Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1103  —  525. mál.
Svarsamgönguráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um fjárfestingar Landssíma Íslands hf.

     1.      Í hve mörgum fyrirtækjum hefur Landssími Íslands hf. keypt hluti, eða keypt að fullu, síðan rekstri fyrirtækisins var breytt í hlutafélag í eigu ríkisins?
    Landssími Íslands hf. hefur keypt hluti í 41 fyrirtæki. Þar af eru tvö félög sem mynduð voru þannig að tilteknir þættir í starfsemi félagsins voru færðir yfir í dótturfélög, þ.e. Miðheimar ehf. og Grunnur – Gagnalausnir ehf. Um lýsingu á hverju félagi og um hlut Landssímans í þeim er vísað til yfirlits í fylgiskjali I.

     2.      Hve miklum fjármunum hefur Landssíminn varið til kaupa í öðrum fyrirtækjum síðan rekstri hans var breytt í hlutafélag?
    Samtals 2.330.091 þús. kr. árin 1998–2001, sbr. fylgiskjal II. Árið 1997 var Póstur og sími hf. starfræktur og er það ekki talið með í þessari upptalningu. Á því ári var fjárfest fyrir 60.361 þús. kr. Í þessum tölum eru einnig fjárfestingar í erlendu „tungl“-félögunum en Póst- og símamálastofnun eignaðist hlut í þeim á sínum tíma.

     3.      Í hvaða fyrirtækjum á Landssíminn hluti núna og hve stóra? Hverjir eru meðeigendur í þeim fyrirtækjum?

    Í fylgiskjali I kemur fram í hvaða fyrirtækjum Landssíminn á hluti núna og hve stóra. Eignarhlutdeild getur breyst bæði vegna þess að Síminn bætir við hlut sinn og síðan það að aðrir kaupa nýtt hlutafé. Í stórum dráttum er hlutdeildin svipuð í árslok 2001 og í september það ár. Rétt er að taka fram að hlutafé í IP fjarskiptum ehf. hefur verið afskrifað og eins hlutafé í Markhúsinu ehf. og síðan hefur Korti ehf. verið slitið. Gagarín ehf. (17,8%) og Tan Delta ehf. (7,7%) féllu niður í upptalningu í skráningarlýsingu.

     4.      Hversu miklum fjármunum hefur Landssími Íslands hf. varið til kaupa á þróunarverkefnum eða þróunarvinnu af eigin fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem hann á hluti í? Af hvaða fyrirtækjum sem eru í eigu Landssímans hefur slík vinna verið keypt?
    Kaup á þróunarvinnu og þróunarverkefnum og samningar þar að lútandi eru þess eðlis að upplýsingar þar um eru viðkvæmar og geta skaðað samkeppnisstöðu Landssímans til framtíðar. Því er ekki unnt að veita þessar upplýsingar.
Fylgiskjal I.


Eignarhlutir Símans í öðrum félögum, mars 2002.Anza hf. (68%).
    Anza varð til við sameiningu Álits, Miðheima, Nett og Veftorgs 1. júlí 2001. Félagið starfar á sviði tölvurekstrarþjónustu og kerfisveitu með sama hætti og samrunafyrirtækin, auk m.a. öryggisráðgjafar og þróunar á rafrænu markaðstorgi ríkisins. Helstu eigendur Anza eru Síminn, starfsmenn og Talenta – Hátækni. Aðrir eignaraðilar eru Flugleiðir, Búnaðarbankinn, Landsbankinn, Árvakur, Sjóvá – Almennar og Íslandsbanki. Framkvæmdastjóri er Guðni B. Guðnason. Starfsmenn: 100.

