Ferill 659. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1232  —  659. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um starfsmannafjölda hjá Fasteignamati ríkisins og Landskrá fasteigna.

     1.      Hver var þróun starfsmannafjölda og stöðugilda hjá Fasteignamati ríkisins sl. fimm ár og hver var þróun starfsmannafjölda á umdæmisskrifstofum Fasteignamats ríkisins á sama tíma?
    Fasteignamat ríkisins var stofnað árið 1976 til að meta fasteignir fasteignamati. Fasteignamat er mikilvægur skattstofn og á að endurspegla gangverð eigna. Vegna þess safnar stofnunin og vinnur upplýsingar úr öllum þinglýstum kaupsamningum. Þessi vinna var einn af hornsteinum undir endurmati fasteignamats mikils fjölda fasteigna sem fram fór árið 2001 auk stöðugrar upplýsingasöfnunar áratugum saman um gerð, eiginleika og einkenni hverrar fasteignar. Tilgangur endurmatsins var að samræma fasteignamat hliðstæðra eigna með því að bæta fylgni fasteignamats og gangverðs og auka þannig jafnræði milli fasteignaeigenda hvað varðar skattlagningu.
    Með lagasetningu árið 1994 var hluti af umsýslu brunabótamats fluttur til Fasteignamats ríkisins, þar á meðal skráahald um brunabótamat. Með lagasetningu árið 1999 var framkvæmd brunabótamats alfarið flutt til stofnunarinnar. Þar sem brunabótamat á að endurspegla endurbyggingarkostnað fasteigna með tilteknum hætti kallar það á stöðuga vinnu stofnunarinnar við að fylgjast með byggingarkostnaði og þróun byggingaraðferða. Endurmat brunabótamats árið 2001 var lokaáfangi stofnunarinnar við að taka við umsýslu þess. Þá voru húseignir um land allt í fyrsta sinn metnar brunabótamati með samræmdri aðferð með það að markmiði að tryggja að sambærilegar eignir væru metnar á hliðstæðan hátt og tryggja þannig samræmi og jafnræði fasteignaeigenda hvað varðar iðgjaldagreiðslur, tryggingavernd og notkun brunabótamats sem skattstofns. Jafnframt var í endurmatinu hrundið í framkvæmd lagabreytingu frá 1999 um að tillit skuli tekið í brunabótamati til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignarinnar.
    Endurmat fasteignamats og brunabótamats árið 2001 er ein stærsta matsaðgerð sem fram hefur farið hér á landi. Í henni voru alls teknar um 580.000 matsákvarðanir. Hún útheimti því í senn mikla undirbúningsvinnu, upplýsingasöfnun og kerfisþróun í Landskrá fasteigna auk mikillar vinnu við úrvinnslu um 13.000 athugasemda sem Fasteignamati ríkisins bárust frá fasteignaeigendum í kjölfar tilkynningar Fasteignamats ríkisins um fyrirhugaða gildistöku nýs mats.
    Með lagasetningu var Fasteignamati ríkisins falið frá ársbyrjun 2001 að halda Landskrá fasteigna sem er samhæft gagna- og upplýsingakerfi fyrir allar fasteignir í landinu og byggist á einskráningu upplýsinga í skilvirku skráningarferli með skýra hlutverkaskiptingu skráningaraðila að leiðarljósi. Skráningaraðilar eru þar til bær stjórnvöld, hvert á sínu sviði og svæði; Fasteignamat ríkisins og sveitarfélög í þess umboði hvað skráningu almennra upplýsinga um fasteignir varðar, sýslumannsembætti hvað þinglýsingar varðar auk þess sem Fasteignamat ríkisins vinnur fasteignamat og brunabótamat í skránni. Meginmarkmiðið með gerð landskrárinnar er að uppfylla þörf fyrir einhlíta og varanlega skrá um lönd, lóðir og fasteignir þeim tengdar er komið gætu að almennum notum fyrir þá er þurfa á henni að halda til að varðveita hagsmuni, réttindi og skyldur.
    Á síðustu árum hefur löggjafinn einnig fengið Fasteignamati ríkisins ýmis önnur verkefni og skyldur svo sem með fjöleignarhúsalögum, skipulags- og byggingarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga fyrir utan almenn lög um stjórnsýslu, upplýsingaskyldu og meðferð persónuupplýsinga. Vegna þess að lögbundnum verkefnum sem stofnuninni hafa verið falin frá 1994 hefur stöðugt fjölgað er hér gefið yfirlit yfir þróun starfsmannafjölda hjá Fasteignamati ríkisins frá því ári deilt niður á starfsstöðvar stofnunarinnar. Flestir starfsmenn gegna fullu starfi.

