Ferill 677. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1093  —  677. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um verndun íslensku mjólkurkýrinnar.

Flm.: Þuríður Backman, Drífa Hjartardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir,


Katrín Fjeldsted, Sverrir Hermannsson.


    Alþingi ályktar að landbúnaðarráðherra skuli þegar í stað koma á fót sérstakri áætlun um vernd íslensku mjólkurkýrinnar.

Greinargerð.


    Í október árið 2000 heimilaði landbúnaðarráðherra innflutning á fósturvísum úr norskum kúm í tilraunaskyni í því augnamiði að gera afmarkaða tilraun sem leiða ætti í ljós hvort hagkvæmt væri að taka kýr af þeim stofni eða blendingsgripi af íslenskum og norskum stofni til notkunar við mjólkurframleiðslu á Íslandi. Ákvörðunin vakti upp hörð viðbrögð og á Búnaðarþingi 2001 var samþykkt að fresta innflutningi fósturvísanna á meðan málið yrði skoðað nánar. Hinn 15. nóvember 2001 fór fram kosning um það hvort Bændasamtökin og Landssamband kúabænda ættu að standa fyrir tilraunainnflutningi fósturvísa úr norskum kúm. Skemmst er frá því að segja að 75% kúabænda höfnuðu innflutningi á norskum fósturvísum. Þrátt fyrir þetta lagði Nautgriparæktarfélag Íslands fram umsókn um innflutning á norskum fósturvísum og eftir því sem næst verður komist hefur sú umsókn ekki enn hlotið afgreiðslu.
    Hugmyndir um innflutning á norska kúakyninu hafa verið alllengi til umræðu og verið mjög umdeildar. Hér skulu á engan hátt tíunduð þau trúverðugu rök sem fram hafa verið færð gegn slíkum innflutningi þar sem t.d. hefur verið bent á mikilvægi þess að vernda fágæta dýrastofna, en af slíkum stofni er íslenska kýrin, og vakin athygli á einstæðum kostum hennar til mjólkurframleiðslu. Undir þessi rök er að sönnu tekið. Hins vegar virðist umræðunni ekki lokið og því er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til verndar íslenska kúastofninum sem verið hefur hér frá því land var numið.
    Í þessari þingsályktunartillögu er farið fram á að landbúnaðarráðherra annist um að gerð verði sérstök áætlun til verndar íslensku mjólkurkúnni en það er í samræmi við skuld-bindingar Íslands samkvæmt Ríó-sáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni frá 1992 en samningurinn tók gildi hér á landi 11. desember 1994. Um leið er vakin athygli á hættunni samfara leyfi til innflutnings á fósturvísum úr erlendum stofnum. Með innflutningi erlendra fósturvísa eru óhjákvæmilega veiktar verulega þær varnir sem drýgstar hafa verið til verndunar íslenskum dýrastofnum og opnaðar leiðir fyrir alvarlega smitsjúkdóma sem haft gætu ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
    Eftir langa einangrun á eylandi er íslenskt búfjárkyn viðkvæmt og innflutningsbann hefur verið sú vörn gegn smitsjúkdómum sem best hefur reynst að mati færustu sérfræðinga. Hvað eftir annað hafa dunið yfir stór áföll í kjölfar ógætilegs innflutnings og annarra óhappa sem ekki verða öll skýrð. Nægir í því sambandi að vísa til hitasóttar í hrossum sem olli miklum usla fyrir tveimur árum. Minnt skal á að þrátt fyrir varnarlínur sem upp voru settar og aðrar varúðarráðstafanir sem áttu að koma í veg fyrir smit dreifðist hrossapestin um land allt. Það eitt sannar að komi upp nýr smitsjúkdómur af einhverju tagi í búfé er mjög erfitt eða jafnvel útilokað að tryggja að smit berist ekki frá einu landsvæði til annars.
    Nokkur undanfarin ár hefur kúariðu og skyldra sjúkdóma orðið vart í Evrópulöndum. Í Englandi hafa þessir sjúkdómar valdið miklum usla og haft veruleg áhrif á útflutning þarlendra landbúnaðarafurða, t.d. til Frakklands. Kúariða hefur einnig komið upp í Þýskalandi og Portúgal svo að dæmi séu nefnd. Þar til nýlega hafa Norðurlöndin ekki orðið fyrir áföllum af þessu tagi. Hins vegar vildi svo til að sama dag og landbúnaðarráðherra heimilaði ofangreinda tilraun var greint frá því að nýtt afbrigði af hinum alvarlega og ólæknanlega heilahrörnunarsjúkdómi sem kenndur er við Creutzfeldt Jakob hefði komið upp í Noregi en sjúkdómurinn er það afbrigði kúariðusmits sem finnst í mönnum.Við nánari athugun reyndist þetta ekki vera nýja afbrigðið heldur það sem áður var þekkt. Hins vegar sýnir þetta hve tæpt við stöndum hvað varðar varnir landsins.
    Danir hafa til þessa talið sig lausa við sjúkdóminn en svo reynist ekki vera, þar fannst kúariða í danskfæddri kú snemma árs 2000 og upplýst var í vönduðum sjónvarpsþætti í Danmörku að allar líkur væru til þess að dönsk kýr sem flutt var til Írlands nokkru áður hafi borið sjúkdóminn með sér þangað. Auk þess hefðu verið fluttar þúsundir tonna af kjöt- og beinamjöli til Danmerkur frá löndum þar sem kúariða hefur fundist og það þótt slíkur innflutningur hefði verið bannaður í áratugi (frá 1933). Kúariða getur því verið að búa um sig á nýjum stöðum í Danmörku. Í Noregi hefur sauðfjárriða verið útbreidd. Norðmenn telja sig lausa við kúariðu en þeir hafa flutt lifandi nautgripi frá Danmörku hundruðum saman síðustu árin í þeirri trú að kúariða væri ekki í Danmörku. Enn fremur kom fyrir fáum dögum í ljós að norskar kýr hafa verið fóðraðar á kjöt- og beinamjöli sem ekki var samþykkt af heilbrigðisyfirvöldum þar. Það kæmi því ekki á óvart að kúariða væri farin að búa um sig í Noregi þótt hún hafi ekki fundist enn þá. Slíkur sjúkdómur getur dulist í áratug áður en hans verður vart.