Grunnur – Gagnalausnir ehf. (80%)
    Fyrirtækið var stofnað árið 1999 og tók í ársbyrjun 2000 við sölu og þjónustu vegna einkasímstöðva, sem en sú starfsemi var áður innan Símans. Þá býður félagið heildarþjónustu og búnað á sviði tölvu- og fjarskiptakerfa, einkum fyrir stærri fyrirtæki. Opin kerfi eiga 20% hlut í félaginu á móti Landssímanum. Framkvæmdastjóri er Björn Jónsson. Starfsmenn: 35.

IceSign á Íslandi ehf. (50%)
    Landssíminn keypti hlut sinn í félaginu í september árið 2001. Félagið var umboðsaðili fyrir Global Sign, sem gefur út auðkenni í tengslum við rafræn viðskipti. Umboðið hefur nú verið selt til Auðkennis og steft er að því að leysa félagið upp. Framkvæmdastjóri er Sigurður Erlingsson. Starfsmenn: 1.

Kast ehf. (50%)
    Eignarhlutur keyptur í desember 2000. Fyrirtækið býður sérhæfða markpóst- og upplýsingaþjónustu byggða á SMS-tækni. Framkvæmdastjóri er Ómar Einarsson. Starfsmenn: 3.

Tækniakur hf. (50%)
    Stofnað í febrúar 2000 í samvinnu við Landsafl ehf. Tilgangur félagsins eru kaup og sala fasteigna, þróun lóða til byggingarframkvæmda, fasteignarekstur og skyld starfsemi. Félagið á m.a. fasteignir að Suðurlandsbraut 34. Framkvæmdastjóri er Úlfar Örn Friðriksson. Starfsmenn: 1.

Tæknivörur ehf. (100%)
    Í lok síðasta árs keypti Landssíminn öll hlutabréf í félaginu Tæknivörum ehf., sem hefur selt símabúnað, einkum fyrir heimili, um nokkurra ára skeið. Jafnframt var ákveðið að færa öll innkaup á símabúnaði fyrir einstaklinga til þessa félags, en þar munar mestu um innkaup á GSM-símum sem Síminn selur mjög mikið af. Framkvæmdastjóri er Ásgeir Sverrisson. Starfsmenn: 8.

ITSS ehf. (30%)
    Landssíminn var meðal stofnaðila ITSS ehf. á síðasta ári en félagið vinnur að markaðssetningu og gerð sértækra hugbúnaðarlausna fyrir fyrirtæki og stofnanir á sviði símalausna, svonefndar CRM-lausnir. Starfsmenn: 2.

DOC hf. (30%)
    Fyrirtækið vinnur að þróun rafræna lyfseðlakerfisins e-Pref fyrir lækna og apótek. Eignarhlutur var keyptur í febrúar 2000. Lyfsalahluti kerfisins er nú í notkun í um 30 apótekum landsins og læknahluti er nú í prófunum meðal lækna og gert ráð fyrir markaðssetningu á næstu mánuðum. Framkvæmdastjóri er Tómas Hermannsson. Starfsmenn: 10.

Íslandsvefir ehf. (100%)
    Eignarhlutur keyptur í mars 2000. Fyrirtækið annast sölu og þjónustu á Autonomy greindarhugbúnaði auk ýmiss konar vefþjónustu. Framvæmdastjóri: Erlendur Steinn Guðnason. Starfsmenn: 2.

Íslenska vefstofan ehf. (28%)
    Vefstofa Landssímans sameinaðist Íslensku vefstofunni í október 2000 og í kjölfarið eignaðist Landssíminn 28% hlut í því síðarnefnda. Fyrirtækið býður alhliða veflausnaþjónustu. Framkvæmdastjóri er Guðni Hreinsson. Starfsmenn: 18.

Margmiðlun hf. (24,5%)
    Eignarhlutur keyptur 1997. Fyrirtækið annast alhliða internetþjónustu ásamt annarri tengdri starfsemi. Framkvæmdastjóri er Gestur G. Gestsson. Starfsmenn: 35.