Fjöldi starfsmanna Fasteignamats ríkisins eftir starfsstöðvum 31. 12. 1994–2001.

2001 2000 1999 1998 1997 1996 1995 1994
Reykjavík 36 34 26 26 27 26 26 23
Borgarnes 3 3 4 3 3 3 3 2
Akureyri 8 5 5 5 5 5 5 4
Egilsstaðir 3 3 3 3 3 3 2 2
Selfoss 4 4 4 4 4 4 4 3
Staða í árslok 54 49 42 41 42 41 40 34


     2.      Hver er menntun þeirra sem hafa verið ráðnir hjá Fasteignamati ríkisins sl. fimm ár?
    Árin 1997–2001 réðust 20 menn til Fasteignamats ríkisins í ný störf eða í stað þeirra sem létu af störfum. Af þeim eru tíu með háskólamenntun, sex með iðnmenntun og fjórir með aðra menntun. Framangreindar tölur taka ekki til starfsmanna sem ráðnir voru tímabundið, í afleysingar eða við ræstingar.

     3.      Hvernig er skipurit Fasteignamats ríkisins og hvaða breytingar hafa orðið á því að undanförnu?
    Frá því að Fasteignamat ríkisins var stofnað hefur skipulag þess verið markað með skipuriti sjö sinnum; við upphaf starfseminnar 1977, 1981, 1987, 1989, 1994, 2000 og 2002. Skipurit stofnunarinnar hafa þróast með eftirgreindum hætti:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.







Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.









Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.









Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.







Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.










Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.









Skipurit 1. febrúar 2002.


    Skipurit Fasteignamats ríkisins sem gekk í gildi 1. febrúar 2002 saman stendur af tveim þáttum, skipulagsmynd og texta.

a. Skipulagsmynd skipurits 1. febrúar 2002.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



b. Texti með skipuriti 1. febrúar 2002.

