Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1261  —  663. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breytingu á lögum nr. 61/1981, um steinullarverksmiðju.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti og Jón Gauta Jónsson frá sveitarstjórn Skagafjarðar.
    Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að selja eignarhlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni hf. á Sauðárkróki. Í greinargerð kemur fram að gert hafi verið samkomulag milli stærstu eigenda fyrirtækisins og Húsasmiðjunnar hf., BYKO hf. og Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á eignarhlut ríkisins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar í fyrirtækinu. Upplýst var á nefndarfundi að samkomulagið væri háð nokkrum skilyrðum, m.a. samþykki Alþingis og því að samkeppnisyfirvöld banni ekki kaupin eða setji um þau efnisleg skilyrði. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt þótt ekki liggi fyrir hvort Samkeppnisstofnun leggur blessun sína yfir þessi viðskipti eða setji um þau efnisleg skilyrði. Minni hlutinn telur augljóst að Alþingi eigi ekki að afgreiða frumvarpið án þess að afstaða Samkeppnisstofnunar liggi fyrir.
    Minni hlutinn er andvígur sölu ríkisins á eignarhlut sínum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki við núverandi aðstæður og telur slíka ráðstöfun ekki líklega til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Fjárhagsstaða þess hefur verið slæm og til þess að bæta hana hefur sveitarstjórnin brugðið á það ráð að selja eignir. Rafveita Sauðárkróks hefur verið seld og nú stendur hugur sveitarstjórnarinnar til þess að losa um það fjármagn sem sveitarfélagið á í Steinullarverksmiðjunni. Eins og m.a. má sjá af ályktun sem birt er sem fylgiskjal með áliti þessu eru afar deildar meiningar um málið heima í héraði enda hefur Steinullarverksmiðjan um árabil verið mikilvæg stoð í atvinnulífi Sauðárkróks. Á sínum tíma var tekist hart á um stofnsetningu verksmiðjunnar og ekki síst staðsetningu og það var pólitísk ákvörðun að henni var valinn staður á Sauðárkróki.
    Steinullarverksmiðjan hefur reynst mikill happafengur fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð. Þrátt fyrir nokkra byrjunarörðugleika hefur rekstur hennar gengið vel og hún hefur skilað eigendum sínum drjúgum arði. Hún veitir fjölda bæjarbúa atvinnu, bæði beint og óbeint, og sveitarfélagið hefur af henni umtalsverðar tekjur. Fjárhagur verksmiðjunnar er góður, mjög litlar skuldir hvíla á fyrirtækinu og ekkert bendir til annars en reksturinn geti áfram gengið vel. En skjótt skipast veður í lofti og engin trygging er fyrir því að nýir eigendur verksmiðjunnar hafi jafnmikinn áhuga og núverandi eigendur á því að efla hag hennar á þeim stað þar sem hún er rekin nú. Niðurstaðan gæti orðið brottflutningur starfa og tekjumissir og er þá verr af stað farið en heima setið. Minni hlutinn vill að allra leiða verði leitað til þess að leysa tímabundinn fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Skagafjarðar, annarra en að selja drjúgan hluta bestu mjólkurkýrinnar á þeim bæ og setja þar með framtíð Steinullarverksmiðjunnar í algjöra óvissu. Reynist sveitarfélagið hins vegar nauðbeygt til þess að selja hlut sinn í verksmiðjunni telur minni hlutinn að ríkið eigi að leysa þann hlut til sín.
    Með vísan til framangreinds leggur minni hluti nefndarinnar til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Í ljósi þess að áform um sölu Steinullarverksmiðjunnar eru fyrst og fremst tilkomin vegna bágrar fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og þess að um málið eru mjög deildar meiningar heima í héraði leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 18. apríl 2002.Árni Steinar Jóhannsson.

Fylgiskjal.


Ályktun frá fundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs
í Sveitarfélaginu Skagafirði 2. mars 2002.


Sölu Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki mótmælt.

    Fundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Sveitarfélaginu Skagafirði mótmælir harðlega fyrirhugaðri sölu sveitarfélagsins á hlut sínum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Jafnframt mótmælir fundurinn þeirri stefnu stjórnvalda að halda sveitarfélögum í landinu í þeirri úlfakreppu að þau telji sig knúin til að selja dýrmætar eignir sínar til að standa undir skuldbindingum sem þau hafa stofnað til. Það var mikið átak á sínum tíma hjá Skagfirðingum að koma verksmiðjunni upp á Sauðárkróki. Auk þess að vera eitt mikilvægasta atvinnufyrirtæki héraðsins hefur hún skilað sveitarfélaginu miklum arði. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að skoða eigi aðrar leiðir til að auka tekjur sveitarfélagsins af Steinullarverksmiðjunni enn frekar. Leiðir sem einnig tryggi framtíð hennar í Skagafirði. Með sölu nú setur sveitarfélagið framtíð verksmiðjunnar á Sauðárkróki í óvissu. Svo stuttu fyrir kosningar er eðlilegra að láta nýrri sveitarstjórn það hlutverk eftir að taka stærri ákvarðanir um endurskipulagningu á eignum og fjárreiðum sveitarfélagsins.