Ferill 714. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1353  —  714. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Með frumvarpinu er farið fram á að veita fjármálaráðherra heimild til að skuldbinda ríkissjóð til að ábyrgjast skuldabréf Íslenskrar erfðagreiningar ehf. að upphæð 200 milljónir bandaríkjadala sem samsvarar um 20 milljörðum íslenskra króna.
    Enn sem komið er hefur aðkoma Alþingis að málinu verið mjög yfirborðskennd og skortir nánast allar upplýsingar til þess að þingmenn geti fengið yfirsýn yfir það. Að áliti 2. minni hluta er fráleitt að veita fjármálaráðherra fyrrnefnda heimild og koma þar nokkur atriði til, t.d. hefur ekkert áhættumat verið framkvæmt af óháðum fagaðila. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki einu sinni fengið að sjá viðskiptaáætlanir fyrirtækisins. Þá er ástæða til að gagnrýna harðlega að veigamiklum ákvæðum í lögum um ríkisábyrgðir er vikið til hliðar. Enda þótt full rök kunni að vera fyrir því að styðja við atvinnurekstur í landinu, jafnvel með sértækum aðgerðum við vissar kringumstæður, þá er eðlilegt að það sé gert samkvæmt almennum reglum og að vel athuguðu máli. Hvorugt á við í þessu máli.
    Í eftirfarandi minnihlutaáliti verður vikið að þessum meginatriðum en auk þess fjallað um aðra þætti sem gagnrýnisverðir eru.

Lögum um ríkisábyrgðir vikið til hliðar.
    Í athugasemdum um lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, var lögð áhersla á að með lagasetningu þeirri væri stefnt að því að draga úr ríkisábyrgðum, einkum þar sem aðild ríkisins skekkti samkeppnisstöðu einkaaðila. Einnig var talin brýn þörf á að reglur um veitingu ríkisábyrgða væru skýrar.
    Í fyrirliggjandi frumvarpi um heimild til handa fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. er lögum um ríkisábyrgð vikið til hliðar að öllu öðru leyti en 5. gr., en samkvæmt henni á að halda sérstakan afskriftareikning vegna áætlaðra tapaðra ábyrgða ríkisins vegna fjárhagslegrar áhættu sjóðsins. Við sérhverja ábyrgðarveitingu skal lagt í afskriftareikning til að mæta þeirri áhættu sem talin er fylgja ábyrgðinni. Við veitingu ábyrgðar sé sérstaklega skoðað hvort afskriftareikningur sjóðsins nægi til að mæta hinni nýju skuldbindingu.
    Hins vegar segir í athugasemdum við frumvarpið varðandi mat á afskriftaþörf vegna áhættu að vegna sterkrar eiginfjárstöðu skuldara sé ekki talin þörf á sérstöku framlagi á afskriftareikning á þessu stigi og í því sambandi vísað til að eigið fé deCODE hafi í árslok 2001 verið rúmlega 17,5 milljarðar króna. Hér hefði þurft að fylgja ítarleg úttekt á rekstrarkostnaði fyrirtækisins.
    Varðandi framtíðina, sem að sjálfsögðu skiptir meginmáli, er vert að vekja athygli á því að engin viðskipta-/rekstraráætlun hefur verið lögð fram yfir komandi ár frá hendi fyrirtækisins, þannig að útilokað er fyrir þá sem um málið eiga að fjalla að gera sér grein fyrir hversu mikil trygging er fólgin í framangreindu eigin fé við árslok 2001 í tengslum við ríkisábyrgð að upphæð 20 milljarðar króna, sem stendur til tryggingar skuldabréfum sem gefin verða út til allt að sjö ára.