    Hlutverk Fasteignamats ríkisins er að halda Landskrá fasteigna, meta matsskyldar eignir brunabótamati og fasteignamati og annast hagrænar rannsóknir varðandi fasteignir.
    Leiðarljós stofnunarinnar er að viðhafa rétta stjórnsýslu eins og mælt er fyrir um í lögum og reglugerðum og virka framleiðslu við vinnslu verkefna. Skipuritið endurspeglar þetta leiðarljós, aðlögun stofnunarinnar að því að halda Landskrá fasteigna og þróun starfseminnar í Reykjavík og á Akureyri.
     Stjórn mótar starf og innra skipulag stofnunarinnar og hefur eftirlit með rekstri hennar.
     Forstjóri stýrir stofnuninni í samræmi við lög, reglur og erindisbréf, samning fjármálaráðuneytis og stofnunar og starfsáætlanir til lengri og skemmri tíma.
     Aðstoðarforstjóri fer með lögfræði- og rekstrarmál og starfsemi þjónustusvæða auk þess að vera forstjóra til aðstoðar við stjórnun stofnunarinnar.
     Skráningar- og þróunarsvið hefur, auk þróunarverkefna, forsögn um skráningu í Landskrá fasteigna og samræmingu og fræðslu þar að lútandi, ásamt sölu og miðlun upplýsinga úr skránni og rekstur vefseturs.
     Mats- og hagsvið hefur forsögn um matsaðferðir, matskerfi og matsframkvæmd ásamt samræmingu og fræðslu þar að lútandi, annast hagrænar rannsóknir varðandi fasteignir og gefur út matsskrár.
     Rannsókna- og eftirlitssvið annast rannsóknir á matsaðferðum, mat á sérhæfðum eða flóknum fasteignum og hefur eftirlit með matsstarfsemi stofnunarinnar.
    Gæðastjóri vinnur að því að koma á, viðhalda og þróa gæðakerfi fyrir alla meginþætti í starfsemi stofnunarinnar.
     Tölvudeild vinnur að því að stofnunin hafi viðeigandi verkfæri á sviði hugbúnaðar og vélbúnaðar og stýrir rekstri gagnagrunna og tölvukerfa.
     Skrifstofa fer með daglega umsýslu fjármála og annast framkvæmd margvíslegra þjónustu- og rekstrarverkefna.
     Þjónustusvæði I annast þjónustu á Suður- og Vesturlandi og önnur verkefni sem því eru falin. Núverandi starfsstöðvar eru í Reykjavík, í Borgarnesi og á Selfossi.
     Þjónustusvæði II annast þjónustu á Norður- og Austurlandi og önnur verkefni sem því eru falin. Núverandi starfsstöðvar eru á Akureyri og Egilsstöðum.

     4.      Hverjar voru fjárfestingar í húsnæði og búnaði hjá Fasteignamati ríkisins sl. fimm ár?
    Stofnkostnaður Fasteignamats ríkisins 1997–2001 nam alls 232,4 millj. kr. Þar af var stofnkostnaður 98,5 millj. kr. árið 2001 og 74,5 millj. kr. árið 2000. Stofnkostnaður skiptist í húsnæði og húsbúnað 56,0 millj. kr., tölvubúnað 67,2 millj. kr., hugbúnað/Landskrá fasteigna 98,9 millj. kr. og bifreiðar 10,3 millj. kr.