    Smitleiðir kúariðu eru ekki að fullu ljósar, en hins vegar er vitað að kúariða getur smitast milli dýrategunda og í menn. Sjúkdómurinn er skyldur riðuveiki í sauðfé en óþarft er að minna á hvílíkum skaða sá sjúkdómur hefur valdið hér á landi og hversu erfitt hefur verið að ráða niðurlögum hans. Því hefur verið haldið fram að litlar líkur séu á því að kúariða geti smitast með fósturvísum. Það hefur hins vegar ekki verið afsannað og í ljós hefur komið að smitandi slímhúðarpest í nautgripum (BVD) getur smitast með fósturvísum.
    Að lokum skal vísað til greinargerðar Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, sem snemma á þessu ári varaði við hættu sem fylgt gæti innflutningi á norsku kúakyni. Þar segir m.a.:
    „Sagt er: Þetta er óraunhæf sjúkdómahræðsla. Hafa ekki verið flutt inn gæludýr og svín og frjóvguð egg alifugla um árabil án vandræða? Svarið er: Innflutningur á nýju kúakyni til Íslands er ekki sambærilegur við þetta. Í svínum, hænsnum og gæludýrum eru margir sömu smitsjúkdómar og finnast í nágrannalöndum, meðal annars vegna innflutningsins. Það er ekki hvað kýrnar varðar. Erlendis þekkjast smitsjúkdómar af ýmsum toga í kúm, sem ekki hafa borist hingað enn þá. Svín eru lokuð inni alla sína ævi við stranga sjúkdómavörn og sama gildir um fiðurféð, en kýrnar hafa fengið og fá vonandi áfram að ganga frjálsar úti hluta ársins. Oft eru þær í bland við aðrar dýrategundir, m.a. sauðfé. Smithætta frá kúm er því allt önnur og meiri ef illa fer. Sauðfé gæti sýkst af innfluttum kúasjúkdómi og dreift honum um landið. Þannig tilkominn sauðfársjúkdómur gæti breiðst út án þess að vörnum yrði við komið og orðið landsplága. Slíkt hefur gerst áður. Varla eru menn búnir að gleyma því hvernig hrossapestin dreifðist um allt land þrátt fyrir varnarlínur. Hún gæti valdið árlegu tjóni um ókomin ár ef hún er landlæg orðin hér.“
    Full ástæða er fyrir okkur Íslendinga að gæta ýtrustu varúðar við allar breytingar á búfjárstofnum okkar enda hafa þeir vissulega notið þeirrar einangrunar sem við búum við hér á landi. Undanfarin ár hefur verið lagt kapp á að kynna íslenskar landbúnaðarafurðir erlendis og vinna þeim markað sem hreinni, ómengaðri vöru.
    Neytendur eru – ekki síst vegna kúariðufársins í Evrópu – mjög á varðbergi og krefjast þess að gæði, hreinleiki og heilbrigði allrar vöru sé sannað og staðfest. Tilraun af því tagi sem hér er fjallað um getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða og gert að engu það brautryðjendastarf sem þegar hefur verið unnið á þeim vettvangi.
    Því hefur verið haldið fram að framleiðni íslenska kúakynsins sé of lítil og því sé framleiðslukostnaður óhjákvæmilega hár. Vel má vera að nyt íslenska kúakynsins sé ekki að fullu sambærileg við sumar erlendar tegundir en úr því má bæta með ræktun, fóðrun og betri mjaltatækni. Rannsóknir hafa sýnt að efnasamsetning íslensku mjólkurinnar er með eindæmum góð. Mjólk frá íslenska kúakyninu er auðug af mjólkurpróteininu kappa-kasein B sem er m.a. mjög heppilegt við ostagerð en inniheldur lítið af próteininu beta-kasein A1 sem finnst meira af hjá öðrum tegundum, t.d. norska kúakyninu. Niðurstöður rannsókna hafa gefið til kynna líkur á að beta-kasein A1 geti valdið hættu á insúlínháðri sykursýki hjá börnum. Þessum rannsóknum er enn ekki lokið en áður en niðurstaða fæst er óforsvaranlegt að hefja hér mjólkurframleiðslu með erlendu kúakyni. Íslenska kýrin hefur sýnt okkur hvað hún hefur að bjóða og nauðsynlegt er að standa vörð um þá eiginleika hennar. Þá má benda á það ef rannsóknir sýna að beta-kasein A1 hafi þessa hættulegu eiginleika er ljóst að íslenska mjólkin og afurðir úr henni geta verið geysiverðmæt útflutningsvara.
    Skuldbindingar Íslands samkvæmt Ríó-sáttmálanum krefjast þess að við stöndum vörð um hið íslenska kúakyn, landnámskúna en markmið samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni, sjálfbæra notkun efnisþátta hennar og réttláta skiptingu hagnaðar sem stafar af nýtingu erfðaauðlinda. Jafnframt er viðurkennt að aðildarríkin eigi fullveldisrétt yfir eigin líffræðilegu auðlindum og jafnframt að þau beri ábyrgð á verndun þessara auðlinda. Eiginleikar íslensku kýrinnar er tvímælalaust verðmæt auðlind sem okkur ber skylda til að vernda.
    Í ljósi þess sem hér er komið fram er því skorað á landbúnaðarráðherra að annast um að gerð verði sérstök verndaráætlun fyrir íslensku mjólkurkúna og tryggja þar með hagsmuni allra Íslendinga og ímynd landsins út á við en það verður seint ofmetið að geta tryggt sérstöðu okkar sem þjóðar sem framleiðir hreinar, hollar og góðar landbúnaðarafurðir. Miðað við það sem að framan er rakið er augljóst að hagsmunum okkar er betur borgið með verndarstefnu til lengri tíma litið.
    Með þingsályktunartillögu þessari eru sem fylgiskjöl tvær blaðagreinar sem birtust í Morgunblaðinu á árinu 2000.