Mat á áhrifum ríkisábyrgðarinnar á samkeppni.
    Í athugasemdum við frumvarpið segir: „Markaðurinn sem ríkisábyrgðin beinist að er á sviði líftæknirannsókna (lyfjaþróunar) á Evrópska efnahagssvæðinu sem einkennist af slæmri samkeppnisstöðu gagnvart öðrum mörkuðum, sér í lagi Bandaríkjunum, og hefur sú staða leitt til lítillar fjárfestingar á viðkomandi markaði. Markaðurinn er því lítið háður samkeppni eða samkeppnisröskunum. Á hinn bóginn er meiri samkeppni á lyfjaframleiðslu- og lyfjavörumarkaði og sá markaður því viðkvæmari fyrir hvers konar samkeppnisröskun. Mikilvægt er því að greina á milli líftæknirannsókna (lyfjaþróunar) annars vegar og lyfjaframleiðslu hins vegar. Enn fremur má hér benda á, eins og áður hefur komið fram, að innan ESB hefur verið hvatt til þess að ýtt verði undir rannsókna- og þróunarverkefni í líftækniiðnaði til að Evrópska efnahagssvæðið verði samkeppnishæfara við markaði utan þess á því sviði.
    Með hliðsjón af ofangreindu er ekki gert ráð fyrir því að umrædd ríkisábyrgð hafi skaðleg áhrif á samkeppni á viðkomandi markaði.“
    Ef tilgangurinn er sá, eins og af framanskráðu virðist mega ráða, að með veitingu ríkisábyrgðarinnar sé verið að jafna aðstöðumun milli svæða og jafnframt viðurkennt að um mjög áhættusama starfsemi sé að ræða (sbr. kafla 2.1 í athugasemdum við frumvarpið), er óhjákvæmilegt að álykta sem svo að fyrirsjáanlega sé um mjög mikla áhættu fyrir ábyrgðarveitandann, ríkissjóð, að ræða. Með ríkisábyrgðinni er ekki um það að ræða að verið sé að veita lántakanda forskot á við fyrirtæki í Bandaríkjunum, heldur að „niðurgreiða“ kostnaðaraukann við að vera á Evrópska efnahagssvæðinu (í þessu tilfelli á Íslandi).
    Varðandi fullyrðingu um að umrædd ríkisábyrgð hafi ekki skaðleg áhrif á viðkomandi markaði vísast til ábendinga þeirra fyrirtækja sem nú þegar eru til staðar í skyldum greinum og er því þjónað af starfsfólki sem hefur sambærilega menntun og það fólk sem Íslensk erfðagreining ehf. mun leitast eftir að fá til starfa við hina nýju deild.
    Þau benda á að um gríðarmikinn aðstöðumun í samkeppni um vinnuafl verði að ræða þegar einum mjög stórum aðila er veitt fyrirgreiðsla til fjármagnsöflunar í formi ríkisábyrgðar, sem að sjálfsögðu lækkar til muna vaxtakostnað hans og bætir þar með til muna samkeppnisstöðu þess fyrirtækis gagnvart öðrum.
    Fjármálaráðherra hefur fullyrt í fjölmiðlum að taka eigi áhættu- og afgreiðslugjald vegna ríkisábyrgðar til handa Íslenskri erfðagreiningu ehf.
    Hvað veldur þá því að 4. gr. laga nr. 121/1997 um þetta efni er samkvæmt frumvarpinu vikið til hliðar án þess að nokkurt ákvæði um fyrrgreind gjöld komi í staðinn?

Umbreytingarskilmálar skuldabréfanna.
    Gert er ráð fyrir að skuldabréfin verði gefin út með umbreytingarskilmálum sem miða að því að á tilteknum tímapunkti verði þeim breytt í hlutabréf í móðurfélaginu deCODE ef markaðsgengi hlutabréfa í félaginu hefur tekið tilteknum breytingum til hækkunar. Ef skuldabréfunum er breytt í hlutafé teljast þau uppgreidd og ríkisábyrgðin þar með niðurfallin. Gengi hlutabréfa félagsins hefur undanfarna mánuði verið á bilinu 5,5–10 bandaríkjadalir á hlut. Áætlað er að umbreytingarskilmálarnir verði þannig að eigendur skuldabréfanna geti breytt þeim í hlutabréf í deCODE miðað við 18 dali á hlut. Þá er áformað að skilmálar kveði á um að skuldabréfin breytist sjálfkrafa í hlutafé ef gengi hlutabréfa í félaginu verði ákveðið hlutfall yfir 18 dala markinu í tiltekinn lágmarkstíma. Þannig verði því annars vegar um að ræða valkvæðan umbreytingarrétt og hins vegar sjálfvirka umbreytingu. Þá er gert ráð fyrir að deCODE muni áskilja sér rétt til að lækka umbreytingargengi (18 dalir) á tímabilinu og munu þá gilda sömu skilmálar og áður með hið nýja umbreytingarverð sem grunn. Eins og fyrr segir eru þessar hugmyndir kynntar með þeim fyrirvara að við endanlega útfærslu kunna að verða breytingar á einstökum þáttum.
    Hér er vægast sagt um marga lausa enda að ræða. Það einasta sem virðist ljóst er að ef gengi bréfanna nær 18 dala markinu geta eigendur þeirra breytt þeim valkvætt í hlutabréf. Við hvað að öðru leyti er átt er algerlega á huldu. Ekkert hlutfall yfir umræddu marki er tilgreint og enginn lágmarkstími heldur!
    Hvernig ber að skilja að deCODE geti lækkað umbreytingargengið á tímabilinu og að þá muni gilda sömu skilmálar og áður með hið nýja umbreytingarverð sem grunn?
    Í lokin er klykkt út með því að þessar hugmyndir séu kynntar með þeim fyrirvara að við endanlega útfærslu kunni að verða breytingar á einstökum þáttum! Það blasir við að endanlegar hugmyndir er ekki að finna í þessum texta, þ.e. lýsingu á útfærslunni er mjög ábótavant!
    Að lokum segir: „Takist ekki að ná markmiðum deCODE um hækkun á markaðsgengi verður að greiða upp eða endurfjármagna skuldabréfin á gjalddaga.“ Hvernig á að skilja þetta? Lítur ríkisstjórnin svo á að líkur séu á því að um ríkisábyrgð verði að ræða til framtíðar?