     5.      Hvað líður flutningi Landskrár fasteigna til Akureyrar?
    Í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, með síðari breytingum, sem lagt var fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000, þskj. 472, sagði:
    „Efla þarf tölvudeild Fasteignamats ríkisins til að halda Landskrá fasteigna. Ætlunin er að þessi starfsemi verði á umdæmisskrifstofu Fasteignamats ríkisins á Akureyri. Um er að ræða 10–12 störf sem hafa það verkefni að reka tölvukerfi sem heldur Landskrá fasteigna, þjónusta notendur skrárinnar og annast almenna þjónustu Fasteignamats ríkisins á Norðurlandi en þar starfa nú fimm menn. Grundvöllur þess að Landskrá fasteigna sé haldin á Akureyri er að gagnaflutningur til og frá umdæmisskrifstofunni sé hraðvirkur og öruggur.“
    Í framsöguræðu fyrir frumvarpinu 7. febrúar 2000 sagði fjármálaráðherra:
    „Í greinargerð þess kemur fram sú fyrirætlun að halda landskrána á Akureyri þar sem stofnunin rekur í dag umdæmisskrifstofu. Til greina kemur einnig að fela einkaaðilum þar í bæ eða eftir atvikum annars staðar að reka tölvukerfin í kringum landskrána frekar en reka hana á umdæmisskrifstofunni sjálfri en slíkt verður að sjálfsögðu metið þegar málið verður komið lengra á rekspöl.“
    Í svari á Alþingi 1. nóvember 2000 við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um flutning Landskrár fasteigna til Akureyrar sagði fjármálaráðherra:
    „Þrátt fyrir að fjárveitingar til stofnunar skrárinnar hefjist ekki fyrr en árið 2001, hefur Fasteignamat ríkisins þegar hafið undirbúning að stofnun skrárinnar, þar á meðal rekstri hennar á Akureyri. Á þessu stigi er þó ekki mögulegt að nefna tiltekna dagsetningu, þ.e. hvenær skráin tekur til starfa á Akureyri enda verður sennilega um að ræða uppbyggingu sem gerist í nokkrum áföngum en ekki tilflutning á fullbúnu verkefni einn tiltekinn dag. Einnig er líklegt að stofna þurfi til tilraunaverkefna og reynslutímabila á Akureyri áður en skráin tekur endanlega til starfa.“
    Í svari á Alþingi 14. febrúar 2001 við fyrirspurn Árna Steinars Jóhannssonar um Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna rifjaði fjármálaráðherra stuttlega upp aðdraganda málsins hvað rekstur skrárinnar á Akureyri varðaði og sagði:
    „Greining stendur yfir á möguleikum við rekstur skráarinnar svo sem varðandi búnað, rekstrarfyrirkomulag og útboðsmöguleika og einnig varðandi gagnaflutning og öryggismál, en skráin krefst mikillar bandvíddar og flutningsgetu til að svartími og viðmót verði viðunandi. Greiningunni verður væntanlega lokið fyrir páska og í kjölfar hennar kemur ákvarðanataka um þá leið sem valin verður og henni verður síðan hrint í framkvæmd.“
    Í kjölfar þeirrar greiningar sem að framan er nefnd var í maí 2001 valin sú leið að staðsetja tölvubúnað til að reka Landskrá fasteigna á skrifstofu Fasteignamats ríkisins á Akureyri. Í kjölfar ákvörðunarinnar var henni hrint í framkvæmd meðal annars við að ráða þá starfsmenn sem þyrfti til að hefja reksturinn. Í júní 2001 auglýsti Fasteignamat ríkisins eftir sex starfsmönnum á skrifstofu sína á Akureyri, þar af fjóra til að annast rekstur gagnagrunnsþjóns fyrir Landskrá fasteigna og uppbyggingu landeignaskrár og tvo til að sinna upplýsingagjöf úr skránni í gegnum síma.
    Alls bárust 23 umsóknir um störf við upplýsingagjöf í síma og hófu þeir tveir starfsmenn sem ráðnir voru störf í september og október 2001. Jafnframt voru fest kaup á fullkomnum símabúnaði fyrir þjónustuver og var það sett upp á skrifstofunni á Akureyri í árslok 2001. Í ársbyrjun 2002 var farið að vísa innhringjendum í upplýsingaleit sem hringdu í skiptiborð stofnunarinnar í Reykjavík í þjónustuverið á Akureyri. Næsta skref er að setja upp á Akureyri eitt skiptiborð og þjónustuver fyrir allar starfsstöðvar Fasteignamats ríkisins og er verið að útfæra það tæknilega og fjárhagslega. Um tíma var hugað að því setja upp gjaldskylt þjónustunúmer í þjónustumiðstöðinni á Akureyri til að veita upplýsingar úr Landskrá fasteigna. Framkvæmd þessa verkefnis hefur verið frestað og e.t.v. væri heppilegt og hagkvæmt að slík upplýsingamiðstöð veitti upplýsingar úr fleiri meginskrám ríkisins en Landskrá fasteigna. Umdæmisskrifstofa Fasteignamats ríkisins á Akureyri deilir skrifstofuhæð með skrifstofu Vinnueftirlits ríkisins. Unnið hefur verið að því að finna henni nýtt aðsetur þar sem Fasteignamat ríkisins þarf alla skrifstofuhæðina til ráðstöfunar. Þrátt fyrir leit á fasteignamarkaði og að auglýst hafi verið eftir húsnæði í desember 2001 hefur ekki tekist að finna skrifstofu Vinnueftirlitsins annan samastað.
    Alls sóttu átta um störf við rekstur gagnagrunnsþjóns fyrir Landskrá fasteigna og uppbyggingu landeignaskrár. Þar af drógu tveir umsóknir sínar til baka. Enginn þeirra sex umsækjenda sem eftir voru uppfylltu hæfniskröfur varðandi vinnu við gagnagrunnsþjóninn en einn þeirra uppfyllti kröfur til að vinna að uppbyggingu landeignaskrár og hóf hann störf í október 2001. Landeignaskrá er einn hluti af Landskrá fasteigna. Þar er um að ræða að fella í skrána hnitsett mörk jarða og lóða til að tryggja að hvergi skarist eignarréttur á landi og mögulegt sé að setja landamerki og lóðamörk á kort og tengja og nota í landupplýsingakerfum. Einnig mun landeignaskrá verða mikilvægt verkfæri við að ákvarða fasteignamat jarða en fram undan er endurmat þess. Við uppbyggingu landeignaskrár hefur einkum verið unnið að fernu, að velja, afla og koma í notkun viðeigandi hugbúnaði, skoða erlendar fyrirmyndir að landeignaskrám, vinna að undirbúningi stjórnskipunar er þetta efni varðar og vinna þróunarvinnu í samstarfi við Akureyrarbæ.
    Þar sem ekki fengust hæfir starfsmenn til starfa á skrifstofu Fasteignamats ríkisins á Akureyri í tölvureksturinn var ákveðið að leita annarra leiða og bjóða þessa þjónustu út. Ríkiskaup auglýsti í júlí 2001 útboð á „tölvurekstrarþjónustu fyrir Fasteignamat ríkisins vegna Landskrár fasteigna“. Fjórir aðilar buðu í verkið. Að loknu mati á tilboðunum hófust samningaumleitanir við ANZA hf. og voru þeir undirritaðir í nóvember 2001. Í sama mánuði var sett af stað sameiginlegt verkefni Fasteignamats ríkisins og ANZA hf. með utanaðkomandi verkefnisstjóra við að hrinda samningnum í framkvæmd. Meginþættir þess verkefnis var að útfæra í smáatriðum skipan tæknimála, öryggismála, samskipta, gagnaflutninga og skjölun ferla. Í framhaldi af samningsgerðinni festi Fasteignamat ríkisins kaup á viðeigandi tölvubúnaði sem seljandi afhenti í janúar 2002. Hófst þá uppsetning hugbúnaðar og prófanir hans ásamt flutningi gagna í tölvuna. Mun rekstur Landskrár fasteigna í tölvubúnaði Fasteignamats ríkisins, vistuðum í tölvusal ANZA hf. á Akureyri, hefjast í maí 2002.

