Ferill 704. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1123  —  704. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. laganna skal greiða 8,95 kr. vörugjald af hverjum lítra af bensíni frá gildistöku laganna til loka júní 2002.
    Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til tollafgreiddra en óseldra bensínbirgða sem til eru í landinu við gildistöku laga þessara.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lögð til tímabundin lækkun á almennu vörugjaldi af bensíni um 1,55 kr. eða úr 10,50 kr. í 8,95 kr. Markmiðið með lækkuninni er að vega upp á móti hækkun á heimsmarkaðsverði bensíns, sem talin er vera tímabundin, og halda áhrifum hennar á útsöluverð bensíns hér á landi í lágmarki. Ljóst er að áhrif slíkrar hækkunar á bensínverði hér á landi geta verið umtalsverð og stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu.
    Áætlað er að lækkunin muni hafa í för með sér rúmlega 1,90 kr. lækkun á útsöluverði bensíns. Ákvæði frumvarpsins munu gilda til júníloka 2002 og munu leiða af sér um 80 m.kr. tekjutap fyrir ríkissjóð.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

    Frumvarp þetta miðar að því að draga úr áhrifum af hækkun heimsmarkaðsverðs á bensíni hér á landi með því að lækka almennt vörugjald af bensíni um 1,55 kr. fram til júníloka nk. Áætlað er að ríkissjóður verði af 80 m.kr. tekjum verði frumvarpið að lögum en ekki er gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Markaðar tekjur til vegamála af sérstöku bensíngjaldi verða óbreyttar eftir sem áður.