Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1262  —  562. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson, Kolbein Árnason og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Friðrik Má Baldvinsson hagfræðing, Eirík Tómasson prófessor, Ásgeir Daníelsson og Gyðu Þórðardóttur frá Þjóðhagsstofnun, Sigurð Líndal prófessor, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Kristján Ragnarsson og Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Örn Pálsson og Arthúr Bogason frá Landssambandi smábátaeiganda, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðjón Ármann Einarsson frá Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Óskar Þór Karlsson og Jón Stein Elíasson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Má Pétursson hæstaréttarlögmann, Björn Erlendsson frá Samtökum eigenda sjávarjarða, Árna Snæbjörnsson frá Bændasamtökum Íslands, Braga Gunnarsson frá embætti ríkisskattstjóra, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands og Markús Möller og Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Húsavíkurkaupstað, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Eyþingi, Samtökum eigenda sjávarjarða, Bændasamtökum Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Vélstjórafélagi Íslands, Austur-Héraði, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Djúpárhreppi, Seðlabanka Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Þjóðhagsstofnun, Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Gerðahreppi, Hafrannsóknastofnuninni, Verslunarráði Íslands, Siglufjarðarkaupstað, Lögmannafélagi Íslands, Dalvíkurbyggð, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Siglufjarðarkaupstað, Djúpavogshreppi, Hríseyjarhreppi og Byggðastofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Meginbreytingin felst þó í því að lagt er til að svokallað veiðigjald verði lagt á veittar veiðiheimildir samkvæmt lögunum.
    Sú útfærsla veiðigjaldsins sem lögð er til byggist á niðurstöðum nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði 28. september 1999 og var ætlað að endurskoða fiskveiðistjórnarlögin. Gjaldið er magn- og afkomutengt og reiknast fyrir hvert þorskígildiskíló miðað við heildaraflaverðmæti á tímabilinu 1. maí – 30. apríl næstliðið ár. Gjaldið leggst á úthlutaðar veiðiheimildir þegar það á við en annars á landaðan afla einstakra tegunda eins og nánar er útlistað í d-lið 10. gr. frumvarpins. Samkvæmt frumvarpinu mun gjaldtaka hefjast árið 2004, fara smáhækkandi fram til ársins 2009 og verða eftir það 9,5%.


Prentað upp.

