Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1250  —  564. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur, Rögnu Árnadóttur, Sigfús Eggertsson og Svein Magnússon frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Reyni Tómas Geirsson og Helga Valdimarsson frá læknadeild Háskólans, Sverri Bergmann frá læknaráði Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Sigurbjörn Sveinsson frá Læknafélagi Íslands.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Heilbrigðisstofnun Austurlands, svæðisskrifstofu Vestfjarða, Heilbrigðiseftirliti Norðurlandssvæðis eystra, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Hólmavíkur, Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar, heilsugæslustöðinni á Akureyri, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, héraðslækni Reykjaneshéraðs, heilsugæslustöð Hafnarfjarðar, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Félagi um lýðheilsu, hjúkrunarráði Heilbrigðisstofnunar Austurlands, héraðslækni Reykjavíkur, héraðslækni Norðurlands, heilsugæslustöð Kópavogs, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og héraðslækni Suðurlandshéraðs, læknadeild Háskóla Íslands og Læknafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að embætti héraðslækna verði felld niður. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur starf margra héraðslækna dregist mjög saman á liðnum árum og í mörgum tilvikum hefur starfsemi þeirra aldrei náð þeirri fótfestu sem lagt var upp með. Störf héraðslækna falla vel saman við starf heilsugæslunnar í landinu og gerir frumvarpið ráð fyrir að yfirlæknar heilsugæslustöðva í landinu taki við þeim, að mestu.
    Meiri hlutinn telur að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu leiði til hagræðingar og einföldunar á stjórnsviði heilbrigðisþjónustunnar í landinu.
    Meiri hlutinn telur engu að síður nauðsynlegt, í kjölfar laganna, að starfsemi og skipulag heilsugæslunnar verði metið að nýju með hliðsjón af þeim auknu störfum sem frumvarpið leggur henni á herðar. Reynslan leiðir þetta í ljós en augljóst er að aukin verkefni innan heilsugæslunnar kalla á aukin fjárframlög til hennar.
    Meiri hlutinn leggur til að 9. gr. frumvarpsins falli brott. Ákvæðið snertir ráðningarmál yfirmanna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og er þáttur af stærra máli sem unnið er að og snertir stjórnunarskipulag spítalans og samband hans við Háskólann. Meiri hlutinn telur ekki tímabært að lögfesta ákvæði þessa efnis fyrr en tekið hefur verið heildstætt á málum varðandi stjórnskipulag spítalans.
    Þá er gerð smávægileg breyting á 28. gr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:

     1.      9. gr. falli brott.
     2.      B-liður 28. gr. orðist svo: Orðin „héraðs- eða“ í 3. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. falla brott.

Alþingi, 16. apríl 2002.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Ásta Möller.


Einar Oddur Kristjánsson.Ólafur Örn Haraldsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.