Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1377  —  702. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um þátttöku opinberra stofnana í velvildarstarfi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða reglur gilda um fjárhagslega þátttöku opinberra og hálfopinberra fyrirtækja og stofnana í velvildarstarfi hvers konar, t.d.:
     a.      fjárstuðning við góðgerðarstarfsemi og menningar- og listastarf,
     b.      sameiginlega fjármögnun opinberra aðila á menningarverkefnum,
     c.      beina fjárhagslega þátttöku í starfi annarra opinberra og hálfopinberra stofnana og fyrirtækja?


    Með lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, var myndaður heildarrammi um fjármál ríkisaðila. Í 36. gr. laganna segir m.a.: „Á sama hátt er ríkisaðila í A-hluta óheimilt að gefa eða afhenda án endurgjalds eignir nema fyrir fram sé aflað heimilda í fjárlögum.“ Í þessari lagagrein felst að ekki er gert ráð fyrir fjárstuðningi við góðgerðarstarfsemi, menningar- og listastarf nema um sérstaka fjárveitingu sé að ræða, sem kemur þá til umfjöllunar á Alþingi í tengslum við samþykkt fjárlaga hvers árs.
    Aðrar reglur koma óbeint að þessu efni. Í reglugerð nr. 116/2001, um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta, eru fjárhagslegar skyldur forstöðumanna tilgreindar, svo sem að forstöðumenn bera ábyrgð á því að fjárreiður og rekstur stofnunar sé í samræmi við þær áætlanir sem gerðar hafa verið til lengri og skemmri tíma.
    Í 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, kemur fram að forstöðumenn bera ábyrgð á því að útgjöld stofnunar séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir hennar séu nýttir á árangursríkan hátt. Þessi lagagrein tekur til allra forstöðumanna ríkisstofnana í A-, B-, C- og D-hluta, en ekki til hlutafélaga í E-hluta ríkisreiknings. Þar undir falla hlutafélög og sameignarfélög sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins.
    Ríkisendurskoðun gegnir hlutverki eftirlitsaðila þar sem í fjárhagsendurskoðun felst að kanna hvort reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli, starfsvenjur og samninga um rekstrarverkefni þegar það á við. Heimildir Ríkisendurskoðunar ná til allra opinberra og hálfopinberra stofnana og fyrirtækja. Ríkisendurskoðun getur einnig framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim stofnunum, félögum og fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira en í því felst að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í þessu sambandi. Fjármálaráðuneytið hefur leitað til Ríkisendurskoðunar vegna athugunar á greiðslum til góðgerðar-, menningar- og listastarfsemi. Ríkisendurskoðun hefur staðfest að útgjöld ríkisstofnana vegna þeirra liða sem spurt er um eru ýmist engin eða um er að ræða óverulegar fjárhæðir.
    Samkvæmt því sem hér hefur komið fram eru heimildir ríkisstofnana til að taka fjárhagslega þátt í velvildarstarfi ekki fyrir hendi nema fyrir liggi sérstakar heimildir í fjárlögum. Engar sérstakar reglur gilda um fjárhagslega þátttöku hlutafélaga í eigu ríkisins í velvildarstarfi.