Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1076  —  270. mál.




Svar



ráðherra Hagstofu Íslands við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um þróun matvöruverðs á Norðurlöndum.

     1.      Hvernig hefur verðlagsvísitala eftirtalinna flokka matvara þróast í Danmörku, í Finnlandi, á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð á árunum 1990–2000, sundurliðað eftir árum og á tímabilinu í heild:
                  a.      grænmetis,
                  b.      landbúnaðarafurða,
                  c.      allra matvæla?
        Óskað er eftir því að verðlagsvísitölur fyrir innlendar og innfluttar vörur séu aðgreindar en einnig reiknuð út heildarvísitala yfir þróun hvers flokks.
     Í svarinu er stuðst við gögn úr neysluverðsvísitölum fyrir tímabilið 1990–95 sem safnað var frá hagstofum Norðurlandanna. Árin 1995–2000 er miðað við samræmda neysluverðsvísitölu í EES-ríkjum en hún er reiknuð af Eurostat, hagstofu ESB. Grunnárið er 1996 (1996=100), en það er viðmiðunarár fyrir samræmdu evrópsku neysluverðsvísitöluna. Flokkunin er byggð á COICOP-flokkunarkerfinu (classification of individual consumption by purpose) sem er alþjóðlegur staðall sem notaður er til að flokka neysluútgjöld og neysluverðsvísitölur.
    Í fyrirspurninni er óskað eftir því að greint sé á milli verðlags á innfluttum og innlendum vörum, en þær upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi. Vísitölurnar sýna eingöngu verðbreytingar innan lands í hverju ríki og af niðurstöðunum verður því ekkert ráðið um mun á verðlagi milli ríkjanna.
    Í eftirfarandi töflum koma fram upplýsingar um þróun verðs á matvælum, grænmeti og landbúnaðarafurðum.
     Matvæli eru matur og drykkjarvörur (flokkur 01). Tölurnar fyrir Danmörku árin 1990–95 eru eingöngu fyrir matvörur.
     Grænmeti nær yfir grænmeti, kartöflur o.fl. (flokkur 0117).
     Landbúnaðarafurðir eru samtala fyrir kjöt, mjólk, osta, egg og grænmeti, kartöflur o.fl. (flokkar 0112, 0114 og 0117).

Tafla 1. Vísitölur fyrir matvæli á Norðurlöndum, 1990–2000 (1996=100).


1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000
Danmörk 90,7 91,3 92,8 92,6 95,3 98,2 100,0 103,4 104,8 104,8 106,4
Finnland 103,0 107,1 108,0 107,8 107,9 101,9 100,0 101,5 103,2 102,8 103,9
Svíþjóð 103,3 108,0 102,5 103,2 105,0 106,5 100,0 101,0 102,4 103,8 104,0
Noregur 93,8 96,0 97,1 96,0 98,2 99,3 100,0 103,1 108,0 111,1 113,3
Ísland 90,4 92,9 94,2 96,3 94,1 96,8 100,0 102,9 105,7 109,2 113,7


Tafla 2. Vísitölur fyrir grænmeti á Norðurlöndum, 1990–2000 (1996=100).
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000
Danmörk 87,1 90,6 91,5 91,8 96,2 100,9 100,0 97,2 96,3 93,8 87,6
Finnland 112,9 116,2 116,0 121,1 112,9 101,1 100,0 99,9 106,5 106,3 105,4
Svíþjóð 96,8 103,1 95,2 99,1 106,7 111,1 100,0 98,0 101,2 108,5 103,3
Noregur 85,1 85,6 87,0 85,2 93,9 100,2 100,0 99,9 108,7 112,3 116,8
Ísland 78,9 75,6 72,4 89,1 82,9 91,2 100,0 103,7 108,1 111,2 115,0