     6.      Hversu margir starfa hjá Landskrá fasteigna í Reykjavík?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið er Landskrá fasteigna samhæft gagna- og upplýsingakerfi fyrir allar fasteignir í landinu. Eðli máls samkvæmt fara þar til bær stjórnvöld með lögmælta skráningu í Landskrá fasteigna, hvert á sínu sviði og hvert á sínu svæði. Fasteignamat ríkisins er eina stjórnvaldið sem hefur með höndum stjórnsýslu á landsvísu og skráir í Landskrá fasteigna. Má segja að í daglegu starfi sé Landskrá fasteigna meginverkfæri hvers starfsmanns stofnunarinnar því í hana fer öll skráning fram og allar ákvarðanir unnar um fasteignamat og brunabótamat. Í umboði Fasteignamats ríkisins skrá byggingarfulltrúar í Landskrá fasteigna margvíslegar upplýsingar um gerð og notkun fasteigna hver í sínu sveitarfélagi. Sýslumenn skrá í Landskrá fasteigna það sem varðar þinglýsingar fasteigna hver í sínu umdæmi.
    Þau stjórnvöld sem skrá munu í Landskrá fasteigna í Reykjavík, hliðstætt og í öðrum sveitarfélögum, eru Fasteignamat ríkisins og byggingarfulltrúinn í Reykjavík í umboði þess, auk sýslumannsins í Reykjavík. Síðastnefnda embættið hefur þó ekki hafið innfærslu í þinglýsingarhluta skrárinnar þar sem meiri hluti af þinglýsingum fasteigna í Reykjavík er skráður í gamalt tölvukerfi sem haldið er af Skýrr hf. og er ekki hluti af Landskrá fasteigna. Áformað er að færa þinglýsingaupplýsingar úr því kerfi yfir í Landskrá fasteigna á árinu 2003 en óvíst er hvað það muni taka langan tíma þar sem ekki liggur fyrir hversu mikið misræmi þarf að leiðrétta á milli þinglýsingaskrárinnar og Landskrár fasteigna.
    Skráning sýslumannsembætta í þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna hófst á árinu 2001. Við undirbúning að stofnun Landskrár fasteigna var efnt til tilraunaverkefna hjá sýslumanninum í Kópavogi og sýslumanninum á Selfossi og hefur sú innfærsla upplýsinga úr þinglýsingabók sem þá fór fram nýst vel. Hægar hefur miðað við innfærslu upplýsinga úr þinglýsingabókum í Landskrá fasteigna en vænst var. Þar koma mörg samverkandi atriði til svo sem kerfisþróun og uppsetning kerfa, vinnuaflsskortur hjá ýmsum sýslumannsembættum, einkum hvað varðar löglærða fulltrúa, auk þess sem misræmi á milli upplýsinga í þinglýsingabókum og fasteignaskrám hefur verið umtalsvert. Greiða þarf úr slíku misræmi áður en eign er staðfest í þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna enda getur slíkt misræmi varðað mikilvæga hagsmuni fasteignaeigenda.
    Skráning upplýsinga úr þinglýsingabókum í Landskrá fasteigna fer fram hjá viðkomandi sýslumannsembættum, eign fyrir eign. Skráning upplýsinga um hverja eign fer fram í tveimur skrefum. Í fyrra skrefinu eru upplýsingar úr þinglýsingabók forskráðar í Landskrá fasteigna en síðara skrefið felst í því að löglærður fulltrúi fer yfir upplýsingarnar og staðfestir þær í landskrána. Hinn 8. apríl 2002 var fjöldi fasteigna sem þinglýsingaupplýsingar höfðu verið skráðar um í Landskrá fasteigna sem hér segir:

Yfirlit yfir skráningu þinglýsinga í Landskrá fasteigna 15. apríl 2002.

Þessi tafla sýnir fjölda þeirra eigna sem hvert sýslumannsembætti hefur fært inn í þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna og hlutfall þessara eigna af heildarfjölda fasteigna í viðkomandi umdæmi.
Sýslumannsembætti Þinglýsingarandlög Þinglýstar eignir Hlutfall Skráðar eignir
Sýslumaðurinn á Akranesi 2.569 2.096 82% 27
Sýslumaðurinn í Kópavogi 11.291 8.430 75% 1.668
Sýslumaðurinn á Ólafsfirði 632 459 73% 68
Sýslumaðurinn á Selfossi 12.011 8.617 72% 882
Sýslumaðurinn í Búðardal 622 343 55% 30
Sýslumaðurinn í Borgarnesi 4.929 1.637 33% 230
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði 3.019 400 13% 317
Sýslumaðurinn í Keflavík 7.495 682 9% 1.009
Sýslumaðurinn í Vík 869 35 4% 59
Sýslumaðurinn á Eskifirði 2.900 71 2% 2.053
Sýslumaðurinn á Akureyri 10.228 240 2% 7.142
Sýslumaðurinn á Blönduósi 2.267 48 2% 1.308
Sýslumaðurinn í Bolungarvík 676 8 1% 110
Sýslumaður Snæfellinga 2.567 9 759
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum 2.247 3 218
Sýslumaðurinn á Húsavík 3.069 1.121
Sýslumaðurinn á Hólmavík 758 19
Sýslumaðurinn á Höfn 1.231 12
Sýslumaðurinn á Hvolsvelli 2.586 2
    Þinglýsingarandlag er fasteign sem getur verið andlag þinglýsingar hverju sinni. Talningin tekur til fastanúmera, landnúmera jarða og óbyggðra lóða.
    Eign er þinglýst ef allar upplýsingar um hana hafa verið færðar úr þinglýsingabókum sýslumanns í þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna, þ.e. að eignin sé vottuð þinglýst í tölvukerfi Landskrár fasteigna.
    Fyrri hlutfallsdálkurinn sýnir fjölda þinglýstra eigna sem hlutfall af heildarfjölda þinglýsingarandlaga.
    Óþinglýstar skráðar eignir eru með skjöl í skráningarstöðu, þ.e. upplýsingar úr þinglýsingabókum hafa verið færðar í þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna en ekki verið staðfestar.