Stefja ehf. (33%)
    Eignarhlutur keyptur í þremur áföngum, þeim fyrsta í mars 1998. Fyrirtækið vinnur að þróun hugbúnaðar fyrir þráðlaus fjarskiptakerfi, t.d. til fjareftirlits, fyrir staðsetningarkerfi og sjálfvirka tilkynningarskyldu sjófarenda. Stefja hefur einnig skapað sér sérstöðu sem leiðandi fyrirtæki á sviði hugbúnaðarþróunar fyrir farsímakerfi. Í júlí 2001 var farsímadeild Gagaríns sameinuð Stefju en Landssíminn átti 15% hlut í Gagarín sem keyptur var í júlí 2000. Farsímadeild Gagaríns vann að gerð afþreyingarefnis í tengslum við farsíma og gagnvirkt sjónvarp. Framkvæmdastjóri er Ágúst Guðmundsson. Starfsmenn: 35.

Svar hf. (32%)
    Landssíminn keypti eignarhlutinn snemma á árinu 2000. Svar varð til við samruna Símvirkjans og Ístel. Fyrirtækið annast sölu á símabúnaði og símakerfum fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki. Framkvæmdastjóri er Rúnar Sigurðsson. Starfsmenn: 18.

Auðkenni hf. (17%)
    Félagið var stofnað síðasta haust og mun bjóða þjónustu sem lýtur að útgáfu rafrænna skilríkja. Landssíminn seldi Auðkennum 40% hlut í dótturfyrirtæki sínu Icesign.
Framkvæmdastjóri er Guðlaugur Sigurgeirsson. Starfsmenn: 2.

Birtingarhúsið ehf. (14%)
    Landssíminn átti aðild að stofnun fyrirtækisns í október 2000. Félagið býður alhliða birtingarþjónustu fyrir auglýsendur. Starfsmenn: 5

CCP hf. (19,9%)
    Eignarhlutur keyptur í maí 2000. Félagið vinnur að gerð tölvuleikjarins EVE fyrir internetið, sem áætlað er að verði tilbúinn til dreifingar í haust. Framkvæmdastjóri er Sigurður Arnljótsson. Starfsmenn: 25.

eMR-hugbúnaður hf. (18%)
    20% eignarhlutur var keyptur um áramót 2000. Fyrirtækið þróar og býður m.a. til kaups sjúkraskrárkerfið Sögu sem notað er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum víða um land. Framkvæmdastjóri er Ágúst Guðmundsson. Starfsmenn: 20.

Ferðasmiðurinn hf. (7,5%)
    Eignarhlutur keyptur í september 2000. Félagið vinnur að undirbúningu vefbundinnar bókunar- og upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn.

Form.is. (10%)
    Eignarhlutur keyptur í júní 2000. Fyrirtækið rekur og býður alhliða þjónustutorg á internetinu með sérstakri áherlu á eyðublaðaþjónustu af ýmsu tagi. Framkvæmdastjóri er Lísa Björg Ingvarsdóttir. Starfsmenn: 4.

GoPro – Landsteinar Group hf. (4,5%)
    Félagið þróar og dreifir m.a. hópvinnuhugbúnaðinum GoPro, sem byggist á grunni Lotus Notes hópvinnukerfisins. Eignarhlutur keyptur í október 1999. Framkvæmdastjóri er Ólafur Daðason. Starfsmenn: 300.

Króli verkfræðistofa ehf. (22%)
    Eignarhlutur keyptur í apríl 2000. Fyrirtækið býður heildarlausnir fyrir þráðlausar handtölvur og þróar hugbúnað í tengslum við þær. Framkvæmdastjóri er Sigurður Hjalti Kristjánsson. Starfsmenn: 7.

Median – Rafræn miðlun ehf. (5%)
    Eignarhlutur keyptur í mars 2000. Félagið starfar á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar og rekstri posakerfa. Framkvæmdastóri er Atli Örn Jónsson. Starfsmenn: 20.