Órannsakaðar fullyrðingar um árangur og framtíðarsýn.
    Við umræðu um málið í efnahags- og viðskiptanefnd upplýstu fulltrúar fjármálaráðuneytis að upplýsingar um Íslenska erfðagreiningu ehf., starfsumhverfi fyrirtækisins, árangur af starfi og framtíðarsýn, sem birtust í greinargerð með frumvarpinu, væru fyrst og fremst komnar frá fyrirtækinu sjálfu en auk þess hefði verið leitað fanga á netinu og þá einkum í upplýsingum frá fjárfestingarsjóðum (sbr. kafla hér að aftan um ráðgjöf). Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki fallin til þess að skapa tiltrú og hefði verið eðlilegt að leitað hefði verið til óháðra kunnáttumanna um ráðgjöf, m.a. til þess að leggja mat á fullyrðingar fyrirtækisins um eigið ágæti. Fram kemur í umræðu á opinberum vettvangi að mjög mörg álitamál eru uppi á þessu sviði og skortir alþingismenn forsendur til að komast að niðurstöðu án þess að óháðir sérfræðingar séu kallaðir til. Svo var ekki gert. Einvörðungu fulltrúar Íslenskrar erfðagreiningar og fyrirtækisins Lyfjaþróunar komu til fundar við nefndina til þess að ræða sitt sjónarhorn á málið. Ósvarað er því ýmsum grundvallarspurningum. Eftir standa í greinargerð frumvarpsins fullyrðingar frá hagsmunaaðilanum sjálfum.
     Dæmi um spurningar og álitamál sem vakna við yfirferð frumvarpsins og greinargerð sem fylgir því eru eftirfarandi:
    Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Íslensk erfðagreining ehf. („ÍE“) og móðurfyrirtæki þess deCODE genetics Inc. („deCODE“) hafa ákveðið að hefja þróun nýrra lyfja á grundvelli þeirra erfðafræðilegu uppgötvana sem til hafa orðið í núverandi starfsemi ÍE. Hin nýja nálgun ÍE á sviði grunnrannsókna byggðum á lýðerfðafræði gerir lyfjaþróun á þeim grundvelli afar áhugaverða, ekki síst vegna þess forskots, sem árangur sem ÍE hefur þegar náð á framangreindu sviði veitir“ (bls. 2). Ekki fylgja gögn sem styðja þessar fullyrðingar. Þannig kemur ekki fram hvaða erfðafræðilegu upplýsingar það eru sem á að byggja þróun nýrra lyfja á og ekki fylgir skýring á því í hverju forskot ÍE er fólgið.
    Þá segir að með einangrun erfðavísa hafi ÍE þegar fundið ný lyfjamörk. Ekki kemur fram um hvaða lyfjamörk hér er að ræða og hvar hægt er að nálgast upplýsingar þar um.
    Í greinargerð frumvarpsins segir „Mat erlendra ráðgjafarfyrirtækja er að beiting erfðafræðilegra aðferða við lyfjaleit geti lækkað þróunarkostnað við ný lyf um 30–40% og stytt þróunartímann um 10–20%.“ Hvorki hefur komið fram hvaða erlendu ráðgjafarfyrirtæki hafi sýnt fram á lækkun á þróunarkostnaði og styttingu á þróunartíma eins og hér er haldið fram né hvaða rök séu hér til grundvallar. Þá hefði verið eðlilegt að óháður aðili hefði verið fenginn til að meta eftirfarandi staðhæfingar í greinargerð frumvarpsins.
„–    Sá árangur sem náðst hefur í lýðerfðafræðirannsóknum ÍE sýnir að fyrirtækið býr yfir möguleikum til að þróa lyf hraðar og ódýrar en aðrir með nýjum aðferðum við að finna vænleg lyfjamörk.
          Innan fyrirtækisins er fyrir hendi umfangsmikil reynsla á vísinda-, tækni- og viðskiptasviðum sem auðveldar uppbyggingu þessarar nýju starfsemi.
          Sú þekking sem ÍE hefur byggt upp til þess að finna erfðavísa sem valda sjúkdómum skapar fyrirtækinu raunhæfa möguleika til að nýta uppgötvanir í erfðafræði við lyfjaþróun.
          ÍE hefur þegar fundið ný lyfjamörk með einangrum erfðavísa, sem síðan verður hægt að vinna með við lyfjaþróun.“
    Í greinargerð frumvarpsins segir enn fremur að sú „aðferðafræði að nota lýðerfðafræði við þróun lyfja er að slíta barnskónum. ÍE er komið lengra á þessu sviði en flest önnur fyrirtæki í heiminum og má því til staðfestingar benda á árangur sem fyrirtækið hefur náð í sanvinnu við Hoffmann-LaRoche í rannsóknum á erfðum algengra sjúkdóma.“ Einnig þessa staðhæfingu hefði þurft að meta. Ekki verður annað séð en að árangurstengdar greiðslur til ÍE frá Hoffmann-LaRoche séu minni en upphaflega var ráð fyrir gert og stangist því alvarlega á við þessa fullyrðingu.
    Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um lyfjaþróun á grundvelli erfðafræði. Ekki er getið heimilda og verður því að ætla að þær séu komnar frá fyrirtækinu sjálfu. Ef litið er til umfjöllunar um þetta efni má ætla að lyfjaþróun sé flóknari en ráða má af athugasemdum með frumvarpinu og má í því sambandi vísa til greinar eftir Andrew Pollack sem birtist í hinu virta bandaríska dagblaði New York Times 16. apríl 2002 og fjallar um fyrirtækið Human Genome Sciences. Þar er greint frá því að lyfjaþróun sé ef til vill á villigötum ef nota á erfðafræðilega þekkingu til að byggja á þegar þróa á ný lyf, sbr. frétt Morgunblaðsins 17. apríl (bls. 21).
    Í athugasemdum með frumvarpinu er vísað sérstaklega í miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði: „Grunnur rannsókna er nú þegar unninn á Íslandi með erfðafræðirannsóknum ÍE. Þegar fram í sækir má einnig gera ráð fyrir að miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði nýtist vel í lyfjaþróun.“ Í skýrslu 10K með upplýsingum frá deCODE sem birt var í marslok segir að takist fyrirtækinu „ekki að ganga frá samningum við fleiri heilbrigðisstofnanir en þegar hefur verið gert til þess að afla gagna þá mun fyrirtækinu ekki auðnast að smíða íslenska gagnagrunninn og starfrækja hann.“ Ekki er það aðeins svo að gagnagrunnurinn sé í óvissu heldur var einnig upplýst fyrir nefndinni að fyrirtækið væri ekki farið að inna af hendi neinar greiðslur vegna samninga við hið opinbera. Þetta ber að hafa hugfast með hliðsjón af því að fyrirtækið er þegar farið að fá gögn úr heilbrigðiskerfinu.