    Eins og að framan greinir skrá byggingarfulltrúar sveitarfélaga í Landskrá fasteigna í umboði Fasteignamats ríkisins. Þetta er markviss þróun sem Fasteignamat ríkisins hefur unnið að á síðustu árum og leysir að hluta til af hólmi það verklag að byggingarfulltrúar sendi Fasteignamati ríkisins gögn á pappír sem það svo færir í Landskrá fasteigna.
    Ýmsir rafrænir samskiptamöguleikar eru líklegir til að geta þróað þetta skráningarsamstarf enn frekar á næstu árum, jafnvel í því formi að gögn séu skráð í Landskrá fasteigna á upprunastað, t.d. hjá þeim sem teikna hús, gera skráningartöflur og eignaskiptayfirlýsingar. Meðfylgjandi er tafla yfir þau sveitarfélög sem annast í umboði Fasteignamats ríkisins einhverja skráningu í Landskrá fasteigna.

Sveitarfélög sem annast skráningu í Landskrá fasteigna
í umboði Fasteignamats ríkisins.


Höfuðborgarsvæði og Reykjanes Vesturland og
Vestfirðir
Norðurland Austurland Suðurland
Reykjavík      Akranes Skagafjörður      Fjarðabyggð Vestmannaeyjar     
Kópavogur           Innri-Akraneshreppur      Akrahreppur           Fellahreppur      Árborg          
Seltjarnarnes      Skilmannahreppur Akureyri      Búðahreppur Mýrdalshreppur     
Garðabær           Leirár- og Melahreppur Húsavík           Stöðvar-hreppur      Skeiðahreppur     
Hafnarfjörður           Skorradalshreppur      Grímseyjarhreppur Austur-Hérað      Gnúpverjahreppur     
Bessastaðahreppur      Borgarfjarðarsveit      Hríseyjarhreppur      Hornafjarðar-bær      Hrunamanna-hreppur     
Mosfellsbær           Hvítársíðuhreppur      Arnarneshreppur      Biskupstungna-hreppur
Reykjanesbær           Borgarbyggð           Eyjafjarðarsveit      Laugardalshreppur     
Grindavík           Kolbeinsstaða-hreppur      Hörgárbyggð           Þingvallahreppur     
Gerðahreppur Hvalfjarðar-strandarhreppur Svalbarðsstrandar-hreppur Hveragerði     
Vatnsleysu-strandarhreppur Helgafellssveit      Grýtubakkahreppur      Ölfushreppur     
          Stykkishólmur           Hálshreppur           Grímsnes- og Grafningshreppur
Eyja- og Miklaholtshreppur Ljósavatnshreppur      Austur-Eyjafjallahreppur
Snæfellsbær      Bárðdælahreppur Vestur-Eyjafjallahreppur
Eyrarsveit Skútustaðahreppur
Reykdælahreppur
Aðaldælahreppur
Reykjahreppur     
Tjörneshreppur     
Kelduneshreppur
Öxarfjarðarhreppur
Raufarhafnar-hreppur     
Svalbarðshreppur
Þórshafnarhreppur