Tafla 3. Vísitölur fyrir landbúnaðarvörur á Norðurlöndum, 1990–2000 (1996=100).
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000
Danmörk 95,1 94,0 95,0 94,5 95,7 98,2 100,0 103,2 102,8 102,3 103,3
Finnland 114,1 117,4 116,7 115,9 114,9 102,7 100,0 100,0 101,1 100,3 101,4
Svíþjóð 107,8 112,2 105,8 106,3 107,9 107,0 100,0 100,0 100,5 102,2 102,2
Noregur 98,3 99,9 101,1 99,1 99,2 99,2 100,0 103,1 107,6 110,1 111,7
Ísland 95,4 127,7 101,0 99,5 95,7 96,6 100,0 101,8 105,7 108,5 112,3


     2.      Ef veruleg frávik eru í þróun vísitalna milli landa, hverjar eru taldar helstu ástæður þeirra? Er skýringa að leita í mismunandi tengslum ríkjanna við Evrópusambandið, mismunandi framleiðslu- og verslunarháttum eða sérstökum verndaraðgerðum í þágu innlendrar framleiðslu?
    Ýmsar almennar skýringar kunna að vera á mismunandi þróun matvöruverðs eftir löndum. Við samanburð á breytingum á verðlagi milli ríkjanna skipta allmargir þættir máli, svo sem náttúrufar, verðlagningar- og styrkjakerfi í landbúnaði, innflutningsvernd, tollar og önnur gjöld. Ekki eru tök á að ráðast í nákvæman samanburð á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndunum, né þeim skilyrðum sem þeim greinum sem hér um ræðir, þ.e. matvælaframleiðslu og matvöruverslun, eru búin í hverju landi um sig.
    Árin 1990–95 voru Danir einir ríkjanna í ESB, en árið 1995 gengu Finnar og Svíar í sambandið og féllu þá undir sameiginlegan innri markað ESB-ríkja. Í upphafi árs 1994 tók EES-samningurinn gildi, en Íslendingar og Norðmenn eiga aðild að honum. Ekki liggur fyrir greining á handbærum tölfræðigögnum um verðlagsþróun sem skýrt gæti mismunandi þróun þeirra vísitalna sem vísað er til í svari þessu.
    Ljóst er að breytingar á virðisaukaskatti hafa áhrif á verðmælingarnar. Á Íslandi var í janúar 1994 komið á 14% virðisaukaskatti á matvæli, en fram að því var 10% virðisaukaskattur endurgreiddur af mjólkurvörum, kjöti, fiski og innlendu grænmeti. Í Svíþjóð var tekinn upp 12% virðisaukaskattur á matvæli í upphafi árs 1996 í stað 25% VSK áður. Í töflunni koma fram verðbreytingar. Neysluverðlag sýnir breytingar á neysluverðsvísitölum í ríkjunum.

Tafla 4. Hlutfallslegar verðbreytingar eftir flokkum og tímabilum.


1990–2000 1990–1995 1995–2000
Neysluverðlag
Danmörk 23,6 10,2 12,1
Finnland 20,9 12,0 8,0
Svíþjóð 25,5 22,6 2,3
Noregur 26,2 11,9 12,8
Ísland 36,8 19,0 15,0
Matvæli
Danmörk 17,4 8,3 8,4
Finnland 0,9 -1,0 2,0
Svíþjóð 0,6 3,1 -2,4
Noregur 20,8 5,8 14,2
Ísland 25,8 7,2 17,4
Grænmeti
Danmörk 0,6 15,8 -13,2
Finnland -6,7 -10,4 4,2
Svíþjóð 6,6 14,7 -7,0
Noregur 37,2 17,7 16,6
Ísland 45,8 15,6 26,1
Landbúnaðarafurðir
Danmörk 8,7 3,3 5,2
Finnland -11,1 -9,9 -1,3
Svíþjóð -5,2 -0,8 -4,5
Noregur 13,6 0,9 12,5
Ísland 17,6 1,2 16,3