Ferill 729. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1381  —  729. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar (SvanJ, GAK, JÁ).    Þetta frumvarp er flutt samhliða frumvarpi til laga um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem nú liggur fyrir Alþingi og felur m.a. í sér að krókaaflamarksbátar geti orðið allt að 15 brúttótonn.
    Á fund nefndarinnar komu vegna þessa máls forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda. Í máli þeirra kom fram að þessi möguleiki til stækkunar krókaflamarksbátanna geti í framtíðinni valdið því að menn hverfi frá vistvænum veiðum enda muni stjórnmálamenn ekki lengi standast þrýsting um að stærstu bátarnir, að minnsta kosti, í þessu kerfi fái að veiða í dragnót og net. Slíkt muni valda mikilli slysahættu enda fátt hættulegra á norðurhöfum en dragnótabátur undir 15 brúttótonnum. Þannig séu þau öryggisrök sem beitt hefur verið til stuðnings stækkunarheimild krókaaflamarksbáta fallin.
    Einnig telja forsvarsmenn Landsambands smábátaeigenda að með þessari breytingu sé verið að leggja til atlögu við séreinkenni íslenskrar smábátaútgerðar sem felst í einyrkjabúskap, því með stækkun bátanna muni útgerðarformin breytast og þessi floti renna saman við aflamarksflotann. Það er því að mati minni hlutans brýnna nú en áður að skilgreina hvað það er sem menn telja vistvænar veiðar svo hægt verði í framtíðinni að halda utan um þennan flota og sérkenni hans. Minni hlutinn telur einsýnt að heimila eigi krókaaflamarksbátum gildruveiðar en þeim eru þær nú bannaðar á þeirri forsendu að þeir megi einungis veiða á krók.
    Þá telur minni hlutinn þetta frumvarp og möguleika krókaflamarksbátanna á að stækka bátana kalla á það að mælikerfi skipanna verði samræmd, en nú eru í gangi nokkur mælikerfi sem hafa eins og dæmin sanna valdið ruglingi. Minni hlutinn telur að allar stærðarviðmiðanir sem notaðar eru í lögum sem varða smábáta eigi að miða við samræmt mælikerfi bátana. Rétt er í þessu sambandi að benda á að það sama á við um stærri skip. Réttindi skipstjórnarmanna, skáning áhafna, veiðileyfi og ýmis önnur atriði hafa miðast við mismunandi mælikerfi skipa. Þetta fyrirkomulag hefur valdið og mun áfram valda misskilningi og ruglingi og jafnvel tjóni fyrir þá sem starfa í greininni þar til endurskoðun hefur farið fram.
    Forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda lögðu fyrir nefndina hugmyndir félagsmanna sinna um línuívilnun. Það er mat margra að ef þær hugmyndir væru framkvæmdar mætti með almennum hætti komast hjá þeim sértæku aðgerðum sem eru í gangi, svo sem byggðakvótum o.fl., en með þeim væri unnt að mæta vanda þeirra byggðarlaga sem annars treystu á slíkar sértækar ráðstafanir eins og málum er háttað í dag.
    Þá vill minni hlutinn benda á í þessu sambandi að umboðsmaður Alþingis tók að eigin frumkvæði til athugunar hvort og þá hvernig það fyrirkomulag sem kveðið er á um í ákvæðum 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, samrýmdist 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Ákvæðin fjalla um skyldu þeirra sem taka til vinnslu og sölu sjávarafurðir af opnum bátum og þilfarsbátum undir 10 lestum til að greiða hlutfall af hráefnisverði þess afla sem þeir taka við á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta og ráðstöfun þeirrar greiðslu til Landssambands smábátaeigenda. Niðurstaða umboðsmanns var sú að hann taldi rétt að vekja athygli Alþingis og sjávarútvegsráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, á álitinu og beina þeim tilmælum til þeirra að kannað yrði hvort og þá hvernig huga þyrfti að endurskoðun á lögum nr. 24/1986, að virtum þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Umboðsmaður tók fram að í 5., 7. og 9. gr. laga nr. 24/1986 væri að finna samsvarandi fyrirkomulag og mælt væri fyrir um í 6. og 8. gr. laganna, að því er varðar skyldu til að inna af hendi fjárframlag inn á greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa og ákveðið hlutfall þess fengið tilgreindum hagsmunafélögum innan sjávarútvegsins, og lagði áherslu á að athugasemdir hans í álitinu kynnu einnig að eiga við um þá tilhögun að breyttu breytanda.
    Minni hlutinn mun við afgreiðslu þessa frumvarps líta til þess hvaða frumvarpi það fylgir og greiða atkvæði í samræmi við það.

Alþingi, 24. apríl 2002.Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Guðjón A. Kristjánsson.


Jóhann Ársælsson.