Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1228  —  40. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vopnalögum, nr. 16 25. mars 1998.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónas Hallsson frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Kristbjörn Óla Guðmundsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Lúðvík Georgsson frá KR-flugeldum, Fjólu Guðbjörnsdóttur frá Löggildingarstofu og Herdísi Storgaard frá Árvekni.
    Nefndin fjallaði um frumvarp sama efnis á 126. löggjafarþingi og bárust henni þá umsagnir frá Læknafélagi Íslands, Slysa- og bráðamóttöku Landspítalans, Landssambandi lögreglumanna, Knattspyrnufélaginu Víkingi, Kiwanisklúbbnum Þyrli, Árvekni, lögreglustjóranum í Reykjavík, Augnlæknafélagi Íslands, Flugleiðum, Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, KR-flugeldum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Löggildingarstofu.
    Með frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að selja eða afhenda skotelda einstaklingum yngri en 18 ára með þeirri undantekningu þó að selja megi þeim sem eldri eru en 15 ára skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss.
    Meiri hlutinn telur eðlilegt að takmarkanir á sölu og afhendingu skotelda séu settar við 18 ára aldur í stað 16 ára eins og núgildandi lög kveða á um enda er það í samræmi við þróun í nágrannalöndunum. Í dómsmálaráðuneytinu hefur í nokkurn tíma verið unnið að reglugerð á grundvelli vopnalaganna þar sem kveðið er á um aldur einstaklinga vegna sölu, afhendingar eða notkunar skotelda eftir ítarlegri flokkun þeirra en reglugerðin verður kynnt á Evrópska efnahagssvæðinu innan skamms. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu á frumvarpinu að dómsmálaráðherra verði gert heimilt að ákveða í reglugerð hvaða tegundir skotelda megi selja eða afhenda einstaklingum á aldrinum 12–18 ára og hvaða skotelda megi nota án aldurstakmarkana.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. 2. málsl. efnismálsgreinarinnar orðist svo: Ráðherra er þó heimilt að setja reglur um sölu og afhendingu skotelda til einstaklinga á aldrinum 12–18 ára, svo og hvaða skotelda megi nota án aldurstakmarkana.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
              Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2002.


    Kolbrún Halldórsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 16. apríl 2002.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Kjartan Ólafsson.



Katrín Fjeldsted.


Ásta Möller.


Ólafur Örn Haraldsson.



Guðrún Ögmundsdóttir.