Ferill 604. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1105  —  604. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um kostun á stöðum við háskóla.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margar kennslu- eða rannsóknarstöður við háskóla landsins eru kostaðar af utanaðkomandi eða óskyldum aðilum og hver hefur þróunin verið undanfarinn áratug, sundurgreint eftir skólum, kostendum og stöðum?

    Ef litið er tíu ár aftur í tímann varðandi kostun á stöðum við ríkisháskólana kemur í ljós nokkur aukning, sérstaklega í Háskóla Íslands en þar eru 14 stöður kostaðar af utanaðkomandi. Kennaraháskólinn hefur um langt árabil fengið kostun á einni lektorsstöðu í dönsku. Háskólinn á Akureyri undirritaði nýlega samning við Landsvirkjun um kostun á prófessorsstöðu til næstu fimm ára en skólinn er fremur með samstarfssamninga við utanaðkomandi en að kostaðar séu heilar stöður. Hjá Tækniskóla Íslands eru dæmi um að fyrirtæki styrki skólann með því að taka þátt í áfanga í kennslu. Sjá eftirfarandi yfirlit.

1. Háskóli Íslands (14).
Verkfræðideild (1).
    Dósent í verkfræðideild, 50% starf kostað af Landsvirkjun.

Raunvísindadeild (2).
    Dósent í eðlisfræðiskor, starf kostað af Veðurstofunni.
    Persónubundið prófessorsstarf kostað af Umhverfisráðuneytinu.

Viðskipta- og hagfræðideild (1).
    Prófessor í frumkvöðlafræði, starf kostað af Gunnari M. Björg í Lúxemborg.

Félagsvísindadeild (3).
    Lektorsstarf (50%) í bókasafnsfræði styrkt af Hugviti hf.
    Lektorsstarf í félagsráðgjöf kostað af Félagsþjónustunni í Reykjavík.
    Rauði krossinn kostar eina lektorsstöðu sem enn hefur ekki verið ráðið í. (Unnið er að ráðningu.)

Læknadeild (7).
    Dósentsstarf (37%) í klínískri ónæmisfræði kostað af AstraZeneca.
    Dósentsstarf (37%) í öldrunarlækningum greitt af Öldrunarsjóði.
    Dósentsstarf (50%) í gigtarrannsóknum, greitt af Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
    Prófessorsstarf (25%) í svæfingalækningum, kostað af Ísaga.
    Prófessorsstarf (25%) í svæfingalækningum, kostað af Pharmaco.
    Persónubundið prófessorstarf í lyflæknisfræði kostað af Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
    Dósentsstarf (50%) í heilbrigðisfræði kostað af Tryggingastofnun.

Útrunnar stöður (6).
    Verkfræðideild. Prófessor í verkfræðideild, var í starfi kostuðu af Orkuveitunni sem er núna greitt af HÍ (sótti um auglýst starf).
    Raunvísindadeild. Prófessor í raunvísindadeild, staða áður kostuð af Járnblendifélaginu en nú af HÍ.
    Læknadeild. Prófessor í heimilislækningum, staða kostuð af Félagi heimilislækna var nýtt fyrir tvo lektora í heilbrigðisfræði og félagslækningum – nú greitt af HÍ.
    Dósent í augnsjúkdómafræði, staða kostuð af Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Rann út 31. desember 2001.
    Einn prófessor var á styrk frá Tryggingastofnun.

2. Kennaraháskóli Íslands.
    Við Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) er aðeins einn lektor kostaður af utanaðkomandi aðila. Um er að ræða lektor í dönsku sem er kostaður af danska menntamálaráðuneytinu samkvæmt samningi sem menntamálaráðuneytið danska og hið íslenska gerðu. Hefur þetta fyrirkomulag verið um árabil.

3. Háskólinn á Akureyri.
    Frá miðju ári 2002 mun Landsvirkjun greiða stöðu prófessors til fimm ára við Háskólann á Akureyri (HA). Frá 1995–99 greiddi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH) eina prófessorsstöðu við skólann.
    Háskólinn á Akureyri er að auki með samstarfssamninga við þrjár ríkisstofnanir um kennslu og rannsóknir. Starfsmennirnir eru á launum hjá viðkomandi stofnun og skólinn endurgreiðir stofnuninni sem nemur vinnuframlagi þeirra við skólann. Þetta eru Hafrannsóknastofnunin (tveir menn), Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (tveir menn) og Orkustofnun (tveir menn).
    Jafnframt er til samningur við Íslenska erfðagreiningu (ÍE). HA ræður þrjá starfsmenn til starfa á upplýsinga- og tæknisviði skólans og eru þeir jafnframt starfsmenn ÍE á Akureyri. HA greiðir laun sem svara til grunnlauna lektors, dósents eða prófessors eins og við á en ÍE greiðir þeim síðan mismun á framangreindum launum og markaðslaunum sem endurgjald fyrir störf í þágu fyrirtækisins.

4. Tækniskóli Íslands (TÍ).
    Fyrirtæki styður við 1. kennsluáfanga við TÍ og við annan að hluta. Um er að ræða framlag til kennslu en í mjög litlum mæli.