Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1242  —  520. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Frumvarp þetta er nú lagt fram í annað sinn nokkurn veginn óbreytt þrátt fyrir mikla gagnrýni náttúrustofanna, Náttúrufræðistofnunar Íslands og einstakra sveitarfélaga þegar það var til umfjöllunar í umhverfisnefnd í lok 126. löggjafarþings. Minni hluti umhverfisnefndar lítur svo á að skynsamlegra hefði verið að efna til samstarfs við þessa aðila milli þinga og freista þess að ná samstöðu um markmið frumvarpsins. Enda kemur fram í nýjum umsögnum til nefndarinnar að sjónarmið umsagnaraðila eru enn þau sömu og ekkert sem bendir til þess að sátt sé í sjónmáli. Það er því mat minni hlutans að með því að afgreiða málið frá Alþingi nú þvert ofan í mótmæli þeirra sem ætlað er að vinna eftir lögunum sé verið að þvinga fram þær breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um. Minni hlutinn mótmælir því að slík vinnubrögð séu viðhöfð á löggjafarsamkomu Íslendinga. Það er því mat minni hlutans að málið sé jafn vanreifað og illa undirbúið nú og það var á síðasta vori.
    Það er mat minni hlutans að áður en málið getur talist hæft til afgreiðslu þurfi löggjafinn að gera upp við sig hvert markmiðið með starfrækslu náttúrustofanna eigi að vera, hvaða hlutverki þeim sé ætlað að gegna í neti þeirra stofnana sem stunda rannsóknir á sviði náttúruvísinda, hvaða hlutverki þeim sé ætlað að gegna í einstökum byggðarlögum og síðast en ekki síst þarf að ná samkomulagi við samtök sveitarfélaga um ábyrgð þeirra á rekstri stofanna. Ef það kallar á umræðu um aukna tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga til að standa undir öflugum rekstri náttúrustofa á landsbyggðinni, þá er nauðsynlegt að sú umræða fari fram. Að öðrum kosti er hætt við að stofurnar verði olnbogabörn og niðursetningar sem seint komast á legg. Þar að auki telur minni hlutinn frumvarpið ganga í mikilvægum atriðum gegn þeim tilgangi sem stofunum var upphaflega ætlað að uppfylla því þegar ákvæði um stofurnar komu upphaflega inn í lög var gert ráð fyrir að þær gætu með tímanum unnið sig upp í það að verða setur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Með þeim ákvæðum sem frumvarpið hefur að geyma er þessari hugmynd kastað á glæ án þess að rökstuðningur liggi fyrir.
    Það eru ekki bara náttúrustofurnar sjálfar sem hafa lagst gegn því að frumvarpið verði samþykkt í þeirri mynd sem það liggur fyrir. Samband íslenskra sveitarfélaga leggst gegn því að fjárskuldbindingar sveitarfélaga vegna rekstrar náttúrustofa miðist við ákveðið hlutfall af framlagi ríkisins. Það virðist því nokkuð ljóst að allir aðilar málsins séu ósáttir við grundvallarþætti þess. Vilji löggjafinn takast á við þennan vanda væri eðlilegt að setja á laggirnar nýja nefnd eða starfshóp sem fengi það hlutverk að sætta sjónarmið aðila og leggja svo fram endurnýjaðar hugmyndir á næsta löggjafarþingi.
    Með vísan til framangreinds leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Minni hluti umhverfisnefndar efast um að frumvarp þetta verði til þess að efla náttúrustofurnar og telur skorta hin faglegu rök fyrir þeim breytingum sem það felur í sér. Það mætir mikilli andstöðu forsvarsmanna náttúrustofanna, auk þess sem veigamiklar athugasemdir hafa komið fram frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins. Með vísan til þessa samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 17. apríl 2002.


Kolbrún Halldórsdóttir.