Ferill 704. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1124  —  704. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Guðlaugsson og Pál Jóhannesson frá fjármálaráðuneyti, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Eddu Rós Karlsdóttur frá Búnaðarbanka Íslands, Reyni Guðlaugsson frá Skeljungi og Magnús Ásgeirsson frá Olíufélaginu.
    Frumvarpinu er ætlað að lækka almennt vörugjald af bensíni tímabundið til loka júní 2002 til að vega upp á móti hækkun á heimsmarkaðsverði bensíns og stuðla þannig að því að verðlagsmarkmið kjarasamninga haldi. Nefndin bendir jafnframt á að ríkisstjórnin hefur fallið frá gjaldtöku á árinu 2002 vegna hækkunar áfengisgjalds sem gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga, fyrirhugaðri hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins og fyrirhugaðri hækkun á komugjöldum sjúklinga, en þessar ráðstafanir hafa það í för með sér að ríkissjóður verður af alls u.þ.b. 750 millj. kr. miðað við fjárlög. Þær 80 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður verði af vegna þeirrar ráðstöfunar sem lögð er til í frumvarpinu koma til viðbótar við þær aðgerðir sem hér hafa verið taldar upp.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Steingrímur J. Sigfússon skrifar undir álit þetta með fyrirvara. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur við málið sem fela í sér að lækkun vörugjalds af bensíni gildi til 1. nóvember nk.

Alþingi, 3. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.