Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1058  —  495. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um verðmyndun á kindakjöti.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig er háttað verðmyndun á kindakjöti frá bónda til stórmarkaðar og hversu margar krónur koma í hlut hvers milliliðar þegar haft er í huga að nú kostar 1 kg af kindakjöti sem selt er í hálfum skrokkum 680 kr. í einum af stórmörkuðunum?

    Verðmyndun kindakjöts til framleiðenda fer eftir ákvæðum 8. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Samkvæmt þeim ákvæðum metur verðlagsnefnd búvara við upphaf hvers verðlagsárs framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú. Landssamtökum sauðfjárbænda er heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka sauðfjárafurða. Skv. 13. gr. sömu laga ákveður verðlagsnefnd heildsöluverð búvara sem verðlagðar eru skv. 8. gr. að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda og rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara. Af ákvæðum þessara tveggja greina leiðir að verðmyndun á kindakjöti er ekki opinber en fer fram á markaði hverju sinni.
    Ekki er að finna opinbera skýrslu um verð einstakra tegunda af kindakjöti sem hægt væri að styðjast við til að svara þessari fyrirspurn nema þær verðupplýsingar sem Hagstofa Íslands safnar vegna útreikninga á verðlagsbreytingum í smásölu. Leitað var til Bændasamtaka Íslands vegna fyrirspurnarinnar sem leituðu eftir upplýsingum hjá þremur sláturleyfishöfum um verð til bænda á þeim verðflokki dilkakjöts sem ætla má að um sé spurt. Niðurstaðan var sú að verðið mætti áætla 284–285 kr. á kg án virðisaukaskatts. Hvað varðaði verðlagningu kjötsins við sölu frá sláturleyfishafa kom fram við könnunina að afsláttarkjör sláturleyfishafa eru breytileg. Athugunin sem Bændasamtökin gerðu gaf tilefni til að áætla að heildsöluverð á niðursöguðum heilum og hálfum skrokkum gæti legið á bilinu 429–488 kr. á kg án virðisaukaskatts.
    Hafa verður í huga við athugun þessara talna að skilgreiningu á gæðum vantar og jafnframt að samkvæmt verðtöku Hagstofu Íslands er verð á dilkakjöti í heilum skrokkum til neytenda í byrjun febrúar 2002 talið 610 kr. á kg.