Netverk plc. (1%)
    Félagið vinnur að þróun og sölu hugbúnaðar fyrir farsíma- og gervitunglakerfi, MarStar ofl. Eignarhlutur keyptur í apríl 1999.

Smartkort ehf. (15%)
    Fyrirtækið býður alhliða þjónustu í tengslum við smartkortatækni. Má þar nefna þróun aðgangsstýrikerfa, sölu og útleigu á posakerfum, útgáfu rafrænna mötuneytiskorta o.fl. Eignarhlutur keyptur í janúar 1999. Framkvæmdastjóri er Þorsteinn Geirsson. Starfsmenn: 5.

Span hf.(17%)
    Eignarhlutur keyptur í mars 2000. Tilgangur félagsins er þróun hugbúnaðar og tengdrar þjónustu fyrir viðskipti milli fyrirtækja á internetinu, stofnsetning og rekstur rafrænnar viðskiptamiðstöðvar, sem leiðir saman kaupendur og seljendur á fyrirtækjamarkaði. Framkvæmdastjóri er Örn Karlsson. Starfsmenn: 3.

Information Management ehf. (20%)
    Síminn eignaðist hlut í IM í kjölfar samruna við Streymi ehf. Hið sameiginlega félag hefur m.a. með höndum þjónustu á eigin hugbúnaði fyrir CRM og Balanced Scorecard. Framkvæmdastjóri er Ragnar Bjartmarz. Starfsmenn: 18.

Veðvörur ehf. (Betware.) (2%)
    Félagið annast þróun og sölu hugbúnaðarkerfa fyrir veðmálafyrirtæki ýmiss konar, svo sem fyrir Dansk tipstjeneste og Íslenskar getraunir. Framkvæmdastjóri er Stefán Hrafnkelsson. Starfsmenn: 8.

Pláneta ehf. (Áður Gagarín ehf.) (36%)
    Félagið á um 11% hlut í Stefju ehf. í kjölfar samruna farsímahluta Gagaríns við Stefju hf. Um eiginlega starfsemi er ekki að ræða og stefnt er að því að leysa upp félagið á vordögum. Er í umsjón Íslenska hugbúnaðarsjóðsins.Fylgiskjal II.Fjárfestingar Landssímans í öðrum fyrirtækjum 1998–2001.


2001 2000 1999 1998 Samtals
Fjárfesting í dótturfélögum
147.750 707.907 25.000 160.000 1.040.657
Fjárfesting í hlutdeildarfélögum
111.594 312.974 80.735 59.003 564.306
Fjárfesting í öðrum félögum
198.690 269.495 219.101 37.842 725.128
Samtals 458.034 1.290.376 324.836 256.845 2.330.091
Seldir eignarhlutir í félögum
-69 0 0 0 -69
Afkoma dótturfélaga
202.061 37.856 32.000 17.832 289.749
Afkoma hlutdeildarfélaga
103.522 102.875 14.193 4.074 224.664
Samtals 305.583 140.731 46.193 21.906 514.413
Afskrift og niðurfærsla eignarhluta í félögum
126.407 150.000 0 0 276.407
Afskrifuð viðskiptavild í félögum
23.818 295.290 35.071 25.000 379.179
Samtals 150.225 445.290 35.071 25.000 655.586
Við útdrátt úr útboðslýsingu er eftirfarandi að athuga: Íslandsvefir ehf. er dótturfélag í árslok 2001. Króli ehf. er hlutdeildarfélag í árslok 2001. Gagarín ehf. er ekki í upptalningu í útboðslýsingu en fellur undir önnur félög. Tan Delta ehf. er ekki í útboðslýsingu en fellur undir önnur félög. Engin starfsemi er í félaginu.
Þá á félagið lítinn hlut í gerfihnattafyrirtækjum frá eldri tíma. Intelsat Ltd. , Eutelsat, Inmatrsat, New Skies Satellites Ltd.