Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1333  —  575. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneyti, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Árna Bjarnason og Guðjón Ármann Einarsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Friðrik Arngrímsson og Guðfinn G. Johnsen frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Ólaf Briem frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Friðrik Björgvinssyni, Siglingastofnun Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Byggðastofnun, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Siglingasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Vélskóla Íslands, Snarfara – félagi sportbátaeigenda, Landssambandi smábátaeigenda, Slysavarnafélaginu Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Olíudreifingu ehf., Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að við núgildandi lög um áhafnir farþegaskipa og flutningaskipa verði bætt ákvæðum sem gilda munu um áhafnir fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta sem og áhafnir annarra skipa, hverju nafni sem þau nefnast. Verði frumvarpið að lögum munu ein lög gilda um áhafnir íslenskra skipa og falla gildandi sérlög þá úr gildi.
    Breytingarnar hvað fiskiskip varða eru byggðar á alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa, skammstafað STCW–F, en tillaga til þingsályktunar um fullgildingu þeirrar samþykktar hefur verið samþykkt á þessu þingi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna má ekki veita undanþágu til að gegna stöðu skipstjóra eða yfirvélstjóra á farþegaskipum og flutningaskipum nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er. Meiri hlutinn telur eðlilegt að þetta gildi einnig um skipstjóra og yfirvélstjóra á fiskiskipum og leggur hún til að svo verði. Rétt er þó að benda á að með þessu er gengið lengra en alþjóðasamþykktin um áhafnir fiskiskipa STCW–F kveður á um, en hún tekur ekki til yfirvélstjóra í þessu sambandi.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 6. gr. frumvarpsins sem lúta að því að samræma þann siglingatíma sem skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar þurfa að hafa til að öðlast atvinnuréttindi við þann tíma sem STCW-samþykktin kveður á um. Í lögunum er þessi tími 50% lengri en þar er gerð krafa um og miðar breytingin að því að samræma lögin og samþykktina hvað þetta varðar. Þessi breyting nær til skipstjórnarmanna og vélstjóra á kaupskipum og farþegaskipum.
     3.      Lagðar eru til breytingar á a-lið 8. gr. er varðar skírteini áhafna fiskiskipa. Annars vegar er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að gera vægari kröfur um siglingatíma hvað skipstjórnarmenn varðar innan þess ramma sem STCW–F samþykktin setur. Þar sem ekki eru jafnskýr ákvæði í alþjóðasamþykktinni um áhafnir fiskiskipa, STCW–F, um þann tíma sem þarf til að afla sér réttinda til atvinnuskírteina verður talið eðlilegt að ráðherra hafi þessa heimild til breytinga. Hins vegar eru lagðar til breytingar sem lúta að því að samræma þann siglingatíma sem vélstjórar þurfa að inna af hendi til afla sér atvinnuréttinda samkvæmt alþjóðasamþykktinni um áhafnir fiskiskipa, STCW–F. Samþykktin hefur sömu viðmið um vélastærð og eru í frumvarpinu. Með breytingunum næst samræmi með frumvarpinu og samþykktinni.
     4.      Lagt er til í d-lið 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um varðskip að haldið verði í þá hefð að skipstjóri varðskips nefnist skipherra.
     5.      Lagt er til að aldursskilyrði til skipsstjórnar á skemmtibátum 50 brúttótonn og minni skuli miðast við 18 ára aldur í stað 16 ára. Telja má varasamt að veita svo ungum einstaklingum réttindi til að stjórna þessum bátum. Í þessu felast því auknar öryggiskröfur.

Alþingi, 22. apríl 2002.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Magnús Stefánsson.


Sigríður Ingvarsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.