ESA og Lyfjaþróun.
    Áhöld eru um að ríkisaðstoðin standist samkeppnisreglur EES en eftir að frumvarpið kom til efnahags- og viðskiptanefndar héldu fulltrúar fjármálaráðuneytis og ÍE til Brussel til að leita eftir áliti. Þingnefndinni var tjáð að ekki væri svara að vænta fyrr en löngu eftir að ráðgert væri að frumvarpið yrði að lögum en á milli annarrar og þriðju umræðu mundi hugsanlega gefast tóm að frétta af ferðum sendinefndarinnar. Fram hefur komið að fullyrðingar forsvarsmanna ÍE og Lyfjaþróunar stangast á hvað varðar viðfangsefni þessara tveggja fyrirtækja. Í athugasemdum við frumvarpið segir að mikilvægt sé að greina á milli líftæknirannsókna (lyfjaþróunar) annars vegar og lyfjaframleiðslu hins vegar. Af hálfu Lyfjaþróunar hf. er staðhæft að fyrirtækið starfi að lyfjaþróun og er í því sambandi vísað í bréf frá fyrirtækinu sem birt er sem fylgiskjal með nefndarálitinu.

Fjárhagsstaðan.
    Fram kemur í áliti Seðlabankans að hann telji sig ekki hafa sérfræðiþekkingu til þess að meta áhættuna sem framkvæmdinni fylgir og gæti fallið á ríkissjóð væri ríkisábyrgð veitt. Seðlabanki Íslands leggur hins vegar áherslu á í umsögn sinni að ríkisábyrgðir séu almennt ekki heppilegar. Þegar þær séu veittar sé nauðsynlegt að taka ákvarðanir á grundvelli ítarlegs mats á þeirri áhættu sem þeim fylgir. Ástæða er til að staldra við og velta vöngum yfir því hvers vegna Seðlabanki Íslands láti ekki sérfræðinga á vegum bankans kanna þær upplýsingar sem eru aðgengilegar á vefnum og víðar, til dæmis upplýsingar frá Nasdaq, en sem kunnugt er ber öllum þeim fyrirtækjum sem opinberlega eru skráð á verðbréfaþingi í Bandaríkjunum að hafa til reiðu upplýsingar um fjárhagsstöðu og annað sem snertir rekstur og stöðu fyrirtækisins á hverjum tíma (sbr. skýrslu 10-K).
    Að áliti Þjóðhagsstofnunar er verjanlegt í undantekningartilfellum að veita ríkisaðstoð til fyrirtækja „á grunni markaðsbresta“. Í þessu tilfelli eigi það ekki við og og leiðir Þjóðhagsstofnun getum að því að þessi íhlutun ríkisins geti leitt til lægra framleiðslustigs og lakari lífskjara til lengdar. Almennari aðgerðir sem skekkja ekki samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja, vinnuumhverfi einstaklinga og eflingu menntunar og rannsókna, eru líklegri að mati Þjóðhagsstofnunar til að efla þjóðarhag. Þjóðhagsstofnun varar við neikvæðum áhrifum á lánshæfi Íslands. Hins vegar kom fram hjá fulltrúa Seðlabankans að þar á bæ hefðu menn ekki orðið varir slíkra neikvæðra viðbragða úr fjármálaheiminum við fréttum af hugsanlegri ríkisábyrgð. Kvaðst bankinn hafa komið fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins í enskri þýðingu á framfæri við valda aðila. Í niðurlagi greinargerðar Þjóðhagsstofnunar segir: „Ef svo fer að starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar á sviði lyfjaþróunar gengur vel þá getur afraksturinn orðið verulegur enda þótt ríkissjóður muni ekki njóta þess nema á óbeinan hátt. Miðað við almenna reynslu í lyfjaþróunariðnaðinum mun þó væntanlega líða mjög langur tími uns það kemur í ljós, mun lengri en líftími þeirra skuldabréfa sem ríkisábyrgðinni er ætlað að tryggja. Þá er rétt að hafa í huga að lánveitendur, sem og aðrir fjárfestar, taka möguleikann á góðum árangri til greina við mat á hvort veita eigi fé til fyrirtækisins, ekki síður en ríkið, og því gefur sá möguleiki ekki sérstakt tilefni til ríkisábyrgðar.“