Fylgiskjal I.


Sigurður Sigurðarson,
dýralæknir á Keldum:


Innflutningur fósturvísa norskra kúa er ótímabær.


(Morgunblaðið, 15. janúar 2000.)


Inngangur.
    Stjórn Landssambands kúabænda hefur sótt um leyfi til innflutnings á fósturvísum af norsku kúakyni (NRF) í tilraunaskyni. Undir þessa ósk tekur meiri hluti stjórnar Bændasamtaka Íslands og gerir að sinni, þrátt fyrir dræman stuðning íslenskra kúabænda svo ekki sé meira sagt og verulega andstöðu þjóðarinnar, sem kom fram í skoðanakönnun á jólaföstu 1999. Það er samt þungur skriður á innflutningsmönnum enn einu sinni og hætt við því, að samþykki stjórnvalda verði þvingað fram. Í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998 segir í 2. gr., að dýralæknar skuli leitast við að girða fyrir hættur m.a. af innflutningi og vera á verði gagnvart því að einstaklingar eða samfélagið í heild bíði tjón af völdum dýrasjúkdóma. Ég tek þetta til mín og bendi á smithættu, sem ekki er hægt að útiloka, og fyrirsjáanlega mikla aukningu á framleiðslusjúkdómum og fótameinum með nýju kúakyni. Ég bendi á fleira, sem að mínum dómi mælir gegn innflutningi fósturvísa, m.a. hugsanlega aukningu á sykursýki í börnum við kúaskiptin og hættu á útrýmingu íslenska kúakynsins, sem hefur ýmsa einstæða kosti eins og íslenski hesturinn, sauðféð og geitin. Ég legg þunga áherslu á að stjórnvöld hafni þessari umsókn. Langtíma áhrif af innflutningi fósturvísa fyrir íslenska búfjárrækt tel ég vera margþætt. Brotið yrði skarð í varnargarð, sem dugað hefur vel gegn því að hingað berist nýir smitsjúkdómar í nautgripi. Það skarð yrði tæpast fyllt aftur. Mikilvægast er að standa gegn því með fullri einurð, að spillt verði þeim vörnum landsins gegn smitsjúkdómum, sem best hafa reynst. Fram undan eru víðtækir samningar við Evrópusambandið og Heimsviðskiptastofnunina WTO. Samningsstaða okkar veikist, ef innflutningur verður þá hafinn frá Noregi, sem nú þegar hefur neyðst til þess að opna í hálfa gátt fyrir innflutningi og strax fengið smitsjúkdóma nokkrum sinnum af þeim sökum. Hins vegar mun einörð afstaða Íslendinga gegn innflutningi njóta skilnings. Auðvelt er að rökstyðja þá afstöðu með sérstakri viðkvæmni íslenskra búfjárkynja eftir mjög langa einangrun á eylandi og vísa til hinna miklu áfalla, sem dunið hafa hvað eftir annað yfir í kjölfar innflutnings og annarra óhappa, sem ekki verða öll skýrð. Nýjasta dæmi um það er smitandi hitasótt í hrossum, sem reið hér öllu á slig fyrir rúmu ári. Ekki er hægt með neinum ráðum að útiloka alla hættu á þekktum smitsjúkdómum við innflutning á fósturvísum kúa. Það var niðurstaða þriggja manna dýralæknanefndar, sem falið var að meta áhættuna. Yfirdýralæknir setti upp varúðarreglur í mörgum liðum til að fara eftir við innflutning, byggðar á mati nefndarinnar. Hann telur, ef reglum er fylgt, hverfandi líkur á því að smitsjúkdómar berist með fósturvísunum. Ég er ósammála þessu. Reglurnar eru flóknar og dýrar en þó myndi draga verulega úr smithættu, ef þeim yrði fylgt. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Reynslan sýnir að ýmis góð áform um strangt eftirlit hafa runnið út í sandinn. Svo gæti enn farið og enginn verið ábyrgur, þegar óbætanlegur skaði er staðreynd. Eftirlit er erfitt og varúð sljóvgast, þegar frá líður. Verði reglurnar sniðgengnar er voðinn vís, en fleira kemur til. Ekki er hægt að prófa fyrir sjúkdómum sem eru enn þá lítið þekktir eða óþekktir þótt þeir séu á staðnum. Loks vil ég geta þess að ég er mjög efins um öryggi einangrunarstöðvarinnar í Hrísey fyrir uppeldi fósturvísa. Stöðin er allt annað en hún var. Ástæðan er stöðugur innflutningur lifandi dýra þangað af ýmsum öðrum tegundum, sem gætu þó borið með sér smitefni, sem eru varasöm fyrir nautgripi. Umferð manna er mikil þar. Faglegt eftirlit með stöðinni og starfseminni þar hefur verið skert verulega.

Ekki sambærilegt við innflutning alifugla og svína.
    Innflutningur á nýju kúakyni til Íslands er alls ekki sambærilegur við innflutning á frjóvguðum hænueggjum eða lifandi svínum, sem framkvæmdur hefur verið. Í þeim dýrategundum eru flestir þeir smitsjúkdómar hérlendis sem finnast í nágrannalöndunum. Það er ekki hvað kýrnar varðar. Erlendis þekkjast smitsjúkdómar af ýmsum toga í kúm, sem ekki hafa borist hingað enn þá. Svín eru lokuð inni á húsi alla sína ævi við stranga sjúkdómavörn og sama gildir um fiðurféð, en kýrnar hafa fengið og fá vonandi áfram að ganga frjálsar úti hluta ársins. Oft eru þær í bland við aðrar dýrategundir, m.a. sauðfé. Sauðfé gæti sýkst af innfluttum kúasjúkdómum og dreift þeim um landið. Það gæti orðið óbætanlegur skaði. Enn er í fersku minni, hvernig hrossapestin dreifðist um allt, þrátt fyrir varnarlínur. Innflutningur á dýrum og erfðaefni er bannaður. Landbúnaðarráðherra getur einn gefið undanþágu. Ómaklegt er að gagnrýna hann eins og gert hefur verið, þótt dregist hafi að afgreiða umsóknina. Hann hefur rétt og skyldu til að taka þann tíma sem þarf til að meta aðstæður og málsgögn. Í lögum um innflutning dýra nr. 54 16. maí 1990 segir í 4. gr.: ,,Áður en leyfi til innflutnings á búfé eða erfðaefnis þess er veitt skal ráðherra leita álits búfjárræktarnefndar í viðkomandi búgrein og skal hún meta þörf eða hugsanlegan ábata fyrir íslenska búfjárrækt af slíkum innflutningi.“ Fagráð í nautgriparækt segir í febrúar 1998 „að innflutningur erlends kúakyns kunni að vera hagkvæmur en úr því verði ekki skorið til fulls nema með tilraunainnflutningi“. Hvorki hefur verið metin þörf né ábati. Svona umsögn er því ekki boðleg. Villandi er að segja tilraun nauðsynlega hér á landi til að geta áætlað hugsanlegan ávinning. Flutningur fósturvísa til landsins áður en raunhæft hagkvæmnismat fer fram virðist vera brot á fyrrnefndum lögum og gæti kostað alvarlegar athugasemdir, ef til vill málaferli. Ef slík tilraun telst nauðsynleg á vitanlega að gera hana í Noregi. Þá eru fyrrnefndir vankantar úr sögunni. Styðja þarf sterkum rökum afdrifaríka og dýra „tilraun“, gerða á kostnað allra bænda, líka þeirra sem eru á móti innflutningi. Ríkissjóður yrði að leggja verulegt fé í þessa svokölluðu tilraun, fjármuni almennings sem virðist mótfallinn innflutningi. Efalaust verður sótt í styrk frá Rannsóknarráði Íslands líka og þá skert fé til annars. Málið er illa undirbúið, sannfærandi rök vantar fyrir þörfinni, hagkvæmnismat er ekkert raunhæft. Áhættan virðist veruleg. Margir af dýralæknum landsins eru sammála þessu, þótt fáir þeirra hafi látið til sín heyra, og vilja ekki að tekin sé slík áhætta, þar á meðal er Páll A. Pálsson fyrrverandi yfirdýralæknir. Ég tel skyldu mína sem eini sérfræðingur landsins í nautgripasjúkdómum á Íslandi og í Noregi að vara við því enn einu sinni að þetta skref sé stigið.

