Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1084  —  668. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)





1. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Alþjóðlegt viðskiptafélag getur fengið heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldeyri í samræmi við ákvæði laga nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum, og semja og birta ársreikning sinn í erlendum gjaldeyri í samræmi við ákvæði laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til þess að samræmis verði gætt á milli ákvæða laga um alþjóðleg viðskiptafélög annars vegar og laga um bókhald og ársreikninga hins vegar að því er varðar heimildir alþjóðlegra viðskiptafélaga til þess að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldeyri. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingar á áðurnefndum lögum sem gerir fyrirtækjum þetta kleift.
    Frumvarp þetta þarfnast ekki frekari útskýringa og vísast til fyrrgreinds frumvarps varðandi efnislega umfjöllun.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum nr. 31/1999,
um alþjóðleg viðskiptafélög.

    Markmiðið með frumvarpinu er að veita alþjóðlegum viðskiptafélögum heimild til að færa bókhald sitt og ársreikninga í erlendum gjaldeyri í samræmi við ákvæði laga nr. 145/1994, um bókhald, og nr. 144/1994, um ársreikninga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.