarhættu.
2. Í gildandi lögum er hvergi minnst á að íslenskir stofnar og eiginleikar þeirra séu auðlind sem beri að varðveita. Í Ríó-samningnum eru hugtökin líffræðileg auðlind og erfðaauðlind skilgreind og væri rétt að laga íslenska löggjöf til samræmis við þau hugtök. Í 6. gr. laga um innflutning dýra er landbúnaðarráðherra veitt heimild til að fela búnaðarsamböndum og ræktunarfélögum framræktun kynja. Hugtakið „ræktunarfélag“ er hvergi skilgreint í lögum eða lögskýringargögnum en telja verður nauðsynlegt að það liggi alveg ljóst fyrir hvers konar félög megi takast á hendur svo ábyrgðarmikið starf sem framræktun innfluttra kynja óhjákvæmilega er.
3. Gera þarf meiri kröfur til rökstuðnings fyrir hugsanlegum ábata af innflutningi en ljóst er að innflutningur erfðaefnis getur haft verulega neikvæð áhrif á innlenda stofna ef illa tekst til.
4. Gera ætti sérstakt verndunarmat áður en ráðist er í kynblöndun en í 12. gr. laga um innflutning dýra er þess aðeins getið að þess skuli gætt að verðmætir eiginleikar í íslenskum búfjárkynjum tapist ekki við blöndun við innflutt kyn. Tvímælalaust ætti verndunarmat að fara fram á kostnað þess sem fer fram á innflutning erlends kyns. Þá skal á það bent að í lokamálslið 2. mgr. 12. gr. er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerðarákvæði um að aðeins megi nota hið innflutta kyn til einblendingsræktar ef ástæða þykir til. Slíkt verndunarákvæði hefur ekki verið sett og í lögunum er ekki að finna ákvæði sem með virkum hætti vernda innlent erfðaefni í búfé. Með sérstöku verndunarmati væri betur hægt að koma í veg fyrir stórslys á þessum vettvangi. Slíkt mat gæti m.a. falið í sér ítarlega skoðun á kostum, göllum og eiginleikum erfðaefnis og efnahagslegir hagsmunir vegnir og metnir gagnvart verndarhagsmunum til lengri tíma litið. Þá gæti slíkt mat einnig kveðið á um hvernig unnt væri að varðveita hið innlenda erfðaefni sem best í samkeppni við innflutt erfðaefni ef innflutningur yrði leyfður.
5. Setja þarf skýrar reglur um ábyrgð innflutningsaðila á sjúkdómum eða erfðagöllum sem fylgt geta innfluttu erfðaefni.
Iðnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um líftækniiðnað (þskj. 856, 548. mál). Í skýringum við 1. gr. frumvarpsins er tekið skýrt fram að það gildi ekki um hagnýtar rannsóknir sem miði að hefðbundnum kynbótum í landbúnaði.
Í 9. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, segir að markmið búfjárræktar sé að tryggja framfarir í ræktun búfjár í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni íslensks búfjár og búfjárafurða og að búfjárræktin skuli taka mið af skuldbindingum Íslendinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Markmiðið er ágætt svo langt sem það nær en efnisreglur skortir að mestu og hugtakanotkun er ekki samræmd við Ríó-samninginn.
Í frumvarpi sem landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi um breytingu á búnaðarlögum (þskj. 485, 350. mál) eru lagðar til breytingar 16. gr. laganna sem fjallar um erfðanefnd búfjár. Hugtakanotkun í því frumvarpi víkur nokkuð frá Ríó-samningnum og frumvarpi iðnaðarráðherra um líftækniiðnað og færi best að lög á þessu sviði sættu heildarendurskoðun hið fyrsta.