Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1163  —  489. mál.
Frumvarp til lagaum rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

(Eftir 2. umr., 8. apríl.)


    Samhljóða þskj. 774 með þessum breytingum:

    6. gr. hljóðar svo:
    Þjónustuveitandi skal veita greiðan og samfelldan aðgang að eftirfarandi upplýsingum um sig:
     1.      nafni,
     2.      heimilisfangi þar sem hann hefur staðfestu,
     3.      kennitölu,
     4.      póstfangi, netfangi og öðrum þeim upplýsingum sem gera mögulegt að hafa samband við hann á greiðan hátt,
     5.      virðisaukaskattsnúmeri þjónustuveitanda,
     6.      þeirri opinberri skrá sem hann er skráður hjá, svo sem hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða firmaskrá, og
     7.      leyfi og eftirlitsaðila ef starfsemi hans er háð leyfum.
    Ef um lögverndað starf er að ræða skal þjónustuveitandi einnig tilgreina:
     1.      starfsheiti og í hvaða landi það er veitt,
     2.      samtök sem þjónustuveitandi eða fyrirsvarsmaður hans er skráður hjá, og
     3.      gildandi starfs- eða siðareglur og með hvaða hætti er unnt að nálgast þær.
    Ef verð er gefið upp í tengslum við rafræna þjónustu skal það gert með skýrum og ótvíræðum hætti. Þegar rafrænni þjónustu er eingöngu beint að íslenskum neytendum skulu skattar innifaldir í verði.

    9. gr. hljóðar svo:
    Þjónustuveitandi skal veita eftirfarandi upplýsingar með skýrum og ótvíræðum hætti áður en þjónustuþegi leggur inn pöntun:
     1.      hvaða tæknileg skref beri að taka til þess að ljúka samningsgerð,
     2.      hvort þjónustuveitandinn varðveiti gerðan samning,
     3.      hvort og þá hvernig samningur verði aðgengilegur,
     4.      um tæknilegar leiðir til þess að finna og leiðrétta innsláttarvillur áður en pöntun er gerð,
     5.      um þau tungumál sem unnt er að gera samninginn á, og
     6.      hvaða siðareglum hann fylgi og hvernig unnt sé að nálgast þær á rafrænu formi.
    Ákvæði 1. mgr. eru frávíkjanleg ef enginn aðili samningsins er neytandi. Þau skulu ekki gilda um samninga sem eru einvörðungu gerðir með því að skiptast á tölvupóstssendingum eða með öðrum sambærilegum hætti.
    Almennir samningsskilmálar og almenn skilyrði skulu látin í té með þeim hætti að þjónustuþegi geti varðveitt þau og kallað þau fram.

    23. gr. hljóðar svo:
    Við 4. mgr. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef markpóstur er sendur með rafrænum hætti er skylt að fram komi á ótvíræðan hátt um leið og hann er móttekinn að um slíkan póst sé að ræða.