Ferill 709. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1230  —  709. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingu, o.fl.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Davíðsson frá forsætisráðuneyti, Bolla Þór Bollason frá fjármálaráðuneyti, Hallgrím Snorrason frá Hagstofu Íslands, Katrínu Ólafsdóttur og Ásgeir Daníelsson frá starfsmannafélagi Þjóðhagsstofnunar, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Gísla Tryggvason og Björk Vilhjálmsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands, Karl Steinar Guðnason frá Tryggingastofnun ríkisins, Gamalíel Sveinsson og Magnús Harðarson frá Þjóðhagsstofnun, Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Þorstein Þorgeirsson frá Samtökum iðnaðarins og Ólaf Arinbjörn Sigurðsson frá Verðbréfaþingi Íslands. Umsagnir bárust frá Kennarasambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Sambandi íslenskra bankamanna. Auk þess bárust gögn frá forsætis- og fjármálaráðuneytum.
    Í frumvarpinu er lagt til að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður, en verkefni hennar færð til skyldra sviða fjármálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Í meginatriðum er miðað við að þau verkefni Þjóðhagsstofnunar sem lúta að opinberri hagskýrslugerð verði færð til Hagstofunnar, en gerð efnahagsspáa og áætlana og efnahagsráðgjöf verði færð til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis. Jafnframt er gert ráð fyrir að aðrir aðilar á borð við Seðlabanka Íslands, aðila vinnumarkaðarins og einkaaðila geti tekið að sér og sinnt einhverjum verkefnum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við gildistöku laganna verði starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar boðið annað starf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum hennar. Í greinargerð segir um þetta að leitast verði við að bjóða starfsmönnum að sinna svipuðum verkefnum og þeir hafa áður sinnt þar sem jafnframt verði þó höfð hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem fylgja breyttri verkefnaskipan. Meiri hlutinn bendir á að með þessu er í raun átt við að hverjum og einum starfsmanni verði boðið starf og látið á það reyna hvort sameiginlegur skilningur viðkomandi starfsmanns og vinnuveitanda hans næst um það að starfið sé sambærilegt fyrra starfi hans. Ef slíkur skilningur næst ekki getur vaknað upp biðlaunaréttur starfsfólks Þjóðhagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.


Prentað upp.

    Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem snúa eingöngu að samræmingu laga sem hafa að geyma ákvæði um Þjóðhagsstofnun við niðurlagningu hennar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      B-liður orðist svo:
        Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 2. mgr. 115. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt:
             i.     Orðin „og Þjóðhagsstofnun“ falla brott.
             ii. Í stað orðanna „þeir aðilar ákveða“ kemur: Hagstofa Íslands ákveður.
              iii. Í stað orðanna „skýrslugerð þeirra“ komi: skýrslugerð hennar.
     b.      D-liður orðist svo:
        Eftirfarandi breytingar verða 2. mgr. 44. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 13. gr. laga nr. 119/1989:
              i. Orðin „og Þjóðhagsstofnun“ falla brott.
              ii. Í stað orðsins „þeirra“ kemur: hennar.

Alþingi, 16. apríl 2002.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Kristinn H. Gunnarsson.Sigríður A. Þórðardóttir.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.