Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1133  —  453. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 5. apríl.)


1. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Hafi umsækjandi ekki heimilisfesti hér á landi skal hann hafa umboðsmann búsettan á EES-svæðinu sem getur komið fram fyrir hans hönd í öllu því er varðar umsóknina. Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal fært í einkaleyfaskrá.

2. gr.

    1.–3. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Óski umsækjandi eftir því að yfirfæra alþjóðlega einkaleyfisumsókn til Íslands skal hann innan 30 mánaða frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi umsóknarinnar, sé forgangsréttar krafist, greiða tilskilin gjöld til einkaleyfayfirvalda. Enn fremur skal umsækjandi afhenda þýðingu á umsókninni að því marki sem ákveðið er í reglugerð.
    Beiðni um að gerð verði alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi alþjóðlegrar umsóknar skal koma fram innan 19 mánaða frá þeim degi sem getið er um í 1. mgr.
    Hafi umsækjandi greitt þau gjöld, sem krafist er, innan þess frests sem um getur í 1. mgr. má leggja inn tilskilda þýðingu innan tveggja mánaða viðbótarfrests gegn því að greitt sé ákveðið viðbótargjald áður en sá frestur rennur út.

3. gr.

    32. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    1. mgr. 33. gr. laganna orðast svo:
    Þegar alþjóðleg einkaleyfisumsókn er yfirfærð í samræmi við ákvæði 31. gr. gilda ákvæði II. kafla um umsóknina og meðferð hennar ef ekki er kveðið á um annað í þessari grein eða 34.–37. gr. Umsóknina má þó því aðeins taka til meðferðar að liðinn sé frestur skv. 1. mgr. 31. gr. nema umsækjandi óski annars.

5. gr.

    66. gr. laganna orðast svo:
    Einkaleyfastofan getur farið fram á að einkaleyfishafi, sem hefur ekki heimilisfesti hér á landi, tilnefni umboðsmann búsettan á EES-svæðinu sem hefur fyrir hans hönd heimild til að taka við stefnu og öðrum tilkynningum er einkaleyfið varða. Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal fært í einkaleyfaskrá.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði 2.–4. gr. laga þessara taka til alþjóðlegra einkaleyfisumsókna þar sem 20 mánaða frestur til yfirfærslu, talið frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi, rennur út 1. apríl 2002 eða síðar enda hafi þær ekki verið yfirfærðar á þeim tíma.