    Í áliti greiningardeildar Búnaðarbankans segir að hér sé um ákveðna stefnubreytingu hjá stjórnvöldum að ræða sem unnið hafi markvisst að því að draga úr ríkisábyrgðum og ríkisumsvifum. Hluti af þeirri viðleitni hafi verið sameining fjárfestingarlánasjóðanna í FBA, snemma á síðasta áratug, og síðan einkavæðing þess banka. Ljóst sé að fyrirtækjaáhætta deCODE sé mikil og vitnað í því sambandi til rannsókna Damodaran (sjá fylgiskjöl) um áhættu á sviði líftækni og lyfjaþróunariðnaðar sem sé ríflega þreföld á við meðaltal markaðarins. Í umsögn greiningardeildar Íslandsbanka er sagt að um neikvætt fordæmi sé að ræða. Stjórn Samtaka fjárfesta hefur lýst sig mótfallna frumvarpinu í núverandi mynd. Ástæður þess eru fyrst og fremst þær að með frumvarpinu sé horfið frá markaðri stefnu um almennar aðgerðir í efnahagsmálum og teknar upp sértækar aðgerðir. Í áliti Samtaka fjárfesta segir enn fremur: „Samtök fjárfesta vilja vekja athygli á, að á íslenskum fjármálamörkuðum eru nokkur fyrirtæki sem vinna að athyglisverðum rannsóknum og þróun. Það er hlutverk ríkisvaldsins að skapa fyrirtækjunum og annarri atvinnustarfsemi viðunandi starfsgrundvöll. Ríkisábyrgð á láni fyrir Íslenska erfðagreiningu hf. raskar starfsgrundvelli sumra þessara fyrirtækja með óeðlilegum hætti og getur beinlínis skaðað þau og fjárfesta sem að þeim standa. Samtök fjárfesta eru þeirrar skoðunar að framlög til rannsókna og þróunar séu of lítil á Íslandi.“ Í þessari álitsgerð er lögð áhersla á að tryggja jafnræði með fyrirtækjum.
    Undir sumt í þessum framangreindu áherslum getur 2. minni hluti tekið. Því fer fjarri að óeðlilegt sé að ríkið hlaupi undir bagga með atvinnulífinu, hvort sem er til uppbyggingar eða þegar sverfur að og atvinnuöryggi er ógnað. Þannig getur t.d. verið eðlilegt að horfa til byggðaþátta. Hins vegar er mikilvægt að um slíka aðstoð gildi almennar reglur en á það skortir mjög. Þá er ástæða til að lýsa þungum áhyggjum yfir því hve veikburða ráðgjafar ríkisstjórnarinnar, þeir sem á annað borð er leitað til, eru til að veita sérfræðiaðstoð sem hald er í. Þannig skortir skýringu á því hvers vegna lánskjör deCODE virðast fara ört versnandi, sbr. upplýsingar sem fram koma í skýrslu 10-K af bandaríska verðbréfamarkaðinum sem áður er vitnað til (bls. 45–46). Þar greinir frá þremur lánum annars vegar í desember síðastliðnum og hins vegar nú í marsmánuði þegar fyrirtækið tekur lán með 6% álagi yfir LIBOR-vexti sem er mjög hátt álag að mati fjármálasérfræðinga. Þá er ástæða til að vekja athygli á því að í upplýsingum fjármálaráðuneytisins er ekki að finna ítarlega sundurgreiningu á samningum fyrirtækisins við Hoffmann-LaRoche og hvernig greiðslurnar skiptast á milli grunngreiðslna annars vegar og árangurstengdra greiðslna hins vegar sem ætti að vera mælikvarði á árangur fyrirtækisins. Í svari ráðuneytisins við spurningu minni um þetta efni er vísað í heildarupphæðir samninga án þess að láta þess getið að hér er eingöngu um markmið að ræða en ekki raunverulegar greiðslur. Hér hefði þurft að bera saman fyrirheit og efndir.