Íslenskt búfé er viðkvæmt fyrir smiti.
    Veirusjúkdóma þarf einkum að hafa í huga. Slíkir sjúkdómar gera lítt vart við sig í löndum þar sem þeir hafa verið lengi og eru landlægir en geta valdið usla í búfjárstofnum, sem lengi hafa verið einangraðir eins og íslensku búfjárkynin. Þar með er talinn kúastofninn íslenski. Við höfum bitra reynslu af innflutningi. Þar eru áföll af völdum sjúkdóma fyrr og síðar. Ég nefni aðeins mæðiveiki, garnaveiki og riðuveiki. Áður óþekktir kvillar og sjúkdómar geta komið fram. Fyrir þeim er ekki hægt að prófa. Menn átta sig kannske ekki á því, að annað kastið koma fram nýir sjúkdómar. Smithætta er fyrir hendi um nokkurt skeið áður en óþekktur sjúkdómur er greindur, einnig þótt fram komi þekktur sjúkdómur, sem menn áttu ekki von á. Þekktur sjúkdómur getur lýst sér öðru vísi en lesa má á bókum, komi hann fram á nýju svæði og í nýju búfjárkyni. Dæmi um þetta gæti verið smitandi hitasótt í hrossum, sem upp kom í febrúar 1998 og breiddist út um allt land án þess að við yrði ráðið og er sjálfsagt landlægur orðinn hér. Sumir telja þennan hrossasjúkdóm landlægan ytra, þótt hann sjáist ekki. Ekki hefur enn tekist að greina með vissu hver þessi sjúkdómur var. Það er athyglisvert og gefur til kynna takmarkanir okkar við sjúkdómagreiningu og varnir. Dýrkeypt varð sú reynsla en þó vorum við heppin að ekki drapst nema ríflega stórt hundrað hrossa, en tugir þúsunda hrossa munu hafa veikst. Allt eins hefði getað borist hingað mun alvarlegri drepsótt. Nóg er af þeim í öðrum löndum og því miður er enn þá greið leið inn í landið fyrir nýja smitsjúkdóma í hrossum vegna agaleysis og kæruleysis okkar sjálfra. Ég legg til að lögfestar verði hér, líkt og erlendis, reglur sem banna mönnum að koma í gripahús hér heima fyrr en liðnir eru 2 sólarhringar frá því að þeir hafa verið í snertingu við skepnur ytra. Hægt væri að sækja ýmsa góða kosti í útlend hestakyn t.d. meiri stærð, meiri hraða, fallegri liti, reisulegra byggingarlag, glæsilegar hreyfingar eða hver veit hvað? Væri ekki erfiðara að neita slíkum innflutningi t.d. frá Noregi, ef búið væri að leyfa innflutning á nýju kyni nautgripa þaðan? Væri slík beiðni verri en innflutningur á nýju kúakyni? Líklega myndu hestamenn sjálfir hafa vit fyrir umsækjendum og afsegja slíkt? Það hafa 70% kúabænda gert á fundum. Skoðanir þess meiri hluta verða lítils metnar, ef innflutningur verður leyfður. Smithætta er stundum við lýði í nokkur ár áður en bera fer á nýjum sjúkdómi, einnig eftir að hans verður vart, meðan greining er enn óklár. Það er vegna óvissu, tregðu og jafnvel óvilja til að greina hann og skrá í viðkomandi landi. Varnarviðbrögð verða sein og fálmandi. Hvernig var með kúariðuna? Henni veldur örsmátt og ótrúlega lífseigt prótein, talið komið frá riðufé. Hún var búin að malla í 4–8 ár í Englandi áður en hún var greind 1986. Ótrúlegur feluleikur og undanbrögð viðgengust lengi vel og jafnvel enn þá í Engandi m.a. af hálfu stjórnvalda til að reyna að forða þeim frá fjárhagstjóni, sjálfsagt í þeirri von að allt myndi sleppa. Allt það tímabil og í nokkur ár á eftir var selt erfðaefni, lifandi gripir, smitmengað fóður og fleira frá Englandi í ýmsar áttir með alvarlegum afleiðingum fyrir viðkomandi lönd eins og alkunnugt er orðið vegna mikillar umræðu. Árið 1988 var meira að segja seld kýr með kúariðusmit frá Englandi til Danmerkur. Nokkru síðar og áður en vitað var hvað yrði úr kúariðusmitinu fluttum við fósturvísa af holdakyni nautgripa frá Danmörku til Íslands. Þetta fór framhjá undirrituðum, hann var ekki spurður. Dýralæknirinn danski, sem kom með fósturvísana, mun hafa undrast eftirlitsleysið með innflutningnum. Við megum víst þakka fyrir að ekki fór verr. Er ráðlegt fyrir okkur, sem miðar vel við útrýmingu á riðuveiki úr sauðfé með ærnum kostnaði, að fá fósturvísa úr nautgripum frá Noregi þar sem riðuveiki í sauðfé er mjög útbreidd og óvissa ríkjandi um það hvar hún er ekki? Þar eru ekki varnarhólf eins og á Íslandi og mun síðar var gripið til aðgerða gegn riðunni þar en hér. Ég mótmæli slíkri ógætni.