    Nefndin ræddi nokkuð hvernig bæri að skilgreina veiðigjaldið. Skiptar skoðanir voru uppi um hvort það væri skattur, þjónustugjald eða auðlindarenta. Var á það bent að eins og gjaldið væri sett fram í frumvarpinu stæðist það formkröfur sem gerðar eru til gjaldtöku af öllum þessum gerðum. Því má telja að þetta álitamál hafi ekki efnislega þýðingu.
    Samkvæmt frumvarpinu er álagning veiðigjaldsins byggð á mælingu á þorskígildum. Í meðferð nefndarinnar kom fram gagnrýni á þessa mælieiningu. Var meðal annars bent á að hún gæti hvatt til veiða á stærri fiski og að ójafnræði kynni að hljótast af milli einstakra veiðarfæra og landshluta. Meiri hluti nefndarinnar telur að endurskoða þurfi þessar reglur svo og reglur um slægingarstuðul og kvótanotkun og að taka þurfi á spurningunni um undir- og yfirstuðul vegna stærðar fisks. Meiri hlutinn álítur nauðsynlegt að endurskoðun verði lokið í tæka tíð, svo að nýjar reglur geti tekið gildi við upphaf fiskveiðiársins 2003/2004.
    Í frumvarpinu er lagt til að stærðarmörk krókaaflamarksbáta verði hækkuð úr 6 brúttótonnum í 15. Þetta er gert til þess að stuðla að auknu öryggi við sjósókn og tryggja jafnari hráefnisöflun í fiskvinnslum sem fyrst og fremst vinna úr afla smábáta. Nauðsynlegt er og að benda á að með gildistöku laga um krókaaflamark 1. september sl. er heildarafla smábáta stjórnað með aflahlutdeild og aflamarki. Breyting á stærðarmörkum krókaaflamarksbáta hefur þá hliðarverkun að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur sem taka við afla krókaaflamarksbáta og greiða hluta af hráefnisverði inn á sérstakan reikning samkvæmt lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins munu ekki greiða inn á þennan reikning af hráefnisverði afla sem þeir taka við af bátum sem eru 10 lestir eða stærri. Viðbúið er að án annarra breytinga gæti þessi breyting dregið úr tekjum Landssambands smábátaeigenda, en hluti greiðslnanna rennur þangað. Slíkt var ekki ætlunin og leggur meiri hlutinn, samhliða þessu áliti, fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sem ætlað er að koma í veg fyrir þetta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að ráðherra verði heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli hvorki að hluta né öllu leyti reiknast til heildarafla. Með þessari breytingu er opnað á þann möguleika að fleiri en Hafrannsóknastofnunin geti stundað fiskirannsóknir og veitt fisk í því skyni án þess að hafa til þess veiðiheimildir að öllu eða einhverju leyti. Það er skoðun meiri hlutans að slíkt gæti orðið til eflingar hafrannsóknum í landinu
     2.      Lagt er til að sú breyting sem gerð var á síðasta haustþingi og fól í sér að einungis væri heimilt að flytja 30% krókaaflamarks milli fiskveiðiára falli brott. Meiri hlutinn telur eðlilegt að sama regla gildi um flutning krókaaflamarks og aflamarks almennt og er það raunar ósk smábátaútgerðarmanna. Áréttað skal að þar sem í lögunum er talað um aflamark á það jafnframt við um krókaaflamark nema sérstaklega sé kveðið á um annað, sbr. 5. mgr. 7. gr. laganna. Regla 1. málsl. 7. mgr. 12. gr. laganna tekur því jafnframt til flutnings krókaaflamarks. Jafnframt er lagt til að heimilt verði á þessu fiskveiðiári að flytja allt krókaaflamark í ýsu, steinbít og ufsa frá fiskveiðiárinu 2001/2002 til fiskveiðiársins 2002/2003. Með þessari breytingu er meðal annars komið til móts við ábendingar Landssambands smábátaeigenda um að ekki sé að fullu lokið við úthlutun aflaheimilda til handa smábátunum, eigendur þeirra hafi því átt erfitt með að skipuleggja veiðar sínar og sú hætta kunni að vera fyrir hendi að aflaheimildir einstakra báta nýtist ekki. Með því að opna á möguleikann á því að flytja aflaheimildir að fullu á milli fiskveiðiára nú og auka framsalsheimildir ætti slíkri hættu að verða afstýrt.
     3.      Lagðar eru til breytingar á leyfilegri hámarksaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila. Meiri hlutinn telur að reynslan af því að lögbinda hámarksaflahlutdeild hafi haft áhrif og að fara beri varlega í breytingar á þeim mörkum sem lögfest eru. Nefndin leggur því til að hámarksaflahlutdeild einstakra aðila í ýsu, ufsa og grálúðu verði 20%, en 35% í karfa. Frumvarpið hafði gert ráð fyrir að þessi hámarkskvótahlutdeild yrði 50%. Með þessu er gengið mun skemmra en lagt er til í frumvarpinu.
     4.      Lagt er til að í 15. gr. laganna verði kveðið skýrar á um skyldu opinberra aðila til að veita sjávarútvegsráðuneytinu og Fiskistofu nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmd laganna. Fiskistofa hefur til þessa fengið þessar upplýsingar og er því ekki um efnislega breytingu á vinnulagi að ræða. Til að taka af öll tvímæli um lagalegar heimildir í þessum efnum er nauðsynlegt að kveða á um þennan aðgang með skýrum hætti.
     5.      Lagðar eru til breytingar á fjárhæðum og prósentutölu launakostnaðar í 3. mgr. c-liðar 10. gr. sem miða skal við frádrátt kostnaðar frá aflaverðmæti skv. 2. mgr. sömu greinar. Breytingarnar má rekja til þeirra verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá því að textinn var skrifaður. Þá eru gerðar smávægilegar breytingar á orðalagi 3. mgr. e-liðar 10. gr. frumvarpsins. Breytingin er ekki efnisleg.
     6.      Í bráðabirgðaákvæði XXV er gert ráð fyrir því að úthlutað verði 3.000 lestum af þorski til aflamarksbáta fram til ársins 2006. Hér er gerð tillaga um árlega úthlutun og að sólarlagsákvæðið falli niður. Er þetta gert til þess að styrkja stöðu þessara aflamarksbáta.
     7.      Í bráðabirgðaákvæði XXVI er gert ráð fyrir að Byggðastofnun úthluti aflaheimildum sem nema alls 1.500 þorskígildislestum til og með fiskveiðiárinu 2005/2006, en þær falli þá niður. Hér er gerð tillaga um að þessum aflaheimildum verði úthlutað áfram, án tímatakmarkana og að þessi úthlutun verði á forræði sjávarútvegsráðuneytisins með sama hætti og gert er ráð fyrir í 4. grein frumvarpsins. Tilgangurinn með þessari breytingu er að treysta betur stöðu þeirra byggðarlaga sem hafa lent í vanda vegna samdrátttar í sjávarútvegi.
     8.      Lagðar eru til breytingar og lagfæringar á gildistökuákvæði frumvarpsins. Gildistaka varðandi veiðigjaldið er þó óbreytt frá því sem í frumvarpinu greinir. Lagt er til að ákvæði 4. gr. frumvarpsins taki gildi 1. september 2002. Þó skal ráðherra vera heimilt á grundvelli ákvæðisins, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að úthluta á fiskveiðiárinu 2001/2002 allt að 500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Það er mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé þegar á þessu ári að gefa út slíkar heimildir til þess að bregðast við vanda einstakra byggðarlaga.
     9.      Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að frá fiskveiðiárinu 2001/2002 til og með 2005/2006 hafi ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 500 lestum af óslægðum þorski. Einungis er heimilt að ráðstafa þessum aflaheimildum til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem ber að fylgjast með tilrauninni og birta niðurstöður um gang hennar. Lagt er til að ráðherra setji frekari reglur um skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein. Eins og kunnugt er hefur þegar verið tekið til við þorskeldi, einkum á Vestfjörðum og við Eyjafjörð. Er þessi heimild veitt til þess að greiða fyrir þeirri atvinnustarfsemi.

Alþingi, 18. apríl 2002.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


    Kristinn H. Gunnarsson.


Guðmundur Hallvarðsson.



Hjálmar Árnason,


með fyrirvara.


Sigríður Ingvarsdóttir.


Helga Guðrún Jónasdóttir.