Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1172  —  546. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum (hlutafé í erlendum gjaldmiðli).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson og Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Verslunarráði Íslands, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Hyrnu ehf., Lögmannafélagi Íslands, ríkisskattstjóra, Ríkisendurskoðun og Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við 547. mál þar sem lögð er til breyting á lögum um hlutafélög, sem og 347. mál þar sem lögð er til breyting á lögum um bókhald, lögum um ársreikninga og lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Öll frumvörpin snúa að heimild íslenskra fyrirtækja til að nota erlenda gjaldmiðla í rekstri fyrirtækja sinna, annars vegar að því að heimilt verði að skrá hlutafé í einkahlutafélögum og hlutafélögum í erlendum gjaldmiðli og hins vegar að því að heimilt verði að færa bókhald og semja ársreikninga félaga í erlendum gjaldmiðli.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis að í stað þess að tilgreina að við umreikning úr íslenskum krónum í annan gjaldmiðil eða annan umreikning skuli miða við kaupgengi samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands samkvæmt nánari reglum verði nafnverð hlutafjár við umreikning í annan gjaldmiðil í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga varðandi umreikninginn. Með þessu fæst samræmi í framkvæmd hvað þetta atriði varðar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    3. málsl. 2. efnismgr. b-liðar 1. gr. orðist svo: Við umreikning í annan gjaldmiðil skal nafnverð hlutafjár vera í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga varðandi umreikninginn.

    Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.