Smitandi slímhúðapest (BVD).
    Smitandi slímhúðapest í nautgripum, Bovine viral diarrhoea, er pestarveirusjúkdómur, sem sýkir einnig sauðfé. Prófun, sem gerð var á tankmjólk frá 253 kúabúum og blóðsýnum úr einstökum gripum víðs vegar af Íslandi, hefur gefið tærar og hreinar niðurstöður. Þótt próf þurfi alltaf að taka með fyrirvara, styrkir það þessar niðurstöður, að engin einkenni sýkingar í nautgripum eða sauðfé af þeim toga hafa sést hérlendis. Veira þessi er í kúm og sauðfé í Noregi og hefur valdið miklu tjóni en hefur látið undan síga í nautgripum vegna kostnaðarsamra aðgerða um árabil (400 milljónir á ári). Aðgerðir hófust þar til að ná betri samningsstöðu við Evrópusambandið. EES-samningurinn skuldbindur til sem frjálsastrar verslunar. Ef færð eru gild rök fyrir því að land sé laust við ákveðna sjúkdóma eða skipulegar aðgerðir í gangi til að uppræta þá, gefur það færi á að neita innflutningi frá Evrópu á því sem felur í sér smithættu. Staða Íslands hvað varðar þennan sjúkdóm er einstæð í Norður-Evrópu að dómi Stefans Alenius, sérfræðings í veirusjúkdómum dýra í Svíþjóð, sem prófað hefur sýnin fyrir okkur, og óráðlegt er að hans dómi að taka nokkra áhættu fyrir svæði og lönd sem laus eru við sjúkdóminn. Við þurfum ekki að berjast fyrir þeirri stöðu okkar lands eða kosta neinu til. Eigum við að leggja slíka stöðu í hættu?

BVD-smit getur borist með fósturvísum.
    Fyrr voru fósturvísaflutningar taldir hættulausir. Nú er vitað að það er rangt. Veiran getur borist með fósturvísum nautgripa. Áður en það vitnaðist voru fluttir fósturvísar holdanauta hingað frá Danmörku eins og áður segir. Við vorum heppin að fá ekki veiruna með þeim. Veiran berst einnig með sæði. Sagt var frá rannsókn á þessari veiru nýlega í ensku dýralæknariti. Hún fannst í eggjastokkum, eggjum og fósturvísum. Þetta er ný vitneskja. Veiran veldur bítlaveiki í sauðfé og geitum, Border disease, og er náskyld svínapest, Swine fever. Sauðfé smitar nautgripi og nautgripir sauðfé skv. nýrri doktorsritgerð sænskri um þennan sjúkdóm. Veiran finnst í norsku sauðfé og þótt menn nái smitinu niður í kúm þar í landi með ærnum kostnaði er sauðféð eftir sem áður smitað og getur e.t.v. sýkt nautgripi á ný. Unnt er að prófa foreldra fósturvísa og taka aðeins erfðaefni úr þeim gripum, sem engin mótefni eru með, en öll slík próf eru ónákvæm og skilja eftir óvissu. Þvo má og sótthreinsa erfðaefnið og minnka enn áhættuna. Þó er enn eftir óvissa. Sú óvissa og smithætta magnast við endurtekinn innflutning. Auk þess sljóvgast varúð manna á löngum tíma, einkum ef vel gengur í fyrstu. Það sem unnt er að fyrirbyggja að mestu eða öllu leyti með mikilli varúð við innflutning í eitt skipti er erfiðara að girða fyrir svo tryggt sé, þegar mörgum sinnum þarf að flytja inn eins og óhjákvæmilegt verður, ef farið yrði af stað með tilraun þessa. Mikil þarf ávinningsvonin að vera til að réttlæta slíka áhættu.

Smitandi hvítblæði (EBL).
    Smitandi hvítblæði (Enzootic bovine leucosis) er illskeytt og ólæknandi retroveirusýking í kúm og kindum í flokki með mæði og eyðni. Hún er þó ekki talin sýkja fólk. Hún barst til Noregs fyrir ekki löngu. Ég veit ekki til þess að henni hafi verið útrýmt þar. Sá sjúkdómur hefur aldrei borist til Íslands. Erfitt er að útiloka að veiran berist með fósturvísum.

Smitandi berkjulungnabólga (RSV).
    RS-veirusýking í öndunarfærum kálfa og kúa (Respiratory syncytial-virus) barst til Noregs með innflutningi fyrir 4–5 árum, olli þar talsverðu tjóni og uppnámi og er enn við lýði þar. Hún hefur heldur aldrei verið staðfest hér á landi.

Smitandi barkabólga/fósturlát (IBR/IPV).
    Þetta er herpesveirusýking, sem aldrei hefur fundist hér. Grunur vaknaði um þennan sjúkdóm í Noregi á síðasta ári, meira að segja inni á sæðingarstöð. Það olli miklu uppnámi en varð þó ekki staðfest. Erfitt er að losna við þennan sjúkdóm ef hann birtist. Bólusetning dugar þó til að halda honum í skefjum. Fleira verður ekki talið að sinni.

Sykursýki í börnum.
    Nýlega hefur Stefán Aðalsteinsson fv. framkvæmdastjóri Norræna genabankans fyrir búfé vakið athygli á því, að íslenskar kýr eru ólíkar kúakynjum í nágrannalöndunum hvað varðar tvö mjólkurprótein. Hvort tveggja er hagstætt íslenskum kúm. Annað er heppilegt við ostagerð, kappa-kasein B, og finnst í miklum mæli í íslenskri mjólk en hitt, sem er varasamt, beta-kasein A1, finnst í mun meira mæli í norskri mjólk en íslenskri. Þetta prótein getur valdið sykursýki í músum og því telja menn að það geti í vissum tilfellum valdið sykursýki í börnum. Insúlínháð sykursýki í börnum undir fermingu er helmingi tíðari í Noregi en á Íslandi. Grunur hefur fallið á efnasamsetningu mjólkur. Ný rannsókn styrkir þessa tilgátu en frekari rannsóknar er þörf til fullkominnar sönnunar. Stefán hefur gert áætlun um það hvernig losna má alveg við þetta prótein úr íslenskri mjólk með markvissu úrvali á kúm. Hann telur að það megi gera á 6 árum. Ætti ekki að uppræta svo alvarlega óvissu strax? Þá gætum við e.t.v. framleitt mjólkurduft, sem minnkar hættu á sykursýki í börnum hér og flutt út þá heilsuvöru fyrir börn í öðrum löndum. Mun erfiðara er að hreinsa þennan grunaða erfðavísi úr öðrum kúakynjum í Evrópu. Þrjár af hverjum fjórum norskum kúm og nautum eru með hann. Yfirdýralæknir gerði kröfu um að eingöngu yrðu valdir sem foreldrar fósturvísa gripir, sem eru lausir við hann. En jafnframt þarf að velja fyrir öðrum heppilegum eiginleikum. Þess vegna hafa innflutningsaðilar beðist undan svo gressilegri takmörkun á vali sínu úr norska kyninu. Sýnt er hvert stefnir. Það má ekki gerast, að mjólk verði spillt með innflutningi á öðru kúakyni þannig að sykursýki aukist fyrir komandi kynslóðir. Við flytjum inn mjólkurduft, sem e.t.v. stuðlar að sykursýki. Hvers vegna eru ekki nein viðbrögð opinberra aðila við þessum ábendingum ítrekuðum? Hvar eru neytendasamtökin nú? Landlæknar, fyrrverandi og núverandi, hafa báðir tekið undir þessi sjónarmið. Ég legg til að tekið verði tillit til þessa við ræktun hér á landi og stefnan tekin strax á að uppræta úr íslensku kúakyni genið, sem grunað er um að valda sykursýki. Prófin eru til og fremur ódýr. Þau má nota á sæði ferskt og fryst. Fyrsta skrefið er að prófa allt nautasæði sem til er í geymslu á nautastöð Bændasamtakanna á Hvanneyri og öll ný naut áður en þau verða tekin í notkun.

