Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1066  —  570. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um verð á raforku frá Kárahnjúkavirkjun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert verður samningsbundið upphafsverð á raforku frá Kárahnjúkavirkjun til Reyðaráls ef af framkvæmdum verður?
     2.      Hvert verður áætlað meðalverð á raforku á samningstímanum og á hvaða forsendum er það mat byggt hvað varðar þróun álverðs og aðra þætti sem máli skipta?


    Í gildi er trúnaðarsamningur milli Landsvirkjunar og Reyðaráls hf. sem kemur í veg fyrir að hægt sé að gefa orkuverðið í raforkusamningi þeirra upp opinberlega. Enn fremur ber að hafa í huga að Landsvirkjun hefur gert samninga við önnur stóriðjufyrirtæki með þeim skilmálum að verð sé ekki gefið upp og hefur stjórn fyrirtækisins samþykkt að fara með það sem trúnaðarmál.
    Stjórn Landsvirkjunar staðfestir alla orkusamninga fyrirtækisins við stóriðjufyrirtæki og iðnaðarnefnd Alþingis hefur fengið trúnaðarupplýsingar um orkuverð til stóriðju í tengslum við afgreiðslu þingmála, sem snerta slíka samninga.
    Landsvirkjun telur sér ekki fært að birta opinberlega áætlanir um meðalverð á raforku á samningstímanum. Umsamið meðalverð á raforku til Reyðaráls hf. verður tengt heimsmarkaðsverði á áli. Til þess að meta þróun álverðs á samningstímanum hefur Landsvirkjun leitað til erlendra sérfræðinga á því sviði, m.a. til James F. King, sem er sjálfstæður ráðgjafi í Bretlandi, og Robin Adams hjá Resource Strategies Inc. í Bandaríkjunum. Þeir gera báðir ráð fyrir lækkandi heimsmarkaðsverði á áli á samningstímanum vegna framleiðniaukningar í greininni. Landsvirkjun hefur tekið fullt tillit til þessa í mati sínu á tekjum af Kárahnjúkaverkefninu.