Ferill 714. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1273  —  714. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Guðlaugsson, Þórhall Arason, Ingva Má Pálsson og Guðmund Ólason frá fjármálaráðuneyti, Helenu Hilmarsdóttur frá Verðbréfaþingi Íslands, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Gísla Tryggvason og Auði Antonsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Birgi Ármannsson og Sigríði Andersen frá Verslunarráði Íslands, Kristínu Pétursdóttur frá Kaupþingi, Eddu Rós Karlsdóttur frá Búnaðarbanka Íslands, Almar Guðmundsson frá Íslandsbanka, Þór Sigþórsson frá Íslenskum lyfjarannsóknum, Kára Stefánsson, Þór Haraldsson og Pál Magnússon frá Íslenskri erfðagreiningu, Birgi Ísleif Gunnarsson frá Seðlabanka Íslands, Tómas Þorvaldsson, Sveinbjörn Gizurarson, Magnús R. Guðmundsson og Sturlu Geirsson frá Lyfjaþróun, Brynjólf Kvaran og Guðbjörgu Alfreðsdóttur frá Pharmaco, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Gylfa Magnússon frá Háskóla Íslands, Magnús Harðarson frá Þjóðhagsstofnun, Róbert Westmann frá Delta, Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu og Davíð Á. Gunnarsson og Ragnhildi Arnljótsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Lyfjaþróun hf., Íslenskri erfðagreiningu, Bandalagi háskólamanna, Greiningadeild Búnaðarbanka Íslands, Greiningadeild Íslandsbanka, Samtökum fjárfesta, Pharmaco, Þjóðhagsstofnun og Pétri H. Blöndal. Einnig bárust gögn frá Íslenskri erfðagreiningu og fjármálaráðuneyti.
    Frumvarpinu er ætlað að veita fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, heimild til að veita einfalda ríkisábyrgð á skuldabréfum að fjárhæð allt að 200 milljónir USD, eða um 20 milljarða kr., útgefnum af deCODE Genetics Inc., móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. Aðgerðinni er ætlað að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi.
    Ábyrgðin er háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, en stjórnvöld telja að hún uppfylli skilyrði ríkisaðstoðar til rannsóknar- og þróunarverkefna eins og þau eru tilgreind í leiðbeiningarreglum stofnunarinnar um ríkisaðstoð. Ef samþykki stofnunarinnar fæst ekki fyrir því að ábyrgðin sé sérstök ríkisaðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefnis telja stjórnvöld að ábyrgðin geti jafnframt uppfyllt skilyrði sem sett eru fyrir veitingu almennra ríkisábyrgða í leiðbeiningarreglum stofnunarinnar, en þau eru sambærileg þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.



Prentað upp.

    Töluvert var um það rætt í nefndinni hvort veita ætti öðrum fyrirtækjum sambærilega fyrirgreiðslu og fyrirtækið Lyfjaþróun hf. lagði fram upplýsingar þar sem fram kemur að það
telur sig í sambærilegri starfsemi og Íslenska erfðagreiningu ehf. Meiri hlutinn bendir á að þegar ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA liggur fyrir um hvort ábyrgðin uppfylli skilyrði ríkisaðstoðar til rannsóknar- og þróunarverkefna verður grundvöllur til að fjalla um það hvort ástæða sé til að veita ábyrgð öðrum fyrirtækjum hér á landi sem fást við lyfjaþróun á sambærilegum forsendum og Íslensk erfðagreining hf. hefur í hyggju.
    Meiri hlutinn leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu. Þær eru ætlaðar til að gera orðalag þess skýrara og til að taka af allan vafa um að með 2. gr. þess er ekki ætlunin að fella brott ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, heldur eingöngu að árétta að lögin gildi ekki um þá aðgerð sem lögð er til í frumvarpinu, að undanskilinni 5. gr. þeirra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Drífa Hjartardóttir.