Er tími kominn til að endurskoða ræktunarstefnuna?
    Þegar mjólk vantaði í landinu var eðlilegt að láta nythæð vega þyngst í kynbótastarfi. Það hefur skilað þeim árangri að offramleiðsla hefur oft verið á mjólk og auðvelt er að auka að mun mjólkurframleiðslu með íslenska kúastofninum. Hér vantar því ekki mjólk og ekki heldur nautakjöt. Varla þarf að búast við verulega aukinni neyslu mjólkurafurða. Leggja ætti áherslu á að bæta júgur og spena og láta gott heilsufar og endingu hafa meira vægi en verið hefur í ræktunarstefnu? Norskar kýr eru flestar hyrndar. Hér hefur verið lögð áhersla á kollóttar kýr og vel tekist til. Er skynsamlegt að stefna á hyrnt kúakyn þar sem afhorna þarf alla kálfa? Hvað skyldi það kosta og hvað með dýravernd í því sambandi?

Breyttir búskaparhættir, byggðaröskun.
    Það stefnir í það víða erlendis, allt undir merkjum samkeppni og hagkvæmni, að kýr standi sem lengst inni, jafnvel allt árið. Síðan er farið að gefa hormón til að auka afköstin, og næringarríkt skólp til að spara fóðurkostnað. Eftir amerískri forskrift mætti framleiða alla okkar mjólk á algjörri innistöðu í einu búi fyrir sunnan og öðru fyrir norðan. Er slík þróun æskileg hérlendis? Eða verðum við að halda samkeppnisleiknum áfram, ef við hefjum hann? Eigum við að setja mörk um það hve langt má ganga í slíkum búskaparháttum eða búa enn um sinn við íslenskt kúakyn og markvissa þróun þess? Almenningur er sáttur við íslensku kúna, ekki við innflutningsmenn. Hánytjakýrnar stóru og þungu í útlöndum þurfa hlutfallslega meira kjarnfóður en íslenskar. Meira korn þyrfti fyrir sama magn mjólkur. Það yrði tekið frá fólki í hungruðum heimi. Stór skref yrðu tekin frá vistvænum búskap sem margir telja vænlegan hér á landi og lífrænum, frá graskúnni í kornkú. Eru líkur á því að þröngt verði í gömlum fjósum fyrir nýjar og stærri kýr? Fá menn fjármagn til að endurnýja og stækka fjósin sín? Hvar verða þeir peningar teknir? Er hætta á því að bændur sem tæpt standa, en það er víða á landinu, flæmist frá búskap löngu fyrr en þeir ætluðu vegna óviðráðanlegs kostnaðar? Hvað þá með byggðasjónarmið? Varla er tal stjórnmálamanna um það tómt hjóm og einskis virði. Hver er stefnan?

Eru grannar okkar lengra komnir í að fræða sína menn?
    Við vitum um menn í flestum sveitum hér á landi, sem búa við hámjólka kýr án umtalsverðra sjúkdóma og ná lágri frumutölu. Hærri frumutala í mjólk hér en í grannlöndunum er vegna þess að við erum að byrja nú en þeir hafa unnið að því að ná henni niður í meira en áratug. Há tala gefur til kynna bólgu í júgri. Getur verið að þá grundvallarfræðslu vanti að menn skemmi óvitandi júgrin með rangri stærð af spenagúmmíum? Úrvalskúm má ekki gefa annað en úrvals heyfóður. Hvers vegna geta sumir bændur en ekki allir verkað slíkt hey hvernig sem viðrar? Mig grunar, að skilvirka fræðslu vanti um fóður og fóðrun á fullorðnum gripum og meðferð á ungviði, sem enn er hrakleg víða hér því miður. Þekkingin er til. Hún er undirstaða fyllstu afurða. Á meðan talsverður hópur manna nær afbragðs árangri með íslenskar kýr geta menn vonað að markvissar aðgerðir til að efla þekkingu og nýtingu hennar stækki verulega hóp úrvals kúabænda. Nú þegar eru 10 bú hér með meira er 6.000 lítra meðalnyt en því ná ekki nærri öll norsk bú. Einstaka bú hér ná ekki 3.000 lítrum úr sama kyni. Hvers vegna? Á námskeiði um fjölþátta sjúkdómagreiningu á kúabúum, sem ég sótti á Hvanneyri í sumar, sýndist mér sem við gætum bætt ýmislegt til að auka hagkvæmni kúabúa og miðað við það sem t.d. Danir hafa náð. Væri ráð að bera saman vinnubrögð skepnuhirða og þjónustuaðila á norskum búum við það sem þekkist á Íslandi? Eru grannar okkar komnir lengra en við í því að fræða og þjóna kúabændum? Er fóðrið fjölbreyttara og minni sveiflur í samsetningu þess? Gæti það átt þátt í mun á afurðasemi kynjanna eða er kannske ekki umtalsverður munur þegar öllu er á botninn hvolft? Væri ekki rétt að láta reyna á það betur hvað íslenska kýrin dugar á réttum forsendum? Spyrja má hvers vegna fleiri og fleiri Norðmenn séu að verða fráhverfir sínu ágæta kúakyni og telja önnur kyn betri. Ég hef reynt að fylgjast vel með því hvað gerist í Noregi. Mér sýnist að innflutningsmenn vilji komast í rauða samnorræna erfðapottinn, ekki stöðvast við norsku kýrnar, heldur stíga fyrsta skrefið af mörgum, ef látið verður undan þrýstingi núna. Fordæmin sjást hjá svínabændum hér, sem fara úr einu landi í annað, fyrst er náð í svín til Noregs sem reynast fótfúin, svo er farið til Finnlands, kannske víðar? Svínaskarðið stendur opið. Hvenær verður slys þar?

