Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1263  —  562. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um breyt. á l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar reiknast ekki til heildarafla. Þá er ráðherra heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli ekki að hluta eða öllu leyti reiknast til heildarafla.
     2.      Við 2. gr. A-liður orðist svo: Í stað orðanna „veiðitíma og reglum settum skv. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. mgr. kemur: og veiðitíma.
     3.      Við bætist ný grein, er verði 5. gr., og orðist svo:
                  Við lögin bætist ný grein, 9. gr. a, sem orðast svo:
                  Á hverju fiskveiðiári skal úthluta árlega 3.000 lestum af þorski. Þessum aflaheimildum skal úthlutað til báta sem höfðu aflahlutdeild 1. desember 1998 og voru þann dag minni en 200 brúttótonn, enda hafi þeir landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998. Aflaheimildir þessar miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þorsks áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar. Úthlutun til einstakra báta skal miðast við heildaraflamark þeirra í þorskígildum talið. Við útreikning þennan skal miða við aflahlutdeildarstöðu þeirra 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári, þó þannig að enginn bátur fái meira en 100% aukningu á þorskaflamarki og enginn hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Aldrei skal þó úthlutun samkvæmt þessari grein leiða til þess að heildaraflaheimildir einstakra skipa verði meiri en 450 þorskígildislestir samtals. Verði breytingar á skipakosti útgerðar er henni heimilt að flytja rétt til úthlutunar samkvæmt þessari grein yfir á annan bát í sinni eign. Jafnframt skal sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta samkvæmt reglum þessarar greinar viðbótaraflaheimildum til báta sem hafa komið í stað annarra á tímabilinu frá 1. september 1997 til gildistöku þessara laga, enda hafi allar aflaheimildir verið fluttar yfir á hinn nýja bát af þeim sem endurnýjaður var og skerðir slík úthlutun ekki rétt annarra samkvæmt greininni.
     4.      Við 6. gr.
              a.      Hámarksaflahlutdeild ýsu, sbr. töflu í 1. efnismgr., breytist úr „50%“ og verði: 20%.
              b.      Hámarksaflahlutdeild ufsa, sbr. töflu í 1. efnismgr., breytist úr „50%“ og verði: 20%.
              c.      Hámarksaflahlutdeild karfa, sbr. töflu í 1. efnismgr., breytist úr „50%“ og verði: 35%.
              d.      Hámarksaflahlutdeild grálúðu, sbr. töflu í 1. efnismgr., breytist úr „50%“ og verði: 20%.
              e.      1. og 2. mgr. sameinist og verði 1. mgr.
     5.      Við 7. gr. C-liður orðist svo: 1. málsl. 7. mgr. orðast svo: Á hverju fiskveiðiári er einungis heimilt að flytja af fiskiskipi aflamark, umfram aflamark sem flutt er til skips, sem nemur 50% af samanlögðu aflamarki sem fiskiskipi er úthlutað.
     6.      Við 9. gr. Greinin orðist svo:
                   Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „og lánastofnunum“ í 2. mgr. kemur: lánastofnunum og opinberum stofnunum.
                  b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                          Eigendaskipti á fiskiskipi, eða aðra breytingu á útgerðaraðild fiskiskips, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, skal innan 15 daga frá undirritun samnings tilkynna til Fiskistofu. Bæði seljandi og kaupandi, eða leigusali og leigutaki þegar um leigu er að ræða, skulu sameiginlega undirrita tilkynningu um breytta útgerðaraðild á sérstöku eyðublaði sem Fiskistofa leggur til í þessu skyni. Afrit af kaupsamningi eða leigusamningi skal fylgja tilkynningu. Ábyrgð á tilkynningu til Fiskistofu hvílir á kaupanda skips eða leigutaka þess eftir atvikum. Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd tilkynningarskyldu. Vanefndir á tilkynningarskyldu varða viðurlögum skv. 25. gr.
     7.      Við 10. gr.
              a.      Inngangsmálsgrein orðist svo og breytist greinanúmer í a–e-lið samkvæmt því:
                     Á eftir III. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, IV. kafli, Þorskígildi, með einni nýrri grein, 19. gr., og V. kafli, Veiðigjald, með fjórum nýjum greinum, 20.–23. gr., svohljóðandi.
              b.      Í stað fjárhæðarinnar „6.001 millj. kr.“ í a-lið 3. mgr. c-liðar komi: 6.218 millj. kr.
              c.      Í stað fjárhæðarinnar „15.391 millj. kr.“ í b-lið 3. mgr. c-liðar komi: 17.568 millj. kr.
              d.      Í stað hlutfallstölunnar „40%“ í c-lið 3. mgr. c-liðar komi: 39,8%.
              e.      Orðin „þó aldrei umfram það sem þegar hefur verið greitt“ í 3. mgr. e-liðar falli brott.
     8.      Við 11. gr. Greinin orðist svo:
                  Ákvæði XXV til bráðabirgða í lögunum fellur brott.
     9.      Við bætist ný grein, er verði 13. gr., og orðist svo:
                   Við ákvæði XXVI til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein er orðist svo:
                  Í lok fiskveiðiársins 2005/2006 skulu 1.500 þorskígildislestir bætast við þær aflaheimildir sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 9. gr. og skulu þær bætast við þær aflaheimildir sem ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
     10.      Við bætist ný grein, er verði 14. gr., og orðist svo:
                  Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
          a.      (I.)
                 Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 10. gr. skal heimilt að flytja allt krókaaflamark í ýsu, steinbít og ufsa frá fiskveiðiárinu 2001/2002 til fiskveiðiársins 2002/2003.
          b.      (II.)
                 Á fiskveiðiárunum 2001/2002 til og með 2005/2006 hefur ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 500 lestum af óslægðum þorski. Þessum aflaheimildum skal ráðstafað til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilrauninni og birtir niðurstöður um gang hennar. Ráðherra setur frekari reglur um skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein.
     11.      Við 12. gr. Greinin orðist svo:
                   Ákvæði 1., 2., 3., 5., 6., 7., 8., 9., 12., 13. og 14. gr. öðlast þegar gildi.
                  Ákvæði 4. og 10. gr. öðlast gildi 1. september 2002. Þó er ráðherra heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, á grundvelli 4. gr., að úthluta á fiskveiðiárinu 2001/2002 allt að 500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
                   Ákvæði 11. gr. öðlast gildi 1. september 2004.
                  Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 11. gr. skal miða við 6% í stað 9,5% árið 2004, 6,6% árið 2005, 7,3% árið 2006, 8,0% árið 2007, 8,7% árið 2008 og 9,5% árið 2009.