Hverjir eru ráðgjafarnir?
    Í umfjöllun nefndarinnar var ítrekað vísað í virt alþjóðleg fjármálafyrirtæki sem treysta mætti til að reiða fram ábyggilegar upplýsingar. Sérstaklega er vísað í þrjú fyrirtæki, Morgan Stanley, Lehman Brothers og Robertson Stephens. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á tvennu.
    Í fyrsta lagi eru öll þessi fyrirtæki þjónustufyrirtæki deCODE. Morgan Stanley og Lehman Brothers aðstoðuðu deCODE við að koma hlutabréfum sínum á markað og fyrirtækið Robertson Stephens fékk það verkefni að ganga frá kaupsamningum deCODE á MediChem Life Sciences.
    Þegar bent var á þessi tengsl var af hálfu ráðuneytisins lögð áhersla á að þetta væru áreiðanleg fyrirtæki. Í því sambandi er rétt að vísa til þeirrar umræðu sem nú fer fram, ekki síst í Bandaríkjunum, um hve varasamt það gæti verið að treysta í blindni á ráðleggingar fjármálafyrirtækja, ekki síst ef þau eru í viðskiptasambandi við þá aðila sem þau gefa umsögn um. Má benda á umfjöllun í leiðara bandaríska stórblaðsins New York Times frá 11. apríl síðastliðnum – Afvegaleiðing á Wall Street eða Disinformation on Wall Street. Upphafsorð leiðarans eru þessi: „Það hefur reynst sérfræðingum á Wall Street sífellt erfiðara að telja mönnum trú um að það væri einvörðungu vegna vanþekkingar að fyrirtækin sem þeir höfðu talað upp í hátt gengi urðu skyndilega verðlaus.“
    Þá er rétt að vekja athygli á því hve margir þeirra sem annast samninga bæði fyrr og nú fyrir hönd ríkisins við Íslenska erfðagreiningu hafa verið nátengdir fyrirtækinu.