Ný vandamál – Meta þarf sjúkdómahættuna alla strax.
    Þeir sem eiga erfitt með að búa við íslenskar kýr munu lenda í því sama og jafnvel enn meiri vanda með þær norsku. Þeirra vandi mun ekki leysast við innflutning. Eru menn viðbúnir því, sem fylgja mun hinu þunga kyni, að meðalaldur kúnna verði aðeins fjögur ár, að tvö mjaltaskeið náist að jafnaði og að endurnýja þurfi 40% kúnna árlega? Berum það saman við Gullhúfu og Skjöldu, sína af hvoru horni Íslands, sem heilsugóðar entust vel með hányt í 18 ár. Það eru sérstakar aðstæður núna meðan verið er að ná frumutölu í mjólkinni niður og kostar förgun á óvenjulega mörgum kúm. Það lækkar meðalaldurinn meðan á því stendur en mun breytast aftur. Stærri og þyngri kýr og lægri meðalaldur í nýju kúakyni leiðir til meiri kjötframleiðslu. Það gæti aukið enn vandann við sölu á nautakjöti og rýrt hag holdanautabænda. Meta þarf sjúkdómaþáttinn allan strax. Ekki var ætlast til þess af dýralæknanefndinni, sem yfirdýralæknir byggði á. Meta þarf sjúkdóma, sem gætu borist til landsins en ekki má gleyma framleiðslusjúkdómum, sem munu aukast stórlega. Nýr og þyngri kúastofn færir okkur ný vandamál. Þegar slíkt kyn kæmi í íslensk fjós gæti það leitt til sjúkdóma, sem íslenskir bændur eru ekki búnir undir svo sem aukins súrdoða, snúnings á vinstur, vambarsúrnar, kvikubólgu eða klaufsperru, sólamars og varanlegra vöðvaskemmda í legukúm. Ófrjósemi er vandamál í Noregi og júgurbólga er ekki síðri vandi þar en hér á landi þrátt fyrir betra júgur og spena. Óvíst er hvort stórkýrnar standast kalda sumarveðráttu okkar eins og þær sem aðlagast hafa aðstæðum í þúsund ár. Með nýju kyni yrði e.t.v. tekin stefna á algjöra innistöðu. Væri ástæða til að athuga nánar hvernig sú mikla tilraun hefur reynst Færeyingum, þegar skipt var yfir í norskar kýr. Þeir útrýmdu sinni kú og búa nú við norskan stofn á innistöðu. Norsku þungu kýrnar spörkuðu út og spilltu landi, þoldu ekki aðstæðurnar og voru ekki hafandi úti. Vitnað hefur verið í tilraun, sem gerð var í Færeyjum þar sem bornar voru saman íslenskar kvígur og norskar. Niðurstaðan hefur verið túlkuð í hag þeim norsku. Var samanburðurinn sanngjarn? Hóparnir voru ekki sambærilegir í upphafi. Á tilraunatímanum bættu þær íslensku á sig holdum en hinar lögðu af. Þetta var ekki metið. Þær íslensku eru seinni til en endast betur. Sverrir Patursson bóndi í Kirkjubæ varar við því að skipta um kúakyn. Hann segir færeyska bændur ekki hafa orðið feita og ríka á norsku kúnum en það hafi dýralæknar þeirra orðið. Kollegar mínir í Noregi munu einnig hafa góðar tekjur af þarlendum kúm. Það er athyglisvert, að ýmsir dýralæknar íslenskir, sem hafa starfað í Noregi og þekkja norsku kýrnar, eru andvígir innflutningi vegna sjúkdóma þar.
    Við höfum skuldbundið okkur til að varðveita íslenska kúakynið með alþjóðlegum samningum. Það býr yfir kostum, sem einstæðir virðast og gætu kannske reynst okkur gullmoli fyrir framtíðina eins og íslenski hesturinn, ef við spilum ekki tækifærinu úr höndum okkar. Ekki verður aftur snúið, ef við afrækjum íslensku kúna. Hætt verður kynbótum og viðhaldi kynsins, ef innblöndun hefst. Þá þarf að gera sérstakar dýrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir útrýmingu. Rétt er að taka þann kostnað með í hagkvæmnismat við innflutning. Tilraunaáætlunin er ófullkomin. Munur í hag norska kyninu á tilraunatíma vegna meiri bráðþroska og blendingsþróttar óskyldra kynja hverfur, þegar frá líður, en verður þó túlkaður sem réttlæting til að halda áfram með kynskiptin. Við vitum hvað við höfum. Enn má bæta íslenska kúastofninn verulega og leiðbeina íslenskum kúabændum betur. Okkur má ekki liggja svo á að verk okkar verði óbætanlegt slys. Frestum ákvörðun um innflutning þar til íslensku kýrnar hafa verið rannsakaðar betur, sem nauðsynlegt er. Ég trúi, að þær muni standa sig vel við samanburðinn, ef ekki er gleymt mikilvægum þáttum og dæmið reiknað af réttsýni.

    Búkolla mín baular nú
    og biður menn að hafa trú
    á litskrúðugri landnámskú,
    sem lífið þakka megum.
    Hennar mjólk er holl og góð
    heilsubrunnur vorri þjóð.
    Kynið hreina sýnir sjóð,
    sem við bestan eigum.


Fylgiskjal II.


Stefán Aðalsteinsson,
doktor í búfjárfræði:


Kúainnflutningur: Er óhagkvæmt að flytja inn norskar kýr?


(Morgunblaðið, 3. febrúar 2000.)



    Mikil umræða hefur verið manna á meðal á undanförnum misserum um innflutning á norskum NRF-kúm til Íslands. Sótt hefur verið um að flytja inn í tilraunaskyni fósturvísa úr völdum norskum kúm og fá úr þeim norskar kvígur, til að bera saman við íslenskar kvígur á Íslandi. Gert er ráð fyrir að bera kvígurnar saman á fyrsta mjaltaskeiði.
    Andstaða gegn innflutningi hefur verið áberandi, bæði meðal íslenskra kúabænda, almennra borgara og sérfræðinga.

Sjúkdómar í kúm og sykursýki í börnum.
    Sigurður Sigurðarson, sérfræðingur í nautgripasjúkdómum í Noregi og á Íslandi, hefur varað við hættu á að alvarlegir smitsjúkdómar í nautgripum, sem eru til í Noregi en ekki hér, berist til landsins. Sumir þessir sjúkdómar leggjast einnig á sauðfé. Sigurður bendir sérstaklega á að áhættan aukist við margendurtekinn innflutning, sem verða myndi staðreynd ef norskar kýr yfirtækju íslensk fjós.
    Undirritaður hefur varað við að flytja inn norskar kýr vegna þess að í þeim er há tíðni á sérstöku mjólkurprótíni, betakaseíni A1, sem er grunað um að valda sykursýki í börnum. Tíðni gensins sem framleiðir þetta prótín er mun lægri í íslenskum kúm en norskum. Í íslenskri mjólk er þar að auki há tíðni á heppilegu ostaprótíni, kappakaseíni B, sem eykur nýtingu ostefnis í mjólkinni við ostagerð.
    Andmælendur innflutnings hafa bent á að norsku kýrnar væru mun stærri og þyngri en þær íslensku, þær þyrftu stærri bása, træðu frekar upp sumarbeitiland í votviðratíð, þær væru hyrndar og þyrfti að afhorna alla kálfa, og þær entust illa.
    Einnig hefur verið bent á að margir bændur á Íslandi nái yfir 6.000 lítra nyt úr íslenskum kúm og mjólkurmagn á Íslandi hafi aukist upp úr öllu valdi fyrir ári, væntanlega fyrir aukna kjarnfóðurnotkun, þegar bændum var boðið að leggja inn alla þá mjólk sem þeir gátu framleitt.
    Sumir íslenskir bændur eru alltaf með miklar afurðir eftir kýr sínar. Aðrir ná aldrei miðlungsafurðum. Þó eru kýrnar hjá bestu og lökustu bændum að mestu leyti undan sömu nautum. Það er vitað að munur á nythæð einstakra kúa á sama búi stafar að langmestu leyti (80–85%) af mismun í aðbúð, en ekki nema að litlu leyti (15–20%) af arfgengum mun á kúnum. Þess vegna má auka afurðir kúabúa á Íslandi afar mikið án þess að skipta um kúakyn.
    Ísland ber ábyrgð á því að varðveita alla sína búfjárstofna frá útrýmingu, þar með talið kúastofninn, ef hann skyldi lenda í útrýmingarhættu. Ekkert hefur heyrst frá innflutningsmönnum um það hvernig þeir telji best að varðveita íslensku kúna, ef farið verði alfarið yfir í norskar kýr, hvorki hvar hún skuli varðveitt né hvernig eigi að standa undir kostnaði af því.

Innflutningur óhagkvæmur ef sykursýki eykst.
    Ekki var lagt mat á væntanlegan ábata af innflutningi þegar Landssamband kúabænda sótti um leyfi fyrir innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm í tilraunaskyni, enda þótt lög kveði á um að slíkt skuli gert. Hins vegar var nýlega gerð takmörkuð könnun á hagkvæmni þess að flytja inn norskar kýr. Sú könnun var unnin sem prófverkefni fyrir BS-gráðu í hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands.
    Aðalniðurstaða könnunarinnar var sú, að innflutningur væri mjög óhagkvæmur ef hann ylli aukningu í sykursýki, en hún gæti meira en tvöfaldast á tímanum sem það tæki að skipta úr íslenskum kúm í norskar, sé reiknað með að betakaseín A1 valdi sykursýki.
    Innflutningsmenn leggja áherslu á að orsakasamband betakaseíns og sykursýki í börnum sé ekki sannað. Þó er vitað að betakaseín A1 veldur sykursýki í tilraunamúsum. Til að mæta þeim möguleika að betakaseín A1 valdi sykursýki í börnum vilja þeir velja norska fósturvísa þannig að ekki verði aukning í sykursýki á Íslandi við innflutning á þeim.
    Sú hugmynd verður fánýt þegar fram í sækir ef alfarið verður farið yfir í norskar kýr hér á landi. Þá væri Ísland orðið hluti af norrænni ræktunarheild rauðra kúa, þar sem eitt yrði látið yfir alla ganga. Þá yrði aukin sykursýkihætta staðreynd.
    Í könnuninni sem að ofan getur var fengið álit tveggja forstöðumanna í mjólkuriðnaði á því hvers virði það sé fyrir Ísland að vera með kúastofn sem hefur lægri tíðni en aðrir kúastofnar á geninu sem grunað er um að valda sykursýki.
    Annar aðilinn taldi óvíst að hægt væri að ná auknum markaði fyrir mjólkurvörur á þessum forsendum og því væri tæplega verið að fórna neinu á erlendum mörkuðum með innflutningi. Hinn aðilinn taldi hins vegar, að ef umrætt prótín væri sannanlega fátíðara í íslenskri mjólk en norskri þá yrði að skoða málið mjög vandlega áður en innflutningur yrði leyfður.
    Ef gott verð fengist fyrir duft úr íslenskri mjólk gæti orðið um gífurlega framleiðsluaukningu á mjólk að ræða á Íslandi, því að núverandi mjólkurmagn hrekkur skammt, ef duftið næði vinsældum erlendis. Hér gæti því orðið um að ræða mikla búbót fyrir þjóðarbúið í heild og sérstaklega bændur. Hér er gert ráð fyrir að úr duftinu yrði framleitt barnamjólkurduft fyrir pelabörn.
    Talið er mögulegt að útrýma geninu fyrir betakaseín A1 alveg úr íslenska kúastofninum með snörpu úrvali á innan við áratug. Þannig gæti duft úr íslenskri mjólk orðið alveg laust við þetta varasama prótín. Það gæti orðið ný og verðmæt afurð. Það yrði í fyrsta skipti sem leiðir gætu opnast fyrir mikla framleiðslu á verðmætri mjólkurafurð til útlanda.
    Nú virðist full ástæða til að staldra við og slá innflutningi um sinn á frest. Þess í stað þarf að einbeita sér að því að rannsaka nánar samband betakaseíns A1 og sykursýki í börnum. Ef ekki er um orsakasamband að ræða, má alltaf taka upp innflutningsþráðinn aftur.
    Ef fyrri grunur um orsakasamband verður staðfestur liggur beint við að hefja framleiðslu á mjólkurdufti til útflutnings úr íslenskri mjólk sem væri með öllu laust við betakaseín A1. Samtímis þessum aðgerðum þarf að útrýma betakaseín A1-geninu úr kúastofninum og bæta með úrvali þá ágalla aðra á stofninum sem mestu máli skipta.