Virða ber rétt stéttarfélaga til að gera kjarasamninga.
    Í áliti frá BHM segir að fyrirtækið neiti að gera kjarasamning við tiltekið stéttarfélag, Félag íslenskra náttúrufræðinga. „Í fyrirtækinu starfa nú á fjórða hundrað sem gætu verið félagsmenn í aðildarfélögum BHM en aðeins um fimmtungur þeirra hefur átt þess kost að gerast félagsmenn í þessum félögum með tilheyrandi réttindum í sjóðum … Íslensk erfðagreining hf. hefur alfarið neitað því að gera kjarasamning við FÍN og við svo búið verður ekki unað og enn síður ef fjöldi starfsmanna eykst eins og gert er ráð fyrir í kjölfar samþykktar frumvarpsins. Minnt er á að samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga ber að leita umsagnar hlutaðeigandi stéttarfélags en stéttarfélögunum hefur reynst erfitt að gegna eftirlitshlutverki sínu meðan ekki nýtur við kjarasamnings við fyrirtækið.“ Í þessu sambandi má minna á að fyrir nokkrum missirum flutti fyrirtækið McDonalds starfsemi hingað til lands. Uppi urðu mikil mótmæli í þjóðfélaginu út af því að fyrirtækið neitaði að gera kjarasamninga við starfsfólk. Með hliðsjón af þessu vaknar sú spurning hvort íslensk stjórnvöld muni láta fyrirtækinu eftir að hunsa stéttarfélögin á sama tíma og gengið er til viðræðna um að veita ríkisábyrgð að upphæð 20 milljarðar króna.

Alþingi, 23. apríl 2002.



Ögmundur Jónasson.




Fylgiskjal I.


Umsagnir um frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar
nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.



Efnahagslegt mat Seðlabanka Íslands.
(16. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,
Seðlabanki Íslands,


                         Birgir Ísl. Gunnarsson,    Finnur Ingólfsson,
                        formaður bankastjórnar.    bankastjóri.

Umsögn Þjóðhagsstofnunar.
(15. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Sigurður Guðmundsson,
forstjóri.



Umsögn Greiningar Íslandsbanka.
(15. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Almar Guðmundsson,
forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka.

Frétt birt í Hálffimmfréttum Búnaðarbankans
þriðjudaginn 9. apríl 2002.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn Samtaka fjárfesta.
(15. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn Bandalags Háskólamanna.
(15. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar BHM e.u.,


               Auður Antonsdóttir,    Gísli Tryggvason,
              í stjórn BHM.    framkvæmdastjóri BHM.

Bréf Lyfjaþróunar hf.
(10. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fyrir hönd stjórnar Lyfjaþróunar hf.,



    Tómas Þorvaldsson,     Sveinbjörn Gizurarson,
    stjórnarformaður.     framkvæmdastjóri.


Umsögn Lyfjaþróunar hf.
(15. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fyrir hönd stjórnar Lyfjaþróunar hf.,



               Tómas Þorvaldsson,    Sveinbjörn Gizurarson,
              formaður stjórnar.    framkvæmdastjóri.

Fylgiskjal II.

Svör fjármálaráðuneytis við spurningum
Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmundar Jónassonar.

(17. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.